Sarpur fyrir 25. maí, 2010

Dagur #6. Tónleikar

Taaalsvert skárri í maganum, ekki alveg góð en nægilega til að fara á stjá. Hittum Kjartan í anddyrinu, höfðum auðvitað frétt af stórfréttum að heiman, handtökum og látum. Get ekki sagt að við höfum grátið þær fréttir, það kom að þessu, loksins. Vonandi sem flestir bara og sem þyngstir dómar – leitt ef ég hljóma hefnigjörn en fólk á ekki að komast upp með svona lagað!

Philippa framkvæmdastjóri hátíðarinnar kom til okkar og spurði hvort við vildum koma á opið málþing, slógum til þó ekki væri til annars en að hitta aðeins fleira af fólkinu á hátíðinni. Málþingið reyndist hin besta skemmtun, skemmtilegir fyrirlesarar og vitrænar spurningar og athugasemdir úr sal.

Fundum loksins matvörubúð eftir málþing, keyptum reyndar ekkert þar sem við vorum á leiðinni beint á tónleika. Fundum líka risastóran draslmarkað, manni hefði fundist maður vera í Kolaportinu nema fyrir áströlsku mynstrin á bolunum og fleiru – og svo var gígantískur ávaxta- og grænmetismarkaður í staðinn fyrir rækjur og harðfisk. Fullt af afurðum sem maður hefur ekki græna glóru um hvað er, sumt merkt með nafni, annað ekki.


Fleiri á flickrsíðunni minni.

Keyptum smá bjór í ísskápinn – mig langaði bara í lítinn bjór og kippti með mér Urquell, 25 cl. Án þess að skoða hvað hann kostaði. Eftirá sá ég að hann hafði kostað nánast þúsundkall íslenskar. Nei, ekki á bar, í drykkjabúð (Ástalir leyfa ekki áfengi í almennum matvörubúðum en það er ekkert Ríki í dæminu, bara einkareknar drykkjabúðir, stundum og stundum ekki tengdar börum. Þessi var það ekki). Við reyndum að gúgla alcohol tax australia þegar við komum upp á hótel en það var ekki sérlega augljóst hver hann er, en hann má vera frekar fáránlega hár til að rúlla upp skattinum á bjór hér heima og fjórfalda síðan verðið. Já, það verður örugglega bót alls að leyfa einkasölu áfengis á Íslandi!

Tónleikar í Útvarpshúsinu klukkan eitt, frábært verk eftir Kristian Blak, annað ekki síðra eftir Hubert Stuppner, mig langar í það verk á upptöku. Þrjú önnur verk, eitt fyrir shakuhatchi flautu og strengi (annars voru þetta bara strengjatónleikar), það var alveg ágætt en hin tvö voru alveg óhugnanlega leiðinleg, pirrandi svona kortérs verk sem gersamlega ekkert gerist í . Ég reyndar var alveg búin að sjá á prógrammnótunum að þetta yrði ekki sérlega skemmtilegt – verk sem er innblásið og snýst um mismunandi hunangstegundir og sexhyrningslögun hunangssella bara hreinlega getur ekki verið skemmtilegt. Hitt gaf sig út fyrir að vera tónaminnisleikur eins og krakkar spila iðulega í tölvuleikjum, bara 5 tónar og mismunandi samsetningar þeirra. Bara 5 tónar allir í sömu legu NB. Ænei. Hugmyndin reyndar góð, verð ég að viðurkenna.

En Stuppner í lokin reddaði málunum, verkið hét 6 Mahler-myndir, unnið út frá stefjum Mahlers og hellings húmor í kring um þau, alveg án þess að það væri neitt ripoff af Mahler sjálfum. Væri til í að heyra meira eftir þetta tónskáld, sem var NB eina tónskáld tónleikanna sem ekki var á staðnum.

Hótel og skipta um föt fyrir mína tónleika, ákvað að fara ekki í fínu peysunni frá mömmu, mér yrði allt of heitt. Löbbuðum á stað sem við vissum um að hafði opið net, keyptum okkur hvítvínsglas (ég) og bjór (Jón) og sitthvora sítrónumarenskökuna. Eins gott að hvítvínið, bjórinn og kakan voru góð því ekki virkaði netið. Ástralir virðast vera frekar aftarlega í netnotkun, við sáum engan annan en okkur að reyna að nota netið og þegar við kvörtuðum var beinirinn endurræstur, okkur var sagt að það tæki kortér þar til hann virkaði. Dugði ekki til, ekkert gekk. Átti að vera ágætis hraði á þessu neti reyndar 54 Mb/sek en hjálpar ekki ef það virkar ekki neitt. Jón Lárus rak líka augun í afgreiðslukerfi í annars ljómandi fínni bókabúð, keyrandi á MS Dos. (Bókabúðin var annars fín – mig dauðlangaði í svona 6 bækur þar. Hver veit hvort ég freistist í eina eða tvær í vélina).

Tónleikar gengu gríðarlega vel, frábær barnakór, svei mér ef hann bara nær ekki Skólakór Garðabæjar hér í denn! Tók upp lagið mitt á vídjó, nú er bara að fá leyfi til að henda því inn á þúrörið.
(leyfi ekki komið en ekki nei heldur – lauma þessu inn)

Út að borða á “besta ítalska stað í borginni” með Kjartani og portúgalska sendifulltrúanum á eftir, frábærlega vel heppnaður dagur í allt.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa