Barcelona segon dia

Annar dagurinn var þrælplanaður og undirlagður í vinnu. Sem var ljómandi. Kannski minna spennandi blogglega séð nema fyrir þau sem voru með. Og þó!

Við Jón Lárus vöknuðum um hálfníuleytið og höskuðum okkur niður í morgunmat. Ljómandi morgunverðarborð, enskur, continental, salt og sætt, mjög gott nýbakað brauð, álegg af hinu og þessu tagi, ferskir ávextir, jógúrt og morgunkorn, allt mögulegt. Þurrkaðir rabarbarar á eftirréttaborðinu – nei djók, churros, Jón hafði rekið augun í churros stað daginn áður og spurði Fífu hvað væri með þessa fylltu rabarbara!

Kaffið leit ekki vel út. Frekar óárennilegar kaffivélar en það kom á óvart og var vel drykkjarhæft. Svona miðað við útlit vélanna.

Og svo var hægt að fá mímósu í morgunmatnum! Cavaflöskur og appelsínusafi og freyðivínsglös!

Við kennararnir og einn maki vorum með þvílíkt prógramm þennan föstudag. Jón Lárus hafði harðneitað að taka þátt í vinnudeginum, langaði frekar að njóta dagsins með dótturinni og borginni. Hann hefði nú samt haft ansi hreint gaman af því að koma á fyrsta hlutann, við þurftum bara að labba þriggja mínútna leið frá hótelinu í konservatorí þar sem við hittum Oriol Sana, fiðlukennarann sem hafði planað prógramm dagsins fyrir okkur. Hann hafði komið því til leiðar að við fengjum að hlusta á útskriftarverkefni nokkurra jazzfiðlara. Það var alveg svakalega skemmtilegt! Krakkarnir höfðu gríðarlega mismunandi stíl, sum klassískir jazzarar, önnur þjóðlagaskotin og sum meira freejazz. Oriol bauð okkur öllum upp á kaffi í skólakantínunni. Það reyndist eitt besta kaffið í ferðinni:

IMG_0006

Svolítið meira spennandi en espressóinn úr vélinni um morguninn, þó hann væri allt í lagi.

Mér varð samt svolítið kalt þarna og fór út til að hlýja mér (já). Þetta er ekki besta hverfið í Barcelona. Reyndar eiginlega það versta, sagði Fífa okkur. El Raval, milli Paral∙lel strætis og Römblunnar. Fór upp fyrir skólann, inn á lítið torg/garð fyrir ofan. Þar reyndist vera fullt af lögreglufólki frá Guardia Urbana (ég á eftir að segja aðeins betur frá lögreglunni á svæðinu síðar) sem var greinilega að taka til á torginu, samt í mestu rólegheitum. Tjald í eigu heimilislausrar konu stóð þar og hún að taka það saman en samt án þess að lögreglan virkaði neitt ógnandi, slatti af fýrum sem voru greinilega vanir því að þurfa að hreinsa draslið sitt frá og virtust þekkja lögreglufólkið. Bara svona: Æ fólk, hér er að verða aðeins of druslulegt, eruð þið til í að taka aðeins til? Þarna voru líka nokkrar konur að leika við hundana sína og eitthvað af fólki með börn í kerrum. Ekkert óþægilegt við andrúmsloftið þrátt fyrir lögregluna. Og sólin hlýjaði mér þar til ég var til í að fara inn á tónleikana/prófið aftur.

WordPress leyfir ekki lengur að ókeypis aðgangurinn embeddi vídeó svo ég ætla ekki að setja inn það sem ég tók af tónleikunum en þeir voru semsagt samt geggjaðir.

Þegar þeim lauk þökkuðum við spilurunum kærlega fyrir. Þau voru líka ansi hreint glöð að hafa okkur því það hafði fækkað í áheyrendahópnum eftir því sem leið á tónleikana, sérstaklega fækkaði um spilara sem voru með fiðlurunum í böndunum, svolítið „ok ég er búin með mitt gigg og þarf að fara“, þó fiðluleikararnir 6 eða 7 væru sjálfir allan tímann að hlusta á samnemendur sína munaði um að hafa 12 stykki sem sátu og hlustuðu allan tímann.

Þá leiddi Oriol okkur út á metróstöð, klippikort keypt fyrir hópinn fram og til baka til L’Hospitalet, smábæjar, svona Garðabæjarúthverfis þar sem seinni hluti vinnudagsins færi fram. Já eða nei, sko, L’Hospitalet byggðist mikið upp af roma fólki og þar er gríðarlega blönduð byggð af alls konar fólki, mikið til innflytjendum frá öllum heimshornum. Semsagt alls ekki Garðabær á neinn hátt!

Byrjuðum á því að fara í skólann sem við vorum að heimsækja:

IMG_0010

Aðallega til að henda af okkur hljóðfærum og töskum fyrir þau sem voru með slíkt meðferðis.

Þaðan 10 mínútna gangur að veitingahúsi hvar Oriol hafði pantað fyrir okkur mat. Mjög spes, í anddyri íþróttahallar mikillar en samt alveg þokkalegasta veitingahús og fólk í nágrenninu kom greinilega mikið þarna að borða. Gæti reyndar samt verið vegna þess að það var eiginlega ekkert annað veitingahús á svæðinu.

Mest spennandi rétturinn sem við höfðum fengið að velja úr hét gilt head. Við höfðum ekki græna glóru um hvað það væri, nema að það var einhver fiskur.

Svona leit hann út:

IMG_0012

Svolítið út eins og glorified gullfiskur.

Aftur í skólann. Fengum fyrirlestur um hvað hann snérist um. Í þessum smábæ fá allir yngri grunnskólanemendur listkennslu. Tvisvar í viku, einn fámennan hóptíma og svo stærri hóptíma. Inni í grunnskólunum. Við höfðum labbað fram hjá einum skóla, í honum var aðallega kenndur dans en líka þjóðlagatónlist. Í öðrum skóla var kenndur jazz, með áherslu á improvisation, í enn öðrum klassík með heilli sinfóníuhljómsveit. Skólinn er með þessu aktíft að berjast gegn aðskilnaði þjóðfélagshópa og blanda öllum hópum saman gegn um listnám. Stórkostlegt starf sem mætti ná lengra upp í aldur (eftir 12 ára verða fjölskyldurnar að borga fyrir að börnin fái að halda áfram í námi og það er ekki boðið upp á einkatíma en það gerist samt ansi hreint margt).

Eftir kynninguna voru síðan tónleikar þar sem þrír aldursflokkar nemenda sýndu getu sína í impró. Þrír kennarar tóku þátt, þar á meðal einn þeirra sem hafði spilað með fiðlurunum fyrr um daginn, strákur að nafni Jesús (nódjók) sem greip í alls konar hljóðfæri og náði ógurlega vel til krakkanna.

Ég var alveg að sofna á tímabili, langur og heitur dagur, hellings labb og þvælingur og alveg smá vín með hádegismatnum. Hristi það samt af mér.

Í lokahópnum var einn ansi efnilegur strákur, 12-13 ára sem spilaði á fiðlu. Hann minnti mig alveg ótrúlega mikið á son vinafólks míns í Bandaríkjunum, álíka gamall, alveg sami augnsvipurinn, brosið og líkamsbygging og holdning. Sá spilar einmitt líka á fiðlu. Þegar tónleikarnir voru búnir og við vorum að spjalla saman fór ég til hans og spurði hvort hann talaði ensku, Já eitthvað smotterí, kom í ljós. Sagði honum frá tvífaranum í BNA. Honum og foreldrunum þótti þetta mjög fyndið. Þau sögðu mér að hann hefði farið á námskeið til Lilju Hjalta í Englandi. Sniðugt, sagði ég, elsta dóttir mín var einmitt í námi hjá henni!

Nema hvað. Þau fóru út, við stóðum áfram í góða stund yfir pica pica, spænsku snakkborði, ólífum, pylsu- og skinkubitum, kexi, kæfu og sultu sem tóku mig alveg yfir í jólahlaðborðsfíling, hvítu og rauðu eins og öll vildu. Yfir þessu nefni ég við einn kennarann að ég hafi verið að tala við þetta fólk. Kennarinn: Já, þau! Mamma stráksins er mjög mikilvæg kona hér um slóðir. Hún er deildarforseti í arkítektúrháskólanum. Ég: Haaaa? Í alvöru? Dóttir mín er þar í háskólanum…! Þessi sem var í fiðlunámi hjá Lilju!

Nema hvað, þegar við komum út, eftir örugglega allavega hálftíma, standa þau enn þar á spjalli við annað fólk. Ég svíf auðvitað á hana og segi tenginguna. Hún er jafn hissa og ég, og skrifar niður nafn og tölvupóst og segir að Fífa skuli endilega hafa samband við sig ef eitthvað vanti.

Sem er andskotanum magnaðra! Hvað er með að droppa frá Íslandi til milljónaborgar í Katalóníu og lenda akkúrat á tengingu sem gæti nýst dóttur minni? Hvort sem kemur nú eitthvað út úr því!

Nújæja. Heim á hótel, Alveg búin eftir daginn.

Svona var stemningin síðkvölds yfir borginni frá hótelglugganum:

IMG_0952

 

0 Responses to “Barcelona segon dia”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2019
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: