Archive for the 'montið' Category

meira mont

já kemur í bunum þessa dagana…

Um daginn fékk ég vinabeiðni frá útlendingi á smettinu. Ég smellti bara á samþykkja eins og ég geri nánast alltaf (hendi síðan út aftur ef mér líst ekki á viðkomandi við skoðun eða ef statusar eru eitthvað rugl).

Sé síðan að viðkomandi setur stöðuna: @101 Reykjavík. Læktakkinn fer í notkun.

Síðan fæ ég skilaboð:

Hello! I teach at the Clive Davis Institute of Recorded Music, New York University and I am a fan of your music, as is my friend and colleague Matthew Barton, Curator of Recorded Sound at the Library of Congress. We presented some recordings of your choral works to my students last term. I am in Reykjavík for a couple of days and would love to see the Academy if it is open. Do you know if that would be possible?
Cheers,

Ég svara sem er að skólinn sé búinn í bili, eitthvað sé nú væntanlega í gangi samt en hins vegar sé húsið sérstaklega lítið spennandi að sjá, vonandi vinnan sem þar fari fram betri.

Maðurinn spyr þá hvort ég sé til í að hitta hann yfir kaffibolla daginn eftir, ég er vel til í það og sting upp á Mokka klukkan 3.

Á Mokka reynist hins vegar allt vera troðfullt, við löbbum niður á Laugaveg, fyrst í Smekkleysubúðina þar sem við hittum á Ása sjálfan, fínt spjall og keyptir örugglega 20 diskar af alls konar íslenskri tónlist. (já maðurinn er semsagt líka með útvarpsþátt þarna í Nefjork)

Allavega yfir súkkulaðibollanum á 10 dropum segir hann mér af því að hann hafi fengið téðan Matthew til að halda fyrirlestur í kúrsinum sínum. Sá hafi komið með heilmikið af músík og meðal annars hafi hann dregið upp disk og sagt: Ég ætla að leyfa ykkur að heyra lag eftir tónskáld sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, íslending sem heitir Hildigunnur Rúnarsdóttir. Minn maður hváir – haa? hún er líka uppáhalds hjá mér…

míns ennþá gapandi – en greinilega er músíkin mín farin að heyrast vestanhafs. Ekki slæmt, ekki slæmt!

hátíð

já, formleg opnunarhátíð Hörpu, enn syngjum við systkinin og dóttirin nema reyndar hefur bróðurdóttir tekið við af Tobba bró – hann sendir dóttur sína í Raddir Íslands.

Ég var eiginlega búin að gefa Fífu miðann minn en svo bauðst henni að syngja líka með og treystir sér ekki í að sitja alla þessa löngu tónleika fyrir seinna hlé og fara svo upp á svið að syngja, þannig að ég ákvað að nota miðann minn bara sjálf, mun sem sagt sitja í sal og hlusta í fyrsta skipti í kvöld. Heilmikið bland í poka (bland í Hörpu?) prógramm og reykvélar hjá nýgildingunum, við fundum fyrir því á æfingunni í gær, allt í þoku þegar við komum inn. Vonandi verður hægt að loftræsa salinn í seinna hléi.

Svo er nú að detta ekki fram af svölum 3 með lága handriðinu.

Gæti skrifað röflfærslu um hitt og þetta, til dæmis PR mistök númer 1 upp í 200 (getið hver þau voru) og fæðina sem visir.is virðist leggja á húsið en ég er að hugsa um að gleðjast – og vona það verði ekki brjáluð mótmæli fyrir utan í kvöld. Pínu hrædd um það nefnilega.

Allavega kom frétt á þýskri sjónvarpsstöð, hægt er að sjá okkur Hallveigu systur og Fífu á 4:15 – meira að segja skýrt!

alveg er ég viss um

að fullt af Neiurum er búið að fela mig á smettinu, búin að vera allt of aktíf að plögga já í málinu sem má ekki nefna.

En nóg um það, bloggið á að vera frísvæði.

Byrjuðum á Béfætinum, níundu sinfóníunni á æfingunni á mánudaginn var. Við Hljómeykisfyrstusóprönur fundum tæpast fyrir hæðinni enda í fínu formi eftir Schnittke. Hlakka annars verulega til að fara á fyrstu æfingu í Hörpu eftir rétt ríflega mánuð. Fór þangað um daginn að skoða, Eldborgin er að verða ansi hreint flott bara, myndin sem ég tók var því miður ónýt en þetta svæði verður líka skemmtilegt:

Svo stendur til að endurtaka Schnittke, erum að reyna að koma saman dagsetningu (plís plííís!). Það var ótrúlega magnað að flytja þetta, ég er búin að setja þrjá af fjórum köflum á netið. Hér fer sá fyrsti. Tek samt fram að það að horfa og hlusta á upptökur af þessu er ekkert nálægt upplifuninni af tónleikum, fullt af fólki sem kom í Guðríðarkirkju er búið að segjast koma aftur í bænum. Ein keyrði meira að segja upp í Skálholt daginn eftir fyrri tónleikana og hlustaði á þá síðari.

Já, kaflinn…

sjáið bara

fallegu stelpurnar mínar með litlu dýrðarfrænku sína:

freyja og karen ólöf

fífa og karen ólöf

smá pása

frá ferðasögunni til að monta mig af stráksa mínum og hinum guttunum í Drengjakórnum.

Hér er myndband úr Kastljósinu í gær sem sýnir þá:

Finnur er í nærmynd á 1:16

í allar áttir

það virðist vera allt að gerast hjá mér þessa dagana, útbreiðsla í allar áttir. Núna fyrir stundu var útvarpsútsending + bein netútsending á Guðbrandsmessunni minni – frá útvarpsstöð í Princetonháskóla. Í afkynningu hljómaði: „Without doubt one of the major choral works of our time“ ásamt stuttri kynningu á undirritaðri og verkinu. Þessi útvarpsmaður hefur verið með þátt sem kynnir lítt þekkta tónlist í klassíska geiranum síðan 1993.

Maður er bara frekar rígmontinn hér :þ

Þetta sama verk er ég svo að fara til Noregs og hlusta á, á tvennum tónleikum eftir hálfan mánuð.

Svo auðvitað Ástralía, það verður ágætis kynning líka, lagið mitt verður á tónleikum þar sem aðeins verða flutt 3 verk, eins og ég hef áður nefnt.

Montfærslu lokið…

textinn

já þessi sem ég er búin að leita að í óratíma…

Fundinn.

Tók nokkrar ljóðabækur á bókasafninu um daginn, aðallega vesturheimsskáld, Stephan G og Káinn, er að spá í að gera kannski eitthvað smotterí fyrir ferð Drengjakórsins á næsta ári, ef þeir vilja.

Nema hvað:

Freyja er heima í dag, lasin, ég á ekki auðvelt með að semja þegar einhver er heima þannig að ég ákveð bara í morgun þegar við erum búin að moka Finni í skólann og Jón Lárus og Fífa farin í vinnu og skóla að fara nú bara aftur niður að leggja mig. Sé kannski ekki fram á að geta sofnað, er enn á svo stórum steraskammti að því fylgja erfiðleikar með svefn. Gríp því Stephan G, opna þar sem ég er komin, þar eru ljóð til einstaklinga, framhjá þeim, finn þetta fína ljóð. Jahá, svona gæti lag byrjað við þetta. Rýk upp í tölvu til að gleyma þessu nú ekki, sest við, klára laglínuna, kíki á altinn, já hvernig væri að hafa nú byrjunina í bassa og tenór svona – og nú er lagið bara tilbúið. Truflaði mig ekki einu sinni að hafa sjónvarpið niðri í gangi.

Vildi þetta gengi oft svona vel…

foreldradagur

viðtöl við kennara í Austurbæjarskóla, Finnur duglegur í stærðfræði, bögg að Ólympíustærðfræðin rekst á við badmintonið hjá honum en kennarinn ætlar að reyna að fá dæmin fyrir hann og stelpu í bekknum, bæði stærðfræðinördar. Gutti má fá meira sjálfstraust í leikfimi (kemur á óvart – eða ekki).

Unglingadeildarkennarinn hafði bara jákvætt að segja um Freyju. Mætti kannski vera aktífari í umræðum, trana sér aðeins meira fram, það er nú ekki alveg mín dama.

Áttundi bekkur var með kökusölu, Freyja bakaði helling af súkkulaðibitakökum. Spennandi að vita hvernig hefur gengið að selja. Tók myndir af undarlegustu kökunum á símann minn – verð eiginlega að henda þeim hér inn á eftir. (uppfært, kökurnar mættar)

móðir mín

já, tvöföld merking þessa titils núna, hún mamma bara stjórnaði einum albestu barnakóra landsins fyrr og síðar – ég er með upptöku hér af verkinu Móðir mín í kví, kví, eftir Jón Ásgeirsson. Segi verki ekki útsetningu þar sem þetta er mikið meira en bara útsetning á þjóðlaginu.

Núna í kvöld var ég á ljómandi góðum tónleikum hjá Gradualekórnum sem er á leið í keppni í Tékklandi. Sungu meðal annars þetta verk, mjög flott og vel flutt hjá þeim, alveg toppur barna- og unglingakórstarfs hér núna.

Þessi gamla upptaka af verkinu er bara svo miklu betri…

Freyja

hér kemur hún síðan um daginn.

yfirlit

var að fá yfirlit frá STEFi um tónlistarflutning (skráðan) í útlöndum.

Á síðasta tímabili (1. nóv 2007 til 1. nóv 2008) var flutt tónlist eftir mig í Danmörku, Englandi, Tékklandi, Finnlandi, Litháen, Ungverjalandi og Þýskalandi. Meðal annars 3 frekar stór verk, ekki bara smálög.

Þetta kemur alltsaman…

dómur

Hljómeyki fékk að mestu leyti fínan dóm hjá Jónasi Sen í Mogga dagsins. Ánægður með flutning kórsins á öllu nema einu, verki Ríkarðs, en það er líka snúið að gera vel, ætti að slípast, við flytjum það væntanlega tvisvar enn, núna í haust.

Þetta segir Jónas um mitt verk:

Kontrabassaleikurinn var mun markvissari í næsta atriði dagskrárinnar, Bakkabræðrum eftir Hildigunni Rúnarsdóttur við texta Jóhannesar úr Kötlum. Þar spilaði Kristján skemmtilegan rytma sem smellpassaði við einstaklega skemmtilega laglínu, einfalda og grípandi. Hildigunnur var ekkert að flækja málin, hún leyfði skondnu ljóði Jóhannesar að njóta sín; tónlistin var blátt áfram og lifandi, snyrtilega útfærð fyrir kórinn sem söng af fagmennsku og endirinn var fullkominn. Þetta var snilld!

Ekki kvarta ég…

reyndar

er búið að ákveða hér heima að baka matbrauð af einhverju tagi hverja helgi hér, svona í kreppunni. Flatkökurnar kostuðu um 30 krónur fyrir 5 stórar heilar flatkökur, ég man ekki hvað pakki með tveimur til tveimur og hálfri (ömmubakstur) kostar en það er tæpast minna en hundraðkall. Maltbrauð í síðustu viku, flatkökur núna, hver veit hvað við bökum næst? Seytt rúgbrauð kannski, reyndar standard hér á bæ. Allavega planið að hafa það nógu fjölbreytt, þannig að við gefumst ekki upp á því. Höfum heyrt nógu margar sögur af fólki sem kaupir sér brauðvél, bakar öll brauð í 2-3 mánuði og svo stendur vélin ónotuð við hliðina á fótanuddtækinu, litla ljósálfinum og hlutabréfastaflanum…

ekki smá hrós

ég er ógurlega montin núna. Í gærkvöldi hljómaði á Rondó (ókynnt, eins og alltaf) Requiem Jóns Nordals. Þrælmenntaður tónlistarmaður, vinur minn, heyrði og þekkti ekki, greinilega íslenskt en hann áttaði sig ekki á tónskáldinu og hélt helst að þetta væri eftir mig.

Þetta er eitt það almesta hrós sem ég hef á ævi minni fengið. Jón Nordal er að mínu mati langbesta tónskáld sem Ísland hefur átt og þó víðar væri leitað.

hitt montið

auðvitað stóðu hin sig svo líka vel, Freyja var með 9,25 í meðaleinkunn, Finnur með mjög gott í 14 fögum, gott í 4 og sæmilegt í einu (íþróttum, væntanlega er hann svolítið líkur mömmu sinni). Það er ekki gefið ágætt í Austurbæjarskóla, mg er hæst, þannig að þetta er náttúrlega líka mjög glæsilegt.

útskriftin hennar Fífu

vorum þar áðan, uppi í Hallgrímskirkju, Fífa fékk tvenn verðlaun (fyrir að vera yfir 9 í meðaleinkunn og svo fyrir frábæran árangur í dönsku). Hún var með 9,58 í meðaleinkunn á skólaprófunum, ekki smá flott, það! Kennararnir ógurlega ánægðir með hana, og reyndar árganginn í heild. Flottir krakkar. Síðan var þvílíkt flott hlaðborð í boði foreldra, við brutum heilann um hvað við ættum að koma með, mér fannst ómögulegt að kaupa eitthvað beint, hefði getað keypt ostaköku, en datt þá í hug að við höfum stundum gert snittur með grafinni gæs og piparrjómaosti, Jón Lárus hljóp niður í Ostabúð og keypti í þetta og við snöruðum fram nokkrum snittum á mettíma. Málið leyst.

Svo fá litlu krakkarnir einkunnirnar sínar á morgun, ætli maður monti sig ekki smá þá líka?

jei, búin

með leiðinlega verkefnið sem ég er búin að vera að bögglast við alla vikuna (segi mjög fljótlega frá hvað það var)

Svo fékk ég kveðju í sambandi við hofleverandørstatusinn, spilaðir voru fjórir dúettar og féllu víst bara vel í kramið. Veit ekki hvort það var nefnt í kynningu að ég lærði í Danmörku, þarf eiginlega að spyrjast fyrir um það…

vííí

ætli manni verði boðið í Sigurjónssafnið

nammi

nýja Remi kexið með dökka súkkulaðinu er ef mögulegt ennþá betra en það gamla.

monnnth

lesist með norðlenskum framburði, takk.  Já og hörðu t-i, þetta er ekki upp á ensku.

Stelpurnar voru að koma með miðsvetrarprófaeinkunnirnar sínar heim, gekk þvílíkt vel, Fífa með 9,4 í meðaleinkunn og Freyja 9. Glæsilegt hjá þeim, báðar hæstar yfir bekkina og allavega Fífa yfir árganginn. Finnur tók bara eitt próf held ég, í lestri, ég veit ekki enn hvað hann fékk. En fluglæs er hann…


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa