Barcelona dia tres

Þriðja daginn vöknuðum við vel fyrir klukkan sjö og gátum ómögulega sofnað aftur. Mættum í morgunmatinn klukkan kortér yfir sjö. Örnólfur og Helga Steinunn strengjakennarar og -leikarar voru álíka morgunhanar og tylltu sér hjá okkur. Besta mál. Mættum svo aðeins fleirum þegar við vorum búin með rólegheitamorgunmat og á leiðinni upp á áttundu – nei úpps tíundu hæð.

Héngum bara uppi á herbergi þar til matarmarkaðurinn væri við það að rúlla upp hlífum. Meiningin var að vera með Fífu megnið af deginum en hún gat ekki hitt okkur fyrr en um tvöleytið svo við ákváðum að kíkja á matarmarkaðinn. Hann er með þeim flottari sem ég hef séð, satt að segja. Tók ekki mikið af myndum þar samt.

 

Settumst á einn af frekar fáum stöðum þar sem hægt var að tylla sér og borða, glas af cava og bestu patatas bravas í ferðinni. Ef ekki þær bestu þá allavega flottasta framreiðslan (ok þær voru líka bestar)

barcelona patatas bravas

Patatas bravas er semsagt steiktar kartöflur með tvenns konar sósum, aioli og spicy mæó. Mjög algengt á tapas seðlum. Fengum okkur slíkt nokkrum sinnum í ferðinni, fjórum sinnum að mig minnir. Oftast hrúga af öbblum með aiolíinu undir og spæsí mæóinu sprautað í listrænar rendur yfir en þetta var langflottast. Útskornar kartöflur!

Barcelona er auðvitað meðal annars þekkt fyrir að vera heimaborg Gaudi, eins frumlegasta og flottasta arkitekts sögunnar. Við áttum eftir að skoða slatta af húsum frá honum en þetta, sem hýsir Gaudi safnið var rétt hjá hótelinu og við vorum alltaf að labba fram hjá því:

Barcelona Gaudi íshús

Þetta líta út eins og risa ísar þarna uppi á þaki en ég held nú samt ekki að það sé meiningin.

Af matarmarkaði stefndum við á vínbúð sem Jón Lárus var búinn að spotta Framhjá þessum skemmtilegheitum fyrst samt, ásamt því að rekast alveg óvænt á ferðafélaga, Steingrím gítarkennara, Kolbrúnu konu hans og Þórunni Huldu píanókennara sem voru á leiðinni á flamencosýningu.

Barcelona pálmatorg

Barcelona svalirBarcelona mandarínur

Ekki alveg eins skemmtilegt var að mér tókst að missa algerlega jafnvægið og hrynja fram fyrir mig, var eitthvað að glápa upp í loftið á flott hús og steig niður í lægð í gangstéttinni, svona trjábeð. Hruflaði mig ansi illa á báðum hnjám og öðrum olnboga og fékk smá sjokk, hélt reyndar fyrst að ég hefði meitt mig í framan líka en það slapp til. Haltraði að næsta útiveitingahúsi og bað Jón panta fyrir mig sódavatn, aðallega til að hreinsa, og setti plástur sem hann var með í veskinu á versta hruflið. Ég er líka vön að vera með plástur í veskinu en hafði gleymt að endurnýja síðast þegar ég þurfti að nota hann. Vorum svo með plástrapakka uppi á hóteli fyrir hin sárin, slyppi til þangað til við kæmum þangað.

Það er reyndar fyndið (já eða ekki) að ég er alls ekkert vön því að vera svona mikill klaufi en í síðustu kennaraferð (Berlín með LHÍ kennurunum) datt ég líka og hruflaði þá reyndar bara hnéð. Væntanlega þetta með að vera að glápa svona mikið upp fyrir mig. Skamm borgir með að vera svona flottar!

Gat alveg gengið áfram, kláruðum vínbúðarheimsóknina (keyptum smotterí og pöntuðum eina flösku sem Jón hafði haft augastað á en var ekki til í búðinni, myndi vera reddað á mánudeginum). Heim á hótel. Silfurplástrarnir í töskunni reyndust óklipptir svo við báðum Fífu koma með skæri sem var auðsótt mál.

Dóttla mætti á svæðið. Hnéð með minni hruflunni var farið að bólgna upp. Gat samt alveg labbað. Verst þegar ég var búin að hvíla mig og var að byrja en svo varð það allt í lagi.

Treysti mér samt til að labba alla leið að þekktustu Gaudi húsunum. Svona með því að setjast nokkrum sinnum á bekki á leiðinni. Já og fá okkur að borða. Engar matarklámmyndir samt þó það hafi verið alveg ljómandi.

En húsin voru æði! La Pedrera að utan og innan og flottasti ljósastaur sem ég hef séð.

 

Ekkert sár á nefi. Svei mér þá!

Barcelona ég

Eftir þetta innlit í La Pedrera var hnéð á mér farið að mótmæla svolítið, (les bólgna einhvern slatta), svo við tókum metró upp á hótel. Fífa var að halda upp á afmælið sitt með bekkjarfélögunum um kvöldið svo hún kvaddi okkur og tók línu tvö en við línu þrjú inn í El Raval.

Smá hvíld, svo vorum við að spá í að fara eitthvað í mat en hnéð mótmælti enn ákveðnar þannig að við enduðum á að borða á hótelveitingastaðnum. Sem var alveg ljómandi, paella með humri og ágætis cava, eini gallinn var að það voru sjónvarpsskjáir þar sem var verið að sýna úrslitaleikinn í evrópsku meistaradeildinni. Það var ekki hljóð á, sem betur fer en svona skjáir eru samt ansi hreint miklir athyglisþjófar. Og okkur gat ekki staðið meira á sama um leikinn…

 

En þetta var nú samt fínt!

Aftur upp á herbergi. Hnédruslan öskraði, hvernig sem ég reyndi að snúa mér í rúminu. Þar til mér datt í hug að reyna að hækka undir hana, líka til að minnka bólguna. Reyndist alveg málið. Hrúgaði undir fótinn báðum tölvubakpokunum okkar og sitt hvorum púðanum úr rúminu.

Net fram að því að það slokknaði á mér eftir daginn!

 

3 Responses to “Barcelona dia tres”


  1. 1 Ella 2019-06-7 kl. 07:42

    Æi, tengi vel við bilað hné 😦


Færðu inn athugasemd




bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

júní 2019
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa