Suzukikennaraferð til Belfast lá a ceathair

Lokadagurinn. Byrjuðum (eftir venjulegt upphaf, morgunmatur og sturta, jaddajadda) á því að hittast klukkan níu í anddyrinu og veiða leigubíla til að fara í Titanic safnið, þar sem við áttum pantað klukkan 9:50. Gekk að óskum, komumst í tvo bíla því Sarah víólukennari ákvað að ganga frekar.

Safnið. Alveg brilljant. Þess virði að kíkja til Belfast þó ekki sé nema til að skoða það.

Þau ykkar sem nota Vinnustund eða aðrar tímaskráningar, mögulega stimpilklukkur, hér er forverinn:

Margir verkamannanna sem byggðu skipið komu frá fátækum heimilum þar sem var ekkert rafmagn, þorðu ekki að stíga inn í lyftuna og þá var eina leiðin að klifra upp þetta:

Fólkið vann í þvílíkum hávaða þarna, allan daginn, alla daga, fengu einnar viku sumarfrí og tvo daga um jól og páska. Takk verkalýðsfélög! væri ekki fyrir þau væri vinnutími svona ennþá.

Lúxusinn um borð var auðvitað töluverður, það er að segja fyrir fyrsta og að hluta til annars farrýmis farþega. Tók slatta af myndum en fer nú ekkert að birta mikið af þeim hér, þetta er jú þekkt saga og mikið verið fjallað um hana. Hér er samt matseðill lokakvöldsins á fyrsta farrými.

Sagan átakanleg og margt spilaði inn í að svo fór sem fór. Hér eru lokaskilaboð:

Eftir þetta var hert mjög á öllum alþjóðlegum öryggisreglum til sjós og margar þeirra reglna eru enn í gildi.

Gríðarlega áhrifarík og flott sýning.

Svipað og í gær er eitthvað hálf ankannalegt að skrifa um eitthvað venjulegt, eftir að hafa orðið fyrir svona miklum áhrifum. En ætla nú að gera það samt.

Komum út af safninu, höfðum týnt hinum og fannst við hafa tekið bara mjög góðan tíma og ekkert verið að flýta okkur í gegn. Hinkruðum í dágóða stund að okkur fannst en hugsuðum svo að þau hin hefðu væntanlega bara komið á undan okkur út, haldið að við værum farin því við vorum búin að segjast verða örugglega fljótari út, ég er ekkert sérlega mikil safnamanneskja almennt og er yfirleitt frekar fljót gegn um sýningar. Sendi sms á Mary, hún sá þau ekki, svo við bara veiddum bíl og fórum niður í bæ. Fengum okkur ansi hreint góðan borgara á Five Guys nema Jón Lárus var alveg gapandi á stærðinni á máltíðinni, risastór borgari, (sjálfgefið tvöfaldur en það kom hreint ekki fram á skiltinu þar sem við pöntuðum), við gátum hvorugt klárað okkar og þó við hefðum bara keypt einn skammt af frönskum fór örugglega helmingurinn af þeim í ruslið. Þvuh matarsóun! En góðir voru þeir!

Sms frá Mary þegar við vorum að byrja að borða. Þá voru þau að koma út af sýningunni…

Reyndar var svo allt í lagi að við fórum bara því þau hin settust inn á kaffihúsið á sýningarstað, nokkuð sem við Jón Lárus höfðum verið alveg sammála um að okkur langaði ekkert til að gera. Frekar á bandarísku keðjuna. Þarna vorum við búin að borða tvisvar írskan pöbbamat, einu sinni ítalskt, einu sinni portúgalskt og núna erkiKanamat. Allt fínt. Og einu sinni ógurlega óspennandi alþjóðlegan ekkertsérstaktborgara.

Göngutúr í grasagarð svæðisins þegar við vorum búin að borða. Það var líka gaman. Held að grasagarðurinn hafi verið eini staðurinn og tíminn í ferðinni þar sem við bæði hjónin opnuðum fyrir gagnareiki á símunum okkar í einu – ég til að nota plöntuappið og hann fuglaappið. Nördar, við? naaahhhh.

Stærsti rabarbari sem við höfum séð:

Pant þetta tré (ókei runna) í garðinn minn:

og þessi skjór var ekki feiminn:

Vorum semí rekin út úr hitabeltishúsinu því það voru að byrja tónleikar á svæðinu og garðinum lokað en ég náði að smella nokkrum myndum samt. Þessi uppáhalds:

Háskólabygging á leið heim á hótel

og þetta graff líka

Slökun fram að kvöldmat, kíktum aðeins upp í Observatory, 23. hæðina í einn kokkteil:

Kvöldmatur með genginu. Það hafði verið pantað fyrir okkur á Þyrstu geitinni, meiri írskan pöbbamat. Reyndar þegar við komum á staðinn kannaðist enginn við neina pöntun en þau gátu nú samt holað okkur niður (nokkuð sem við skildum samt ekki almennilega því það var alveg fullt af lausum borðum á pöbbnum og var það allan tímann sem við vorum þarna).

Hafði vit á að panta mér bara forrétt, það er greinilega nánast eins þarna og í BNA, stórir skammtar. Furðulegustu Buffalovængir sem ég hef smakkað, sósan á þeim var eins og pastasósa, alls ekki neitt lík neinum svona vængjum sem ég hef fengið. Buffalobúar fengju örugglega aðsvif! Þetta var ekkert vont, bara skrítið. Jón fékk sér brisket samloku sem átti að vera á rósmarínfocacciabrauði en það leit grunsamlega mikið út eins og hamborgarabrauð með smá lauk ofan á og það var ekkert rósmarínbragð. Ég „hjálpaði“ honum svo smá með frönskurnar, sem voru fínar. Gráðostasósan mín sem passaði engan veginn með vængjunum var alveg pottþétt með frönskunum, mjög góð reyndar.

Jón fór og ætlaði að borga fyrir okkur. En nei. We don’t split the bill. Ókeiiii, hann borgaði þá fyrir okkur öll níu, ég þarf síðan að rukka liðið þegar við komum heim. Fólkið ætlaði að fara að rétta okkur einhverja pundseðla en það var ekkert sniðugt, við áttum feikinóg af slíkum til að nota fram á næsta dag, jafnvel til að kaupa eitthvað í flugstöðinni (sem notar meira að segja evrur, ekki pund). Það kostar síðan að skipta og við vorum ekki til í að taka það á okkur, alveg nóg að þurfa að leggja út fyrir þessu.

Hótelið og við fórum í annað skiptið þennan dag upp í Observatory, nú með öllu genginu til að skála fyrir vel heppnaðri ferð.

Niður, pakkað í tösku, náttföt og blogg og svo ból. Vaknað 6:15 í fyrramálið til að koma okkur í flug. Ferðabloggi lokið að sinni.

0 Responses to “Suzukikennaraferð til Belfast lá a ceathair”



  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd




bland í poka

teljari

  • 381.377 heimsóknir

dagatal

maí 2024
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa