Sarpur fyrir 31. maí, 2010

Dagur #10. Sigling og fleira

Jón Lárus vaknaði klukkan 6, alveg sérkennilegt hvernig þotuþreytan fer mismunandi í okkur, fór út að skokka um 7leytið og vakti mig svo rúmlega klukkan 8. Var búinn að láta renna svolítið í baðkarið til að sjá hvort hringiðan færi í öfuga átt þegar maður léti renna niður, það reyndist hún líka gera, sjá hér. Morgunmatur og sturta, og svo út.

Byrjuðum á því að finna út hvenær heppileg lest færi til Leura, í Bláfjöllum. Það reyndist klukkan rúmlega níu um morgun, ferðin tekur víst rúmlega 2 tíma. Meiningin að fara daginn eftir í Bláfjallaskoðunarferð.

Síðan gengum við til Darling Harbour, mun styttra frá hótelinu en Circular Quay, á leiðinni þangað komum við í Chinese Friendship Garden, þar gaf batteríið í vídjóvélinni upp öndina auðvitað – ég bara verð að fara að athuga með að fá aukabatterí í hana – allar myndir það sem eftir var dags voru teknar á símann minn.

Kínverski garðurinn er yndislegur, sáum ekki eftir aðgangseyrinum þangað inn. Aldrei að vita nema við förum aftur þangað, ekki langt frá hótelinu. Ógurlega flott eðla bjó þar á tehúsi sem við settumst inn í, gaman að fylgjast með henni.

Jón Lárus hafði lesið í ferðabókinni okkar um veitingahús í Darling Harbour, í hverju ættu að fást Hokkien núðlur. Fengum einu sinni sósukrukku með Hokkiensósu, ein albesta austurlenska krukkusósa sem ég hef á ævi minni smakkað, svo hætti hún auðvitað að fást hér heima. Núðlurnar á staðnum náðu ekki einu sinni upp í þessa sósu þarna, enda er þetta hokkien dæmi víst ansi vítt. Hins vegar var andarfjórðungurinn sem var með algjört sælgæti. Sáum ekki eftir þessum mat.

Niður að höfn, tímdum ekki í Sydney Aquarium 35$ á mann, kannski síðar. Tókum svo leigubát (water taxi) inn í Circular Quay, vorum bara tvö í bátnum og fengum fínasta spjall við leigubátsstjórann (hlýtur það ekki að vera starfsheitið?) Spurði að sjálfsögðu um eldfjallið…

leigubátur

Komin í Circular gengum við yfir í The Rocks, fórum aftur í Tónverkamiðstöð þeirra Ástrala, ég keypti einn disk með verki sem við höfðum heyrt á kórtónleikunum. Sá nóturnar líka en sleppti því að kaupa, best að leyfa stjórnanda vorum að heyra þetta fyrst. Nóturnar eru líka gefnar út af Ricordi í London, ekkert mál að panta þær bara ef vilji er fyrir hendi.

Ætlaði að kaupa annað verk líka á nótum, strengjakvartett eftir minna þekkt tónskáld en hann var þá ekki búinn að leggja verkið inn, væntanlega frekar glænýtt. Fékk emailadressu hjá tónskáldinu og ætla að hafa samband við hann. Hmm, kannski maður ætti að fletta manninum upp á smettinu?

Eftir miðstöðina heimsóttum við míkróbrugghús staðsett í elsta hóteli Sydney, alla leið efst uppi á Klettunum. Hreint ekki verst, þá Sydney Observatorium, mjög skemmtilegt stjörnuskoðunarsafn, þar heyrðum við líka þjóðsögu frá aboriginal frumbyggjum Sydney.

Þessi skilti sáum við á leiðinni til baka:

Svo var nú bara stímt inn á hótel, við bæði orðin dauðþreytt þó klukkan væri bara fimm. Klukkutíma til baka með smá stoppum reyndar, keypti töskuna sem ég féll fyrir nokkrum dögum fyrr, duttum inn í eina af alflottustu fornbókabúðum sem ég hef séð – allar bækur flokkaðar eftir stafrófsröð höfunda. Fann nú samt ekki það sem ég var að leita að (meiri Nix) en sáum Culinaria bók á nánast engu verði, ekki að vita nema við föllum fyrir henni, verði hún enn til í lok vikunnar.
Hótel, Jón Lárus “eldaði” kvöldmat, skar afganginn af nautasteik gærdagsins í þunnar sneiðar, örfáar flögur með og svo ost og múffukökur sem við höfðum keypt á leiðinni. Smá net og sofa.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa