Sarpur fyrir 21. maí, 2010

Dagur #4. Æfing

Vaknaði klukkan hálfsex við að samkennari minn hringdi í mig, ekki vitandi hvar ég væri, skellti síðan á, skelfingu lostin þegar ég sagðist vera í Ástralíu. Fyndið. Gat svo auðvitað ekkert sofnað aftur, Jón Lárus hafði vaknað klukkan hálffjögur þannig að það var eiginlega bara nokkuð gott að hafa náð að sofa til hálfsex.

Niður í morgunmat, ljómandi ef spes, enskur og asískur heitur matur, pylsur og kartöflukökur, hrærð og soðin egg, tómatar og bakaðar baunir, núðluréttur, hrísgrjón og alls kyns sósur og heitt og súrt grænmeti, síðan jógúrt, ferskir ávextir (aðallega melónur) og múslí. Frábær brauðrist en bara sulta ofan á brauðið, engar skinkur eða ostar. Kaffi/te og múffukökur í desert – hmm hættulegt. Upp aftur að reyna að leggja okkur smá, væri best að værum alveg laus við þotuþreytu strax þennan dag. (HAHAHAHA)

Ég steinsofnaði og svaf örugglega í allavega 2 tíma ef ekki aðeins lengur þannig að nú var ég eiginlega alveg búin að ná mér upp. Jón Lárus sofnaði hins vegar ekki en fór í staðinn út að skokka. Drifum okkur síðan út undir hádegi, ætluðum á tónleika klukkan 1 í Sydney Conservatory of Music eða The Con eins og það er kallað. Lentum í hrikalegri hellidembu á leiðinni, urðum auðvitað að kaupa okkur regnhlíf (réttupphönd (o/) í kommentakerfinu þið sem munið eftir að taka út með ykkur regnhlífina sem þið keyptuð í síðustu útlandaferð þegar hellirigningin kom ykkur á óvart). Í regnhlífabúðinni rak ég augun í handtösku sem mig langaði í. Nei, keypti hana ekki – þá.

Fundum The Con, gríðarlega fallegt gamalt hús rétt fyrir innan Óperuhúsið eina og sanna, reyndar nútímaleg bygging sambyggð en nokkuð smekklega tengd við, sem betur fer. Æpti ekki á mann neitt. Fyrri tónleikar dagsins voru píanótónleikar, 4 verk 2 skemmtileg og 2 síðri, sofnuðum nú samt ekki neitt. Seinasta verkið var verulega flott, ungt bandarískt tónskáld sem spann út frá peningasvindli og alls konar “get rich quick” áætlunum, rafhljóð með, meðal annars frá kauphöllum og fleiru. Gæti hugsað mér að eiga upptöku af því.
Eftir tónleikana röltum við um fínu hverfin aðallega The Rocks, (101 Sydney), talsvert skemmtilegra en hverfið þar sem hótelið okkar er, en auðvitað dýrara líka.

Fundum staðinn sem Þorbjörn bróðir og Helga mágkona sátu og borðuðu, með útsýni yfir Óperuna, stendur til að stíma þangað í næstu viku einhvern tímann, þegar hátíðin er búin. Varla tími þessa viku, yfirleitt alltaf tónleikar klukkan 1, 6 og 8, og iðulega einhverjar móttökur og þannig á milli – maður verður jú að blanda geði við hin tónskáldin og ráðstefnugestina, annars væri lítið vit í að fara á ráðstefnu.
Rákumst á mest spennandi vínbúð Sydney, Jón hafði lesið um hana og ætlaði sannarlega að leita að henni en svo hrösuðum við bara um hana. Keyptum okkur 2 flöskur til að taka með heim.

Þegar klukkan fór að nálgast fimm, fórum við þar sem okkur hafði verið sagt að kórinn ætti að vera að æfa verkið mitt. Sem betur fer ákváðum við ekki að detta þangað inn á mínútunni fimm, vorum 20 mínútum fyrr á ferðinni, því kórinn æfði alls ekki þarna. Þetta var risastórt hús á besta stað með alls konar listaskrifstofum.

ÁTM

Ástralska tónverkamiðstöðin var þarna með heila hæð (heh, tónlistarhús), ballettinn, fílharmónían, já fullt af stofnunum, svona listamiðstöð. Greinilega gert vel við listir þarna. Æfingin var hins vegar aðeins lengra, í æfingaaðstöðu fílharmóníunnar. Vorum lóðsuð þangað og náðum á slaginu fimm.

Sydney Childrens Choir er yndislegur kór og stjórnandinn greinilega snillingur í að ná því besta út úr krökkunum, vissi alveg hvað hún vildi og kunni aðferðirnar við að ná því út. Kórinn söng lagið nánast óaðfinnanlega – hlakkaði verulega til að heyra tónleikana á föstudeginum.

Rukum beint eftir æfingu aftur í The Con, þar voru slagverks- og saxófóntónleikar að byrja. Inn á þá, nokkur ansi góð verk, sérstaklega það fyrsta sem var allt í plasti. Spilað á ruslatunnur með hárgreiðum og hitt og þetta annað. Æsingurinn var svo mikill í plastinu að settið hrundi um koll í lokin og flytjendur og salur fóru að skellihlæja. Þessi konsert (eins og reyndar píanókonsertinn daginn áður) var kynntur af ansi skemmtilegum útvarpsmanni á klassísku rásinni. Jóni Lárusi tókst að sofna á þessum tónleikum, en ég hélt mér nú vel uppi, enda hafði ég talsverðan svefn fram yfir hann. Eftir tónleikana var öllum boðið í smá móttöku á Árórubar (eða var það suðurljósabar?), þangað fórum við og fengum rauðvínsglas og smárétti og heillangt skemmtilegt spjall við kollega – og svo útvarpsmanninn góða. Hann varð spenntur að hitta á mig og vildi endilega að ég bæri fram nafnið á verkinu inn á diktafóninn sinn. Ég náttúrlega ýkti errin svolítið: Carrrmen Frratrrrum Arrvalium, hljómaði víst eins og hálft eldfjall.

eggin

Allir sem við töluðum við, frá afgreiðslumanninum í vínbúðinni góðu, gegn um diplómata frá Nýju Gíneu og tónskáldi frá Eistlandi til útvarpsmannsins töluðu um eldsumbrotin – vínafgreiðslumaðurinn vissi meira að segja meira en við, hafandi ekki komist á net í 2 daga – og allir spurðu hvort hefði verið vandræðum bundið að komast í burtu. Ekki vildum við nú meina það, en vonuðumst til að það yrði ekki vesen að komast heim aftur…
Allir Sydneybúar sem við hittum voru annars hinir almennilegustu og indælustu, ég kann mjög vel við andann í þessari borg. Fólk stekkur til óumbeðið að hjálpa rugluðu túristunum úti á götu og afgreiðslufólk í búðum er ótrúlega hjálpsamt og vingjarnlegt.
Eftir móttökuna gengum við þessa tvo og hálfan kílómetra heim á hótel, fáránlega gott að komast í náttföt og ból og skrifa ferðasögu með rauðvín í vatnsglasi.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa