Archive for the 'pirringur' Category

síðasta röflið

Ég er búin að ákveða að þessi færsla hér verði síðasta skipti sem ég röfla um te. Lofa ekki að röfla ekki um eitthvað annað (og nei, er ekki hætt að blogga).

Hvernig stendur eiginlega á því að svo víða þar sem er boðið upp á heita drykki er oftastnær kaffi, misgott auðvitað en fyrir okkur sem ekki drekkum kaffi er iðulega bara boðið upp á eitthvað blóma- og/eða ávaxtate?

Ekki vil ég mæla á móti því að þeir sem drekka slíkt fái drykkinn sinn en hvernig væri að eiga líka ósköp venjulegt svart te? English Breakfast, Ceylon, Earl Grey? Endalausar brómberja/ginger-lemon/goji-berry/sítrónugras/kamillu sitt í hverjum pakkanum og á móti þessum ósköpum er keyptur einn pakki af English Breakfast. Sem klárast iðulega langfyrst.

Við kaffileysingjarnir þurfum nefnilega líka smá örvandi til að komast gegn um daginn.

Hvernig fyndist kaffifólki að það væri bara boðið upp á koffínlaust kaffi á vinnustaðnum?

En allavega, ég er hætt að væla yfir þessu og búin að setja niður solid no nonsense Earl Grey pakka til að taka með í vinnuna…

og svo úr

því ég er að taka undir með fjölskyldu minni er ég líka að hugsa um að taka undir hjá mömmu og hætta að láta of snemmbúnar jólaauglýsingar fara í mínar fínustu og grófustu taugar. Ég hugsa nefnilega að ég geti ekki breytt neinu um þetta og það gerir víst bara mér sjálfri eitthvað að vera með sama tuðið ár eftir ár á þessum tíma.

Geng nú kannski samt ekki svo langt að fara að versla við IKEA í október og nóvember, ætla bara ekki að æsa mig yfir þessu, byrja bara fyrr að hlakka til jólanna.

svekkjandi

í kvöld átti sko að nota tækifærið, selja öllum þessum ógnarkór miða á Handeltónleikana, ásamt því að dreifa plakötum á hópinn til að hengja upp í kirkjur og vinnustaði og þess háttar, prentað í Hafnarfirði, ég búin að fá Hafnfirðing í kórnum til að skjótast rétt fyrir klukkan sex til að ná í þetta – svona seint til að þeir næðu nú örugglega að prenta þetta út.

Hún mætir á svæðið 7 mínútur fyrir sex og allt harðlokað og læst! Algjört bögg!

uxahalar

urr, fínt tilboð á uxahölum í Nóatúni núna, auglýst í blöðum. Var að kenna til hálftólf, dreif mig út í Nóatún og ætlaði að birgja okkur upp. Lenti í röð eftir tveimur fraukum sem KLÁRUÐU allt sem eftir var (örugglega 20 kíló). Hringdi vestur á Hringbraut og upp í Austurver, allt búið þar líka. Var svo fúl að ég keypti ekkert í búðinni, fór bara heim. Pirrandi þegar fólk hamstrar svona hrikalega!

þjófavörn

hér einhvers staðar fyrir utan pípti þjófavörn í bíl örugglega 2 tíma, í dag. Ekki beint fyrir utan, þá hefði ég örugglega freistast til að fara út og sparka í árans bílinn, væntanlega einhvers staðar á Skólavörðustíg. Frekar pirrandi.

urr

hvað er með þessar nýju Nova flash auglýsingar á mogganum. Orðið ólesandi fyrir þessu, fer fyrir textann mjög víða. Setti upp flash block á Firefoxinn en það gerir moggabloggið nánast ólæsilegt. Plííísplísplís, moggabloggarar sem ég les og lesa hér, splæsið nú í að vera auglýsingalaus. Held það sé bara Heiða og Lára Hanna sem eru án auglýsinga, úr mínum moggahring.

bílastæði

Við erum í áfalli hérna.

Verslunarmannahelgin hefur verið eini tími ársins sem við höfum getað verið nokkuð viss um að fá stæði fyrir utan, heima hjá okkur.

Núna hins vegar er allt fullt.

Reikna nú samt með að hluti ástæðunnar sé ástandið á Skólavörðustígnum. Get ekki beðið þar til hann verður tilbúinn. Einnig er nú búið að leggja fyrir skipulagsnefnd (loksins!) tillögu um gjaldskyld stæði hér fyrir utan, ásamt efsta hluta Skólavörðustígs, Bjarnarstígs og Kárastígs, væntanlega líka Grettisgötu milli Klapparstígs og Frakkastígs. Vonandi verður það samþykkt.

Mun líka þýða að þegar stöðumælaverðir fara að ganga göturnar reglulega mun bílum upp á gangstétt snarfækka. Ekki er það verra.

sein í strætó

ég held ég hafi aldrei áður farið í ferð þar sem ég missti jafn oft af strætó. Hef ekki tölu á skiptunum sem ég hef séð strætó renna af stað, mínútunni á undan mér. Súrt.

(Gæti reyndar haft eitthvað smá með það að gera að klukkan á símanum mínum var 3 mínútum of sein. Þó ekki allt, þar sem ég var ekkert mikið að fara eftir því hvenær strætó ætti að fara – hef venjulega ekkert kíkt eftir því).

jargh!

ekki gaman þegar losnar úr manni fylling/brotnar tönn (ekki alveg viss um hvort tönnin hafi brotnað, en allavega fyllingin)

Fæ ekki tíma hjá tannsa fyrr en á fimmtudaginn. Nú verð ég nonstop með tungubroddinn á hvössu brúnunum þar til þá og að passa að tyggja bara hinum megin…

reyndi að muna

alveg heillengi titilinn á þessari mynd áðan.

hrikalega pirrandi þegar maður er að reyna að muna eitthvað en ekki séns að það detti inn. Þurfti að leita smá stund á google til að finna.

Def overrated ræma, reyndar, að mínu mati…

urr

lítið varið í að eiga afmæli á föstudegi, ef á kvöldið er troðið aukaæfingu í hljómsveitinni. Get ekki með nokkru móti skrópað, þar sem ég skrópaði á þriðjudaginn til að hlusta á Fífu og félaga í Ungfóníu og bara 2 æfingar eftir fram að tónleikum.

muuu!

óglatt

og nei, ég er hvorki með gubbupest né á von á barni.

En viðbjóðsútblástursfýlan í strætó áðan, ojbara! Finn ennþá lyktina í nösunum. Lítt góð.

Reyndar var strætóferðin samt skárri en fyrir tveimur vikum, þá fyrir utan útblástur sat ég fyrir aftan manngrey sem var skelfileg fýla af, greinilega ekki farið í bað ansi lengi, bæði svita- og skítafýla, ásamt stækri reykingalykt.

Verð að viðurkenna að mig langar ekkert sérlega til að þurfa að taka strætó oftar en ég geri…

röflið

unglingurinn röflaði yfir okkur hálft kvöldið um hvernig stæði á því að hún þyrfti að læra heilar 5 stórar þéttskrifaðar blaðsíður um aðalsetningar og aukasetningar. Fór svo út í skammir á Geislabækurnar og húðskammir á strákaskammirnar í bekknum sem ekki gera verkefnin sín þannig að tímarnir fara í að reka þá í það í stað kennslu.

Þegar pabbi hennar var búinn að fá nóg, og bað hana hætta þessu, sagðist hún sko vel mega röfla, þar sem hún geri það nær aldrei.

Og það er líka alveg rétt hjá henni.

Svo settumst við niður og leystum aðal- og aukasetningavandræðin.

handlaginn

var ósköp ánægð með vinnuna hjá múraranum um daginn, eins og ég sagði frá. Vorum hins vegar ofrukkuð um 2 1/2 tíma, ég hringdi og það var svo sem ekkert mál að laga það. Nema það er ekkert búið að laga það neitt. Erum búin að hringja þrisvar til að ítreka og ekkert gerist. Nú fer ég á eftir og stend yfir manninum þar til hann strokar reikninginn út úr bankanum (hann er náttúrlega kominn fram yfir tímann og ég nenni ómögulega að fá Intrum í heimsókn).

Frekar stór ljóður á annars ágætis þjónustu…

Jæjaþá

kom að því að maður yrði fyrir ædentíþeft – ekki gríðarlega alvarlegu samt.

Tók eftir því í dag að inn á síðuna mína höfðu ratað nokkrir frá snilldarfærslu Hörpu Hreinsdóttur um veikindi borgarstjóra. Skildi þetta ekki alveg, því þrátt fyrir að hafa lesið færsluna fyrir talsverðu síðan mundi ég ekki eftir að hafa skrifað neina athugasemd við hana.

Fór inn á færsluna, og sjá: Neðst í athugasemdunum var fyrst einhver verjandi Barnalands eða er.is (sem ég hef reyndar aldrei ratað inn á), illa skrifuð athugasemd í mínu nafni og með vísun á síðuna. Sjá hér. Harpa sjálf skilur ekkert í þessu rugli í mér, eins og sjá má. Ég skrifa fúla færslu um að þetta hafi ekki verið ég. Nema svo (eftir annað svar Hörpu) kemur enn meiri ruglfærsla og enn tengd á mig.

Égetsvo svariðða…

og mikið er

skelfilega pirrandi að hafa ekki vinstri hástafatakkann virkan á tölvunni. Hef eitthvað barnanna grunað um að hafa hellt einhverju niður í lyklaborðið. Vill til að það er hægt að nota lyklaborðið, það eru jú tveir hástafatakkar (jú, og shift lock, hvað heitir það á íslensku, aftur?) Samt pirrandi.

flott grein

Las þessa aðsendu grein í Fréttablaðinu í gær. Ekki smá sannleikur þarna. Báðar stelpurnar mínar hafa lent í að vera með svona snarvitlausa krakka inni í bekk, ekki nokkur friður til að læra.

Myndum við sætta okkur við svona inni á okkar vinnustöðum? (þ.e.a.s. ef við höfum ekki valið okkur að vinna með erfiða einstaklinga, NB). Að það sé ekki vinnufriður einn einasta bút úr degi fyrir einhverjum sem getur ekki hagað sér.

Skólinn er vinnustaður barnanna okkar. Auðvitað eiga erfiðu börnin rétt á námi og skólagöngu, en hafa hin engan? Þau sem vilja gjarnan vinna og læra?

og tókst að birta þetta! Skrítið.

reynum aftur með hina:

Í gær áskotnaðist dætrunum þessi lifandis ósköp af flöskum, eins og ég hef þegar sagt frá. Þegar við Fífa vorum að leggja af stað upp í Breiðholt til að ná í pokana keyrðum við Bjarnarstíginn, út á Skólavörðustíg. Sá lögregluþjón á mótorhjóli, með blá blikkandi ljós á Skólavörðustígnum. Vissi ekkert hvað hann væri að gera þarna. Nema hvað, ég keyri bara út úr götunni og beygi upp Skólavörðustíginn eins og vanalega. Mæti þá fánaborg og fleiri mótorhjólalöggum. Fjárans bænagangan á ferð. Fljót að bakka til baka og rétt náði að fara yfir götuna og út á Bragagötu (eða var það Baldurs, man aldrei hvor er hvor) áður en gangan fór fyrir mig. Hefði annars þurft annaðhvort að bíða í svona kortér eða bakka niður allan Bjarnarstíginn.

Alveg vona ég að það verði ekki tekið mark á bóninni um að bæta við kristinfræðikennslu í grunnskólum. Allt of mikið af henni nú þegar. Kristinfræði kennd frá fyrsta bekk til fimmta, það er fyrst núna í sjötta bekk hjá Freyju sem fagið heitir trúarbragðafræði. Var í sjöunda bekk hjá Fífu, held ég.

Annars góð umfjöllun um eitt aspect göngunnar hér.

borðinn

sko, Atli, ég mundi hvar hann var og er búin að setja hann upp á undan þér í þetta skiptið…

nærri þvinguð út af

einhver jeppafávitinn (á Stórum Jeppa) ók vinstra megin við mig og örlítið á undan inn í hringtorgið við Nóatún vestur í bæ. Inn á hringtorgið var tekin falleg hreppstjórasveigja, ég þurfti að klossbremsa, út aftur sama, (án klossbremsunar, þar sem ég bjóst algerlega við þessu þar). Núnú, gaurinn var náttúrlega enn til vinstri við mig og þar sem ég gat eins búist við að hann vildi komast á mína akrein, áður en gatan þrengdist við Grandaveg var ég tilbúin og orðin örlítið fúl.

Jújú, stóð heima, hann byrjaði að beygja fyrir mig. Þá lagðist ég á flautuna og hann hrökk til baka. Ég fram úr, með þjósti. Þvuh.

Sá svo að hann horfði á mig, þar sem ég beygði í átt að Bónus og hann hélt áfram út á nesið.

Hefði þurft að geta sagt við hann að hann ætti jeppa, ekki veginn.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa