Archive for the 'veðrið' Category

ófærðin

Ég er búin að vera kvartandi og kveinandi yfir hryggjunum hér á Njálsgötunni. Svo keyrðum við Leifsgötu áðan og ég er steinhætt að kvarta! Úff hvað ég vildi ekki þurfa að keyra, hjóla né ganga þar þessa dagana.

Það er samt alveg kvartandi smá, hér í miðbænum hefur nefnilega alls ekkert verið rutt, hvorki götur, gangstéttir né aðrir stígar að ég fái séð. Lífshættulegir klakabunkar á þeim gangstéttum sem ekki er hiti í (veeerulega ánægð með að hafa splæst í hita fyrir utan hjá okkur þó það hafi verið sárt í veskinu hérna fyrir 6-7 árum). Enda flaug ég á hausinn um daginn.

Samt ótrúlega fyndið að heyra viðtöl í útvarpinu þá morgna sem snjónum kyngdi sem mest niður. Fólk (fréttamenn ekki síst) alveg brjálað yfir að það skuli ekki vera allt orðið hreint sama morgun…

eruðið að grínast

með snjó í Reykjavík (jájá ég veit það kemur oft svona snjór fyrir norðan og vestan…)

Þetta er svolítið flott, en bíllinn minn er fastur í uppsveitum Kópavogs og ég hef ekki hugmynd um hvenær ég fæ hann til baka. Vill til að það er ekki bráðnauðsynlegt að nota hann í bili.

pöntun en sumarfrí

jamm, datt inn pöntun í síðustu viku, frekar stór, lofaði að byrja að kíkja á hana strax í þessari viku.

Svo kom gott veður…

Allavega er ég lítið búin að gera í vikunni nema vera í sumarfríi. Reyndar alveg kominn tími á slíkt. Hrundi samt í mig byrjun á verkinu í baðinu áðan þannig að ég opnaði Finale og er komin með fyrstu taktana. Þurfti svo að lofa sjálfri mér að láta kjurt á meðan veðrið helst. Tími ekki að sitja inni svona úr því ég ræð þessu smá.

Hef alltaf skilað á tíma hingað til (bankbankbank) og ætla ekki að byrja að hafa áhyggjur af því í þetta sinn.

Á móti er ég með sólarexem og smá brunablett á annarri öxlinni. Þess virði.

sumarkvöldin

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, þó veðrið sé nú ekki glanslegt ennþá stendur það örugglega til bóta. Og það fljótlega.

Það eru nefnilega mörg ár síðan við gátum sungið með réttu vísuna góðu sem endar: Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur.

Kveðjur úr pestarbælinu sem er þó pínu minna slíkt en í gær – ekki að vita nema mér takist að rísa upp og halda afmælisveislurnar sem til standa á morgun.

krókn

veðrið gabbaði mig bæði í gær og í dag, fór út á (reyndar lopa)peysunni og var auðvitað skítkalt í bæði skiptin. Læra af reynslunni, hvað er það?

Krókusarnir mínir liggja á hliðinni en það má nú vonast til að þeir rétti sig við. Svo hlýna vinsamlegast, svo páskaliljurnar verði útsprungnar þarna eftir rúma viku. Sýnist þær vera í biðstöðu eins og er.

Vor, takk…

hver pantaði

eiginlega þennan snjó? Ekki ég allavega. Botninn datt úr kuldaskónum hennar Freyju í skíðaferðalaginu á Dalvík um daginn (já bókstaflega – sólinn á öðrum skónum datt af. Arfaslöpp ending, keyptir í haust) Hentum þeim í gáminn við bústaðinn sem við fórum í þá helgina, veiddum Freyju úr rútunni í Borgarnesi. Vildi til að Finnur hafði tekið með sér sandala til að nota sem inniskó og Freyja komst í kuldaskóna hans til að vera í á leiðinni heim.

Ætlaði að reyna að sleppa við að kaupa nýja kuldaskó þar til í haust, ég er ekki alveg viss um að það gangi, ef veðurspáin helst…

bíddubíddu

hvurslags október er þetta eiginlega? Maður bara úti hálfan daginn berfættur í sandölum og þunnri peysu.

Sá upp að 15 gráðum á mæli í dag, flestir voru svona 13-14°. Hér fyrir nokkrum árum hefði maður þakkað fyrir svona dag í júlí!

sveimérþá

vetur úti.

Og MH-Kvennódagurinn í dag, krakkarnir í keppnum og leikjum í Hljómskálagarðinum ekki mest spennandi.

Bóndinn ætlaði að hlaupa 10 km í einhverju sponsorahlaupi í kvöld, ekki held ég það sé spennandi. Unglingurinn með nýja bílprófið var að væla um að fá bílinn, gæti verið að við látum það eftir henni, svona ef hún nennir að keyra og sækja mömmu sína fram og til baka í Alpana.

Hlakka annars til í kvöld…

í morgun

verð ég að viðurkenna að ég var frekar glöð með að hafa afsökun fyrir að mæta á bílnum í Listaháskólann. Ekki að ég fái svo sem stæði mikið nær en heima hjá mér reyndar…

En unglingur #1 er í Ungsveit Sinfóníunnar og ég lofaði að koma og sækja hana á æfingu klukkan 5 í Háskólabíó og keyra inn í Langholtskirkju á æfingu þar, byrjar líka klukkan 5.

Reyndar verður Fífa í þrígang með Sinfóníunni í vetur, fyrst núna ungsveitin, þá syngur Gradualekórinn á jólatónleikunum í ár og síðast en ekki síst Hamrahlíðarkórarnir með ef ég man rétt Pelleas og Melisande eftir jól. Frábært fyrir þessa krakka!

fúlt

að þurfa að fara að klæðast sokkum aftur. Búin að sjá marga ákalla eina hitabylgju til á andritinu/smettinu/fb – verst að trúa ekkert á síkrit, þá myndi maður vera kominn á fullt að síkrita meira sumar.

rrrok

hvað er með rokið núna? Rest af þessum fellibyl? Ég sem var að vonast eftir því að hann gæfi okkur svona hitadaga eins og 2004…

mikið á hann Gósi gott

að gifta sig í þessu…

Tæpast hægt að hugsa sér yndislegra veður að gifta sig, og það í Garðakirkju. Verulega fallegt brúðkaup, til hamingju bæði tvö, Gósi og Katrín.

ósköp

kann maður vel við að það sé svona hlýtt úti. Sumarið búið að vera óhemju kalt sem af er, örfáir góðir dagar í maí en hér á suðvesturlandi annars kalt, kalt og kalt. Glatað. Loksins núna sem er hægt að vera berfættur í skónum…

(og já, ég er í alvöru svona hugmyndasnauð, dettur ekkert í hug að skrifa um)

Annars hluti úr lagi í dag. Vantar líka skemmtilegan texta við hressilegt lag sem er næsta pöntun. Lýsi hér með eftir tillögum.

Og farin aftur að lesa, er með Eldvegg eftir Henning Mankell, þar er reyndar staðreyndavilla sem pirrar mig alveg herfilega – hef aldrei rekist á svona slæma slíka hjá Mankell!

hvað er með

að akkúrat þegar maður ætli í hjólatúr komi hellirigning? Skil ekkert í þessu…

goooott veeeeður

já, reikna með að flestir hér á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið eftir því. Snilld að fá svona um helgi, maður nánast fyrirgefur rokið í síðastliðinni viku.

Búið að bera á pallinn, önnur umferð á morgun og hann verður tilbúinn í notkun. Verstur fjárinn með útiarnana litlu tvo sem brotnuðu í roki í haust, og Míra hætt (er það ekki annars?)

Fullt fullt af blómum á rifsberjarunnunum, eitthvað heldur minna á sólberjadittó, graslaukurinn tilbúinn til notkunar, örstutt í rabarbarann, steinselja, hvítlaukur og mynta að byrja að gægjast upp.

Sumarið langþráða…

hvað er með rokið?

blómin mín liggja flöt út í garði. Aumingja fallegu hvítasunnuliljurnar eiga örugglega ekki eftir að reisa sig við í ár. Spurning um að tína þær bara og njóta hér inni í vasa í staðinn?

Eru ekki venjulega apríl og maí frekar svona lygnir mánuðir? eða er mig að misminna?

mér leiðist

þetta eilífa rok! Aumingja hvítasunnuliljurnar mínar sem eru að springa út liggja bara flatar á jörðinni.

Lygna, takk. Mætti alveg hlýna svolítið í leiðinni.

vor, vor, vor

fyrsti alvöru vordagurinn, bara út á peysunni, bíllinn sjóðheitur, skilja eftir opna topplúguna, árans að þurfa að vera að kenna.

slagveður

ekki smá veður í dag (hef ekki tölu á hvað ég hef heyrt eða séð frasann: Það haustar snemma þetta vorið, í dag og um helgina). Freyja greyið labbaði í tónfræði, kom eins og hundur af sundi til mín. Komst svo varla í blautu skóna sína eftir tímann. Ég tók ekki annað í mál en að keyra hana í fimleika, þó það sé ekki sérlega langt frá Suzukiskólanum inn í Laugardal. Maður varð hundblautur bara af því að hlaupa út í bíl. Spurði bara strákinn sem var að koma til mín í tíma hvort hann væri nokkuð til í að hinkra nokkrar mínútur, var auðsótt mál.

ekki smá

sem er búið að vera fallegt veður alla páskana. Kalt en fallegt.

Eigið þið mikið súkkulaði eftir?

Svo var ég að spá í hvort Freyja (sælgætisgerðin, ekki dóttirin) hafi eingöngu sett krepputengda málshætti í eggin í ár, yngri krakkarnir fengu sitthvort minnsta Freyjueggið í dymbilviku, annað fékk málsháttinn: Mörgum verður gætnin að gagni, og hitt: Sér kann jafnan hygginn hóf…


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa