Archive for the 'tónleikar' Categoryenn af jólasöngvum

Alveg fannst mér ótrúlega magnað í gærkvöldi að hafa Táknmálskórinn með á söngvunum. Allt önnur upplifun og meiri en venjulega, þó mér þyki reyndar alltaf yndislegt að fara og hlusta. Bæði Langholts- og Gradualekórarnir voru í fantaformi, einsöngvarar fínir og svo þessar yndislegu hreyfingar bæði hjá einsöngvara og kór Táknmálskórsins.

Veit ekki hvort eru enn til miðar í kvöld en hvet ykkur til að athuga og fara ef svo er.

ahbú Akureyri

mikið var skemmtilegt að skjótast norður, tónleikarnir hjá Ásdísi, Petreu, Láru Sóleyju, Helgu Bryndísi og Eyrúnu alveg frábærir, svo skemmtilegt að hafa ljóðalestur og málaralist og fatahönnun á tónleikunum (ókei, það var reyndar búið að hanna og sauma flíkurnar). Hvað hét nú ljóðskáldið? Gréta eitthvað – mig dauðlangar í bókina hennar þegar hún kemur út.

Bryndís Ásmundsdóttir kynnti þarna eins og herforingi með húmor – ekki skemmdi það fyrir heldur.

Við Jón bjuggum til úr þessu snemmbúna helgarferð, flugum norður í vetrarríkið seinnipart fimmtudags, tónleikar þá um kvöldið, nutum lífsins í rólegheitum í gær, náðum hluta af kórahátíð í Hofi í dag (reitar eiginlega sér blogg reyndar) og svo flogið heim klukkan fjögur. Og helgin ekki einu sinni búin. Gæti varla verið betra. Systir Jóns og mágur eiga stúdíóíbúð á besta stað í bænum og við fengum að vera þar, allt í auðveldu göngufæri.

Tókum út nokkra veitingastaði bæjarins á þessum örfáu dögum:

Bautinn – alveg fínn bara, ágætis borgari og pizza en það var eiginlega ekkert bearnaisebragð að bearnaisesósunni sem annars seldi mér borgarann.

Bláa kannan – alveg nothæft heitt súkkulaði, ég er búin að læra að sleppa þeytta rjómanum þegar ég veit ekki hvernig súkkulaðið á viðkomandi stað er, eiginlega bara súkkulaðið á Mokka, 10 dropar og 101 restaurant sem þolir að hafa þeytta rjómann án þess að verða of bragðlaust. Rúnnstykki með osti sosum svipað og hvar sem er annars staðar. Tvöfaldi espressóinn hans Jóns og langlokan voru ljómandi góð.

1862 Nordic Bistro í Hofi – afskaplega góðar smurbrauðsneiðar og fínt hvítvín með.

Strikið – besta risotto sem ég hef fengið á veitingastað hér á landi. Kjúklingabitar að mestu mjög góðir en þeir þynnstu voru við það að verða þurrir. Þjónustan fín, ágætis brauð og pestó borið fram fyrir mat, hvítvín hússins líka ljómandi gott.

Pizzustaðurinn Bryggjan var síðan langsíst – hvernig í ósköpunum dettur fólki sem rekur veitingastað í hug að hafa enska boltann gersamlega í botni yfir saklausu fólki sem er að reyna að borða í friði? Nevermænd boltapöbba en svona á ekki heima á veitingastað. (Enda var staðurinn galtómur). Sem betur fer datt okkur í hug að fá bara pizzurnar okkar í kassa og röltum með þær upp í íbúð hvar við kveiktum á kertum og skiptum á milli okkar einum bjór sem ég hafði ekki haft lyst á kvöldið áður eftir rísottóið á Strikinu. Pizzurnar voru sosum ekkert vondar reyndar.

Verst að hafa ekki asnast til að taka vídjóvélina með og taka upp tónleikana, eða allavega verkið mitt. Stelpurnar ætla að renna því inn fyrir mig fljótlega.

Eftir tónleika – komin í lopapeysuna frá mömmu:

Akureyri

jamm á maður ekki að plögga það líka?

Fimmtudagkvöldið 21. október kl. 20.30 verða haldnir kammertónleikar í Hofi. Fram koma norðlenskar listakonur, sem flytja tónlist og ljóð eftir konur. Allur aðgangseyrir tónleikanna rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands, Bleiku slaufunnar.

Að tónleikunum stendur Trio Colore, sem skipað er Ásdísi Arnardóttur selló, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, fiðlu og Petreu Óskardóttur, þverflautu. Tríóið munu frumflytja tvö íslensk verk sem samin hafa verið sérstaklega að þessu tilefni. Höfundar verkanna eru Hildigunnur Rúnarsdóttir og Guðrún Ingimundardóttir.

Auk Trio Colore koma fram Eyrún Unnarsdóttir, mezzosópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari.

Um kynningar og ljóðalestur sér leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir.

Miðaverð er kr. 2500

Eigi ég lesendur fyrir norðan (hæ Fríða…) þá endilega kíkja. Við Jón Lárus skjótumst norður og verðum á tónleikunum, það er nú ekki frumflutt kammerverk eftir mann á hverjum degi! Hlakka mikið til.

pluggg

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur tónleika á sunnudaginn kemur, klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju.

Einleikari er Gunnar Kvaran – hann svíkur sko ekki. Með honum spilum við Kol Nidrei eftir Max Bruch. Annað sem við spilum er Pelléas et Mélisande svíta eftir Jean Sibelius og sinfónía númer 3 eftir Franz Schubert. Ekki sú þekktasta en bráðskemmtilegt verk. Stjórnandi er Oliver Kentish, nú sem oftar og einleikari á enskt horn Guðrún Másdóttir (Sibelius).

Endilega kíkja…

dómur

jámm, kom dómur í morgunblaði nokkurra landsmanna – en ég kvarta reyndar ekki í þetta sinnið:

hrrrikalega

var gaman í gær! Fyrir utan nú flottu sólistana og bandið sem er alltaf gott þá fékk kórinn endalaust hrós og ekki síður einsöngvararnir úr okkar röðum. Hlustið endilega á útsendinguna hér eða enn betra, tryggið ykkur einn þeirra fáu miða sem eru eftir í kvöld og skellið ykkur – lofa frábærri upplifun. sinfonia.is…

Sporting Life

heitir einn karakterinn í Porgy and Bess, einn af vonduköllunum í óperunni. Söngvarinn sem syngur hans hlutverk er æði (líka sú sem syngur Serenu, Porgy og Bess sjálf eru mjög fín en ég er enn hrifnari af þessum tveimur).

Hann setur meðal annars spurningar við sannleika Biblíunnar (enda vondurkall, munið þið). Arían er hrikalega skemmtileg, kórinn tekur undir og við þurfum að herma algerlega eftir því sem hann gerir og vitum ekkert fyrirfram hvernig hann syngur frasana. Fáránlega skemmtilegt, þið sem komið á tónleikana eða hlustið í útvarpinu, endilega hlusta eftir kórnum í aríunni It Ain’t Necessarily So, og sjá hvernig okkur tekst til. Þetta er ekki löngu eftir hlé ef ég man rétt.

Porgy og Bess

Hljómeyki og Kór Áskirkju ásamt svolitlu af aukafólki er að syngja með Sinfóníunni í frægustu jazzóperu tónlistarsögunnar. Stjórnandinn með þekktari túlkendum Gershwin, enda jazzpíanisti með meiru. Við æfðum með honum á mánudagskvöldið, hann var gersamlega með á hreinu hvað hann vildi og hætti ekki fyrr en við náðum stöðunum. Það var gríðarlega gaman.

Fyrsta æfing með Melabandinu í fyrramálið, ég get ekki beðið! Víst mjög flottir sólistar, allir útlenskir nema okkar eigin kórsólistar, Hallveig systir og Einar Clausen sem fá nokkrar strófur.

Eitthvað pínulítið eftir af miðum á föstudaginn, ég held það sé orðið uppselt á fimmtudagskvöldið. Ekki missa af þessu. Dat’s an aawdahh!

Stavanger dagur #6

Lufsuðumst á lappir upp úr klukkan 10, fengum morgunmat og fórum niðureftir (vorum sótt). Höfðum æfingartíma í litla salnum í um hálftíma, svo konsert. Það var alveg ágætlega mætt á hádegistónleikana, salurinn var lítill en þétt setinn. Þarna sungum við þjóðlagaútsetningar og spiluðum frumsamda tónlist (kvartett eftir Gunnar Reyni). Fengum töluvert hrós. Eftir tónleikana hlupum við á annan stað til að hlusta á Åssidens Skolekor, þau sungu A Ceremony of Carols eftir Britten, alveg ljómandi vel. Eftir það löbbuðum við niður í bæ og slöppuðum af. Fórum í Kaupfélag staðarins (EPA) og niður á torg.

Frá hálfsex til sex fengum við hálftíma æfingartíma í stóra salnum. Það var í fyrsta skipti sem við sungum og spiluðum þar og fengum reyndar hálfgert sjokk, það var nefnilega alls ekki þægilegt að syngja þar. Ágætt að hlusta en vont að syngja (öfugt við Háskólabíó, þar finnst manni allt í lagi að syngja en hljómar hins vegar illa úti í sal). Fórum satt að segja í frekar vont skap, leist ekki nógu vel á tónleikana um kvöldið. Renndum prógramminu einu sinni í gegn og fórum síðan út. Við sem vildum vorum keyrð upp í Ramsvik, tónleikarnir áttu ekki að byrja fyrr en klukkan hálfníu um kvöldið. Vorum reyndar að hugsa um að vera bara niðurfrá en sem betur fór ákváðum við að drífa okkur. Reyndist nefnilega akkúrat það sem við þurftum til að frískast upp og losna við vonda skapið. Fengum te og brauð og ávexti og lögðum okkur smástund. Og héldum góða skapinu á lofti þannig að þegar við vorum sótt aftur voru allir komnir í ágætisskap aftur. Sem betur fór. Annars hefði konsertinn ekki gengið eins vel og raun bar vitni. Jón Ásgeirsson (píanókvartett um íslensk þjóðlög) var aðalnúmerið, enda mjög skemmtilegur að hlusta á. Eftir konsertinn og þakkirnar og hamingjuóskirnar fórum við niður í Rauða Sjóhúsið (skemmtistaður þar sem efri hæðin var frátekin fyrir NMPU mótið – það hefðum við gjarnan viljað vita fyrr). Sungum, drukkum bjór og borðuðum pizzu með Færeyingunum og Åssidens Skolekor. Skemmtum okkur alveg stórvel.

Heim um þrjúleytið um nóttina, hljómsveitaræfing morguninn eftir.

Stavanger dagur #2

Vöknuðum um morguninn ca. klukkan 8. Greinilegt var að það hafði rignt um nóttina (gólfið var nefnilega blautt frammi á gangi). Hlaut að vera sprunga í veggnum þar sem þetta var á annarri hæð af þremur + ris. Okkur fór að renna grun í hvers vegna þessi ólykt var á ganginum. Hrósuðum bara happi yfir því að lekinn náði ekki inn í herbergi!

Þessi dagur fór í að labba – við æfðum reyndar 2 tíma, fórum á konsert með sæmilegum dönskum barnakór. Skemmdi reyndar svolítið fyrir sér með því að enda 3 af 4 lögum á dúrhljóm með sexund. Svolítið leiðigjarnt. Þau eru annars að koma til Íslands í haust (<= útúrdúr). Eftir konsertinn þvældumst við um bæinn í lengri tíma. Það lokar allt þarna snemma, búðir byrja að loka um 4 og eftir klukkan 6 er allt lokað. Æðislega asnalegt. Versta var þó að það var bannað að selja bjór eftir kl. 5:00. Hann er þá bara fjarlægður úr hillunum! Hef ekki vitað asnalegra (nema hér þá (bjórferlíki og bjórlíkhús)) En hér eftir kemur Stavangerbær alltaf til að heita „bannað eftir fimm“.

Um kvöldið var svo annar konsert. Fyrst strengjakvartett frá Þrándheimi. Mjög gott, miðað við aldur krakkanna (11-14 ára). Síðan voru Færeyingarnir, þau spiluðu ansi vel. Síðast var svo Telge Big Band. Þeir voru ekki bara skemmtilegir, spiluðu líka æðislega vel. Big band músík er ótrúlega hrífandi (ég vildi ég kynni á trompet).

Þetta kvöld skemmtum við okkur heldur betur (ég fór ekki að sofa fyrr en 05:30 sem er seint, þegar maður þarf að fara á fætur kl. 8:00!!!) Þetta var líka síðasta kvöldð sem big-bandið var þarna með okkur, þeir eru á konsertferðalagi um Evrópu, strax og þeir voru búnir með sína konserta þarna. Hvort það varð tómlegt eftir að þeir fóru? Gettu þrisvar!

hvernig væri nú

að bregða sér á tónleika í hádeginu á morgun fimmtudaginn 22. júlí?

Sveinn Arnar Sæmundsson og Kristín Sigurjónsdóttir halda hádegistónleika í Hallgrímskirkju á Alþjóðlegu orgelsumri – frumflytja þar meðal annars sálmforleik eftir undirritaða en auðvitað er margt fleira á dagskrá, nýtt og gamalt, erlent og innlent.

Mæli annars með þessum tónleikum öllum saman, það er aldrei leiðinlegt að hlusta á flotta spilara á þetta stórkostlega hljóðfæri.

Hér er smá sýnishorn:

Dagur #8. Síðasti í hátíð

Vaknað eldsnemma (þeas Jón Lárus vaknaði klukkan sjö og vakti mig hálfátta), morgunmatur og tekið sig til fyrir ferð út á strönd, hittumst 8 stykki niðri í anddyri og tókum tvo leigubíla á hina frægu Bondi strönd.

Ég held ég hafi aldrei komið á svona frábærlega flotta strönd áður, enda telst þetta víst ein af tíu bestu ströndum í heimi – ekki veit ég nú svo sem samt hvernig slíkt er mælt. Um kílómetra löng, 100-150 metra breið og tandurhrein, ekki arða af drasli. Sjórinn líka ótrúlega hreinn, sérstaklega miðað við að þetta er inni í miðri stórborg. Víst fullt af svona ströndum þarna. Sandurinn var pínu kaldur, enda ekki nema 17 gráðu hiti til að byrja með, mér finnst samt betra að hafa sandinn aðeins of kaldan en allt of heitan.

Sjórinn var yndislegur, ekkert sérlega heitur en svo sem bara svipaður hiti og í ítalskri sundlaug, pínu kalt að koma ofan í en vandist eins og skot. Svíinn í hópnum var mesta kuldaskræfan.

Anna, lókal kona sem var viðloðandi hátíðina var okkur þarna til aðstoðar, lánaði brimbretti og hjálpaði til – Kjartan var ansi hreint lunkinn á brettinu, við Jón Lárus vorum bæði búin að prófa minna og breiðara bretti og ætluðum að fá Önnu síðan til að hjálpa okkur með það stærra en þá lenti hún í smá óhappi, var reyndar gríðarlega heppin að tveir úr hópnum tóku eftir því að hún hafði flækst í snúrunni sem festir brettið við fótinn á manni og redduðu henni upp úr. Hver veit hvernig hefði farið, hún fékk talsvert högg á höfuðið og var ansi aum í smá tíma. Jafnaði sig samt vel, sem betur fór. En við eigum semsagt eftir að prófa almennilegt bretti.


nokkrir úr hópnum á leið út í öldurnar

Einum fremur bragðlausum ís síðar tókum við leigubíl upp á hótel ásamt flestum hinna, þau voru að fara heim til Evrópu en við á tónleika, rútan frá hótelinu átti að leggja af stað klukkan eitt. Kvöddum Kjartan með virktum í anddyrinu, öfundaði hann hreint ekki af því að vera að fara heim og það í óöruggt flug, dauðkveið fyrir því að festast kannski í Abu Dhabi ef ekki yrði flogið til London. Við ákváðum nú að hafa áhyggjur af því síðar, Eyjó gamli hefði nú viku til að jafna sig smá.

Tónleikarútan, sama gamla skrapatólið og hafði verið hópferðafarartæki allan tímann, lagði af stað upp úr eitt í unaðslegu veðri, hitinn hafði með morgninum mjakast upp í um 23 gráður og sólin skein í heiði. Ríflega klukkutíma akstur upp í Bláfjöll, þar komumst við næst kengúrum sem við höfðum gert (skilti við vegina um kengúruumferð). Þetta voru þeir tónleikar sem ég hafði hlakkað einna mest til, náttúrlega fyrir utan mína eigin tónleika. Kammerkór Sydneyborgar með spennandi prógramm.


Mjög flott orgel var í kirkjunni.

Það klikkaði heldur aldeilis ekki, gríðargóðir tónleikar. Ég ákvað strax að reyna að útvega nótur að einu verkinu eftir Ross Edwards, kíkja í tónverkamiðstöð Ástralíu og athuga hvort þau ættu verkið.
Í hléi tókum við fólk tali og sem oftar þurftum við að segja frá hvaðan við kæmum og hvað við ætluðum að gera í vikunni sem eftir væri. Fólkið reyndist hið almennilegasta (eins og reyndar nánast allir Ástralir sem við hittum) og buðu okkur að fara með okkur í útsýnisferð um Bláfjöll, þyrftum bara að koma okkur þangað uppeftir með lestinni. Ekki spurning að við tókum þau á orðinu, fengum netfang og símanúmer til að vera í sambandi síðar í vikunni.

Rúta aftur á hótelið, steinsofnuðum bæði á leiðinni. Þeir segja að það taki sólarhring fyrir klukkutímann að tímajafna sig fullkomlega, samkvæmt því náðu flestir ráðstefnugestirnir því alls ekki en við ekki fyrr en á fimmtudegi í seinni vikunni.

Út í kvöldmat, ákváðum að fara eitthvað austurlenskt út að borða enda hótelið í miðju kínahverfinu. 50 metra frá innganginum duttum við niður á kóreskan veitingastað sem okkur leist vel á, þar á matseðli var fyrirbæri sem heitir Dolson Bibimbap sem ég hafði aldrei heyrt um nema í leiknum Restaurant City sem ég spila á smettinu. Varð auðvitað að panta mér hann, því miður náði ég ekki að taka mynd af honum áður en þjónninn hrærði öllu saman, hann er borinn fram mjög flottur, allt grænmetið og kjötið sitt í hverju lagi í skálinni, hrá eggjarauða í miðju og svo er sett matskeið eða svo af rauðri kryddsósu og allt hrært saman á borðinu. Mjög góður matur.


Dolsot bibimbap.

Jón pantaði sér rétt sem hét Sewoo bokkumbap en það var talsvert venjulegri réttur, steikt hrísgrjón með grænmeti og rækjum. Líka mjög fínt. Fengum nokkra forrétti í skálum en þjónustan var svo hröð þarna að okkur vannst enginn tími til annars en rétt að smakka á þeim.
Pakksödd upp á hótel að slaka á eftir langan og mikinn dag. Jón Lárus skaust síðan út til að athuga hvort Formúlukeppni helgarinnar væri send út á næsta sportbar, það reyndist ekki vera, tveir risaskjáir, á öðrum vélhjólakappakstur og hinum ástralskt rugby. Keypum okkur sólarhringsaðgang að netinu á hótelinu (með aumingjalegu 200 Mb niðurhali inniföldu) til að hann gæti fylgst með tölulegu upplýsingunum – og ég kíkt svo á netið á eftir.


Formúlufíkill í aksjón.

Sérkennilegt, stundum er maður þreyttur en ekkert syfjaður, efast ekkert um að margir lesendur kannist við þann pakka, að farast úr þreytu en geta ekki sofnað. Þessi öfuga tilfinning – að vera syfjuð en ekki þreytt er frekar ný fyrir mér. Eiginlega bara mjög þægileg tilfinning, nema reyndar þegar maður vill ómögulega sofna, eins og stundum á tónleikunum í vikunni, það var bara ekkert við augnlokin ráðið. Gersamlega slökkt á manni.

Dagur #7. Út úr bænum

Þennan dag vorum við allan í burtu frá Sydney, tónleikar og fundir í Campbelltown, um 40 km fyrir sunnan og vestan borgina. Tókum rútu ásamt delegates klukkan 11 og keyrðum í frábæru veðri, sól og 23° hita til Campbelltown sem er víst ekkert sérlega skemmtilegur bær, var búið að segja okkur. Kom líka í ljós að það stóðst, allavega að einu leyti.

Kom reyndar ekki neitt þannig gríðarlega að sök þar sem við vorum eiginlega eingöngu í listasentri staðarins, hádegismatur og tónleikar klukkan eitt, gríðarlega flottir strengjakvartettstónleikar með áströlskum kvartettum, sérstaklega var sá fyrsti skemmtilegur.

Þetta flotta selló hékk uppi á vegg í sentrinu:

Þá var aðalfundur ISCM samtakanna í Civic Center bæjarins, við Jón Lárus nenntum nú ekki að hanga yfir því nema að litlu leyti. Fórum út og fengum okkur einn bjór. Á leiðinni niður í bæ lendir Jón Lárus hins vegar í (sem betur fer ekki alvarlegri) líkamsárás – hann segir betur frá því á síðunni sinni hér.

Bjórinn fengum við þegar við vorum búin að jafna okkur, hef nú reyndar setið á huggulegri bar, billjarðstofa og ekkert sérlega skemmtilegt lið en gátum sest út á svalir með fínu útsýni og í ágætis næði. Búin með bjórinn settumst við í ljómandi skemmtilegan garð og lásum þar til Kjartan sendi okkur sms um að spennandi hluti fundarins væri að byrja. Uppreisn og kosningar og læti, fór því miður ekki nógu vel að því er við vildum en ég er nú ekki að hugsa um að fara út í ISCM pólitík hér.
Bráðfínar kynningar á næstu hátíðum, Zagreb í Króatíu á næsta ári, Belgía með keflið 2012, Austurríki/Slóvakía með samvinnu 2013, Pólland 2014 og Slóvenía og Ítalía bítast um hátíðina 2015, það verður ekki ákveðið fyrr en á næsta ári. Nokkur framboð komu fyrir hátíðarnar 2016-2018, við vorum að pæla í hvort við ættum að stefna á hátíð hér heima en það liggur svo sem ekki á – ekki víst að fólk hefði tekið vel í slík framboð með eldfjallið logandi.

Blóm fyrir utan sentrið:

Öllum smalað í rútuna eftir að fundi var slitið (örugglega hálftíma seinna en búist var við). Aftur í Arts Center hvar boðið var upp á fingramat í kvöldverð, sem betur fer nóg af honum, allir voru orðnir sársvangir eftir langan dag.

Sá þarna gest með það alsíðasta hár sem ég hef á ævinni séð:

Seinni tónleikar kvöldsins voru vægast sagt ekki eins skemmtilegir og þeir fyrri. Flottur hópur frá Belgíu að spila en ésúsminn hvað flest verkin voru óhugnanlega leiðinleg! Varð þeirri stund fegnust þegar tónleikarnir voru búnir og við fórum í rútuna heim á hótel. Fórum beint í háttinn (við hávær mótmæli Færeyinganna sem vildu djamma) en þar sem planið var að fara á ströndina snemma morguninn eftir var var ekkert vit í að vera í einhverju rugli. Kíktum nú samt á netið í smástund, Jón Lárus hafði sofið nær allan seinni hluta tónleikanna og í rútunni heim var hann ekki sérlega syfjaður…

Dagur #6. Tónleikar

Taaalsvert skárri í maganum, ekki alveg góð en nægilega til að fara á stjá. Hittum Kjartan í anddyrinu, höfðum auðvitað frétt af stórfréttum að heiman, handtökum og látum. Get ekki sagt að við höfum grátið þær fréttir, það kom að þessu, loksins. Vonandi sem flestir bara og sem þyngstir dómar – leitt ef ég hljóma hefnigjörn en fólk á ekki að komast upp með svona lagað!

Philippa framkvæmdastjóri hátíðarinnar kom til okkar og spurði hvort við vildum koma á opið málþing, slógum til þó ekki væri til annars en að hitta aðeins fleira af fólkinu á hátíðinni. Málþingið reyndist hin besta skemmtun, skemmtilegir fyrirlesarar og vitrænar spurningar og athugasemdir úr sal.

Fundum loksins matvörubúð eftir málþing, keyptum reyndar ekkert þar sem við vorum á leiðinni beint á tónleika. Fundum líka risastóran draslmarkað, manni hefði fundist maður vera í Kolaportinu nema fyrir áströlsku mynstrin á bolunum og fleiru – og svo var gígantískur ávaxta- og grænmetismarkaður í staðinn fyrir rækjur og harðfisk. Fullt af afurðum sem maður hefur ekki græna glóru um hvað er, sumt merkt með nafni, annað ekki.


Fleiri á flickrsíðunni minni.

Keyptum smá bjór í ísskápinn – mig langaði bara í lítinn bjór og kippti með mér Urquell, 25 cl. Án þess að skoða hvað hann kostaði. Eftirá sá ég að hann hafði kostað nánast þúsundkall íslenskar. Nei, ekki á bar, í drykkjabúð (Ástalir leyfa ekki áfengi í almennum matvörubúðum en það er ekkert Ríki í dæminu, bara einkareknar drykkjabúðir, stundum og stundum ekki tengdar börum. Þessi var það ekki). Við reyndum að gúgla alcohol tax australia þegar við komum upp á hótel en það var ekki sérlega augljóst hver hann er, en hann má vera frekar fáránlega hár til að rúlla upp skattinum á bjór hér heima og fjórfalda síðan verðið. Já, það verður örugglega bót alls að leyfa einkasölu áfengis á Íslandi!

Tónleikar í Útvarpshúsinu klukkan eitt, frábært verk eftir Kristian Blak, annað ekki síðra eftir Hubert Stuppner, mig langar í það verk á upptöku. Þrjú önnur verk, eitt fyrir shakuhatchi flautu og strengi (annars voru þetta bara strengjatónleikar), það var alveg ágætt en hin tvö voru alveg óhugnanlega leiðinleg, pirrandi svona kortérs verk sem gersamlega ekkert gerist í . Ég reyndar var alveg búin að sjá á prógrammnótunum að þetta yrði ekki sérlega skemmtilegt – verk sem er innblásið og snýst um mismunandi hunangstegundir og sexhyrningslögun hunangssella bara hreinlega getur ekki verið skemmtilegt. Hitt gaf sig út fyrir að vera tónaminnisleikur eins og krakkar spila iðulega í tölvuleikjum, bara 5 tónar og mismunandi samsetningar þeirra. Bara 5 tónar allir í sömu legu NB. Ænei. Hugmyndin reyndar góð, verð ég að viðurkenna.

En Stuppner í lokin reddaði málunum, verkið hét 6 Mahler-myndir, unnið út frá stefjum Mahlers og hellings húmor í kring um þau, alveg án þess að það væri neitt ripoff af Mahler sjálfum. Væri til í að heyra meira eftir þetta tónskáld, sem var NB eina tónskáld tónleikanna sem ekki var á staðnum.

Hótel og skipta um föt fyrir mína tónleika, ákvað að fara ekki í fínu peysunni frá mömmu, mér yrði allt of heitt. Löbbuðum á stað sem við vissum um að hafði opið net, keyptum okkur hvítvínsglas (ég) og bjór (Jón) og sitthvora sítrónumarenskökuna. Eins gott að hvítvínið, bjórinn og kakan voru góð því ekki virkaði netið. Ástralir virðast vera frekar aftarlega í netnotkun, við sáum engan annan en okkur að reyna að nota netið og þegar við kvörtuðum var beinirinn endurræstur, okkur var sagt að það tæki kortér þar til hann virkaði. Dugði ekki til, ekkert gekk. Átti að vera ágætis hraði á þessu neti reyndar 54 Mb/sek en hjálpar ekki ef það virkar ekki neitt. Jón Lárus rak líka augun í afgreiðslukerfi í annars ljómandi fínni bókabúð, keyrandi á MS Dos. (Bókabúðin var annars fín – mig dauðlangaði í svona 6 bækur þar. Hver veit hvort ég freistist í eina eða tvær í vélina).

Tónleikar gengu gríðarlega vel, frábær barnakór, svei mér ef hann bara nær ekki Skólakór Garðabæjar hér í denn! Tók upp lagið mitt á vídjó, nú er bara að fá leyfi til að henda því inn á þúrörið.
(leyfi ekki komið en ekki nei heldur – lauma þessu inn)

Út að borða á “besta ítalska stað í borginni” með Kjartani og portúgalska sendifulltrúanum á eftir, frábærlega vel heppnaður dagur í allt.

Dagur #4. Æfing

Vaknaði klukkan hálfsex við að samkennari minn hringdi í mig, ekki vitandi hvar ég væri, skellti síðan á, skelfingu lostin þegar ég sagðist vera í Ástralíu. Fyndið. Gat svo auðvitað ekkert sofnað aftur, Jón Lárus hafði vaknað klukkan hálffjögur þannig að það var eiginlega bara nokkuð gott að hafa náð að sofa til hálfsex.

Niður í morgunmat, ljómandi ef spes, enskur og asískur heitur matur, pylsur og kartöflukökur, hrærð og soðin egg, tómatar og bakaðar baunir, núðluréttur, hrísgrjón og alls kyns sósur og heitt og súrt grænmeti, síðan jógúrt, ferskir ávextir (aðallega melónur) og múslí. Frábær brauðrist en bara sulta ofan á brauðið, engar skinkur eða ostar. Kaffi/te og múffukökur í desert – hmm hættulegt. Upp aftur að reyna að leggja okkur smá, væri best að værum alveg laus við þotuþreytu strax þennan dag. (HAHAHAHA)

Ég steinsofnaði og svaf örugglega í allavega 2 tíma ef ekki aðeins lengur þannig að nú var ég eiginlega alveg búin að ná mér upp. Jón Lárus sofnaði hins vegar ekki en fór í staðinn út að skokka. Drifum okkur síðan út undir hádegi, ætluðum á tónleika klukkan 1 í Sydney Conservatory of Music eða The Con eins og það er kallað. Lentum í hrikalegri hellidembu á leiðinni, urðum auðvitað að kaupa okkur regnhlíf (réttupphönd (o/) í kommentakerfinu þið sem munið eftir að taka út með ykkur regnhlífina sem þið keyptuð í síðustu útlandaferð þegar hellirigningin kom ykkur á óvart). Í regnhlífabúðinni rak ég augun í handtösku sem mig langaði í. Nei, keypti hana ekki – þá.

Fundum The Con, gríðarlega fallegt gamalt hús rétt fyrir innan Óperuhúsið eina og sanna, reyndar nútímaleg bygging sambyggð en nokkuð smekklega tengd við, sem betur fer. Æpti ekki á mann neitt. Fyrri tónleikar dagsins voru píanótónleikar, 4 verk 2 skemmtileg og 2 síðri, sofnuðum nú samt ekki neitt. Seinasta verkið var verulega flott, ungt bandarískt tónskáld sem spann út frá peningasvindli og alls konar “get rich quick” áætlunum, rafhljóð með, meðal annars frá kauphöllum og fleiru. Gæti hugsað mér að eiga upptöku af því.
Eftir tónleikana röltum við um fínu hverfin aðallega The Rocks, (101 Sydney), talsvert skemmtilegra en hverfið þar sem hótelið okkar er, en auðvitað dýrara líka.

Fundum staðinn sem Þorbjörn bróðir og Helga mágkona sátu og borðuðu, með útsýni yfir Óperuna, stendur til að stíma þangað í næstu viku einhvern tímann, þegar hátíðin er búin. Varla tími þessa viku, yfirleitt alltaf tónleikar klukkan 1, 6 og 8, og iðulega einhverjar móttökur og þannig á milli – maður verður jú að blanda geði við hin tónskáldin og ráðstefnugestina, annars væri lítið vit í að fara á ráðstefnu.
Rákumst á mest spennandi vínbúð Sydney, Jón hafði lesið um hana og ætlaði sannarlega að leita að henni en svo hrösuðum við bara um hana. Keyptum okkur 2 flöskur til að taka með heim.

Þegar klukkan fór að nálgast fimm, fórum við þar sem okkur hafði verið sagt að kórinn ætti að vera að æfa verkið mitt. Sem betur fer ákváðum við ekki að detta þangað inn á mínútunni fimm, vorum 20 mínútum fyrr á ferðinni, því kórinn æfði alls ekki þarna. Þetta var risastórt hús á besta stað með alls konar listaskrifstofum.

ÁTM

Ástralska tónverkamiðstöðin var þarna með heila hæð (heh, tónlistarhús), ballettinn, fílharmónían, já fullt af stofnunum, svona listamiðstöð. Greinilega gert vel við listir þarna. Æfingin var hins vegar aðeins lengra, í æfingaaðstöðu fílharmóníunnar. Vorum lóðsuð þangað og náðum á slaginu fimm.

Sydney Childrens Choir er yndislegur kór og stjórnandinn greinilega snillingur í að ná því besta út úr krökkunum, vissi alveg hvað hún vildi og kunni aðferðirnar við að ná því út. Kórinn söng lagið nánast óaðfinnanlega – hlakkaði verulega til að heyra tónleikana á föstudeginum.

Rukum beint eftir æfingu aftur í The Con, þar voru slagverks- og saxófóntónleikar að byrja. Inn á þá, nokkur ansi góð verk, sérstaklega það fyrsta sem var allt í plasti. Spilað á ruslatunnur með hárgreiðum og hitt og þetta annað. Æsingurinn var svo mikill í plastinu að settið hrundi um koll í lokin og flytjendur og salur fóru að skellihlæja. Þessi konsert (eins og reyndar píanókonsertinn daginn áður) var kynntur af ansi skemmtilegum útvarpsmanni á klassísku rásinni. Jóni Lárusi tókst að sofna á þessum tónleikum, en ég hélt mér nú vel uppi, enda hafði ég talsverðan svefn fram yfir hann. Eftir tónleikana var öllum boðið í smá móttöku á Árórubar (eða var það suðurljósabar?), þangað fórum við og fengum rauðvínsglas og smárétti og heillangt skemmtilegt spjall við kollega – og svo útvarpsmanninn góða. Hann varð spenntur að hitta á mig og vildi endilega að ég bæri fram nafnið á verkinu inn á diktafóninn sinn. Ég náttúrlega ýkti errin svolítið: Carrrmen Frratrrrum Arrvalium, hljómaði víst eins og hálft eldfjall.

eggin

Allir sem við töluðum við, frá afgreiðslumanninum í vínbúðinni góðu, gegn um diplómata frá Nýju Gíneu og tónskáldi frá Eistlandi til útvarpsmannsins töluðu um eldsumbrotin – vínafgreiðslumaðurinn vissi meira að segja meira en við, hafandi ekki komist á net í 2 daga – og allir spurðu hvort hefði verið vandræðum bundið að komast í burtu. Ekki vildum við nú meina það, en vonuðumst til að það yrði ekki vesen að komast heim aftur…
Allir Sydneybúar sem við hittum voru annars hinir almennilegustu og indælustu, ég kann mjög vel við andann í þessari borg. Fólk stekkur til óumbeðið að hjálpa rugluðu túristunum úti á götu og afgreiðslufólk í búðum er ótrúlega hjálpsamt og vingjarnlegt.
Eftir móttökuna gengum við þessa tvo og hálfan kílómetra heim á hótel, fáránlega gott að komast í náttföt og ból og skrifa ferðasögu með rauðvín í vatnsglasi.

Dagur #3 Syfja

Ég hreinlega átta mig engan veginn á hvenær þriðji maí hætti og sá fjórði byrjaði, þeas hvaða tíma ég ætti að miða við. En einhvern tímann nætur svissaði nú yfir.

Þessi leggur var nokkurn veginn svona:
Abu Dhabi-Muscat-Goa-síðan sveigt fram hjá indónesískri lofthelgi af einhverjum ástæðum-norðaustur Ástralía-Sydney. Flugum nánast beint yfir Uluru (Ayer’s Rock) en það var kolniðamyrkur þannig að við hefðum ekki séð hann þó við hefðum verið vakandi.

Horfði á Sound of Music, hef ekki horft á þá gömlu mynd í örugglega 30 ár – held eiginlega að mér þyki okkar Borgarleikhúsútgáfa bara betri ef eitthað. Góð aðferð samt til að eyða þremur tímum af þessum 14. Ein bók kláruð og byrjað á annarri.

Eitthvað hafði klikkað í talningunni á morgunmatnum, það vantaði eina 2 bakka og auðvitað var það ég sem lenti í því – fékk bakka ætlaðan starfsmanni og engan heitan – eða þó, fékk reyndar heita ávaxtaköku, mjög góða en undarlega sem morgunmat. Jón Lárus gaf mér svo helminginn af sínum heita bakka.

Lent í Sydney, nokkuð áfallalaust gegn um vegabréfaskoðun og toll, leigubíll niður á hótel, frekar sjabbí en unaðslegt að komast í sturtu og hrein föt! Kvöddum Kjartan sem var á leið á fund, lögðum okkur í örstutta stund, ætluðum að reyna að halda út eins lengi og hægt væri yfir daginn, Einhver nettenging var í herberginu en mér tókst ekki að tengjast við innskráningarsíðuna, og svo virkaði fína adapter græjan ekki fyrir tengilinn á tölvu bóndans (MUU) pinnarnir á klónni voru of sverir. Netið á herberginu var síðan rándýrt, lúshægt (11 MB á sek) 20 ástralskir dollarar per sólarhring. Ætli Ástralir viti ekki hvað hotspot er, annars? Þessi netþjónusta virðist vera víða á hótelum og ef hótelið er dýrara þá er netþjónustan líka dýrari.

En röfl búið. Eftir þessa smáhvíld skoðuðum við kortið og röltum okkur síðan út og að við héldum í áttina að höfninni. Sólin í norðri snarruglaði okkur hins vegar, fórum í rammvitlausa átt og áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir nokkur hundruð metra. Niður að óperuhúsi voru um tveir og hálfur kílómetri þannig að mér leist ekkert á að labba kannski 6 km svona dauðþreytt, við fórum aftur á hótelið, náðum í allar hátíðarupplýsingarnar og eyddum dágóðum tíma í að skoða hvar atburðirnir væru. Langflestir voru í þokkalegu göngufæri, þar á meðal allir tónleikar dagsins. Þeir fyrstu áttu að vera klukkan eitt, þegar þarna var komið var klukkan um ellefu. Ákváðum að rölta á tónleikastaðinn, sem var tæpan kílómetra í burtu.

Á leiðinni svipuðumst við um eftir kjörbúð, í herberginu var ágætis ísskápur og gott væri að geta sparað að þurfa að fara út að borða tvisvar á dag. Á svæðinu var hins vegar afskaplega lítið um búðir, aðallega litlar austurlenskar búðir (fundum síðar út að við vorum í miðju kínahverfi Sydney), og nokkrar 7-11 búðir. Allt rándýrt.

Tónleikastaðurinn var fremur auðfundinn, þetta reyndist vera í Útvarpshúsi þeirra Ástrala. Vorum klukkutíma of snemma, settumst á kaffihúsið í útvarpshúsinu og fengum okkur sitt hvorn bjórinn.

Aðeins út aftur, þotuþreytan var við það að ná tökum á okkur.
Ég held að þessir tónleikar hafi verið mjög skemmtilegir, 21 örstutt píanóverk eftir jafnmörg tónskáld og flutt af jafnmörgum píanónemendum í Tónlistarháskóla Sydneyborgar. Við steinsofnuðum bæði, hinsvegar, þannig að við getum lítið sagt. Vona við höfum ekki hrotið – tónleikarnir voru í beinni útsendingu á klassísku rás útvarpsins.

Ákváðum að þetta þýddi ekki neitt, keyptum okkur eitthvað að drekka og tvö risastór kjúklingalæri á kínverskum skyndibitastað, fórum upp á hótel, borðuðum og ætluðum síðan að leggja okkur í 3 kortér. Kortérin breyttust í klukkutíma, vöknuðum aftur þremur tímum seinna, svo var spurning um að halda sér vakandi eins lengi og hægt væri fram á kvöld. Vorum hvorugt á því að gera neitt um kvöldið – ekki séns. Lágum bara uppi í rúmi og lásum þar til við ultum út af um hálfellefu um kvöldið.

hrikalega er gaman

að vera farin að æfa Rakhmaninov aftur og ekki síður að hafa dótturina með.

Höldum tónleika hér í bænum 17. maí (spurning hvort við eigum að syngja rússneskuna með norskum hreim kannski?), ég veit nú reyndar ekkert hvort ég hef neitt í það að gera að syngja með á þeim tónleikum, verð nýlent frá Ástralíu – ýkjulaust, lendum um fjögurleytið í Keflavík og tónleikarnir eru klukkan átta – en ég tók vatnsglastestið og fann út að ég var ekki ómissandi, fékk fyrir mig fínan sópran úr Mótettunni til öryggis.

Verð hins vegar sannarlega með um hvítasunnuna þegar Hljómeyki syngur verkið á Dalvík.

smá forsmekk

af tónleikunum annað kvöld má heyra hér:

In Paradisum eftir Duruflé. Lokakaflinn úr Requiem og lokakaflinn á tónleikunum okkar. Bannað að klappa eftir þetta, ég er ekki antiklappmanneskja en þarna á það bara ekki við.

Sérstaklega vegna þeirra sem við tileinkum tónleika okkar að þessu sinni.

plöggidí

á sunnudaginn kemur, þann 7. mars klukkan 20:00 flytur Hljómeyki hina yndislegu sálumessu franska tónskáldsins Duruflé ásamt fleiri verkum.

Tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti, unaðslegur hljómburður og rammi um verkin.

Um að gera að bregða sér á tónleika, um klukkutími að lengd, ekki verður hlé. Ágætt að taka með sér sessu, Kristskirkja er ekki með þægilegustu bekki í veröldinni.

Stjórnandi á tónleikunum er Magnús Ragnarsson, á orgel kirkjunnar leikur Steingrímur Þórhallsson og Marta Halldórsdóttir og Ágúst Ólafsson syngja einsöng.

Aðgangseyrir 1500 krónur í forsölu í 12 tónum og hjá kórfélögum (má hafa samband í kommentakerfinu – ég þarf að selja nokkra miða) en 2000 krónur við innganginn.

vá hvað

Carmina Burana var flott í kvöld hjá Sinfó, Hallveigu, Jóni Svavari, Rumon, Óperukórnum og Gradualekórnum – hlustaði á æfingu í morgun og svo í útvarpinu í kvöld, get ekki beðið eftir að fara á tónleikana á morgun.

Klökknaði alveg við að sjá báðar stelpurnar mínar þarna uppi á sviði og standa sig svona líka vel, ekki stórt hlutverk sem stúlknakórinn syngur en mjög flott og mikilvægt í verkinu, þær fengu víst fyrirskipun um að syngja eins gróft og þær gátu, ekki eins og þessar skóluðu raddir sem þær eru margar, búnar að læra í mörg ár, fengu að máta belting og allt. En maður verður víst að ráða yfir nokkrum söngstílum, gaman að prófa svona líka.

Hraðinn hjá Rumon gríðarlegur, ég verð að viðurkenna að ég kann mjög vel að meta það, enda hraðafíkill en ég hef á tilfinningunni að óperukórinn sé ekki alveg alls staðar vanur svona miklum hraða og snöggum skiptingum, það er eina sem ég gat sett út á flutninginn. Held samt ég geti nánast fullyrt að þetta er alveg í anda Orff og verksins. Love it!


bland í poka

teljari

  • 373.268 heimsóknir

dagatal

maí 2021
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa