Sarpur fyrir 18. maí, 2010

Ástralía dagur #1 Hálfa leið

Jæja, komið að ferðasögu á blogginu – klárt hún er aðallega fyrir sjálfa mig, ef ykkur leiðist þá bara hættið að lesa…

Venjubundið morgunvakn um fimmleytið, sturta, ræsa krakkana til að kveðja að heimtingu þeirra kvöldið áður. Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélagsins og ferðafélagi okkar til Ástralíu náði í okkur í leigubíl og keyrðum út á völl, afskaplega þægilegt, Fífa slapp við skutlið suðureftir sem við vorum annars búin að panta.

Líka alvanalegur morgunmatur, heitt súkkulaði og croissant, eilítið verslunarspree, ekkert að ráði samt, aðallega bækur að lesa á leiðinni. Ætluðum að láta færa okkur upp í Economy Comfort, spurði um það við hliðið en fékk afskaplega morgunfúla afgreiðslufrauku sem hvæsti á mig að það þyrfti að gerast í Saga Lounge. Úti í Noregi hafði ég hins vegar verið send á hliðið til uppfærslu – hvurnig á maður að vita svonalagað. Nevermænd, of seint að fara til baka, yrðum að “þola” venjulegt farrými.

Tekið á loft í skýjuðu en eftir smástund var flogið kringum Eyjó gamla, fengum frábært útsýni yfir fjall og gos. Kom að því að við sæjum þetta, höfðum ekkert farið að þvælast austur til að sjá.. Ótrúlega magnað að sjá þetta þó í fjarlægð væri. Kannski maður kíki nú austur með krakkana í sumar ef þetta heldur áfram.

Við Jón Lárus borðuðum helminginn af nestinu okkar í vélinni, dæmigerðir Íslendingar sem geta ekki verið án þess að borða flatkökur og hangikjöt, iii djók.

Nenntum ekki að draga upp bækurnar og byrja að lesa, það er svo stutt flug til London. Smá hindranir í fluginu, þeas. lendingunni, allt í fína heima en þurftum að hringsóla í góða stund áður en við gætum lent, síðan var flugvél fyrir við rampinn, svo vantaði einhvern til að lóðsa vélinni upp að rampi, þá bilaði eitthvað í rampinum. Komumst loks inn en seinna um daginn sáum við Æslander vélina fara á loft greinilega talsvert of seint. Augljóslega enn verið að vinna úr goshnútnum.

Sendi Fífu sms með status til að láta vita að fyrsti flugleggur væri afstaðinn og hefði gengið vel.

Lent í London, kalt og rigning þannig að við ákváðum að hanga bara í flugstöðinni í stað þess að fara inn í borgina. Fórum yfir á Terminal 4, hvaðan Abu Dhabivélin átti að fljúga um kvöldið. Almennilegur afgreiðslumaður Etihad Airways afgreiddi okkur og hafði áhyggjur af því hvort við byggjum nálægt eldfjallinu og hvort heimili okkar væru í hættu.

10 tímar á flugvelli er hins vegar laaaaangur tími. Fengum okkur borgara og risavaxnar franskar á fyrsta veitingahúsinu sem við fórum inn í, bragðaðist ekki alveg eins vel og hann leit út samt,

Fórum síðan að leita að einhvers konar business lounge, bökkuðum út úr ríkmannlegu Etihad lounge en fundum að lokum eitthvað lounge sem priority passinn gaf aðgang að gegn greiðslu – það kostaði hins vegar 20 pund fyrir 3 klukkutíma og 40 fyrir níu tíma. Tímdum ómögulega 80 pundum fyrir okkur tvö, rándýrt, þannig að settumst á Starbucks með kaffibolla í staðinn. Flugstöðin var nærri tóm. Keyptum bækur og smá apóteksvörur rákumst svo á uppáhalds súkkulaðið okkar og ákváðum að kaupa á leiðinni heim.
Loungið var fínt, vel 20 pundanna virði. Bæði mun rólegra og svo drykkir og léttur matur eins og hver gat í sig látið, ágætis tómatsúpa og brauð. Gátum ekki hlaðið tölvurnar okkar þar reyndar – hefði alveg verið hægt nema við vorum ekki með réttar klær. Kíkti á netið eins og hleðslan leyfði. Út fórum við eftir tímana 3 sem við höfðum keypt, þá var sest inn á pöbb og einn bjór treindur þar til tími var kominn til að fara út að hliði. Fundum þar innstungu og mig langaði svoooo til að geta hlaðið vélina mína að þegar ég rak augun í raftækjaverslun beint á móti pöbbnum skaust ég þangað og fann þessa líka fínu græju, allsherjar adapter nánast frá öllum löndum í öll til baka. Þar sem við höfðum hvort sem er ætlað að kaupa okkur aðlagara í Ástralíutengla var þetta náttúrlega algjör snilld. Hlóð vélina mína þar til við stóðum upp af pöbbnum. Kjartan gat náttúrlega ekki verið minni maður og keypti eins tengigræju.

Hafði rekið augun í hrrrrrrikalega flotta fjólubláa handtösku í Harrods bási fyrr um daginn en ekki lagt í að gá hvað hún kostaði. Varð samt eiginlega að vita það, þannig að ég kíkti á leiðinni í vélina. Taskan kostaði rúmlega 1260 pund. Já nei takk! Svo illilega vantaði mig ekki tösku að ég tímdi 250 þúsund kalli í hana.

Loks kom að Abu Dhabi fluginu, um 10leytið um kvöldið. Þokkalega stór Airbusvél, 7-8 sæti yfir ganginn en því miður er ekki hægt að segja að það hafi verið mikið pláss fyrir fæturna á manni. Hefði ekki viljað vera langleggjuð í vélinni, ég rak hnén í sætið fyrir framan og þá er nú mikið sagt.

Upp á annað var reyndar ekki að klaga í fluginu, nánar á morgun.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa