Sarpur fyrir 8. október, 2008

gaah

bloglines hlýtur að vera bilað, ekki séns í víti að enginn af þeim 148 bloggurum sem ég fylgist með hafi skrifað neitt í dag!

(slatti af þeim er ekki sérlega aktífir skríbentar, sko…)

hamstur

Ég hamstraði í dag. Reyndar ekki ógurlega illilega en fór í Fjarðarkaup og keypti hitt og þetta sem vantaði (bara smá af hverju, alveg satt…) en síðan bæði gígantískan poka af pasta og annan eins af hrísgrjónum. Vill til að við gerum þetta alltaf af og til, og það vantaði hvorttveggja hér heima.

Skammaðist mín svo fyrir að líta út eins og hamstrari á kassanum að ég bað um nótu á fyrirtækiskennitölu…

góður pistill

hjá henni Láru Hönnu hérna.

sunnudagur – tónleikar

Held það séu margir mánuðir síðan ég svaf síðast til hálftíu (aldurinn færist yfir…) en það tókst mér á sunnudagsmorgninum þarna í Berlín. Eftir morgunmat fór Jón Lárus út að hlaupa en ég í grænt bað og að finna mig til í rólegheitum. Lögðum af stað niður í Philharmonie um tólfleytið, notuðum metrógöngin til að komast undir Berlínarmaraþonið, sem var í gangi á þessum tíma:

marathon

Vorum í góðum tíma þannig að nokkur okkar settust á útiveitingahús í Sony Center fyrir smá snarl. Röltum síðan inn í Philharmonie, gríðarstemning í hópnum enda er það ekki smá heiður að fá að spila þarna.

Æfingin gekk nokkuð vel, bara, renndum í gegn um örfáa staði, fyrst í íslensku verkunum, síðan Dódó og Dvorák.

á æfingu

Ég hafði farið með kynningarefni út frá ITM, bæði póstkort til kynningar á tónskáldunum og síðan kynningarbæklinga fyrir geisladiska sem við gefum út. Fékk að setja þetta á borðin þar sem fólk kemur til að hengja af sér yfirhafnir. Verst að veðrið var svo gott að það voru afskaplega fáir í einhverjum yfirhöfnum til að hengja af sér… Fór síðan að hugsa út í að ég hefði átt að láta Jón Lárus fá myndavélina, hringdi í hann til að biðja hann að koma við og sækja hana, smástress þar. Tókst samt, og ég var komin inn að sal á réttum tíma fyrir tónleikana. Húsið er gríðarlega tæknivætt, sviðsstjóri fyrir hvorn sal með skjái og stórt stjórnborð, ég eiginlega hálfsé eftir að hafa ekki skoðað það betur, tæknifríkið ég. Einnig voru sér herbergi til að pakka upp og geyma dótið sitt og stilla, fyrir hvern hljóðfærahóp fyrir sig. Hvernig ætli slík aðstaða verði í nýja tónlistarhúsinu hér (já og ég harðneita að trúa öðru en að það verði klárað). Eftir æfinguna stóð ég upp og þakkaði Þjóðverjunum fyrir móttökurnar og gaf þeim partítúr af Dönsunum mínum, ásamt því að nefna að Óliver væri einnig með verk til að gefa þeim. Verður gaman að vita hvort þau gera eitthvað við þessi verk okkar.

Inn á tónleika, íslensku verkin undir stjórn Ólivers gengu ljómandi vel, sérstaklega sló Jón Leifs í gegn enda kraftmikill og flottur, Jórunnar verki var líka mjög vel tekið. Verð að viðurkenna að það kitlar svolítið að sitja í svona sal, fylla hann með tónlist og heyra 800 manns klappa fyrir sér.

Dódó gekk fínt, fyrir utan eitt DóDó öskrað takti of snemma (nei, ekki ég : D) klappað fyrir tónskáldi og saxófóneinleikara, síðan hlé, fór í kaffiröðina í þetta sinn, rétt náði að gleypa í mig köku og kók en ekki að þvo á mér hendurnar, þannig að Dvorák spilaði ég með klístraðar hendur, grey fiðlan mín. Held það hafi nú samt ekki komið að sök.

tónleikarnir

Hellings kraftur í sinfóníunni, mjúkur hljómur í strengjunum og bæði kraftur og mýkt í blásurum og slagverki, allt eins og átti að vera, ekki mikið af villum, sessunautur minn með besta móti. Kröftug fagnaðarlæti á eftir.

Svo þurfti auðvitað að taka mynd af hópnum á eftir, fórum út fyrir og stilltum okkur upp á besta stað:

á besta stað

Eitthvað vantaði nú samt af Þjóðverjunum þarna, því miður.

Um kvöldið var búið að panta fyrir okkur á veitingahúsi í Sony Center,

sony center

allir hópuðust þar inn til að panta sér snitsel eða álíka, mitt vínarsnitsel var reyndar frekar þurrt en samt fínt. Ekki leist mér nú á að þurfa að fara alveg svona langt til að komast á klósettið:

bjórendurvinnsla

Spjölluðum þar innbyrðis og við Þjóðverja svolítið fram eftir kvöldi, ekki mikið um ræðuhöld, samt smá þakkir frá okkur til þeirra og öfugt, alveg væri ég til í að endurtaka leikinn (í gærkvöldi á æfingunni bað Óliver okkur taka frá – var það ekki 21. mars 2010 – þá eru þau nefnilega búin að bóka stóra salinn…). Kemur í ljós.

Upp á hótel, skila hljóðfærunum inn á herbergi og svo út til Ítalans aftur, (enginn bar á hótelinu, sko) þjónarnir þar farnir að þekkja okkur og voru alveg á hjólum í kring um okkur. Setið vel fram eftir, enda skyldi stímt heim daginn eftir.

naumast

ekki veit ég hvers vegna fólk þyrptist á síðuna mína í gær, fékk meira en 600 innlit (svona tvöfaldan meðaldag). Hefur ekki gerst síðan ég var að skjóta á kirkjuna hér í janúar.

Er fólk bara almennt að lesa mikið núna, hvað segið þið hin, bloggarar?


bland í poka

teljari

  • 380.723 heimsóknir

dagatal

október 2008
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa