Archive for the 'vín' Category

haldið þið svo ekki

að ég hafi barasta unnið fyrsta vínpott vetrarins í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar? Gæti lagað stöðuna á rekkanum, sjá lýsinguna hérna.

óttalega

er hann nú kreppulegur vínrekkinn núna:

úff, hvað

vínin eru fáránlega dýr þarna á Reef N’Beef. 12 þúsund kall fyrir non-vintage Taittinger kampavín, 46 þúsund fyrir Run Rig frá Torbreck (kostaði um 13.000 kall út úr Ríkinu hér heima síðast þegar ég vissi) og annað eftir þessu. Ósköp venjuleg vín eins og Brown Brothers Everton (1.300 kall í ÁTVR) kostar 6.700.

Maturinn er ekkert svakalega dýr, til þess að gera, en mér sýnist við munum drekka bjór – eða vera með rauðvínið okkar í vasapela!

ég dáist að

þjónum sem aldrei virðast lenda á erfiðum töppum þegar þeir opna vínið fyrir framan mann.

Lenti á tveimur erfiðum í dag, annar var svo stífur að ég hreinlega var ekki nægilega sterk til að ná honum og hinn seinni slitnaði í tvennt. Væri þokkalega vandræðalegt að lenda í öðru hvoru fyrir framan borðið sem pantaði vínið.

Væntanlega þýðir þetta aðallega vankunnáttu mína. Og þó…

jippí

vann í vínklúbbnum í fyrsta sinn í nær 2 ár (ef ég man rétt).

Burðast heim úr Hafnarfirði með fullan kassa af vínflöskum, vonandi er nú liðið búið að skila…

vínsmakk

fórum í skemmtilegt en laaaaaangt vínsmakk í gærkvöldi, austurrískur vínbóndi kom hér og hélt kynningu, heil 15 vín smökkuð, skoðaðar hugmyndir að miðum og spáð og spöklérað hvaða vín ættu nú helst heima hér á landi, hvað myndi seljast og hvað ekki. Byrjaði klukkan 8 í gærkvöldi (eftir langa kennsludaginn minn, úff) og var nærri til miðnættis.

Ég var svo búin á því að ég hafði ekki orku í að hafa skoðun á síðustu tveimur rauðvínunum.

Spennandi svo að sjá hvað kemur út úr þessum pælingum hjá okkur, bóndinn var allavega sáttur…

violetas

uppáhalds vínið okkar var að detta út í ríkinu. Muuuu! Sem betur fer er hægt að sérpanta vörur frá birgjum, ég var að enda við að hringja og panta 6 flöskur. Hvet vínfólk þarna úti til að gera slíkt hið sama, það virkilega er þess virði að þetta vín fáist hér áfram.

violetas

Hér er einn dómur um það.

verið að prófa

Kay Brothers Shiraz.

Djúp kirsuber þarna, dökkt dökkt bragð. Hrikalega gott vín. Ekki ódýrt, reyndar, en hverrar krónu virði. Nammi.

Vel þess virði að skála í fyrir nýjum samningi. Og reyndar tveimur nýjum pöntunum á verkum, bárust mér í gær.

svo duttum við

með litlum fyrirvara inn á vínsmakk hjá honum Adda, aðallega chablisvín sem hann er að spá í að flytja inn. Verulega góð, mörg hver, gæti bara vel trúað að eitthvað af þeim yrðu fastagestir hér í rekkum.

fyrir okkur vínnördana

og örugglega ykkur hin líka er þetta alveg skelfilega fyndið.

Fundið hjá Víni og mat.

sumar

og notað til hins ýtrasta. Nema við skutumst í vínsmakk hjá honum Arnari, maður hálfsá eftir tveimur tímum innandyra, en drifum okkur samt, vorum búin að bóka okkur (og borga). Smökkuð var lína frá Castello di Querceto, mörg mjög fín vín. Sjálfur kastalaherrann/vínbóndinn var mættur á svæðið og talaði ensku með ekta ítölskum bíómyndahreim, eins og manni finnst ýktur. Skemmtilegur karl og mjög fróðlegt smakk.

var búin að hugsa

hmm klikkaði á því að spyrja hann litlabróður (já, hann er á moggabloggi, sorglegt en satt), að því hvernig stæði á því að á venjulegu fimmtudagskvöldi væru þau að drekka svona fínt kampavín.

Að manni dytti í hug að líklegast væri það frekar þetta

við, vínsnobbarar, neeeeiiii!?

nammi

Lehmann Wild Card Shiraz og bræddi paprikuosturinn frá MS er fáránlega góð samsetning. Það kemur jarðarberjabragð af víninu. Ekki slæmt.

Þetta er alls ekki dæmigert shiraz, reyndar. En gott. Peter Lehmann bara klikkar ekki.

nýtt uppáhald

vorum ekki með smá hrikalega góðan mat í kvöld. Kannski boðar ekki nægilega gott að fagna frumflutningi fyrirfram, en ég er nú nokkuð viss um að þetta lukkast bærilega (og ef ekki, má bara endurtaka, verkið ekki langt og tónleikarnir óformlegir).

Allavega, áttum tvær andabringur í frysti, tókum út í gær og þíddum í ísskáp. Fórum í landsliðsréttabók Hagkaupa og ætluðum að búa til rétt þaðan, uppgötvuðum að í sósuna áttum við ekki fersk eða frosin kirsuber, bara niðursoðin í eigin legi, ekki púrtvín, bara sérrí, ekki andakraft, bara kjúklingakraft og ekki hindberjaedik. Sykur var reyndar til.

Þannig að við fórum eftir uppskriftinni hvernig ætti að steikja bringurnar (5 mínútur á góðum hita á fituhliðinni, 1 1/2 mínútu hinum megin, og bara salt og pipar). Sósan var impróvíseruð. Safinn af kirsuberjunum (þetta var ekki svona kirsebærsauce heldur dessertkirsebær í eigin safa), 2 msk púðursykur, 1 msk sérrí, 1 msk kjúklingakraftur, sleppti alveg edikinu en saltaði aðeins. Soðið niður í góða stund áður en berjunum sjálfum var bætt saman við. Setti síðan reyndar öööörlítið af sósujafnara, hún má alls ekki vera þykk en heldur kannski ekki alveg eins og vatn. Í hæsta lagi hálf matskeið.

Með þessu vorum við með lambasalat með kirsuberjatómötum og smá balsamediki (sleppi líklega tómötunum næst og set mögulega melónubita eða álíka í salatið, sýran var ekki alveg að gera sig) og smjörsteiktar kartöfluskífur.

Vínið með var þetta. Álíka sælgæti og rest.

Ef einhver er farinn að slefa, fría ég mig ábyrgð…

vínsmakk

hingað komu nokkrir eðalbloggarar í gærkvöldi í vínsmakk, Kalli, Fríða og Hugskot. Spænskt þema, prófuðum einar 5 tegundir spænskra vína, frá frábæru bleiku Cava, Castillo Perelada (sem Kalli kom með), yfir spænskt gewurstraminer hvítvín frá Vinas del Vero og síðan þrjár rauðar, Santa Cruz de Artazu frá Adda, Viña Ardanza frá La Rioja Alta (mjög svipað góðar, Santa Cruzinn féll eiginlega enn betur í kramið en Altan) og enduðum á Tinto Pesquera, reserva. Þvílíkt nammi. Enduðum síðan á púrtvíni, sem Kalli kom líka með, Taylor’s árgangspúrti frá 1999

Og svo úrval af ostum og súkkulaði með. Félagsskapurinn æði, enda var þetta snilldarkvöld. Takk, folks!

ahh

spileríið tókst mjög vel hjá unglingnum í gær, það þarf nú bara svolítið til að geta staðið ein uppi á sviði og spilað og spilað, um 3 kortér af skölum, tvígripum, æfingu og svo lögin, kafli úr Bachsvítu, konsertkafli eftir Haydn, nýja lagið mitt (tvisvar) og pólskur dans. Glæsilegt hjá henni.

Veit hún getur ekki beðið eftir að klára prófið á þriðjudaginn, vorprófin í skólanum og það allt verður ekkert mál eftir þetta.

Svo aðalfundurinn, ósköp rólegur og tíðindalítill fundur, maturinn og vínið síðan í sérflokki. Bambasteik með trufflusósu var hættulega gott og súkkulaði créme bruléeið tóm sæla. Nokkur fín vín frá honum Adda líka.

Heim um þrjúleytið í nótt, minns pínu syfjaður núna. Og lööööng æfing á eftir…

ahhbú

seinniparturinn + eftirpartí, fínt bara. Þetta var mjög skemmtilegt, gaman að vinna með Óperukórnum og Garðari (þrátt fyrir smá teygingu á æfingum).

en bjórinn og rauðvínið í partíinu á eftir – hmmm. Bjórinn ekki spennandi og rauðvínið lítt skárra. Mun síðra en þriðjudagsvínið sem við hættum við að sulla í okkur á föstudaginn. Pizzurnar ágætar samt. Flúðum heim og fengum okkur sitthvorn Chimayinn fyrir svefninn.

ammli

frábær dagur, byrjaði með vakningu með afmælisgjöf, þá afmælismorgunkaffi hjá vinkonu minni, heim og undirbúa kennslu, þá kenna (gaf sjálfri mér í afmælisgjöf að einn bekkurinn færi (ásamt mér, reyndar) inn í sal skólans að hlusta á tónfund), búin hálfátta. Heim aftur. Búið að elda handa okkur býkúpu Bolognese (alvöru bolognesesósu, ekkert venjulegt hakkogspakettí, þó það sé gott er það ekkert nálægt þessari himnesku sósu sem Bolognabúar kalla sína), 11 ára gamalt Amarone með. Konfekt og Tokaji í desert, verður þetta betra?

Lítur út fyrir

lúxus hjá okkur bæði á morgun og hinn daginn. Ammlið mitt á morgun og Jón Lárus (sem n.b. er líka kominn með nýja wordpress síðu) ætlar að elda handa mér tagliatelle bolognese svona eins og þeir gera í Bologna. Konfekt og Tokaji í eftirrétt, þætti mér ekki ólíklegt.

Svo er hann sælkeri vikunnar í Mogga á föstudaginn og á að elda þrenns konar góðgæti á fimmtudaginn. Lýsum því ekkert nánar fyrr en eftir á, en fimmtudagskvöldið verður sem sagt enn flottara.

Spurning um bein, ruður og fernisolíu um helgina?

Vínsmakk


Vínsmakk
Originally uploaded by hildigunnur.

Við hjónin urðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að starta vínsmakkblogghala. Hann Arnar hjá Vínum og mat gaf okkur þessa líka fínu vínflösku og bað okkur að smakka, gefa smá umfjöllun á síðunni og skora síðan á annan bloggara.

Mjög skemmtilegt verkefni og við settumst á fimmtudagskvöldið með The Footbolt Shiraz frá d’Arenberg. Við höfum reyndar smakkað þetta vín áður, og eigum gjarnan flösku af því til að grípa til, en höfðum ekki lagst í alvöru smakk á því áður.

Þegar við tókum flöskuna upp var hún reyndar fullheit, byrjuðum að smakka við um 21°. Kældum hana síðan örlítið niður, enduðum í um 19°, þar fékk vínið betur að njóta sín, var mun ferskara. Ilmurinn er mjög mildur og fínn, minnir á dökk skógarber, sérstaklega brómber.

Fyrsta bragð leiddi í ljós meiri skógarber, lakkrís og dökkt súkkulaði. Eftirbragðið er ekki sérlega langt en mjög gott. Þegar áfram var haldið í flöskunni fannst örlítil tjara og jafnvel smá brennisteinn (svona eins og þegar maður er nýbúinn að slökkva á eldspýtu). Jón fann ekki brennisteininn en hann fann hins vegar ristaðar möndlur, kannski sama bragð sem við erum að finna á svona mismunandi hátt.

Vínið þoldi vel tvenns konar ost sem við vorum með, parmaost og spænskan geitaost.

Við drukkum síðan aðra flösku af sama víni í matarboði í gærkvöldi og getum vottað að það fer afskaplega vel með lambakjöti með steinselju- og laukfyllingu 🙂

Ég skora á hana Lindu blindu sem næsta hlekk í halanum.


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa