Archive for the 'tónsmíðar' Category

Dagur #7. Karlovy Vary

Vaknaði eldsnemma. Allt of snemma. Skrifaði dagbókarfærsluna sem birtist í gær. Sofnaði aftur og svaf til níu. Ekki slæmt.

Framan af degi var ekki mikið frásagnarvert, við Jón settumst bara út á svalir og lásum. Það var um 28° hiti en skýjaslæða, hefði eiginlega ekki getað verið mikið þægilegra. Ég lét alveg vera að fá mér bjór þennan daginn enda tónleikar um kvöldið. Eitthvað smá þurftum við að hoppa út og inn með stólana vegna rigningardropa sem duttu af og til.

Skutumst í hádegismat þegar húsbóndinn kom heim eftir hljómsveitaræfingu. Heimtuðum að fá að borga fyrir alla sem borðuðu, maður er svo borinn á höndum sér hérna að maður reynir að gera það sem maður getur.

Aftur út á pall og setið þar þangað til var kominn tími til að finna sig til fyrir tónleika kvöldsins. Í þetta skipti klikkaði ekki kjóllinn. Smá upphitun og svo keyrt yfir í hina hlíðina í nýuppgert listahús. 

Hina hlíðina já, miðbær Karlovy Vary er árfarvegur og ansi mjór, skógi vaxnar hlíðar báðu megin. Hús Miljos og Hönu er á frábærum stað norðan í hlíðinni beint yfir túristamiðbænum. Örugglega rándýrt svæði.

Tónleikahúsið var mjög fallegt og eins og ég sagði, nýuppgert. Becherovkasnafs er framleiddur í Karlovy Vary og verksmiðjan hafði kostað viðgerðirnar á húsinu sem hafði víst verið í ansi mikilli niðurníðslu.

Æfing fyrir tónleika, svo smá bið, leist ekki á að margir myndu koma, 5 mínútum fyrir byrjun sátu bara 8 í salnum en síðan hópaðist að fólk á síðustu stundu og salurinn var svo til fullur. Lítill salur reyndar, bara um 40-50 manns. Tékkarnir sögðu okkur síðan að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem haldnir voru tónleikar í þessum sal (húsið var semsagt ekki listahús áður en það féll í niðurníðslu heldur einhvers konar frístundahús fyrir börn).

Tónleikarnir gengu ljómandi vel, talsvert betur en á Íslandsdeginum.  Fínar undirtektir, mjög skemmtileg upplifun. Dauðsá eftir að vera að fara heim daginn eftir og missa af síðustu tvennu tónleikunum. Við höfðum ekki tíma til að vera alveg tvær vikur en hefðum alveg getað tekið helgina inn í og farið heim á mánudegi. Athugunarleysi. Síðustu tónleikarnir yrðu í Bayreuth, hinni miklu Wagnerborg, heiður að fá verkið sitt flutt þar í tónleikaröð og ég hef ekki einu sinni komið þangað!
Blóm og fuglsstytta eftirá, sérstaklega viðeigandi þar sem við enduðum á að syngja Lítill fugl eftir Fúsa, gaf Hönu blómin mín svo þau gætu notið. Heimboð hjá slasaða sellistanum, skálað í Plzensku freyðivíni og spjallað fram á nótt – skildum auðvitað lítið þar sem megnið fór fram á tékknesku. Gæti vel hugsað mér að læra málið, eftir 5 ferðir til Tékklands er maður aðeins byrjaður að grípa. Og nei, þetta verður ekki síðasta ferðin!

Annar kaflinn úr Strengjakvartett #1

Auglýsingar

Dagur #3. Tónleikar í Prag

Vöknuðum klukkan 7 en sofnuðum sem betur fer aftur – 5 að íslenskum tíma. Rumskuðum ekki fyrr en klukkan að verða níu og fannst við hafa sofið út. Morgunmatur og svo aðalæfing fyrir tónleikana um kvöldið. Gekk fínt. Hádegismatur, steiktar svínasneiðar og síðan bakaðar í rjómaosta/ostasósu með kúmeni. Afskaplega gott (já þetta blogg fjallar semsagt aðallega um músíkina og matinn í ferðinni, ekki endilega í þeirri röð).

Langur bíltúr til Prag, þarna vorum við 7 plús selló og hin hljóðfærin í bílnum. Fyrst var sellóinu troðið ofan á þær þrjár sem sátu fyrir aftan bílstjórann en síðan tók Martin fyrstifiðluleikari sem sat frammi í við hlið Miljos það og setti fyrir framan sig. Ekki það þægilegasta en við komumst jú öll með tölu til Prag. Þarna varð nú þrengst í bílnum.

Tónleikarnir þennan dag (16. júní, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn) voru partur af stórum Íslandsdegi sem var haldinn í borgarbókasafni Prag. Það reyndist vera rétt hjá hótelinu sem við gistum á í Gradualekórferðinni þremur árum fyrr. 

Jana hafði verið hrædd um að það kæmi enginn á Íslandsdaginn því það var svo góð spá að allir myndu bara fara upp í sveit og enginn nenna að hanga inni í dimmum sal allan daginn. Þar reyndist hún hins vegar ekki sannspá því uppselt var á daginn og stappfullt í salnum. Við hlustuðum á part af fyrirlestri og skildum auðvitað ekki bofs, sáum hins vegar myndasýningu sem Palli stjórnaði, fyrst af húsum og graffitíi í Reykjavík og síðan af ferðaklósettum úti um landið. Fyndið. Flest pínulítil og í laginu eins og A. Það hefur verið heilmikil vinna að hreinlega finna öll þessi klósett. Palli átti heiðurinn af Reykjavíkurmyndunum en Jana hinum.

Þá tók við jarðfræðifyrirlestur um   Ísland en þá gáfumst við nú upp og fórum út, enda skildum við ekkert.  Einn og hálfur tími í tónleikana, sem voru lokapunktur Íslandsdagsins. Við Jón Lárus röltum í bæinn, það var allt of heitt til að vera í sólinni þannig að við fundum útiveitingahús og pöntuðum okkur bjór (Jón þeas, ég vildi ekki drekka neitt áður en ég syngi) og ísrétt (semsagt ég).

Þá var komið að tónleikunum. Afskaplega lítið pláss baksviðs, eitt þröngt herbergi til að skipta um föt. Uppgötvaði að ég hafði ekki pakkað niður tónleikakjólnum, hafði fundið hann til, brotið saman og sett í poka en ekki hafði pokinn ratað í bakpokann. Vildi til að ég var í nýja sumarkjólnum og það varð bara að duga – hefði ég verið í stuttbuxum og bol hefði ég orðið að fara og kaupa mér eitthvað dress. Sem hefði pottþétt verið taaaaaaalsvert dýrara í miðborg Prag en í Plzen. Úff já.

Tónleikarnir voru ógurlega skemmtilegir, verkin hvert öðru áheyrilegri (montin ég, nei nei!) Kannski eitthvað rati á þigrörið, þarf að fá leyfi hjá öllum fyrst. Tékkneska verkið eftir son slasaða sellóleikarans var hreint ekki síst og miðað við að hann er bara 18 ára var það aldeilis magnað. Sönglögin tókust fínt, svona flest allavega. Mjög gaman. Eydís kynnti á tékknesku og maður skildi bara nöfnin á lögunum.

Pöbbamatur og einn bjór og svo keyrt til Karlovy Vary. Vorum ekki komin þangað fyrr en að verða eitt um nóttina, við hrundum beina leið í bólið.

Dagur #2. Plzen-Karlovy Vary

Eftir morgunverðarhlaðborð hjá Jönu vorum við sótt af Miljo og Eydísi. Keyrðum fyrst á gamlar slóðir í Plzen á æfingu þar sem ég fékk að heyra kvartettinn í fyrsta skipti, öðruvísi en sem midi skrá úr tölvunni. Ekki hægt að líkja því saman hvað live flutningur er mikið flottari, ég var bara nokkuð ánægð með árangurinn. Fínir spilarar, hafði ekki nema nokkrar smá athugasemdir fyrir þau. Æfðum líka íslensku lögin sem ég hafði hamast við að útsetja dagana áður en við fórum út Þrjú þjóðlög og þrjú kompóneruð lög, (átti reyndar tvö þeirra útsett fyrir). Hrikalega gaman að fá að syngja með þessum fínu músíköntum.

Miljo bauð upp á hádegismat á stað þar sem matseðillinn var eingöngu á tékknesku – tók smástund að átta sig á því hvað var í boði og samt kom maturinn mér á óvart þegar hann kom. Ekki sem verstur matur, kjúklingasnitsel með frönskum og mjög góðu hrásalati og rifnum gulrótum.

Eftirá átti svo að æfa hin verkin á efnisskránni, eitt tékkneskt og eitt annað íslenskt, óbókvintett eftir Sigurð Sævarsson. Við ákváðum að rölta frekar um í Plzen og rifja upp miðbæinn, ekki ástæða til að sitja yfir þeim meðan þau æfðu.

Byrjaði á að hoppa inn í búð og kaupa mér þennan sumarkjól sem ég fann ekki í Danmörku, í stað uppáhalds kjólsins míns sem rifnaði uppi í Skálholti í fyrra. Átti eftir að koma sér vel.

 

Á torginu var alveg ógurlega skemmtilegur markaður, ég reyndar dauðsá eftir að vera búin að borða. Fáránlega mörg spennandi tjöld með alls konar pylsum og steikum og mismunandi útgáfum af kartöflum og svo auðvitað bjór og ís og nammi. Keyptum risastór regnbogahlaupstykki til að fara með heim og gefa krökkunum.

Leituðum og leituðum að Master bjórnum, firnadökkur bjór frá Urquell brugghúsinu sem er staðsett í Plzen. Hvergi fannst hann. Í staðinn var tekinn einn dökkur Kozel á Svejk veitingastaðnum (frekar óspennandi) og svo röltum við til að hitta á kvartettinn. Tróðum okkur 6 og sellói , fiðlum, víólu og töskunum okkar í tæplega 8 manna Peugeot/Golf/Égveitekkihvaðblöndu Miljos og keyrðum til Karlovy Vary sem yrði bækistöð okkar þessa viku. Hana, kona Miljos tók á móti okkur með kostum og kynjum, inniskóm og kvöldmat. Í Tékklandi er sá siður að allir fara úr skónum en húsráðendur útvega inniskó fyrir gestina. Skemmtilegt.

Einnig þarna sátum við góða stund og spjölluðum yfir rauðvíni sem Miljo kom með í kút frá Spáni. Skiptumst á að sýna myndir af krökkunum okkar og húsunum okkar (sumarhúsi þeirra). Óttalega var nú svo samt gott að fara að sofa í stóra herberginu sem okkur var úthlutað.

ánægð

já ég er gríðaránægð með upphaf Myrkra, fallegir gítartónleikar í hádeginu, skemmtileg blanda úr tónleikum hátíðarinnar í Víðsjá (58’08 og áfram) í dag og glæsilegir Sinfóníutónleikar. (linkur kemur þegar hann dettur inn hjá RÚV) Sérstaklega er ég hæstánægð með að nú virðist aftur vera farið að mega skrifa skemmtilega tónlist, nefni þar til sögunnar Huga Guðmunds og kennara hans frá Kaupmannahöfn, Hans Abrahamsen.

Á morgun kennir ýmissa grasa, Guðrún Jóhanna og Javi með hádegistónleika, Duo Landon klukkan þrjú (flytja meðal annars fiðludúetta undirritaðrar), Nordic Affect klukkan fimm, (verk Huga frá í útvarpinu flutt aftur), Caput með portrettónleika Önnu Þorvalds klukkan átta, Áshildur og mikið fleiri flautur klukkan tíu (heyrðu já, bráðskemmtilegt verk af þeim tónleikum var líka flutt í Víðsjánni, í lokin) og að síðustu Duo Harpwerk klukkan miðnætti með glæný verk eftir nemendur Listaháskólans og fleiri. (kannski hefði ég eiginlega átt að telja það með laugardagstónleikunum, fræðilega séð kominn laugardagur auðvitað).

Ég mun semsagt búa í Hörpu á morgun. Gott að fólk er hætt að taka sig endalaust alvarlega í faginu mínu og það má semsagt taka mark á manni þó maður sé ekki grafalvarlegur og depressífur!

Myrkir músíkdagar

hér er maður á kafi, bólakafi í hátíð nýrrar tónlistar á Íslandi, Myrkum músíkdögum, haldnir að mestu í Hörpu. Hellingur af spennandi tónleikum, 22 tónleikar í allt, byrjar í hádeginu á fimmtudaginn. Ég er búin að vera að setja upp og samræma prógrömm sem dreifa á fyrir hverja tónleika fyrir sig, ótrúlega mikil vinna en nálgast að verða tilbúin. Svo á eftir að ljósrita…

Dagskrá má finna hér.

Ég á eitt verk á hátíðinni, ekki kórverk (sem er reyndar frekar skrítið miðað við að það eru tvennir kórtónleikar) heldur strengjaverk, allir 10 fiðludúettarnir mínir. Hlakka til að heyra þá aftur, ásamt bráðskemmtilegum dúettum Atla Heimis sem við fengum nasaþefinn af síðast þegar mínir voru fluttir.

Vel má nefna að tónlistarnemar fá ókeypis á alla tónleika hátíðarinnar gegn framvísun nemendaskírteina (hmm, veit reyndar ekki til þess að gefin séu út nemendaskírteini í öllum tónlistarskólum…)

En mikið hlakka ég til þegar prógrömmin verða tilbúin!

kvartanir, kvartanir

Yfir því hefur verið kvartað að þessi bloggsíða sé eyðileg og tómleg og viðurkennir höfundur það fúslega að hér gerist ekki margt.

Það er ekki vegna þess að það gerist ekkert í lífinu. Þar gerist alveg slatti. Síðast í gær sótti ég um stóran styrk til Tónlistarsjóðs, er að vonast til að geta kynnt Guðbrandsmessuna mína, besta verkið mitt hingað til imnsho í útlöndum. Finnst það eiga það skilið. Svo er stóra stelpan mín búin að syngja á 7 stykkjum Bjarkartónleikum, þar af hef ég farið á tvenna, ekkert stolt mamma neineinei (lygi auðvitað, hvað haldið þið?). Stefnt á New York í febrúar ef atvinnuleyfi fæst fyrir hópinn.

Smíðar á næsta tónverki mjakast áfram, búin að skila rúmum 5 mínútum af 20 slíkum, 4 mínútna kafli til viðbótar mjög langt kominn, annar líka á leiðinni. Spennandi, alltaf spennandi. Í dag var haft samband út af orgelverki í viðbót. Spurning hvenær tími fæst í slíkt.

Guttinn minn var góður við mömmu sína í gær, eitt uppáhaldsfaganna hans í skólanum er heimilisfræði. Hann eldaði spakettí carbonara, óvenjulega útgáfu með kjúklingabitum í viðbót við beikonið. Stóð þarna í skólaeldhúsinu og horfði á matinn, svo mikið var afgangs að hann hefði aldrei getað torgað því öllu sjálfur og hugsaði – já til mömmu sinnar. Fékk tvo þunna plastpoka, setti annan ofan í hinn og pastað í þann innri og tölti heim til að gefa mér hádegismat. Þessi elska.

Nóg í bili, lofa að láta ekki líða svona voðalega langt þar til næst…

meira mont

já kemur í bunum þessa dagana…

Um daginn fékk ég vinabeiðni frá útlendingi á smettinu. Ég smellti bara á samþykkja eins og ég geri nánast alltaf (hendi síðan út aftur ef mér líst ekki á viðkomandi við skoðun eða ef statusar eru eitthvað rugl).

Sé síðan að viðkomandi setur stöðuna: @101 Reykjavík. Læktakkinn fer í notkun.

Síðan fæ ég skilaboð:

Hello! I teach at the Clive Davis Institute of Recorded Music, New York University and I am a fan of your music, as is my friend and colleague Matthew Barton, Curator of Recorded Sound at the Library of Congress. We presented some recordings of your choral works to my students last term. I am in Reykjavík for a couple of days and would love to see the Academy if it is open. Do you know if that would be possible?
Cheers,

Ég svara sem er að skólinn sé búinn í bili, eitthvað sé nú væntanlega í gangi samt en hins vegar sé húsið sérstaklega lítið spennandi að sjá, vonandi vinnan sem þar fari fram betri.

Maðurinn spyr þá hvort ég sé til í að hitta hann yfir kaffibolla daginn eftir, ég er vel til í það og sting upp á Mokka klukkan 3.

Á Mokka reynist hins vegar allt vera troðfullt, við löbbum niður á Laugaveg, fyrst í Smekkleysubúðina þar sem við hittum á Ása sjálfan, fínt spjall og keyptir örugglega 20 diskar af alls konar íslenskri tónlist. (já maðurinn er semsagt líka með útvarpsþátt þarna í Nefjork)

Allavega yfir súkkulaðibollanum á 10 dropum segir hann mér af því að hann hafi fengið téðan Matthew til að halda fyrirlestur í kúrsinum sínum. Sá hafi komið með heilmikið af músík og meðal annars hafi hann dregið upp disk og sagt: Ég ætla að leyfa ykkur að heyra lag eftir tónskáld sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, íslending sem heitir Hildigunnur Rúnarsdóttir. Minn maður hváir – haa? hún er líka uppáhalds hjá mér…

míns ennþá gapandi – en greinilega er músíkin mín farin að heyrast vestanhafs. Ekki slæmt, ekki slæmt!


bland í poka

teljari

  • 370.562 heimsóknir

dagatal

ágúst 2019
S M F V F F S
« Júl    
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa

Auglýsingar