Afmælisleyniferð til München, Tag drei

Jæja styttist í þessari löngu helgi sem ekki var helgi. Síðasti heili dagurinn. Ekkert víst ég nenni að skrifa heimferðardaginn, kemur í ljós hvort eitthvað markvert og/eða skemmtilegt gerist í fyrramálið.

Þessi var allavega eitthvað. Ekki alveg jafn glanslegt veður og daginn áður, eða það er að segja fyrripart dagsins áður, pínu kaldara og líka nokkrir dropar úr lofti. Gerði lítið til.

Fórum ekki á stjá fyrr en um hálftíu, Jón Lárus náði að sofa talsvert betur út en ég, mig vantaði þyngingarsængina mína til að geta sofnað aftur þegar ég vaknaði um sjöleytið.

Morgunmaturinn:

og svo reyndar tvöfaldur espressó og deildum einu apfelstrudel með okkur á kaffihúsinu á horninu.

Plan fyrir daginn var að redda okkur þessum afgönsku kryddum sem við vorum búin að finna heitin á. Fórum í þrjár austurlenskar búðir, það er ekki þverfótað fyrir þeim hér í kring eins og ég held reyndar ég hafi verið búin að nefna. Þarna var hellingur:

fékkst samt ekki alveg allt, fundum ekki karrílauf eða fenugreek lauf. Náði í þau í miklu minni búð beint á móti hótelinu. Tékk.

Aðeins aftur upp á herbergi til að skila innkaupunum og óríentera okkur örlítið. Svo niður í miðborg. Okkur hafði verið bent á nokkra pöbba að skoða og tókst að redda tveimur af þeim, bæði Tegernsee og Andechser am Dom. Hjá dómkirkjunni í München heitir allt eitthvað am Dom. Ég skil ómögulega hvers vegna þetta er ekki tekið upp heima? Hví heitir veitingahúsið við Austurvöll Hjá Jóni, ekki Hjá Dóm? Ha?

Áður en við tókum út þessa pöbba kíktum við samt í nokkrar búðir, meðal annars eina sem heitir safnbúð og er með fáránlega flottu dóti. Mjög hættuleg búð fyrir veskið. Sluppum naumlega. Gekk verr í matarbúðinni í Galeria við Marienplatz, þar fuku nokkrar evrur í ost og te og súkkulaði. Féllum samt ekki fyrir þessari:

Veit ekki með ykkur en ég gæti hugsað mér eitthvað annað að gera við 375 þúsund kall en að sötra hann eina kvöldstund.

Vorum akkúrat að labba inn á ráðhústorgið klukkan tólf. Þar var múgur og margmenni og svo byrjaði músík og klukkuspilið í ráðhústurninum fór að snúast. Var heilmikið sjónarspil og skemmtilegt að ramba akkúrat á þetta.

Á Tegernsee voru smakkaðir bjórar og svo borðuðum við líka þar. Svona þegar okkur tókst að ná upp einhverri svengd eftir kalt snitsel í morgunmat (ha við, á móti matarsóun?) Ég harðneitaði hins vegar fyrirfram í þetta skiptið að taka afganga með heim á hótel, mögulega myndum við borða bara venjulegan morgunmat á heimferðardegi. Það var svo sem ekki heldur mikill afgangur þó maturinn væri vel útilátinn. Jón fékk sér svínaskanka með súrkáli og knödel en ég fékk mér leberkäse sem ég hef aldrei smakkað áður. Var bara ljómandi bragðgott, með ótrúlega góðu kartöflu- og súrgúrkusalati, þunnum radísusneiðum, sinnepi og spældu eggi.

Eins og gerist og gengur þurfti að skila bjórnum. Þar sem ég sat á afvikna staðnum hljómaði týrólaband af krafti og mynd af þessum huggulega gaur í lederhosen var í fullri stærð beint fyrir framan mig inni á básnum:

Ég veiiiiit ekki alveg! 😀

Kíktum í ostabúð en keyptum ekki neitt þó þetta væri freistandi, örugglega ekki eins gott samt og Bel paese osturinn sem við splæstum í í Galeria búðinni, reyndar smá fyndið þar, við spurðum konuna í ostaborðinu hvort hún ætti Bel paese og jújú, tók stórt stykki og ég sagði, já kannski helminginn af þessu. Leit á Jón og hann, nei aðeins meira kannski, svo ég sagði eitthvað óskýrt um þriðjung og hún færði hnífinn. Ætlaði svo að fara að pakka inn minna stykkinu og við bæði í einu: Neinei, hitt stykkið sko! En já, enginn þessara freistaði nógu mikið þó þetta sé flott:

Langaði samt smá í pínulítinn ostaskera af norsku sortinni en tja, eigum svo sem alveg nóg af svona smádóti og svo sker maður líka ost með hníf nema hann sé að fara ofan á ristað brauð!

Datt aðeins inn í gúrmeibúðina í Galeria aftur til að kaupa smotterí fyrir páskadagsmorgun í Dómkirkjunni, messur þar bæði klukkan 8 og 11 og kaffihlaðborð í boði kórfélaga milli messa. Efast um að ég nái einhverjum stórvirkjum í bakstri eða álíka á laugardaginn svo í þetta skiptið legg ég fram litskrúðuga skál af páskasúkkulaði. Og hananú. Keypti samt ekki páskahéra á línuna:

Andechser am Dom. Örmjó gata frá hliðargötu út frá Ráðhústorginu. Allt önnur stemning en á Tegernsee en líka mjög flott og Andechs stendur alltaf fyrir sínu, tala nú ekki um af krana. Ég meikaði samt ekki annan bjór þarna.

Heim á hótel. Rákumst á þennan svakalega flotta aspassölubás á leiðinni:

Við skimuðum eftir stað til að fá okkur ferskan aspas, Spargelzeit greinilega að detta inn en við sáum hvergi, því miður.

Slökun á hótelinu og fyrripartur bloggskrifa dagsins þar til kominn var tími á kvöldmat (díses skrifa varla um annað en mat, já og drykk!) Höfðum pantað á ítölskum stað þetta lokakvöld, góðan spöl fyrir norðan hótelið. Skoðuðum S-bahn og U-bahn og regional og tram og strætó en alltaf snúið og tómt ves svo við splæstum bara í bíl. Vorum fegin því, þar sem meira að segja leigubílstjórinn ruglaðist og þurfti að slökkva á mælinum og snúa við. Keyrði inn í dimma hliðargötu og við alveg hmmm?! en jújú þarna var staðurinn, ekki fræðilegur að fólk rambi á hann neitt, verður að vita af honum og fara sér ferð. Lítill og mjög næs staður. Féllum bæði fyrir ribeye steik með kóngssveppum af krítartöflumatseðlinum.

Sko. Sveppirnir voru púra unaður, ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann fengið svona góða kóngssveppi áður (og þá varla bara svona góða sveppi). Kartöflurnar líka mjög góðar. Steikin fín en ég hef fengið betri, oggulítið seig og rauðvínið var of heitt. Sé samt alls ekki eftir því miðað við að fá alveg örugglega fjóra eða fimm gígantíska kóngssveppi. Hljóta að vera ræktaðir, ég hélt ekki að það væri hægt en það er alls ekki kóngssveppatími núna, allavega ekki í Evrópu.

Annar leigari til baka og skrifandi stund er uppi í ljómandi fína hótelrúmi, náttfötin gera sig og svo bara heim í fyrramálið. Snilldar ferð!

Afmælisleyniferð til München, Tag zwei

Miðvikudagurinn byrjaði á því að við átum afganginn frá afganska staðnum daginn áður. Já eða reyndar eiginlega bara kjötið sem eftir var. Brauðið var orðið seigt. En við erum búin að finna uppskrift og ætlum að prófa að baka svona brauð, já og búa til svona keböb. Þorbjörn, áttuð þið ekki einhver mökk fín kebabaspjót sem við gætum fengið lánuð? Við ætlum að birgja okkur upp af kryddum á morgun og koma með heim (svo finnum við þau reyndar alveg bókað í Istanbúl eða Fisku, en það gerir ekkert til)

Þetta var ekki alveg nægur morgunmatur svo við fórum út á horn og fengum okkur kaffi og morgunmatarsamloku. Samanburðurinn við Fosshótel var ekki alveg réttlátur því morgunmaturinn er ekki innifalinn hér svo við fengjum kannski bara tvær og hálfa nótt fyrir þessa einu uppi í Reykholti.

pínu þurrar samlokur, fínn espresso, sætur kaddl!

Stefnan var tekin á Andechsklaustur-og-brugghús, eiginlega pílagrímsferð. Marta frænka kynnti okkur fyrir Andechs doppelbock dunkel þegar við komum hér fyrir þessum nær 35 árum og hann er búinn að vera í uppáhaldi hjá okkur síðan. Mjög góður bjór og þó við höfum síðan reyndar dottið aðeins dýpra í sérbjórana, sérstaklega þá belgísku þá stendur þessi enn fyrir sínu. Veðrið var dýrð og dásemd, 18° og sól. Hefði meira að segja getað tekið tásumynd til að stríða Seðlabankanum.

Lestarstöðin er í þægilegu göngufæri og við tókum S-bahn til smábæjarins Herrsching og strætó þaðan alla leið upp í klaustur. Lestin mjög fín og ekki margt fólk:

Komin uppeftir, um hálftólf og byrjuðum auðvitað á því að kaupa okkur bjór. Nei tvo. Nei þrjá! Hádegismaturinn var bjór og risastór pretzel og reyndar tvær reyktar pylsur sem ég tók ekki mynd af.

Allavega feikinóg af kolvetnum! Og D-vítamíni.

Sátum þarna dágóða stund í sólinni, ég færði mig til undir sólhlífinni til að passa að brenna ekki, auðvitað höfðum við ekki hugsað út í að taka með sólarvörn. Sólhlífarnar þarna voru af stærra taginu. Við vorum ekki alveg viss hvort þetta væru eldflaugar eða sólhlífar:

Keyptum okkur tvö bjórglös í minjagripaskúrnum, það var ekki tekið við kortum þar en greinilega voru fleiri en við að lenda í veseni með það því það var hraðbanki á svæðinu. Nei við stálum ekki krúsunum sem við drukkum úr! öll (umm allavega langflest) okkar meira en 100 bjórglasa í safninu eru heiðarlega fengin. Enda var fólk þarna varað við, ekki fara með bjórkrúsirnar út, það er þjófnaður og verður kærður til lögreglu!

Þetta páskalega blómabeð var á strætóstoppistöðinni:

Röltum aðeins um í kring um klaustrið, fórum ekki inn og heldur ekki í rúntinn í brugghúsinu, það er nóg að fara slíkan rúnt einu sinni. Bjór er ekki bruggaður á svo marga mismunandi vegu að það sé eitthvað sérlega nýtt fyrir manni.

Þarna höldum við okkur hafa séð Zugspitze, hæsta tind Þýskalands, frá klausturhæðinni:

og klaustrið er alveg flott líka

Rétt misstum af sama strætó til baka svo við fórum aðeins aðra leið, örlítið lengri en ekki síður skemmtilega.

Hótel, smá hvíld. Út aftur rétt undir sex, höfðum mælt okkur mót við Auði frænku sem býr í München. Vorum byrjuð á þýskri matar- og drykkjarhefð þennan dag og um að gera að halda slíku áfram. Leigubíll takk. Nýju sandalarnir sem ég splæsti í fyrir ferð og var búin að ganga smá til voru farnir að taka smá toll, second skin alveg að gera sig.

Fórum öll þrjú í schnitzel. Jón Lárus er mikill schnitzelmaður og fær sér alltaf slíkt þegar það er í boði í vinnunni og sá fram á það að vera úthýst úr mötuneytinu ef hann færi til Stóra Schnitzellands (ok Austurríki er líka mikið í schnitzelunum en Þýskaland er óneitanlega stærra) og segði frá því að hann hefði ekki fengið sér slíkt!

Auður er alltaf svo ánægð þegar fólk kemur til hennar, einhvern veginn alltaf skyldan á henni og fjölskyldu að hitta allt gengið þegar þau koma til Íslands. Svo þetta var alveg ógurlega gaman. Og díses hvað þessi snitsel voru stór! Ekki fræðilegur að neitt okkar kláraði. Svo nú eru hvítir pappírspokar með kjötsneiðum í ísskápunum á hótelinu og heima hjá henni!

Mikið kjaftað enda Auður með skemmtilegri konum! Takk fyrir hittið og þartilnæst. Hjartaímótíkon!

Rigning á leið heim. Ekki snarbrjálað úrhelli og þrumur og eldingar en samt alveg rigning og rok, svona Reykjavíkurslagviðri (nema ekki kalt). Ég hafði haft einhvern vara á mér og kippt með heiðgulu regnhlífinni sem við keyptum í einhverri utanlandsferðinni (mögulega Berlín) og sem býr núna í ferðatöskunni svo við þurfum ekki alltaf að kaupa okkur nýja þegar okkur kemur á óvart að það rigni stundum líka í útlöndum. Svo já hún var með í ferðinni og líka með í kvöld. Kom í góðar þarfir. Við ætluðum að veiða leigubíl heim á hótel en það var fátt um fína drætti þarna nálægt veitingahúsinu svo við enduðum á því að fara samferða Auði í U-bahn á aðallestarstöðina. Troðningur af fólki og ýtnu mér tókst að komast inn í vagninn en ekki þeim (sjáið svo fyrir ykkur NEIIIII svipinn gegn um rúðuna á lestarhurðinni). Svo sem enginn heimsendir samt, sendi Jóni á Signal að ég myndi bara bíða á Hauptbahnhof eftir þeim. Örfáum mínútum seinna birtust þau svo og Auður lóðsaði okkur upp á yfirborð rétta leið, það eru endalausir út-og inngangar úr kerfinu þarna. Sögðum skilið við hana og röltum upp á hótel. Náttfötin og græni vettlingurinn tékk. Já og regnhlíf í þurrki inni í sturtuklefa!

Afmælisleyniferð til München. Tag eins

Jæja þá er það ferðablogg einn ganginn til.

Ég small upp fyrir sextugt fyrir tæpum tveimur vikum og Jón Lárus spurði mig (reyndar vel fyrr) hvað mig langaði í í afmælisgjöf. Ég alveg: Ég VEIT það ekki. Mig vantar ekki NEITT! Við erum líka alveg slatta í því að gefa upplifanir frekar en hluti svo ég sagði að hann mætti gjarnan bjóða mér í óvissuferð. Hins vegar þyrfti ég að fá að velja tímasetningu því það er mjög mikið að gera í vor, sérstaklega um helgar svo það hefði getað endað með ósköpum ef hann hefði bara mætt eftir hádegi á föstudegi og sagt, jæja komdu nú upp í bíl og við erum að fara í ferðalag.

Páskafríið var upplagt. Hann á frí í dymbilvikunni og ég líka – en ég gat ekki farið á mánudeginum, það styttist ansi hratt í afmælistónleika Hljómeykis og ekki fræðilegur að ég myndi slaufa æfingunni á mánudagskvöldinu.

Það tókst ansi hreint vel að halda áfangastaðnum leyndum. Ég var búin að hugsa Amsterdam eða Bratislava eða Hamborg eða Glasgow (einhvern tímann missti Jón samt út úr sér eitthvað með evrur svo ég afskrifaði Glasgow) og svo var búið að vera að fylgjast með veðurspánni sem byrjaði illa (6° og rigning, hefðum nánast eins getað verið bara heima) alveg upp í það sem við erum að upplifa núna, um 15° og sól að mestu, og klukkan að ganga sex.

Allavega. Ferðin. Rifum okkur upp á ókristilega tímanum hálffjögur, Finnur skutlaði okkur og það var semsagt ekki fyrr en úti á velli þegar ég fékk brottfararspjaldið í hendurnar að ég sá að München væri áfangastaðurinn. Leist bara mjög vel á. Við höfum ekki dvalið í München neitt síðan fyrir tæplega 35 árum þegar við heimsóttum Mörtu frænku sem var þar í námi svo ekki var hægt að segja að við þekkjum borgina vel.

Ætluðum á Nord að taka venjulega morgunmatinn, vel útilátna smurbrauðið með laxinum og kaffi og mímósu nema hvað Nord er bara týnt og tröllum gefið. Ég get ekki sagt að þessi morgunmatur ásamt þessu huggulega umhverfi hafi gert sig sérlega vel í staðinn.

Jómfrúin verður það næst. Jamm.

Flugið var ósköp þægilegt, við höfðum röð út af fyrir okkur, Icelandair staffið var glatt og þægilegt og flugið styttra en boðað, sem er alltaf gott.

Smástund að rata í rútuna í miðborgina en svo var lítið mál að kaupa sér far (halló Strætó BS, ekkert óþolandi app), alla leið á Hauptbahnhof og örstutt gönguleið á hótelið. Vorum samt svöng eftir risastóra morgunmatinn (djók) og stoppuðum á afgönskum stað til að fá okkur í svanginn. Ég ætlaði að panta mér eitthvað kebab mix en þjónninn: sko þetta er fyrir tvo. Jón var þá til í að deila bara, þjónninn bauð okkur að bæta við hrísgrjónum og salati og meira brauði, sem við þáðum. Svo eftir smástund fór hann síðan að tína matinn á borðið og þetta var gígantískt!

Já þetta er eins mikið og það lítur út! Tvö risastór brauð, annað fyllt með kjötmeti og grænmeti, stór salatdiskur og hrúga af hrísgrjónum. Ekki fræðilegur að við gætum klárað þetta! En það sem það var gott! Fengum restina í poka og hún er hér inni í ísskáp á hótelinu í þessum skrifuðu orðum.

Eini gallinn var að þetta var halal staður og enginn bjór! Það er samt ekki þess vegna sem ég er smá buguð á svipinn á myndinni, það var frekar að ég sá fram á að þetta væri allt of mikill matur.

Þetta með bjórinn stóð hins vegar til bóta á hótelinu. Þetta er mjög fínt hótel og ótrúlega ódýrt, væntanlega vegna þess að það er frekar óhrjálegt hér í kring, en á móti allur þessi svakalega flotti miðausturlandamatur, staður eftir stað. Allar þrjár næturnar sem við verðum hér kosta álíka mikið og ein nótt á Fosshóteli í Reykholti (og örugglega flestum öðrum þokkalegum íslenskum hótelum)

Allt annað upplit á okkur!

Smá göngutúr að taka út hverfið og sjá hvort við fyndum matvörubúð. Sú fannst rétt hjá lestarstöðinni og keyptar ein flaska af Grüner Veltliner eins og við drukkum mikið af í Austurríki 2019 ásamt örfáum bjórum. Já og innkaupapoka, ég gerði þau krúsíal mistök að pakka ekki pokum til að setja í töskuna mína. Svo einn gulur og einn rauður innkaupapoki bættust í annars mjög mikið notaða pokaflóru Njálsgötu 6.

Upp á hótel, smá hvíld og svo strækaði ég algerlega á því að labba í 25 mínútur á veitingastaðinn sem við vorum búin að panta okkur borð á fyrirfram svo við tókum bara bíl.

Leigubílar í München eru ljósgulir og fínir og bíllinn okkar var með fjólublátt ljós í hurðinni, eiginlega uppáhaldslitinn minn!

Það sem ég var gríðarlega fegin eftirá að hafa tekið bíl því þetta var alveg slatta lengra en ég hafði ímyndað mér og líka flókin leið. Byrjuðum í vínbúð sem Jón hafði spottað og tókum semsagt bílinn þangað. Þrjár flöskur í höfn, passar í wine skin vínhlífarnar sem búa í ferðatöskunni okkar síðan í fyrri Ástralíuferðinni. Gengum þaðan á veitingastaðinn.

Þetta graff er flott:

Byrjaði víst færsluna á því að segja að mig vanti ekkert en það þýðir samt ekki endilega að mig langi ekki í neitt. Þessar SMEG vörur voru í útstillingarglugga:

Mætt á veitingastaðinn 10 mín fyrir pantaðan tíma, borðið beið okkar. Lítill staður og alveg smekkfullur. Þar var pöntuð önd. Hún var mjög góð. Verst var hrúgurnar af djöflaarfanum (les kóríander) sem voru ofan á diskunum! Tíndum þær burt en þær smituðu salatið svo við enduðum á að borða bara önd, sósu og grjón. Gerði minna til en ella þar sem hvorugt okkar var orðið sérlega svangt eftir kebabveisluna fyrr um daginn.

Note to self. Muna að biðja um að þessum fjanda sé sleppt þegar farið er á austurlenska staði!

Heim á hótel. Náttföt og rauðvínsglas. Og blogg.

BNA – Peaks Island-Boston day #19

Lokadagur. Þori ekki að lofa að ég skrifi heimferðardag, hef sleppt því síðustu tvö skipti en reyndar kallar eitt atriði mögulega á það. Sjáum til.

Vaknaði 6:15 að vanda, reyndi ekkert að sofna aftur. Vorum ekkert að rífa okkur upp, Matt og Mary-jo komu um tíuleytið, ákveðið að gera pönnukökur í hádegismat (já), Matt fór í málið en Mary-jo fór með okkur í loka fuglaleitarhring. Tveir nýir fundust, sem setur töluna hjá Jóni Lárusi upp í 68 fugla í ferðinni! Hreint ekki slæmt!

Krákustígarnir inni í eyju, sem þau fara reyndar oft um til að forðast túristaflauminn minntu helst á vegi á Vestfjörðum nema þar er víst ekki alveg svona mikill gróður!

Síðasta tréð þarna var höggvið af stórri spætutegund sem okkur tókst því miður ekki að sjá en Jón var búinn að sjá þrjár spætutegundir í ferðinni. Villtu kalkúnarnir földu sig líka fyrir okkur en við heyrðum í allavega einum slíkum.

Heima í húsi bað ég John, soninn á heimilinu um að sýna mér músíkina sem hann er að semja og við sátum í dágóða stund og hlustuðum og spjölluðum og ég gat ráðlagt smá. Sagði honum að koma nú bara endilega og sækja um í LHÍ, í nýmiðladeildina þegar til kæmi að velja sér háskóla. Hver veit?

Með hádegismatnum drógu þau upp gallonsbrúsa af hlynsírópi. Geri aðrir betur!

Nenntum ómögulega út aftur eftir hádegið, ætluðum að veiða ferjuna sem færi 15:45, þau sögðu okkur að öruggast væri að fara með bílinn niður að höfn þegar 14:45 ferjan væri að fara svo við næðum að setja hann í röðina fyrir næstu ferð. Ferjan er nefnilega ekki stór og alveg getur komið fyrir að bílar hreinlega komist ekki í hana ef fólk kemur of seint. Þarf ekki nema einn flutningabíl til og þá kæmust kannski bara þrír bílar í viðbót.

Fengum afganginn af tómataböku gærdagsins í nesti. Ekki slæmt!

Við þangað. Mary-jo og Nora, dóttirin fóru í bæinn með þessari ferð en við löbbuðum uppeftir aftur eftir að vera búin að planta bílnum fremstum í röðina. Löbbuðum til baka með Matt, nenntum ómögulega að bíða þarna niðurfrá í klukkutíma (það er sko 5 mínútna gangur heim til þeirra). Fékk kött í fangið og tók þessa lítt flatterandi sjálfu af mér og kisa (sko alveg flatterandi af honum samt!)

Tími til að kveðja feðgana og sigla. Varð samt að taka mynd af kraken póstkassanum þeirra:

Matt labbaði með okkur niðureftir og við kvöddum hann á hafnarbakkanum. Allt þetta vinafólk okkar þarna úti er náttúrlega tóm dásemd!

Vorum fremst í röðinni eins og fyrr sagði sem þýddi að við vorum aftast í bátnum og sigldum afturábak í stúkusæti að kveðja eyjuna:

Tók örstutta stund að sigla í land og þá hófst síðasti bílaleigubílsaksturinn í þessari ferð. Jón hafði keyrt megnið af leiðinni uppeftir svo ég keyrði til baka. Gekk fínt en ég get ekki sagt að það sé sérlega gaman að keyra inni í Boston sjálfri. Endalaust af vegaframkvæmdum og hjáleiðum og skiltum og umferðarkeilum, ein stærstu ganganna lokuð og umferðarþunginn eftir því. En þetta hafðist að lokum. Bílnum skilað, tókum leigubíl á Hilton. Já Hilton hótelið, segir nokkuð. Hafði pantað á Hilton Garden Inn Boston Logan Airport og hvorugt okkar hafði hugmyndaflug í að það væri annað Hilton flugvallarhótel. Ég var reyndar pínu hissa á því hvað það var stutt frá miðað við staðsetninguna sem ég hafði horft á á kortinu en hugsaði bara, æ það er ekkert að marka svona fjarlægðir og kannski er bílaleiguhúsið akkúrat í áttina. En svo var þetta náttúrlega rammvitlaust Hilton. Concierge var svo almennilegur að hann heyrði í hinu Hilton hótelinu og bað skutluna frá þeim koma við og sækja okkur. Ansi hreint fegin þegar hún kom á svæðið, í henni sátu hjón frá North Carolina og kjaftaði hver tuska á karlinum. Sem betur fer ekki um pólitík samt.

Skriðum ansi lúin inn á mjög fínt hótelherbergi. Tómatabaka í kvöldmatinn og sveimérþá að það verður bara ansi gott að koma heim á morgun!

BNA – Peaks Island day #18

Sváfum alveg ógurlega vel á háa rúminu, vöknuðum samt vel fyrir átta (ég um hálfsjö eins og venjulega). Reyndar er ekkert slæmt að vera að vakna svona snemma, eftir þrjá daga þurfum við að fara að snúa við sólarhringnum. Komum semsagt heim á föstudagskvöldið og nú er miðvikudagur. Það verður eitthvað.
Kaffi, kex, smjör og ostur í morgunmat.

Gestgjafar okkar sváfu hins vegar vel út, þau reyndar viku úr rúmi fyrir okkur og eru að gista hjá vinafólki sínu sem á gestahús, voru rétt nýlent frá Frakklandi þar sem þau eru búin að kaupa sér hús svo það er alls konar þotuþreyta í gangi, bæði núverandi og verðandi. Við vorum bara róleg fram eftir morgni, kláraði blogg gærdagsins og spilaði smá tölvuleiki. Og svaraði nokkrum vinnutengdum spurningum eins og gerist og gengur á þessum tíma. Líka búin að setja upp alla kúrsana mína í LHÍ svo ég hef ekki sérlega mikla samvisku af því að skrópa á undirbúningsdag í skólanum þetta árið.

Mary-jo og Matt komu um hálfellefuleytið og bara spjall og kíktum á garðinn. Ég er montin af basilinu mínu út í glugga en þau eiga sko RUNNA!

Hér er brunnurinn sem ég nefndi í gær. Nokkrar svarteygðar Súsönnur í forgrunni:

Vorum farin að tala um hádegismat þegar Mary-jo fékk sms, þurfti að skjótast á meginlandið að sinna mömmu sinni svo við löbbuðum bara niður að höfn aftur og fundum okkur þar deli horn í kjörbúð staðarins og keyptum samlokur.

Eftir mat fór Matt með okkur í langan göngutúr, sagði okkur frá því að bandaríski herinn yfirtók hálfa eyjuna í seinni heimsstyrjöld, hún var útvörður fyrir Portland og víðar. Tvær stórar fallbyssur höfðu verið settar upp og í eitt skiptið var prófað að skjóta af annarri þeirra. Það kom svo mikil höggbylgja að allir gluggar á norðurhluta eyjarinnar brotnuðu, íbúum til gleði og ánægju eða eitthvað! Herinn þurfti að lofa að skjóta ekki af byssunum svona að tilgangslausu og svo komu bardagarnir auðvitað aldrei hingað.

Þarna á víst ekki að fara út í graslendið, allt morandi í mítlum og megnið af þeim berandi Lyme sjúkdóminn. Svo við héldum okkur á mott- uh götunni bara:

Brim er eitt það besta sem ég veit. Þessir köntuðu klettar eru líka skemmtilegir:

Kann að meta þetta skilti:

Aftur upp í hús. Jóni tókst að steinsofna með annan köttinn (hef ekki hugmynd um hvorn) liggjandi við höfuðið á sér. Ég var líka syfjuð en það slapp til.

Þegar Mary-jo kom til baka fórum við í smá bíltúr til að veiða fugla (sko skoðun). Höfðum heyrt í villtum kalkúnum um morguninn. Sáum ekki kalkún og reyndar enga nýja fugla í þeirri ferð en reyndar náðum að sjá Blue Jay um morguninn, fugl sem við höfðum margheyrt í en aldrei séð þangað til og Jón var farið að lengja eftir að sjá.

Andabringur, ferskur maís á stilk, dýrðleg tómata- og ostabaka með fersku basli og bláberjapæ í kvöldmatinn. Hér er bakan:

Spjall fram eftir kvöldi þar til þotuþreyta gestgjafanna sagði til sín aftur.

Þessi mynd af öðrum hvorum kettinum (ég þekki þá sko alls ekki í sundur (spurði, þetta er Pickles)) minnir mig á frægu myndina af úkraínska kettinum með rauðvínsglasið:

Styttist í þessu. Heimferð hæfist á morgun.

BNA – Boston-Peaks Island day #17

Vöknuðum hálfsjö við Teams fundahringingu í tölvunni hans Jóns, hann hafði gleymt að setja heyrnartólin í samband eða þá loka vélinni. Óþarfi. Reyndum að sofna aftur, úti var talsverð rigning, spáð allan daginn svo við vorum ekkert þannig spennt fyrir að fara út eitthvað áður en við logguðum okkur út. Tókst ekki að sobbna svo við fórum bara niður í morgunmat. Engin röð enda vorum við um klukkutíma fyrr en daginn áður.

Morgunmataruppsetningin á þessu 11 hæða risahóteli er reyndar alveg furðuleg. Allir þurfa að fara í sömu röðina, eitt frekar lítið horn sem byrjar á hafragraut, svo enskur (mínus reyndar bökuðu baunirnar), jógúrt og ávextir og svo brauð og sætmeti, ein af þessum brauðristum sem rúllar brauðinu í gegn sem er reyndar fínt. En að gera svona grundvallarmistök í morgunverðarhlaðborðshönnun á nýju hóteli er alveg óskiljanlegt! Salurinn var fínn, þokkalega nóg af sætum en ef hefði verið hægt að dreifa röðinni hefði það gengið talsvert miklu betur.

Upp á herbergi og spreða tíma þar til væri kominn tími á að logga okkur út og fara og sækja bílaleigubílinn sem við höfðum pantað úti á flugvelli. Þurfti lítið að pakka, ég hafði allavega varla pakkað upp fyrir þessar tvær nætur.

Skráð sig út, ekkert mál, báðum afgreiðsluna panta okkur bíl (já það var rigning og við erum með tvær stórar og núorðið þungar töskur og nenntum ómögulega að fara að drösla þeim út á strætóstopp, upp í strætó, út úr strætó, niður á lestarpall, inn í lest, út úr lest, fara svo að leita að bílaleigunum. Nei, þrjátíu dollarar í leigubíl voru þess virði!

Höfðum pantað eins bíl en hann var þá ekki til svo við fengum þennan fína Nissan Altima.

Frrrrekar leiðinlegt að keyra frá Loganflugvelli og komast út á hraðbraut, einhvern veginn var google maps úr símanum hans Jóns mikið leiðinlegra en úr mínum (ég var komin talsvert hærra og farin að þurfa að hækka reikiheimildina mína en Jón átti megnið af sínu eftir, þar sem við vorum búin að keyra á mínum síma síðan við yfirgáfum Rochester) eða þá að kerfið í bílnum var ekki eins gott og í Chevroletinum. Veit ekki alveg hvort vandamálið var tengt símunum eða bílkerfinu). Allavega var alltaf eitthvað drasl („ef þú ferð frekar þessa leið þarftu ekki að borga tolla en það tekur klukkutíma og kortér í viðbót“) að poppa upp og fara jafnvel fyrir leiðina og í eitt skiptið sáum við ekki beygju fyrir því og ég rétt tók eftir því að við vorum allt í einu komin á móti umferð – sem betur fer bara svo sem eins og einn metra og náðum að bakka út og enginn tók eftir nema einn furðu lostinn bílstjóri sem var að koma á móti.

Út á hraðbraut komumst við, sárfegin enda farin að kunna vel á slíkar. Tók aðallega myndir af brúm:

Tók um einn og hálfan tíma að komast til Portland. Þar höfðum við ætlað að heimsækja eitt brugghúsið til, Allagash en það reyndist svo lokað, sem Gúgul Maps var reyndar búin að segja okkur en við trúðum því ekki alveg enda átti alveg að vera opið á þriðjudegi. Gerði ekki sérlega mikið til þar sem beint á móti því var annað brugghús:

Jón fékk smakk en ekki ég þar sem ég tók við akstrinum.
Niður á höfn í Portland þaðan sem ferjan til Peakseyju fór. Smá hringsól að finna stæði en það tókst á endanum, rétt hjá ferjustaðnum.

Sérkennilegt að í höfninni í Portland var alvöru sjávarilmur, nokkuð sem við tókum ekki eftir í Boston.

Höfðum um einn og hálfan tíma. Fórum og keyptum miða fyrir okkur og bílinn, hoppuðum svo inn á veitingahúsið sem sést þarna á myndinni til hægri og deildum þar einni pizzu. Feikinóg. Spes skorin samt:

Í bílaröðina við ferjuna, vorum síðasti bíll inn (samt ekki í hættu á að missa af ferjunni sko). Ferjan er það þröng að ég komst alls ekki út úr bílnum bílstjóramegin þegar ég lagði eins og mér var bent. Sem betur fer var ferðin ekki löng, innan við kortér.

Örstuttur akstur að húsinu þeirra Matts og Mary-jo. Þau erum við búin að þekkja síðan 2009, hafa komið í allavega þrígang til Íslands (eitt skiptið var samt eiginlega bara millilending en komu samt í heimsókn til okkar) en þetta er í fyrsta skiptið sem við komum að heimsækja þau. Frábært fólk! Fáið enga mynd af þeim fyrr en í færslu morgundagsins þar sem ég steingleymdi að taka slíka. Líka búin að fylgjast með krökkunum þeirra, John og Noru í allan þennan tíma, spila á fiðlu og selló og eru æði.

Feline overlords hjá þeim eru tveir stórir kettir (stærri en Mahler!), Goose og Pickles:

Vatnið var gott í Boston, enda filterað fyrir alla notendur. Vatnið hér á Peakseyju er líka afskaplega gott en þarf ekki filter. Fólkið okkar er með brunn í garðinum:

Splæst í heimagrillaða borgara handa okkur og spjallað um allt og ekkert (pólitík, ferðalög, Frakkland, Ísland, viskí, fyndið var að ég nefndi að við notuðum rakatæki heima og þau alveg HA? Hér þarf sko þurrktæki, ótrúlega rakt loft og þau höfðu varla ímyndunarafl í að heima væri loftið svo þurrt að fólk væri með græju til að auka rakann í herbergjunum.

Afskaplega gott herbergi að láni, hæsta rúm sem ég hef nokkurn tímann sofið í að ég muni. Jón spurði hvort það væri stigi!

BNA – Boston day #16

Seinni dagurinn í Boston. Vaknaði fyrir hálfsjö sem var óþarfi, Jón svaf alveg tveimur og hálfum tíma lengur en ég. Gott fyrir hann. Þýðir samt að ég er alveg að leka út af á skrifandi stundu.

Niður í morgunmat á svipuðum tíma og fyrri daginn, ég sá eftir að hafa ekki ræst Jón klukkutíma fyrr eða svo þar sem auðvitað lentum við í tíu metra röðinni.

Það sem lá fyrir var að fara á Copley Square til að byrja með, kíkja á tvær kirkjur og bókasafnshúsið. Öll húsin mjög flott, fórum ekkert inn samt. Torgið var hins vegar allt upprifið, greinilega verið að taka það í gegn svo við stoppuðum svo sem ekkert þarna.

Drykkjarstopp á hádegismatarstað, þar var svona humarloka í boði, kostaði álíka og fyrri daginn en þarna voru bæði alvöru hnífapör, fín glös, diskar og þjónað til borðs. Fengum okkur samt ekki, enda ekki orðin nægilega svöng til að borða hádegismat. Það var hins vegar heitt svo ég allavega þambaði heil tvö vatnsglös, fyrir utan freyðivínsglasið sem ég neyddist til að kaupa mér til að fá vatnið (var það ekki annars örugglega þannig sem á að gera þetta?)

Jay hafði mælt með torginu og svo Boston Commons, garði með svanabátum (ég ruglaðist í gær og sagðist hafa séð svanabát en meinti andabát, Duck Boats sem ganga bæði á sjó og landi). Svanabátarnir í garðinum voru ógurlega sætir og við tókum okkur stutta ferð með þeim. Þessir bátar eru búnir að vera í rekstri frá 1877, semsagt 146 ár! Bátarnir eru fótstignir, ég reikna með að liðið sem stígur þá sé með þokkalegustu lærvöðva!

Eitthvað var um styttur af körlum á hestum, hér var til dæmis George Washington:

Þessi var samt skemmtilegri:

Gengum góðan spöl áfram áður en við vorum orðin nógu svöng fyrir hádegismat. Forréttir dugðu okkur, ég hugsa að það verði eiginlega bara planið héðan í frá, panta forrétti frekar en þessar risa stærðir af aðalréttum sem Kaninn af rausnarskap sínum býður upp á. Keypti mér vængi og Jón Lárus svínarif og ég hugsa að þjónustufólkið hafi verið gapandi á skrítnu útlendingunum að borða rif og vængi með hnífapörum (ok ég gafst reyndar upp í lokin).

Þá var stefnt á vínbúð sem ég hafði heimsótt með innkaupalista frá Jóni Lárusi árið 2011 þegar ég var síðast í Boston. Þá hafði lítið verið að marka hvað vefsíðan þeirra sagðist eiga (ég þurfti að finna einhver eðalvín alveg sjálf og það tókst reyndar vonum framar – ég er ekki alveg eins mikill vínnörd og bóndinn). Tókst reyndar að labba framhjá búðinni án þess að taka eftir henni, enda lætur hún ekki sérlega mikið yfir sér en rötuðum inn á endanum. Lítið spennandi uppi en þeim mun magnaðra niðri í kjallara, fullt af kössum en líka uppstillingar eins og venjulega en standardinn ansi hár.

Í þetta skiptið var alveg að marka vefsíðuna svo við fengum tvær eðalflöskur til að burðast með með okkur heim.

Ákváðum að tíma ekki að fara í Duck Boat, það bíður betri tíma og líka safnið hennar Isabellu Gardner sem reyndar hljómaði ansi vel en við uppgötvuðum heldur seint að það var bara opið til fimm og smá maus að komast að því í lest og strætó svo það bara kemur næst.

Veðrið var æði þennan dag líka, náði ekki alveg þrjátíu gráðum dagsins á undan, þó ekki mikið minna. Fórum út að höfn. Þar var ferja yfir, kostaði ekki einseyring með gati, né mill (brot úr senti). Við yfir til austurBoston og bara beint til baka. Báturinn tekur ekki nema örfáar mínútur að sigla yfir en það var gola og svali og hvílíkt útsýni.

Búin í siglingu, klukkan farin að nálgast sex, ákváðum að labba bara út á hótel á Waterfront. Hyatt hótelið þar er nýtt, reyndar er allt hverfið nýlegt og uppgert og bara alveg ógurlega skemmtilegt. Ég er líka hvílíkt sátt við að það er alls staðar hægt að ganga meðfram sjónum, Boston Harborwalk, enginn má byggja hótel eða bátaskýli eða neitt þannig að fólk komist ekki fram hjá. Ein undantekning er þar sem er verið að gera upp risa byggingu en annars er þetta ótrúlega snyrtilegt og fínt. Og fullt af listaverkum. Þessir höfrungar að leik:

þetta leit út eins og risavaxnar fartölvur!

og þessi örn var ansi hreint litskrúðugur og skemmtilegur:

Pínulítill kvöldmatur (ok forréttur) deildum einum arancini með andakjöti þegar við vorum komin út á Waterfront svæðið.

Þurfum að prófa að búa til svona arancini! Ekki smá gott!

Gersamlega búin á því, hótel, sturta og blogg. Og afgangurinn af humarloku gærdagsins (Jón heimtar að kalla þetta rækjusamloku, múhaha)!

BNA – Boston day #15

Nú er spurning hvort fólk fari að verða leitt á þessari löngu ferðasögu. Það styttist í henni, lofa! Vinnan bíður handan við hornið.

Þessum degi og þeim næsta yrði varið algerlega í Boston. Ólíkt hótelinu í Albaníu þá er morgunmaturinn hér á Hyatt hótelinu innifalinn. Hann reyndist bara alveg ágætur, betri en hinn, ég ristaði mér til dæmis litla beyglu sem var fín. Fegin að við fórum í fyrra fallinu niður því þegar við vorum að klára morgunmatinn var komin margra metra löng röð að byrja og tíminn að klárast.

Sátum við gluggann á morgunverðarsalnum en einnig var hægt að sitja úti. Ég horfði á stóran máv gæða sér á mat úti á einu borðanna og hélt auðvitað að fólkið þar væri búið að borða en nei, þá höfðu þau bæði farið inn til að bæta á og máfsi var að éta frá þeim matinn.

Hér er gaurinn, hundfúll yfir að hafa verið rekinn burt frá veisluborðinu:

Upp í sturtu og þannig lagað og út. Sól og hlýtt, fullhlýtt reyndar. Vorum nærri búin að fara inn á hótelið við hliðina á og kaupa okkur grænar:

Útsýnið ekkert slor:

Sáum að það yrði sniðugast að kaupa okkur viku passa í lestir og strætóa, þá myndum við líka geta notað hann lokakvöldið og morguninn þegar við værum búin að skjótast til Maine.

Neðanjarðarkerfið er ágætt, það er samt alveg fyndið hvað er nákvæmlega sama lykt í öllum svona metrókerfum. Leituðum samt alveg í góða stund að Silfurlínunni en þá reyndist hún vera strætóar/skutlur, ekki lest.

Rita og Anton, vinir okkar höfðu mælt sterklega með dim sum á kínversku veitingahúsi, Dynasty, í Kínahverfinu. Við þangað. Stappfullt og bið í allavega 40 mínútur. Létum okkur hafa það. Það var greinilega markaðsdagur (kannski alltaf á sunnudögum) og mikið líf. Löbbuðum stóran hring. Slökkvilið borgarinnar þarna í jákvæðniátaki að leyfa krökkum að setjast undir stýri og allskonar. Gaman.

Komumst loks að á veitingahúsinu. Pöntuðum okkur marglyttu, að áeggjan Ritu, einhverja stjörnumerkta rækjubolta, djúpsteikta svínakjötbolta í deigi og hænsnafætur í svartbaunasósu. Já þið lásuð rétt! Við ætluðum reyndar að panta aðra týpu af hænsnalöppum en þjónninn vildi ekki samþykkja það og sagði að þessar gufusoðnu væru betri (fyrir óvönu útlendingana skoh). Kínverskt par sat við hliðina á okkur og voru mjög sátt við að við hefðum bæði pantað hænsnafætur og marglyttu!

Hænsnalappirnar merkilega góðar, marglyttan líka og mér fundust svínaboltarnir góðir en rækjuboltarnir voru útvaðandi í illgresi andskotans (e: Devil’s Weed) aka kóríander.

Hrollur!

En skemmtilegt var þetta! Græna dótið í marglyttunni (fremst á myndinni) var líka kóríander en það var hægt að hreinsa hann burtu sem betur fór. Ekki fræðilegur úr rækjuboltunum.

Lestin til norðurhluta miðborgarinnar, tókum út Faneuil Hall og Quincy Market, einn ís og ein smágjöf keypt en fullt af spennandi stöðum sem ég gæti vel hugsað mér að kíkja betur á. Þetta er reyndar annað skiptið sem ég labba gegn um Quincy Market og er ekkert svöng. Algjör mistök!

30° hiti og sól. Settumst á veitingastað í skugga af stórum trjám í drykk, sátum þar í góða stund, aðallega líka að fylgjast með fuglalífinu sem var merkilega fjölbreytt. Þetta héldum við að væri lítil kráka:

en reyndist vera það sem heitir common grackle, ungur fugl því fullorðnu fuglarnir eru heldur litskrúðugri.

Höfnin næsti viðkomustaður. Sáum duck boat á leiðinni, ég gæti hugsað mér að fara í slíkan, Jón var ekki alveg eins spenntur en við sjáum til.

Það var orðið ansi hreint mollulegt og raki í lofti, við ákváðum að drífa okkur upp á hótel þar sem það gæti vel farið að rigna. Reyndumst þurfa að taka þrjár mismunandi lestir og okkur er reyndar alveg fyrirmunað að skilja hvernig okkur tókst að fara inn á rauðu línuna á sömu stöð og hún stoppaði aftur – ok ég get eiginlega ekki útskýrt það (kannski einmitt vegna þess að ég næ því ekki sjálf). Nenntum ekki að reyna að finna út úr því aftur svo við löbbuðum spottann að silfurgráu strætóunum.

Komin á hótelsvæðið kíktum við inn í vínbúð í Ora hótelinu og meðan við vorum þar kom auðvitað hellirigningin! Vildi til að við þurftum bara að hlaupa um 5-6 metra í henni og náðum ekki að blotna í gegn einu sinni.

Rólegheit í svolitla stund uppi á herbergi, aðeins að þurrka af okkur svitann í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Spáðum í góða stund í hvað við ættum að fá okkur í kvöldmat, eiginlega allir staðirnir í kring voru á fine dining verðlagi miðað við tripadvisor, Shake Shack staður góðan spöl frá var bara merktur $$ og svo sjávarréttastaður sem er beint á móti hótelinu. Það sagði sig eiginlega sjálft að fara þangað.

Nema hvað. Yankee Lobster – við mælum EKKI með honum! Óverðmerkt á töflunni og þrátt fyrir að humar sé dýrt hráefni þá hefðum við ekki keypt okkur sitt hvora humarsamlokuna ef við hefðum haft hugmyndaflug í að þær kostuðu 36 dollara hvor. Fyrir utan skatt og tips. Ég er nokkuð viss um, þó ferðin sé ekki búin í skrifandi stund, að þetta verði langdýrasta máltíðin okkar. Og snobbararnir voru ekki sérlega sáttir við að í máltíð sem kostaði yfir 100 dollara (um 14 þúsund kall) fengjum við plastglös, plasthnífapör og ekki einu sinni diska. Og handfylli af tómatsósubréfum hent á borðið hjá okkur í þokkabót.

Eins gott að þær voru þó allavega góðar!

Upp aftur. Vinna smá (hafði lofað að kíkja á eitt stutt verk og senda af mér mynd fyrir plögg), niður á ansi flottan hótelbarinn, einn drykkur, útsýni:

Upp í ágætis herbergið okkar á áttundu hæð, skrifa fýlulegan dóm á Tripadvisor og blogga. (Nú þarf ég samt að skrifa vel um nokkur atriði á móti, ég hef einsett mér að skrifa ekki bara þegar mér mislíkar eitthvað. Af nógu er að taka).

BNA – Albany-Boston day #14

Jæja, næsti snúningur á þessari frekar flóknu ferð. Morgunmatarbeyglur á beyglustað, hótel, pakka, smyrja nesti í lestina (þar sem við áttum brauð og ost og skinku og smjör), út á Albanyflugvöll að skila bílnum, leigubíll á lestarstöðina. Já leigubíll á lestarstöðina! Hann Mohammad leigubílstjóri var alveg bestur í dag, lestarstöðin var sunnan við Hudsonána og við spurðum hann hvort væri hægt að ganga yfir ána til að komast í miðbæinn. Hann hélt ekki (eins og við vorum reyndar orðin nokkuð viss um, hvaða rugl er það annars?) og spurði okkur hvað við værum að spá. Jú, skiluðum bílnum um hálftólf en lestin okkar fór ekki fyrr en 15:27 og ekki nenntum við að hanga á lestarstöðinni í tæpa fjóra tíma. Mohammad: Sko farið þið bara inn og látið geyma töskurnar ykkar, ég hinkra eftir ykkur á meðan og keyri svo í miðbæinn og finn fyrir ykkur gott veitingahús! Við þáðum þetta auðvitað með þökkum frekar en að þurfa að starta nýrri leigubílaferð. Inn og út aftur. Mohammad með okkur yfir ána og fyrst á einn veitingastað sem reyndist lokaður og þá annan, ekki langt frá stjórnsýslumiðborginni sem við höfðum byrjað hjá tveimur dögum fyrr.

Og svo: Ég sæki ykkur svo bara aftur klukkan kortér fyrir þrjú og skutla ykkur á stöðina! Við: Já það væri alveg frábært. Eigum við ekki að borga þér núna? Hann: Neinei, fæ bara númerið hjá ykkur og þið borgið á eftir!

Fengum hann svo til að sækja okkur á barinn sem við fundum frábæra bjórinn á frekar en veitingahúsið, honum fannst alveg furðulegt að við skyldum vilja labba svona langt (um 12 mínútur giska ég á og allt undan fæti).

Þetta kallar man þjónustu! og traust!

Matur fínn, gátum torgað sirka helmingi og fengum hundapoka svo nú áttum við tvöfalt nesti!

Jón heldur upp á Pride með bandarískum regnbogabjór:

Röltum svo niður á barinn í himnesku veðri, um 28°, sól og gola. Urðum samt svekkt þar því góði bjórinn var uppseldur! Það er meira en að segja það að finna þennan bjór, Jón gúglaði og fann enga útsölustaði. Reyndar dreifir húsið til einhverra staða í Boston, við munum örugglega athuga hvort við finnum hann.

Mohammad stóð við sitt og mætti fyrir utan Loch Quay ríflega kortér fyrir þrjú. Kjaftaði á honum hver tuska og sagði að við ættum að hringja í hann alltaf þegar okkur vantaði far og við sögðum honum þá að ef hann kæmi til Íslands myndum við sko sýna honum Reykjavík og vísa á góða staði!

Það voru sko allir búnir að vara okkur við hvað lestirnar væru glataðar. Það reyndist barasta alls ekki rétt! TGV er þetta nú ekki en snyrtilegt, breið sæti og fullt af fótaplássi og hreint ekkert sérlega hægfara. Efast um að við hefðum verið neitt að ráði fljótari að keyra og hefðum þurft að skila bílaleigubílnum fjær hótelinu en lestarstöðin var (burtséð nú frá því að það kostar alltaf slatta aukalega að skila bíl annars staðar en fólk tekur hann). Svo þetta var bara fínt. Farangurshólfið fyrir ofan sætin var líka svo stórt að risastóru feitu töskurnar okkar komust auðveldlega fyrir.

Fjórum og hálfum tíma síðar lent í Boston. Leigubílstjórinn sem við lentum á, frá lestarstöð á hótel var sko enginn Mohammad, frekar fúll eitthvað en á staðinn komumst við. Herbergið slatta flottara en í Albany og á 8. hæð, sé ekki betur en við sjáum til sjávar þegar birtir. Brjálað stuð á bryggjunni úti, vonandi ekki mjög langt fram eftir nóttu samt!

Uppgötvaði mér til skelfingar að við höfðum gleymt að skilja eftir tips fyrir þrifin á hótelherberginu í Albany. Jón er að skrifa á hótelið og athuga hvort þau geti tekið út af kortinu fyrir þessu!

Hlakkað til að skoða Boston, höfum tvo heila daga áður en haldið er á næsta stað.

BNA – Albany-Pawnal-Tanglewood day #13

Vaknaði eitthvað hálfskrítin í maganum, einhverjir stingir í gangi sem var kannski ekki alveg málið þar sem þennan dag stóð til að fara á tónleika hjá Boston Symphony Orchestra með henni Önnu Soffíu Mútter, sem við misstum af þegar hún spilaði heima á Íslandi í fyrravetur. Ekkert samt alveg að farast neitt svo puttar í kross.

Hafði allavega lyst á morgunmat sem þennan daginn var á Starbucks stað sem var bara rétt handan við hornið frá hótelinu, það var bara fínt. Ég heiti Hillary á Starbucks greinilega:

en þó þau hafi ekki náð nafninu mínu kunna þau allavega að skrifa tvöfaldan espressó rétt!

Enn ein heimsóknin í Target til að kaupa dót að taka með heim, hálfs árs birgðir af Axe svitalyktareyði sem er sá besti sem við höfum fundið, fékkst í Kosti heima þegar hann var á gamla staðnum í Kópavogi en ekki lengur, extra öflugir augndropar og norðuramerísk flensulyf (vorum búin að kaupa smá í Rochester en vildi bæta við). Ekki segja tollinum!

Vorum að spá í að kaupa eitthvað salat til að eiga í hádegismat og mögulega afgang í pikknikkið fyrir tónleikana. Það var ekki úrval af slíku í Target, enda leggur sú keðja ekki mikla áherslu á matarbúðina hjá sér. Svo við ákváðum að kíkja í þriðju kjörbúðina sem við vorum búin að spotta, Hannaford. Reyndist besta af þessum fjórum hér í kring þó ekki næði hún Wegmans, ónei. Þessi keðja er búin að vera til síðan 1883, semsagt 140 ára í ár. Respect!

Þar fengum við ágætis salat, ég keypti kók og flögur sem magalyf og svo féllum við fyrir þessu:

Kaffi- og karamellu m&m!

Upp á hótel, smápása, pökkuðum svo niður í pikknikkpokann og af stað. Vorum búin að hlakka talsvert til þessa dags þar sem til stóð að fara á tónleika í Tanglewood, sumarheimili Boston Symphony Orchestra. Ákváðum að veiða eitt fylkið til í ferðina og tókum smá krók norðurfyrir og náðum bláhorninu af Vermont. Það var nú varla að marka en við fórum samt inn í smábæ sem heitir Pawnal, auli á pallbíl var nærri búinn að keyra aftan á mig en það slapp til sem betur fór! Þarna voru samt fjöll og firnindi, allavega fjöll. Mjög fallegt:

Komumst í tæka tíð til Tanglewood, á undan Jay and Jean, organista og altmuligkonu, langtíma fbvinum og Íslandsaficionados sem við vorum búin að mæla okkur mót við.

Tónleikarnir voru verulega spennandi. Anne Sophie Mutter að spila annan fiðlukonsert John Williams, Tod und Verklärung, uppáhalds Strauss tónaljóðið mitt (nei ekki valsaStrauss ef einhver var ekki viss, Richard) og svo La Valse eftir Ravel, ekki alveg uppáhaldið mitt en samt alveg fínt stykki.

Komum okkur fyrir á flötinni, leigðum stóla og borð (fegin þegar til tók, minn nærri því sextugi rass er lítið fyrir að sitja flötum beinum á jörðinni) og drógum upp pikknikkgóssið:

Jay og Jean og við komin í stellingar:

Mutter klikkaði ekki, heldur ekki stjórnandinn, Andris Nelsons, mjög fínn.

En hvað haldið þið?

Eftir fiðlukonsertinn kemur John Williams sjálfur á svið og hneigir sig, Brian var búinn að segja okkur að hann hefði verið að stjórna tónleikum í síðustu viku en hann ætti alveg til að vera áfram og mjög líklegt að hann yrði á svæðinu og þar sem fiðlukonsertinn hans (#2, saminn með Mutter í huga) væri á dagskrá gæti bara vel verið að hann kæmi á svið. Sem hann gerði. Og þá kom bónusinn! Hann tekur til máls og þakkar fyrir frábæran flutning á konsertinum sínum og tilkynnir að lokum að Anne Sophie Mutter hafi graciously accepted að spila tvö aukalög, þema Hedwig úr Harry Potter og glænýtt þema Phoebe Waller-Bridge úr Indiana Jones 5 (nýju myndinni). Þema Heiðveigar uglu var nú eiginlega meira fantasía um stefið, örugglega glænýtt þar sem Mutter var með nóturnar að spila, þema Waller-Bridge úr IJ5 meira bara stefið.

Og hann stjórnaði sjálfur!

Erum við að djóka með glædelig overraskelse?

Ekki skýrasta mynd sem ég hef tekið en langt í burtu og í myrkri og síminn að endurstilla birtustigið en vá. Bara vá!

Nelsons og Strauss voru síðan alveg að gera sig eftir hlé, dýrka þetta stykki. Ravel var líka bara skemmtilegur, mjög fínt uppbrot og ólíkt verkunum á undan.

Heimferð gekk fínt, fyrir utan það að allar akreinar voru í átt frá Tanglewood meðan svæðið tæmdist, grilljón bílar og Gúgul Maps, sem ég annars dýrka og dái, vildi endilega láta okkur keyra móti straumnum. Tókst að gabba hann og eftir það gekk fínt.

BNA – Albany day #12

Sváfum út. Sko til átta eða svo. Hitað kaffi á herberginu, úr flöskuvatni, lúxusdýrin á okkur. Samt ekkert spes, eitthvað hylkjakaffi, ekki þó nespresso (sem hefði reyndar væntanlega verið skárra)

Afgangurinn frá japanska staðnum í morgunmat, Engin matarsóun skoh!

Slakað á fram undir hádegi, hálftólf fórum við síðan út og planið var að kíkja á miðborg Albany þennan dag. Jón Lárus keyrði niður í bæ, tókst að missa af einum afleggjara þar sem vegurinn var að splittast svo við enduðum á hraðbrautinni sem var allt í góðu, en þá fengum við líka að prófa að keyra á stærstu spakettíflækjugatnamótum sem við höfum nokkurn tímann komið á. Var höndum seinni að smella mynd af leiðsögukerfinu svo flækjan sést ekki öll (og náði ekki mynd ofan af flækjunni, við vorum alveg efst uppi:

Pælið í að vera með svonalagað liggjandi á besta stað miðborgarinnar niðri við á! Og hraðbrautina alveg meðfram ánni.

Bíl lagt í hliðargötu, borgaðir 5 dollarar sem gaf okkur fjóra klukkutíma (óþarflega lág greiðsla!) og rölt upp á torg sem reyndist í miðju hvítflibbahverfinu. Þar var löng röð af matarvögnum til að redda öllum hvítflibbunum hádegismat. Og okkur. Sáum fáa túrista.

Ég fékk mér Philly Cheesesteak, skyndibita sem mig hafði lengi langað að smakka, keypti reyndar slíkan í Ástralíu en hann var ekki góður svo nú skyldi prófast nær upprunanum. Var mjöög góður. Og vel útilátinn.

Ekki séns að klára, hvorki ég né Jón Lárus sem fékk sér kjúklingaloku. Pökkuðum þessu saman og settum í innkaupapokann sem ég er alltaf með í töskunni.

Þarna í kring voru ráðhús og stjórnarráð og menntamálaráðuneyti og hvað veit ég! Bílnum var lagt hjá Empire State Plaza þar sem eru til dæmis hús sem voru teiknuð af sama arkitekt og teiknaði höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í N.Y.City, Wallace Harrison.

Ógurlega funkis!

Þarna voru samt líka gamlar og flottar byggingar:

Veit ekkert hvað þessir lögreglubílar voru að gera þarna, væntanlega einhver mikilvægur í heimsókn en ég fékk allavega leyfi frá vörðum til að taka mynd þó bílarnir væru þarna.

Niður í bæ, í átt að ánni, heillöng brekka niður á við og ég var farin að hugsa um að þurfa að labba þetta upp aftur en svo held ég samt að það sé ekkert mikið verra en að labba frá Lækjargötu heim til mín uppi á Skólavörðuholti.

Ekkert sérstaklega spennandi labb niðureftir og auðvitað var ekkert hægt að komast alla leið að ánni fyrir hraðbraut. Byrjaði að rigna en höfðum við skilið bakpokann með jökkunum eftir í bílnum? Ójá. Og höfðum við skilið regnhlífarnar eftir uppi á hóteli? Einnig já. Sem betur fer komu bara dropar en engin alvöru rigning eins og er reyndar búin að vera ansi öflug hér undanfarið.

Fundum bar (döh), ég pantaði mér einn kokkteil (barþjónn þarna hafði unnið gull í kokkteilakeppni) en Jón fékk sér bjór sem reyndist besti bjór sem við höfum smakkað! Hann var frá brugghúsi í Wisconsin, Central Waters, kolsvartur og skýjaður og gersamlega himneskur. Þurfum að athuga hvort við fáum meira af honum einhvers staðar!

Sáum þegar við flettum upp í símanum að við værum komin nánast að spakettíflækjunni fyrrnefndu. Nenntum samt ekki að labba nær til að taka mynd, örugglega ekkert hægt að komast þarna nálægt hvort sem væri. Í hina áttina var eitthvað heldur meira miðbæjarlegt en ég get nú eiginlega varla sagt að það sé sérlega spennandi heldur. Ef ég gæti á annað borð hugsað mér að flytja til Bandaríkjanna myndi ég endalaust frekar velja Rochester, Buffalo eða Saratoga en ekki Albany. Kannski misstum við alveg af skemmtilega miðbænum en ég sé samt eiginlega ekki hvar hann ætti að vera miðað við kortið.

Ætluðum á ísveitingahús en það reyndist ekki opna fyrr en klukkan fjögur, akkúrat þegar stöðumælirinn okkar rynni út en fundum alveg ágætis crépustað í staðinn:

Röltum í rólegheitum til baka upp alla brekkuna í áttina að stjórnartorginu og bílnum. Memorial garður á leiðinni, ég held að þetta sé dómshúsið sem er þarna bak við tré.

Kokkteillinn rokinn úr mér og ég keyrði heim, í þetta skiptið gegn um borgina. Sá engan spennandi miðbæ á þeirri leið heldur.

Þurftum að kíkja í búð fyrir vatn og eitthvað til að setja í pikknikkörfu (ókei pikknikkpoka, erum víst ekki með neina körfu) fyrir útitónleika morgundagsins. Ætluðum aftur í Target nema þá datt mér í hug að skoða hvort ekki væru aðrar búðir og kannski meira spennandi nær. Jújú, á götunni sem við höfðum gengið eftir til að fá okkur að borða tveimur dögum fyrr voru bæði Trader Joe’s og Whole Foods. Fórum í báðar en þetta voru sko engar Wegmansbúðir! Ekkert nálægt þeim. Þessi Wegmanskeðja er ekki smá flott. En vatn fengum við ásamt brauði, smjöri, osti og hráskinku sem pakkað yrði niður daginn eftir. En þau áttu íslenskt smjör (keyptum ekki) og skyr frá honum Sigga.

Heim á hótel. Afgangur frá hádeginu, stóri afgangadagur og já, engin matarsóun!

Og svo kom auðvitað hellirigningin. Gott að vera inni…

Eitt finnst okkur sérkennilegt hér í Albaníu, hurðarhúnar eru stilltir þannig að það þarf að snúa þeim alveg lóðrétt til að opna dyrnar. Þetta eru baðdyrnar hjá okkur á hótelinu en þetta var líka svona t.d. á crépustaðnum:

BNA – Albany-Saratoga Springs day #11

Útgerð frá Albaníu þennan dag var áætluð norður á bóginn. Byrjuðum á morgunmat á hótelveitingahúsinu, ekki innifalið og við munum ekki fara þangað aftur, ég pantaði eggs benedict og ég geri sirka átján sinnum betri slík. Allt í lagi en hreint ekkert spes. Morgunmatarkartöflurnar voru ágætar. Jóns morgunmatur var ekki myndarinnar virði nema hann var reyndar borinn fram í krúttlegri pönnu. Þau hér hafa væntanlega aldrei heyrt um facebookhópinn We want plates!

Fengum skutlu frá hótelinu til að fara með okkur að flugvellinum þar sem við vorum búin að panta bílaleigubíl, hótelið býður upp á ókeypis skutlur þessa um það bil tvo kílómetra sem eru út á völl. Smá ves að taka bílinn, hvað er með að bílaleigur þurfi að skrá hjá sér hvenær og hvernig leigutakar ætli sér að yfirgefa landið? En þau voru öll af vilja gerð og auðvitað reddaðist málið á endanum. Fagurblár Chevrolet Malibu, ekki alveg eins mikill kaggi og Audi-inn sem við deildum með Ástráði og Eyrúnu í Austurríki 2019 en bara alveg ágætur, þægilegur í keyrslu og lipur.

Höfðum verið að spá í talsverðan ökutúr, alla leið upp að Lake Placid þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir en á endanum nenntum við eiginlega ekki 5 tíma akstri þennan dásemdardag, að mestu leyti sól og um 28° hiti. Pöntuðum bátsferð á Saratogavatni klukkan fjögur í staðinn.

Komum við í Target, það er ekkert Wegman’s í nánd við Albaníu! en fengum það sem við þurftum þar þrátt fyrir að búðin sé ekki beinlínis spennandi.

Vorum komin á svæðið um hálfeittleytið enda ekki nema ríflega hálftíma keyrsla frá norðurhluta Albany til Saratoga. Ekkert við að vera á svæðinu þar sem við tækjum bátinn svo við byrjuðum á að finna lítinn almenningsgarð við vatnið:

Þar í smástund, svo var spurning um að borða eitthvað smá áður en við færum í siglinguna. Jón spottaði eitthvað veitingahús ekki langt í burtu, Red Robin gourmet burgers and brew, við þangað, þá var sko ekkert gourmet brew því það var ekkert til á krana, bara vondir bjórar á við Miller’s, Coors og Bud. Uh neibb! Ég ætlaði að taka við að keyra svo ég fékk mér bara kók en Jón keypti sér rauðvínsglas sem var nægilega óspennandi til að hann sníkti af mér nokkra klaka úr kókglasinu mínu.

Skemmtilegar myndir á veggjunum þarna samt. Sú í miðið er best!

Klukkuna vantaði enn einn og hálfan tíma í bátsferð svo við ákváðum að kíkja á miðbæ Saratoga Springs sem var þarna rétt hjá. Sló Saratoga Springs City Center inn í gúgul maps en það gaf bara einhver fyrirtæki sem hétu eitthvað eitthvað SSCC og mér leist ekkert á það svo ég þysjaði inn og fann hvað? jú míkróbruggbarogveitingahús þar sem það tókst ekki að fá sér góðan bjór.

Við þangað. Lögðum í hliðargötu nálægt Aðalstræti (Broadway) í SSCC. Strætið reyndist alger dásemd, römbuðum á míkróbarinn og einn bjór og einn mocktail hesthúsuð, hörkugóður jarðarberjaplatteill (áfengislaus kokkteill), hreint ekki væminn. Fáið enga mynd af bjórnum!

Þessar kirkjur voru hvor á móti annarri á leið frá hliðargötunni að Aðalstræti:

Gengum um stræti og duttum fyrst inn í bókabúð (ég get bara alls ekki gengið fram hjá bókabúð) og svo alveg óforvarendis inn í búð sem heitir Saratoga Saddlery, selur ástralskar vörur og kábojjstígvél og bleika jakka og alls konar. Þar var splæst í kolsvarta satínskyrtu á Jón Lárus, nokkuð sem hann hefur langað mikið í síðan við sáum stjórnandann í Aidu í Arena íklæddan slíkri 2019. (mynd tekin um kvöldið).

Nújæja. Kominn tími á siglinguna. Vorum komin á staðinn um 20 mín fyrir fjögur, fólk tíndist að og 9 manns sem höfðu pantað voru öll mætt um 15:50 svo skipper taldi ekkert að vanbúnaði að leggja bara íann.

Nokkrir mávar voru búnir að finna sér þennan fína stað:

Skipper reyndist hinn skemmtilegasti, fræddi okkur og reytti af sér brandara. Vatnið er langt og mjótt eins og ljósið og við sigldum um það ekki alveg endilangt en nokkurn veginn þvert. Einn stór höfði við vatnið er kölluð Snákahæð (Snake Hill), tvær skýringar gaf hann okkur á því. Önnur var sú að hæðin myndi haus á snák og framhaldið, sléttara, væri þá skrokkurinn en hin, öllu skemmtilegri, var sú að þetta var skammt frá úrslitastað og stund í frelsisstríði Bandaríkjanna. Þá höfðu enskar sveitir komið sér fyrir ekki langt frá þessum höfða, heimamenn vildu síst af öllu missa yfirburði sem höfðinn gaf þeim til að sjá hvar Englendingarnir væru með bækistöðvar. Svo þeir dreifðu orðrómi um að höfðinn væri alsettur black northern rattlesnake (sem ég veit ekki hvað myndu heita á íslensku) og auðvitað þorðu útlendu hersveitirnar ekki að koma nálægt höfðanum!

Höfðinn er núna friðað svæði þar sem engin umferð er leyfð, bara fuglar og dýr. Annað mjög stórt svæði við vatnið er líka þannig. Besta mál.

Það má víst ekki byggja neitt við vatnið nema einnar fjölskyldu hús, engin fjölbýlishús, engin hótel, né álíka. Ýmislegt furðulegt hefur komið út úr því, til dæmis hafði einn Flórídabúi sem vann risapott í lottói látið byggja hús þarna fyrir um 20 árum (ef ég man rétt), þar býr enginn og hefur aldrei búið en alltaf eru kveikt ljós á hverju kvöldi, dregið er fyrir og frá en það er bara staðarhaldari sem sér um þetta allt, engir íbúar. Skipperinn sagðist einungis þrisvar séð einhvern út á hinum bráðfallegu svölum við húsið á öllum sínum fjölmörgu árum sem gæd á vatninu.

Eitt þessara einnar fjölskyldu húsa (ekki þetta tóma):

Ég hafði slökkt á símanum mínum í ferðinni, ég hef ekki séð að það sé hægt að hlaða síma í bílnum og batteríið var komið fulllangt niður fyrir minn smekk. Ræsti bílinn eftir ferð og þá náðum við ekki með nokkru móti að láta skjáinn í bílnum sýna kortið. Urr. Síminn slapp samt til upp á hótel en þá var hann líka farinn að kvarta. Þarf að pæla aðeins í þessu áður en við förum til Tanglewood eftir tvo daga, slatta lengri ferð.

Ekki að ræða það að borða á hótelveitingahúsinu eftir óspennandi og frekar dýran morgunmat. Gúgli frændi sýndi okkur japanskt veitingahús örskammt frá hótelinu, bara yfir eina götu að fara. Við þangað. Gangbraut yfir götuna. En hvert skal þá haldið?

Allavega eins gott að það er ekki bannað að ganga á grasinu þarna! Reyndar neyddumst við til að ganga á vegöxlinni á afrein frá hraðbrautinni smáspotta. Alveg magnað hvað er ekki gert ráð fyrir að fólk komist um gangandi! Fullt af plássi til að setja upp göngustíg en nah!

Ágætis matur á japanska staðnum, engin mynd. Þessir koifiskar eru hins vegar gleðigjafar á hótelinu:

Aftur á hótelið. Þar mætti okkur heill her af leðurklæddum mótorhjólagaurum merktum Punishers Maryland. Ráðstefnuhótel sko!

Reyndar mættum við svo þremur voðalega sætum og brosandi slíkum, alskeggjuðum og kurteisum sem voru að taka lyftuna niður þegar við komum upp. Semsagt sniglar en ekki Hells Angels eða hvað veit ég?

Hótelherbergið um kvöldið og ógurlega fegin að vera ekki enn á ferð á hraðbrautunum á leið frá Lake Placid! Adirondacksfjöllin og ólympíuleikvangurinn bíða betri tíma!

BNA – Rochester-Albany day #10

Ákvað að breyta svolítið heitunum á færslunum svo þau séu nákvæmari. Skemmtilegra. Erum samt alveg í New York fylki uppsveita ennþá í nokkra daga.

Þennan dag vorum við að kveðja gestgjafana sem ég á enn ekki orð yfir hvað voru gestrisin og skemmtileg. Get ekki beðið þar til næst.

En ég fer fram úr mér. Morgunmatur og kettir og kaffi með smá súkkulaðibragði (keypt óvart en var bara alveg ljómandi). Pínu sorglegt að næst þegar við sjáum kettlingana verða þeir ekki jafn litlir. Samt bókað sætir. Engar kettlingamyndir í dag samt, þó Cat hafi komið og sest hjá mér eins og hún var vön þegar ég kom fram um morguninn.

Spjall um allt og ekkert, svo troðið öllu hafurtaskinu ofan í töskur og dröslað út í bíl. Ég hafði keypt stóran plastbakka af melónubitum, grænum, rauðum og laxableikum (les hunangs-, vatns- og kantalópumelónur) og setti í annan innkaupapokann sem við vorum með. Auðvitað opnaðist svo fjandans plastbakkinn og innkaupapokinn varð rennblautur og fullur af melónubitum. Foj. Pokinn samt hreinn svo við átum þetta bara, heldur hraðar en til stóð.

Komum við í vínbúðinni rétt hjá húsinu þeirra Brians og Kellyar og keyptum tvær rósavínsflöskur með þessu líka flotta nafni:

hafði fallið fyrir slíkri daginn áður og hún reyndist mjög fín svo ég heimtaði að kaupa í nesti fyrir hótelið í Albaníu.

Við svolítið víðförul þennan dag reyndar:

og svona líta umferðarljós á gatnamótum út:

Brian hafði stungið upp á því að við kæmum við í einu af hans uppáhalds brugghúsum, Ommegang, sem var á leiðinni og fengjum okkur að borða. Engin mótmæli okkar megin frá. Smá krókur reyndar, sikksökkuðum okkur gegn um sveitahéruð en það var nú bara gaman. Nema undir lokin þegar við lentum, á mjórri götu með tvöfaldri gulri línu í miðjunni, á eftir einhverjum gaur sem ég er nokk viss um að hafi verið á einhverju, keyrði mjög óstabílt, sífellt að hraða og hægja og sveifla sér milli vegbrúna. Stóð hreint ekki á sama. Held við höfum verið um þrjú kortér að væflast á eftir honum! En komumst að lokum til Ommegang:

Á seðli var meðal annars kanadíski sérrétturinn poutine sem er franskar með brúnni sósu og bræddum osti. Ég bara varð að panta mér þetta, hafði mjög lengi langað að smakka. Merkilega gott!

Splæstum líka í bjór til að taka með ásamt einu litlu smakkglasi.

Áfram skyldi haldið. Um eins og hálfs tíma akstur eftir til Albany og flugvallarhótelsins. Sat fram í þennan bút og við Brian spjölluðum um nýja og gamla kórmúsík. Hann er búinn að benda mér á grilljón óhemju spennandi tónskáld sem ég vissi ekki einu sinni af og ég get ekki beðið að fara að kíkja á nýja músík.

Hótelið reyndist alveg ljómandi. stórt herbergi og risastórt rúm (samt með einu yfirlaki fyrir okkur bæði, ég næ ekki upp í að fólk um allan heim skuli ekki sofa með sitt hvora sængina frekar en eina stóra. Mér tekst yfirleitt alltaf allavega einu sinni eða tvisvar að toga yfirbreiðsluna af Jóni Lárusi þegar ég velti mér um – reyndar ekki akkúrat í þessari ferð því það var nægilega hlýtt í herberginu okkar til að ég gat almennt ekki verið með neina yfirbreiðslu!

Bjórúrvalið sem kom frá Ommegang:

og gosbrunnur í yfirbyggðum garði í hótelinu miðju:

Leist bara meðalvel á veitingastaðinn á hótelinu svo við tókum okkur göngutúr til að finna eitthvað að borða. Það verður ekki sagt að umhverfið þarna sé spennandi, bara alls ekki!

en hinu megin við þessa brú var samt gata með slatta af veitingahúsum. Enduðum á alveg ágætis sushistað með svona all-you-can-eat og sekt ef fólk skildi eftir bita. Við skildum ekki eftir bita.

Þar sem við sátum þarna helltist yfir okkur bæði alveg ógurleg þreyta svo við röltum okkur þennan sirka kílómetra til baka á hótelið, náttfötin málið og ekki meira prógramm þann daginn. Heyrði samt í Brian til að vita hvort hann hefði ekki örugglega komið heill heim og það hafði hann.

BNA – Rochester day #9

Rólegur dagur frameftir og vinnudagur seinnipartinn. Sváfum út (eða uh nei reyndar ekki, við erum búin að vera að vakna milli sex og sjö alla ferðina, hvað er með að geta ekki snúið sólarhringnum við?) Fórum samt ekki fram fyrr en um hálfátta, kaffi og slökun fram til um hálftólf. Kettirnir héldu uppi skemmtiatriðum auðvitað.

Skotist í deli eftir hádegissamlokum (engin mynd) og svo búð eftir kvöldmatarefni. Ég var skrítna konan í búðinni sem tók myndir af venjulegum mat:

Þessi Sockeye lax (frá Kanada) þarna til hægri á myndinni vinstra megin var ansi hreint spennandi, mjög dökkrauður og mikið bragð af honum. Var búin að hlakka til í marga daga að smakka. Svo er þessi Wegmans búðakeðja alveg málið. Ætli sé hægt að fá þau til að opna útibú í Reykjavík?

Út á pall síðdegis með stóran bakka af hrikalega góðum melónum. Það verður ekkert gaman að koma heim í Krónus er ég hrædd um. Slatti í það samt ennþá, eigum eina og hálfa viku eftir.

Pöntuðum bílaleigubíl til að hafa meðan á dvölinni í Albany stæði, uppgötvuðum okkur til nokkurs pirrings að við höfðum óvart pantað flugvallarhótel í útjaðri borgarinnar í stað hótels með sama nafni inni í miðborg en föttuðum svo að við yrðum hvort sem er ekkert mikið í borginni heldur ætluðum meira að vera að keyra í norðurátt og skoða hitt og þetta og það yrði bara þægilegra frá þessu hóteli. Tökum bara leigubíl niður í miðborg til að kíkja á hana, (tja nema í stóra bílalandi er kannski líka bara allt í lagi að keyra þangað á bílaleigubílnum. Skoðum líka hvort strætókerfið sé nothæft.

Við Brian tókum síðan um þriggja tíma törn í að fara yfir músíkina mína, hann er að skrifa bók um kventónskáld sem hafa skrifað kórtónlist gegn um aldirnar og ég fæ þar kafla, (stungið upp á nafninu Hildegard to Hildigunnur, haha). Fróðlegt, meira að segja fyrir sjálfa mig að fara í gegn um katalóginn minn af kórtónlist sem er orðinn ansi hreint stór.

Sockeye salmon, nautagrillsteik, sprotakál og franskar ertur í kvöldmatinn. Laxinn var svo bragðmikill að hann þoldi vel ágætis Brunelloinn sem við drukkum með.

Enduðum kvöldið á að horfa á fuglaskoðunarkvikmynd, The Great Year, eitthvað urðum við nú að gera þar sem það var engin fuglaskoðun þennan dag!

BNA – Rochester day #8

Sunnudagur upp runninn, næstsíðasti heili dagurinn í Rochester. Frábært veður eins og fyrri daginn, sól og fór upp í 26°C þegar leið á daginn. Rólegheit fram undir tíu með þessum krílum, Cat settist hjá Jóni Lárusi þennan morgun:

hér náðust þau öll saman á mynd loksins, greinilega eitthvað spennandi úti í garði:

en þá var ekki til setunnar boðið og hvað? Jú fuglaskoðun!

Fórum í Bird Sanctuary, slatti af fuglum þar í búrum sem hljómar illa þar til fólk veit að þetta eru allt slasaðir fuglar, sumir lent í veiðimönnum og aðrir fyrir bílum. Það er alltaf reynt að hlúa að þeim og sleppa síðan en stundum er það ekki hægt og þá eiga fuglarnir heima þarna áfram. Þessi ugla gæti fengið að sleppa:

Eftir að skoða alls konar fugla þarna fórum við í langan göngutúr í friðlandinu. Það var alveg magnað að standa grafkyrr með fuglafóður í útréttri hendi og láta fugla koma og éta úr hendinni. Ef vel er að gáð sjáið þið bláan smáfugl, Tufted titmouse sitjandi á hendinni á Jóni Lárusi!

4 nýir fuglar bættust í safnið þennan dag, fyrir utan að sjá nokkra fugla mjög vel sem við höfðum aðeins séð í fjarska og með kíki þar til þarna.

Þetta tré var eins og eitthvað út úr H.C. Andersensögu:

Eftir þetta tókum við rúnt og kíktum á annað hús eftir Frank Lloyd Wright, þetta hús er í einkaeigu svo það var bara um það að ræða að stoppa á götunni fyrir utan og taka mynd út um bílgluggann:

Niður í miðbæ, kíktum á Eastman skólabyggingarnar þar sem margt íslenskt tónlistarfólk hefur numið.

Fórum ekkert inn, eigum það bara inni næst.

Hádegismatur á nýlegum bar, Strange Bird, massa góður matur og fínn bjór. Sleppi matarklámmyndunum í þetta skiptið. Flott lógó:

Eitt bjórsmakk til, á stambarnum þeirra Brians og Kellyar, K2 Brewery. Steingleymdi að ég get eiginlega ekki drukkið nema einn bjór í einu svo Jón þurfti að draga mig að landi með slatta af mínu „flight“

Gott samt.

Mundi allt í einu að við áttum víst 35 ára sambandsafmæli akkúrat þennan dag, 6. ágúst. Komum við og keyptum kampavín og köku í Wegmans búðinni rétt hjá húsinu.

Afgangar í kvöldmat. Held að við höfum dregið fram allavega 15 sortir. Sumt kláraðist, tekið hús á öllu. Matarsóun neitakk. Klikkaði á að taka mynd.

Settumst svo út á yfirbyggða pallinn, kveikt á moskítófælum (nei ekki moskítóhljóðskrám) bæði Jón og Brian höfðu nælt sér í bit kvöldið áður.

Súkkulaðikaka. Hélduð þið að þið slyppuð alveg við matarmyndir?

BNA – Rochester day #7

Vaknaði í fyrra fallinu til að ná í skottið á Kelly sem þurfti að fara til mömmu sinnar um helgina. Var á undan þeim hinum fram og þá kom Cat og settist í kjöltu mér og leyfði mér að klappa sér og kjassa í allavega 5 mínútur. Dásemd. Cat er ung læða sem gerði það sem kettir gera iðulega, fann sér þessa fínu fjölskyldu til að eignast. Gamli kötturinn þeirra var nýdáinn þegar hún sýndi sig og þau tóku hana inn, eftir að hafa athugað hvort hún væri merkt og auglýsa eftir hvort einhver saknaði hennar. Kölluðu hana bara Cat og þar sem þau eru Stevens heitir hún eðlilega Cat Stevens.

Hún reyndist svo auðvitað kettlingafull, eignaðist 4 kettlinga, einn þeirra fékk mamma Kellyar og þau voru svo að hugsa um að velja sér sitthvorn kettlinginn en fannst það svo bara asnalegt að taka tvo og láta einn svo nú eiga þau fjóra ketti. Öll með sitt hvorn persónuleikann. Hrikalega gaman og mig langar mjög mikið í hana Tiger sem leyfði mér hér að halda á sér:

Algert krútt, en líka algerlega kisa brjál!

Verkefni morgunsins var að fara á markað og kaupa smá inn fyrir seinnipartinn. Glenn McClure, vinur Brians og Kellyar, tónskáld og mikill matgæðingur hafði boðað sig í heimsókn til að elda fyrir okkur ítalskan málsverð með öllu, aperitivo, primo piatto, secondo piatto, dolci, nefndu það bara!

Morgunmatarempanjöður og churros í morgunmat:

þessir gaurar voru að spila blágresi fyrir utan bakaríið:

ostaúrvalið var ekkert slor:

síðan kíktum við í stóru vínbúðina sem við höfðum heimsótt tveimur dögum fyrr til að hafa nú eitthvað með veislunni. Keyptum eitthvað smotterí fyrir kvöldið og svo líka smá til að taka með alla leið heim þegar til kæmi. Samt ekki þessa:

hvað þá þessa hér til vinstri, ég veit ekki með ykkur en ef ég ætti 6000 dollara til að spreða (tæplega 800 þúsundkaddla íslenska) held ég að ég myndi finna eitthvað annað við þá að gera en að kaupa eina 750 ml flösku!

Nújæja. Heima í húsi, Glenn mættur með hrúgur af mat. Antipasto (heitreykti laxinn var frá bróður hans og grafna nautið frá bosnískum vini hans):

apéritivo (bökuð þunn polenta með karamelliseruðum lauk og sólþurrkuðum tómötum og fleiru, afgangur af antipasti enn á plattanum):

primo piatto 1 og 2, tveir stórkostlegir pastaréttir:

secondo piatto 1:

secondo piatto 2:

meðlæti með secondi piatti, zucchini carpaccio:

dolci (ok þeir voru reyndar „bara“ keyptir í nærliggjandi ítölsku deli:

og kokkurinn, ber inn primo piatto 1. Og áhugasöm Tiger á stól:

Afsakið matarklámið en það var bara ekki annað hægt!!!

Settumst síðan út á pall og spjölluðum góða stund, ég hef talsverðan áhuga á að koma Glenn í samband við fólk heima, bæði í vísindasamfélaginu og tónsmíðadittó. Sjáum til!

BNA – Rochester day #6

Tók smá frameftir degi til að jafna mig á magapest en sem betur fer tók það ekki langan tíma. Kelly þurfti að skjótast í læknisheimsókn og kippti með gatorade og magaróandi handa mér (Jón var orðinn fínn sem betur fór).

Meiri fuglaskoðun, nóg af slíkum svæðum í þægilegri fjarlægð, 20 mín fjarlægð frá heimilinu í þetta skiptið. Þessi gaur varð á veginum:

Keisarafiðrildislirfa, þessi fiðrildi ferðast frá Mexíkó til Norður-Ameríku til að verpa, lirfurnar púpa sig og þegar fiðrildin koma út fljúga þau aftur suður.

Nýir fuglar á listann, 7 tegundir sveimérþá.

Heim og slaka enn og aftur á pallinum. Kettirnir fengu smá harðfisksmakk, þau voru svolítið hikandi og vissu ekkert hvernig þau ættu að fara að því að éta þetta en það kom nú allt til!

svo var til tími kominn til að detta í Hákarlavikuna (sem var reyndar vikuna á undan en þar sem Brian og Kelly voru þá viku í bústaðnum sem við fengum að heimsækja í upphafi ferðar – og reyndar geymdu þau svolítið hátíðahöldin þar til við værum komin. Shark Week er svona næsti bær við þakkargjörð og jólin hjá gestgjöfunum. Hápunktur matur með krabba, kúskel, risarækjum og alls konar tilheyrandi, til dæmis hákarlabjór, allir aukahlutir voru hákarlaeitthvað líka:

Maturinn var alveg fáránlega góður. Ég er ekkert eitthvað að fara yfirum af hrifningu yfir humar í skel, leturhumarinn okkar er eiginlega mikið betri en krabbaskeljarnar og kúfiskurinn var alveg að gera sig, með glænýjum maís og aspas beint af akrinum og nógu af bræddu smjöri. Hér hellir Brian smjöri yfir kúfiskinn:

og hér er veisluborðið. Án hákarlabjórs.

og hákarlabjór. Ásamt kampavíninu mínu, við splæstum í flösku, ég endaði á að drekka eiginlega bara kampavín og Jón Lárus dró mig í land með bjórinn:

Eftir mat og slattans frágang uppgötvuðu Brian og Kelly að Jón Lárus hefði aldrei séð Jaws og það var ekkert um annað að ræða en að bjarga því við! Með reyndar hákarlahattasjálfu:

Jaws sveik ekki. Fyrst hákarlanammi samt:

Orðlur og sofa.

BNA – Rochester day #5

Ekki mikið prógramm planað þennan dag, og þó. Besta vinkona Hildu frænku býr í Rochester og við höfðum mælt okkur mót. Hún er virtur fiðluleikari og strengjakennari, Pia Liptak og maðurinn hennar, David Liptak var prófessor í tónsmíðum við Eastman tónlistarháskólann sem Hilda og Pia lærðu við. Þau höfðu valið kaffihús í miðbæ Rochester til hittings klukkan hálfellefu. Brian kom með, hefur vitað af þeim hjónum lengi en ekki þekkt, þó hann hafi unnið lauslega með Piu einu sinni. Þvílíkt skemmtilegt fólk og frábært að geta tengt saman svona gengi, Brian og Pia gætu vel hugsað sér að vinna meira saman og Brian líka mögulega að flytja verk eftir David eða jafnvel panta af honum verk fyrir kórana sína. Ég lofaði líka að senda Piu verk fyrir strengjasveitina hennar.

Klikkaði algerlega á að taka mynd af þeim, hvílíktogannaðeins!

Höfðum síðan mælt okkur mót við Kelly fyrir hádegismat í brugghúsi (en ekki hvað?) í miðborginni. Vorum komin þangað aðeins fyrr og gengum smá rúnt hjá mjög skemmtilegu svæði með háum fossi, ekki smá flott að hafa foss í miðri borg!

Svæðið er nýuppgert og orðið mjög skemmtilegt, var víst frekar niðurnítt þar til fyrir örfáum árum. Þarna niðri eru haldnir tónleikar og fossinn lýstur upp með alls konar litum í myrkri. Hefði verið gaman að sjá, kannski næst bara (sko það er búið að telja upp allavega 118 hluti til að gera næst þegar við komum, mætti halda að við séum aufúsugestir)!

Kelly mætt, við inn í pöbb gröbbið sem reyndist ansi hreint ágætt. Fyrir nokkrum árum gerði Sómi eina af þríhyrningasamlokunum sínum Reuben, besta slík sem ég hef smakkað frá þeim, mögulega fyrir utan egg-og-beikon samlokuna sem er alltaf til en fólk greip þetta greinilega ekki svo þau hættu með það. Synd.

Pastrami, svissneskur ostur, þúsundeyjasósa (minnir mig) og súrkál. Á marmarabrauði. (ok rye swirl bread). Má notast við þetta skoh.

Kelly heim, við fórum í búðir, fyrst gígantíska vínbúð þar sem var splæst í litla flösku af marsala fyrir eldamennsku kvöldsins og smá freyðivín til að drekka með og síðan enn þá risastærri súpermarkað með öllu sem hugurinn girnist og fleiru sem hugurinn hafði ekki látið sér detta í hug.

Við ætluðum sko að elda fyrir þau andabringur um kvöldið. Minnsta sem við gætum gert fyrir þau.

32° úti á palli, hefði verið ólíft í sólinni en annar pallurinn þeirra er yfirbyggður. Frekar mikið næs. Þessi hitamælir er kallaður Galileo og er massaflottur:

ég í slökun og útsýnið. Þarna á grindverkinu hlaupa iðulega íkornar:

Ekki alveg jafnskemmtilegt var svo að Jón fékk einhverja magapest, rétt náði að borða og hrundi svo í bólið. Við hin horfðum á Sorted Food á jútjúb í góða stund fyrir háttinn. Í skrifandi stund (fös morgunn) er Jón orðinn betri en ég er skrítin í maganum. Kelly keypti handa okkur gatorade og einhverjar magatöflur og þetta er að virka. Sem betur fer eru svona magapestir yfirleitt fljótar sinn gang og vill til að þetta er ekki bara helgarferð. Hefði greinilega ekki átt að grínast með Montezuma’s Revenge í færslu gærdaxins!

BNA – Finger Lakes day #4

Hefðum getað hugsað okkur rólegan dag eftir langa daginn áður en planið var að heimsækja Finger Lakes (ellefu löng og mjó vötn aðeins suður og austur af Rochester) og af ýmsum ástæðum var þessi dagur sá sem best hentaði svo við rifum okkur aftur upp snemma, pökkuðum nesti og renndum af stað um hálfníuleytið. Fyrsta stopp var stórkostlegt fuglaskoðunarsvæði, Montezuma National Wildlife Refuge (engin tenging við Montezuma’s Revenge sko!)

Vorum í góðan klukkutíma til einn og hálfan á svæðinu og sáum kring um 30 fuglategundir sem við Jón Lárus höfum aldrei séð og allavega einn sem Brian og Kelly höfðu ekki séð heldur (American Bittern). Ótrúlega skemmtilegt allavega fyrir svona fuglanörda eins og okkur.

Hér ferðafélagarnir með aukahluti:

Ég var auðvitað bara með símann svo ég tók engar góðar fuglamyndir, einn ljósmyndara sá ég þarna sem var með allavega hálfs metra langa linsu á vélinni sinni! En við sáum hegra og erni og alls konar flotta fugla, stóra sem litla. Þessi stytta var líka flott:

Nesti, aðallega afgangar frá bandarísku skammtastærðum dagsins áður (ég náði hvorki að klára hádegismatinn né kvöldmatinn og fékk afgangana með mér, Jón líka frá hádegismatnum), lagði grunn að næstu verkefnum. Vín- og bjórsmökkunum dagsins.

Fórum í tvö víngerðarhús, hið fyrra aðallega með hvít, rósa og freyðivín, mjög flottur staður og þokkalegustu vín:

Seinni staðurinn leit ekki vel út að utan, frekar svona ekki tilbúið en útlit segir jú ekki allt. Inni var ótrúlega flott, vínin talsvert meira spennandi og mjög skemmtileg kona sem sá um smakkið, á hinum staðnum fengum við bara röðina og enginn var að kynna neitt fyrir okkur.

Splæstum þarna í eina freyðivín til að taka með (alla leið) heim og aðra til að vera með í rólegheitunum hjá Kelly og Brian.

Lokaheimsóknin var í bjórbrugghús, bestu bjórar sem við höfum fengið í ferðinni og allavega 2-3 eru með betri bjórum sem við höfum nokkurn tímann smakkað.

Heim í hús. Það er fyndið að lesa öll bæjarnöfnin hér, beint frá Evrópu, Feneyjar, Aþena, Hamborg, Liverpool, allt hér og okkar dásamlegu gestgjafar búa í Grikklandi. Hef hvergi séð Reykjavík, skil þetta ekki alveg!

Heimagerð pizza og afslöppun, það var Hákarlavika, Shark Week hér í síðustu viku og Brian og Kelly halda mikið upp á hana. Horft á hákarlavídeó fram eftir kvöldi þar til við hrundum út.

BNA – Niagara Falls-Buffalo day #3

Fyrsti heili dagurinn í öppsteit NY skyldi tekinn með trukki. Eitt af því sem var fastákveðið í ferðinni var að fara að sjá Niagarafossana, nokkuð sem bæði mig og sérstaklega Jón Lárus hafði dreymt um lengi. Og miðað við spána fyrir vikuna leit best út með veður þennan dag.

Svo við skyldum bruna þangað uppeftir. Um tveggja tíma akstur. Kipptum með okkur vatni, samlokum og kaffi á lókal morgunmatarstað.

Bráðfallegt landslag á leið uppeftir, það sem hægt var að sjá frá hraðbrautinni þeas.

Skemmst frá því að segja að Niagarafossarnir eru magnað fyrirbæri, eins og fólk svo sem veit fullvel! Fórum í bátstúr sem heitir Maid of the Mist, rafbátur sem tekur á að giska hundrað farþega, farið niður um sirka eina Hallgrímskirkju í lyftu í þessum turni:

allir fengu bláan regnstakk því þarna yrði sko úði!

Fundum okkur pláss við borðstokkinn og siglt af stað.

og svo Kanada þarna hinu megin – fólkið í bátunum þeim megin frá voru í rauðum regnstökkum væntanlega að hluta til til þess að bátarnir gætu ekkert auðveldlega lent í vitlausu landi.

Fórum ekki yfir, gestgjafar okkar sögðu að það gæti alveg verið vesen að komast aftur til baka, fólk sé að lenda í spurningaflóði og allskonar. Ekki þess virði fyrir skottúr yfir landamærin. Heimsækjum Kanada síðar.

Þessi fossaheimsókn hefði farið langt með að duga sem ástæða fyrir allri ferðinni!

En við vorum nú ekki hætt þann daginn. Stefnt á Buffalo, hádegismatur og kíktum á miðbæinn þar, slatti af flottum byggingum, meðal annars tónleikahúsið sem við reyndar gátum bara skoðað að utan því sinfónían var komin í frí.

Eitt smá bjórsmakk:

Annar hápunktur dagsins var svo skoðunarferð í frægt hús eftir Frank Lloyd Wright, The Martin House. Mjög skemmtileg og fróðleg ferð og húsið var algjört æði. Tja eða húsin, það voru þrjú hús, eitt aðalhús, eitt hús byggt fyrir systur auðmannsins Darwin D. Martin sem pantaði húsið af Wright.

Gluggarnir og hurðirnar eru æði!

Var reyndar frekar glatað að mega ekki taka myndir inni en svoleiðis var það bara. Þarna var margt mjög flott en ýmislegt skrítið, til dæmis hannaði hann rúmið í aðal svefnherberginu þannig að það var allt of stutt og þegar Martin skrifaði honum til að spyrja hvers vegna svaraði hann engu og þau gátu ekkert notað svefnherbergið. Það er reyndar alveg nóg af herbergjum svo það var hægt að nýta annað en samt eiginlega mjög spes.

Allavega, næsta stopp hjá elsta trénu í Buffaló aðeins 304 ára eða svo!

Það er svo ekkert hægt að fara til Buffaló án þess að fá sér vængi! Mæltum okkur mót við mömmu og pabba Brians við einn af betri vængjastöðum bæjarins, ekki þann sem „fann upp“ sterku vængina en allavega jafngóðan. Ég lagði í að fá mér hot, það reyndist feikinóg, samt var til extra hot og suicidal! Borðaði 6 vængi af 10 og hefði reyndar getað haldið áfram en var bara orðin södd. (fengum okkur forrétt líka sko). Mínir og Jóns – líta eins út en mínir voru hakinu sterkari.

og við – sést hver er með þá sterku!

Bjórarnir komu flottir, ég hef bara séð svona á kaffi, ekki bjór!

Bjórbúð ein ágæt heimsótt til að taka með heim (bæði heim í hús og svo sumt heim til Íslands:

Gersamlega búin á því eftir ótrúlegan dag, komum heim, ekki fræðilegur að ég orkaði að skrifa blogg dagsins nánast beint í ból!


bland í poka

teljari

  • 380.711 heimsóknir

dagatal

maí 2024
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa