mikið þarf annars að hugsa um eitthvað annað til að lifa hér af!
var boðið í þemamatarboð um daginn, upp úr myndinni um Júlíurnar tvær. Snilldarboð með bleiku þema, nánast allur matur og allt var bleikt og/eða rautt.
Nokkrar myndir fylgja og það má öfundast…
fordrykkur
rósagrautur
borðskreyting
aðalrétturinn
milliréttur
eftirréttur (hvers vegna fundu þær ekki bleika sítrónu? skil ekkert í þessu!)
og kaffi og konfekt.
Verst að myndirnar eru teknar á símann og eru ekki alveg nógu góðar. Verður að hafa það bara.
og búmmtsjakamúsík hér á efri hæðinni, full hæð af MHingum á leið á grímuball á Nasa. Við aldraða settið sitjum niðri í sjónvarpsherbergi sitt með hvora tölvuna, hangandi á smettinu. Gaman aðissu.
Annars hafa úllíngarnir þennan fína tónlistarsmekk, í augnablikinu hljómar Queen á fullu og gengið syngur hástöfum með. Gæti verið verra, gæti verið miiiikið verra.
við Jón Lárus fórum með guttann á Vísindavökuna á föstudaginn var. Fullt af gríðarlega spennandi básum og sýningum, stráksi hreifst auðvitað af Sprengjugengi efnafræðinema og hauskúpum mannfræðideildar og heilaþverskurði læknadeildar og stærðfræðiforriti á netinu. En mikið þarf nú vakan að komast í annað húsnæði en Listasafn Reykjavíkur og básarnir þurfa líka að verða stærri og fjölmannaðri. Ótrúlegur troðningur, ekki bara erfitt að komast að básunum heldur nánast ómögulegt að komast milli þeirra líka.
Hvar gæti þetta verið næst? Hörpu? Sting upp á því.
Er samt ekki alveg handviss um að mér takist að klára mína fyrir kvöldið. Og prenta út. Og já, humm prentarinn er leiðinlegur við mig og blettar pappírinn.
Það festist nefnilega blað í honum um daginn, ég náði því öllu út nema einu snifsi sem ég gat engan veginn fundið, skildi ómögulega í þessu. Var búin að taka prentarann eins mikið í sundur eins og ég þorði, alla lausu partana sem er auðvelt að fjarlægja og svo skrúfa lokið af. Óskiljanlegt.
Fékk uppgefið hverjir þjónusta Brother prentara, það reyndist vera verkstæði við hliðina á Suzukiskólanum í Sóltúni. Viðgerðarmaðurinn var byrjaður á því að útskýra ítarlega hvar þeir væru til húsa en ég rata reyndar á vinnustaðinn þannig að mér tókst að stoppa hann.
Svo var pappírssnifsið fast í blekhylkinu. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að ná því í sundur, tók það bara úr. Viðgerðarinn var svona 15 sekúndur að kippa þessu í lag og tók ekki krónu fyrir. Mjög næs.
Síðan þarna hafa blöðin komið út með rönd og flekkjum, ég vona það sé bara prenthylkið ekki að ég hafi klúðrað prentaranum með að taka hann í sundur.
Freyja fermdist í Hallgrímskirkju, bara ósköp falleg athöfn, ég var ánægð með ritningargreinina sem hún valdi (það sem þér viljið að aðrir gjöri ykkur skuluð þið og þeim gjöra), fermingarbróðir spilaði ógurlega vel á saxófón.
Svo heim og síðasti veisluundirbúningur. Að maður hélt. Búin að gera lista yfir það sem þyrfti að taka með á veislustað. Kristján Óli frændi, stjúpsonur Óla bróður hafði líka fermst um morguninn í Áskirkju, við slógum saman veislunum og vorum í safnaðarheimili Áskirkju. Hellingur og glás af veitingum enda þrjár fjölskyldur sem stóðu að börnunum.
Auðvitað þurfti svo að senda eina ferð til að sækja svosem eins og þrennt sem hafði gleymst/ekki athugast að þyrfti að taka með. (nýttist svo ekki nema einn hlutanna þriggja – og svo gleymdist sá, fíni Raadvad brauðhnífurinn okkar, þarf að tékka á honum á morgun).
Veislan tókst feikivel, þrjár vinkonur Fífu voru ómetanleg hjálp í eldhúsinu og framreiðslu, annars hefðum við þurft að vera á haus í að fylla á kaffikönnur og bæta við á kökuborðið.
Kökur, kökur, flatbrauð, kökur, tvær týpur af fermingartertum, tengdamamma gerði aðra týpuna og pabbi Kristjáns Óla lét gera hina (held ekki að þau hafi gert hana sjálf, má leiðrétta mig ef það er rangt)
Freyju kaka frá ömmu hennar
hér Kristjáns Óla
Freyju kaka frá Ingvari, pabba Kristjáns, og familíu
og svo Kristjáns Óla kaka frá sömu.
Nóg af fermingartertum. Fyrir utan nú peruterturnar, karamelluterturnar, súkkulaðihnetukökurnar, vorrúllurnar, kleinur og snúða, heitt brauð, flatkökur með hangikjöti (heimabakaðar sko!) laxarúllur og hvað veit ég, örugglega að gleyma einhverju. Ætluðum að hafa franskar súkkulaðikökur en þær náðu aldrei inn í ofn, hvað þá meira.
Freyja spilaði svo Á vængjum söngsins ásamt frænda sínum sem hoppaði inn í meðleik með þriggja daga fyrirvara. Glæsilegt.
svei mér þá, skemmtilegasta sem ég hef farið á var um helgina. Hljómeyki fór í Skálholt og hélt tónleika, óóótrúlega skemmtilega, uppleggið var að velja tónlist sem hefur verið samin fyrir Skálholt og við flutt – þar er heldur betur úr mörgu að velja, enda höfum við pantað og flutt ný verk þar á hverju ári í yfir 20 ár. Valkvíðafestival. Allavega völdum við verk eftir Jón Nordal, Báru Gríms, Elínu Gunnlaugs og Óliver Kentish, allt frábær stykki, undirrituð fékk meira að segja að syngja sóló í uppáhalds íslenska verkinu sínu, Óttusöngvum að vori eftir Jón Nordal.
Uppeftir á föstudagskvöldi, æft frá átta til tíu í kirkjunni, til þess að gera snemma í bólið, vaknað til að æfa aftur klukkan tíu, pása frá eitt fram að tónleikum klukkan fjögur.
Má vel segja að árshátíðin hafi byrjað á þessum yndislegu tónleikum, ágætlega mætt miðað við árstíma og að þetta var ekki mikið auglýst, vel tekið undir (klappað, meira að segja – ekki alveg algilt í þessari kirkju)
Þá út í sumarbúðir, já fer svo sem ekki að lýsa mat og skemmtiatriðum nema hvað í kórnum eru kokkur og þjónar og kjötvinnslumaður, neituðu annarri aðstoð við matinn – fáránlega góð þriggja rétta máltíð göldruð á borð, ég á ekki myndir, myndavélin mín er dáin (mu).
vinnujólapartíið af nokkrum í gærkvöldi – Borgarleikhúsið, pálína (potluck), starfsmannafélagið bauð drykki, ekki smá flott, nunnukórinn bauð upp á þrjú jólalög með frábærri hjálp Agnars Más.
Missi af jólapartíinu í Hafnarfirði á föstudaginn, þá er nefnilega jólagleði Tónverkamiðstöðvar, hmm ætli sé eitthvað í Suzuki?
Listaháskólinn á fimmtudaginn, hjá deildarforseta
Tónsmíðapartí jú, getum riggað því upp hér heima.
Jarðarfarasönggleði, naahh…
Einfaldara hjá bóndanum, smá deildardæmi á föstudaginn, smellur akkúrat á undan Tónverkamiðstöðvarpálínunni sem við förum bæði á.
Fyrst hljómsveitaræfing, frá 9:45 – 13:00. Ekkert sérkennilegt við það. Smá pása, þá Söngvaseiðssýning, mæting 14:00, sýning 15:00-17:45 (sirka). Þá er byrjað fyrirpartí fyrir árshátíð Samskipa, sem er haldin í kvöld. Sleppi nokkuð augljóslega megninu af því partíi, sæki Jón Lárus þangað og keyri í Gullhamra.
Vandamálið: Um miðja sýningu fæ ég ballgreiðslu, hárskraut og fínheit. Eftir svona 10 mínútur af sýningarballi er hárskrautið rifið úr og ég treð nunnuhabit yfir hárið.
Hvurn árann geri ég? reyni að fluffa hárið upp aftur eftir sýningu og fá skrautið lánað? (Hallveig, skila því fyrir þína sýningu á morgun :Þ). Þvo á mér hausinn eftir sýningu, henda framan í mig einhverju sparsli aftur og fara með hárið bara einhvern veginn á árshátíð?
var gersamlega frábær, eins og svo sem kom fram hér í gær. Toppurinn litlasystir og kompaní í troðfullri Dómkirkju (fullt af fólki þurfti að standa). Auðvitað hellingur og glás af atburðum sem maður missti af, en ósköp lítið hægt að gera í því.
Ég skil ómögulega liðið sem þarf alltaf endilega að röfla yfir deginum og vera voða stolt af því að halda sig sem lengst í burtu. En það er svo sannarlega þeirra tap. Ég er þess fullviss að jafnvel hörðustu sjálfskipaðir menningarhatarar hefðu fundið eitthvað við sitt hæfi í gær. Það er líka orðið svo mikið af atburðum að það er ekkert eins og fyrstu árin, þar sem maður gekk á milli staða en komst hvergi inn fyrir troðningi.
Nóttin – það er svo aftur allt annað mál. Unglingurinn vildi endilega fara út – mér var eiginlega ekki alveg sama, en svo var þetta nú allt í fína, var bara með vinkonu sinni að þvælast.
Í dag hins vegar mestanpartinn afslöppun, ein sorpuferð og svo fórum við Freyja í Kringluna til að fá 3G kort fyrir nýju símana okkar. Bóndinn var hins vegar í sjálfspíningarham og hjólaði kring um Reykjavík í rokinu…
eins og við fórum í um daginn er áttræðisafmæli þá var ég núna áðan í hundraðogfertugsafmæli.
Voða flott brönsj í Turninum, aldrei komið þar áður (geeeeeeðveikt útsýni, ýmsar byggingar sem sáust frá nýju sjónarhorni) boðið kom afmælisbörnunum algerlega á óvart, fólk táraðist yfir ræðunum þó ekkert væri áfengið. Alveg eins og svona veislur eiga að vera.
Ræsing hálfsjö um morguninn til að vekja raddirnar, hitað vel upp og svo morgunmatur. Fengum upphitunarsal til að renna í gegn um prógrammið, náðum því nærri öllu (höfðum bara hálftíma).
Síðan var haldið til keppni, vorum í góðum tíma. Ég hafði fengið leyfi til að taka upp okkar kór þannig að ég fór inn í sal og setti upp vélina. Við Jón Lárus sátum síðan inni og hlustuðum á fyrsta kórinn í unglingakóraflokkinum. Það var frekar hughreystandi að þau voru ekkert sérlega góð…
Svo komu okkar stelpur og Jónsi inn í sal, tóku sig vel út í sparibúningunum. Sungu fimm lög, hér fáið þið að sjá Nigra sum eftir Pablo Casals, eina lagið með undirleik sem þær sungu í keppninni:
Tókst að mér fannst gríðarvel, sendi þeim thumbs-up eftir mitt lag. Kláruðu og gengu út, við eltum, ekki tími til að hlusta á fleiri kóra. Hleruðum aðeins inn í salinn, heyrðum að næsti kór var ansi góður. Árans.
Jæja, Šárka lóðsaði okkur á næsta stað, kirkjan þar sem við höfðum klifrað upp í turn. Ekki sérlega mikill tími, 40 mínútur frá því kórinn lauk keppni þar til næsta lota hæfist. Einhverjar voru þurrar í kverkum, ég sá fram á að hafa mögulega tíma til að hlaupa í næstu búð og kaupa vatn. Skaust út, fann búð, fann kalt vatn, var ekki með neinn lausan pening, sem betur fer tók búðin kort, debet virkaði ekki, visað tók sinn tíma, ég var að verða ansi stressuð. Loksins rúllaði það í gegn, en þá vildi pinvélin ekki viðurkenna númerið. Held síðan að stelpan á kassanum hafi séð aumur á mér og leyfði mér að krota á miða, enda var þetta ekki sérlega há upphæð – alveg 1 1/2 lítri af vatni.
Hljóp að kirkjunni, snarhægði á mér, faldi vatnið (kom tveimur flöskum í töskuna og einni inn á mig), vissi ekkert hvort mætti koma með vökva þarna inn. Kórinn á undan okkar var að syngja, sem betur fer næstsíðasta lagið sitt, ég hinkraði á meðan þau kláruðu og gat svo laumað einni vatnsflösku í hvern kirkjubekk sem stelpurnar sátu í. Fjúkk!
Svo var komið að þeim, þarna voru líka sungin fimm lög. Tóku aðal kórhittið íslenska, Eg vil lofa eina þá, eftir Báru Gríms. Það var svo flott hjá þeim að ég hendi því hér inn, þrátt fyrir að það hafi akkúrat byrjað sími að hringja í upphafi (grrr):
Hin lögin voru líka mjög flott, ég þóttist þarna heyra nokkur smáatriði sem dómarar gætu mögulega pikkað í, samt. En þó tandurhreint og mjög músíkalskt og mikið flæði.
Hálfgert spennufall eftir báðar keppnirnar, fórum í mat og svo flestar stelpurnar upp á hótel. Við fararstjórar og kórstjóri röltum upp á skrifstofu hátíðarinnar til að athuga hvað enn stæði út af að greiða, það reyndust vera ríflega 55 þúsund tékkneskar krónur eða um 370 þúsund íslenskar.
Hátíðin tók ekki Visakort.
Glúbb!
Þá hófst mesta barátta við hraðbanka sem ég hef vitað. Við vorum með 8 kort sem við gátum tekið út af, sem betur fer rifjaði ég upp PINnúmerið á Landsbankakortinu sem ég nota annars nánast aldrei, þurftum að fara í hraðbanka frá tveimur mismunandi bönkum. Hlýtur að hafa verið fyndið að fylgjast með okkur, fólk örugglega haldið að við héldum að við værum að vinna í peningaspili, þvílíkt var fagnað þegar okkur tókst að taka út peninga. Ég notaði 3 kort, Jón Lárus einnig 3 og Jónsi 2. Magnað. En tókst á endanum.
Aftur upp á skrifstofuna, borguðum, fengum einhvern smá snepil og loforð um almennilega kvittun seinna um daginn. Upp á hótel. Þar hafði einni stelpnanna tekist að brjóta glerborð (reyndar ekki þennan dag), þúsundkall tékkneskar átti að borga fyrir það og ónei, ekki vildi hótelið taka kort fyrir því.
Góð ráð dýr.
Endaði á því að við lögðum peninga inn á reikninginn hennar Fífu og hún kom með okkur og tók út þennan þúsundkall sem þurfti, við hefðum ekki getað kreist meiri safa út úr kortunum okkar þó við gjarnan vildum, þennan daginn.
Klukkan fjögur var stímt í bæinn aftur, þá átti að vera verðlaunatilkynningar og -afhendingar. Vorum komin niðureftir skömmu fyrir afhendingu, þetta fína big-band var að spila á torginu. Stelpurnar fóru auðvitað að dansa, fyrst einar en eftir svona 2-3 lög var torgið orðið fullt af fólki að dansa, smituðu í kring um sig.
Svo var tilkynnt um verðlaun í keppninni, eins og áður hefur komið hér fram fengu stelpurnar gullverðlaun í kirkjutónlistarflokknum en silfur í unglingaflokknum (ég er enn að klóra mér í höfðinu yfir hvar dómararnir gátu skrapað heil 12 stig af kórnum þar – eins og ég sagði fyrr í færslunni fannst mér ganga betur í þeim flokki), silfurverðlaunin voru fyrir 88 stig en í kirkjuflokknum fengu þær heil 96 stig af 100 mögulegum.
Þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina hjá stelpunum!
Hrópað og sungið og dansað, og þegar Jónsi kom niður af sviði með verðlaunin sást ekki í hann fyrir stelpugerinu:
Hér svo mynd af hópnum með bæði verðlaunin:
Eftir fagnaðarlætin, upp á hótel og klára að pakka, henda dótinu út í rútu, fórum á síðustu tónleikana, náðum að hlusta þar á tvo kóra áður en við stungum af – æðislegur matur sem við fengum að þjófstarta á þar sem við urðum að rjúka af stað til Frankfurt ekki síðar en klukkan hálfníu:
Svo tók við ansi hreint löng rútuferð. Jónsi var kvaddur um ellefuleytið, hann fór út við Prag, ekki á leiðinni heim strax. Þó næsti dagur hafi nánast runnið saman við þennan, kemur sér færsla um hann.
Eftir allt of örfárra klukkutíma svefn var ræsing. Stelpurnar áttu að syngja í messu klukkan tíu, við létum ræsa morgunmatarliðið út fyrir okkur hálftíma áður en morgunmaturinn byrjar venjulega á hótelinu (hálfníu, þarna er greinilega ekki gert ráð fyrir að gisti fólk sem er að gera annað en slæpast í Prag).
Á morgunmatarborðinu var bæði kókópöffs (eftirlíking) og Nutella (alveg ekta) við mikinn fögnuð ungviðisins. Fyrir okkur hin, brauð, ostar, sultur, skinkur og pylsur, hunang, jógúrt og múslí, já alveg ljómandi morgunmatur.
5-7 mínútna gangur í kirkjuna (nefndi ég í gær að hótelið var mjög vel staðsett, bara svona þriggja mínútna gangur á torgið í gamla miðbænum). Upphitun, ekki veitti af, enda kalt í kirkjunni.
Messan sungin, sálmar á tékknesku, við bara með sálmabækur og sungum með. Mjög vel tekið undir, sem betur fer, full kirkja fólks. Stelpurnar fengu að syngja 3 númer, ég tók aðeins undir í Ég vil lofa, 1. sópran hafði ekki náð alveg upp í upphituninni. Það var samt eiginlega engin þörf á því í messunni sjálfri, enda raddirnar vaknaðar.
Ég ætla aldrei að kvarta undan lengd á messum hér heima framar. Þessi var nánast tveir klukkutímar, löng ræða og heillöng altarisganga. Var með bók með mér og laumaðist til að líta í hana á meðan ræðan var, enda skildum við auðvitað ekki eitt aukatekið orð.
Eftir messu fórum við Jón Lárus með Þóri ræðismanni að útbúa miða með auglýsingum fyrir tónleikana um kvöldið. Komum við á Starbucks, þar er nothæft kakó. Vorum svo heillengi að vesenast með að búa til miðana, fyrst kunni ekkert af okkur að taka skjáskot á Windoze, þeas. bara bút af skjánum (vorum að búa til kort með kirkjunni merktri inn á til að hafa á miðanum), endaði á því að henda minni litlu vél í samband, ná í mynd og senda Þóri í tölvupósti til að færa milli véla. Vesen punktur cz. Gekk samt á endanum, síðan sátum við þrjú og klipptum niður miða, gerðum 3 á hvert A4 blað. Út úr þessu komu um 400 miðar.
Við vorum alveg hálftíma seinni en við ætluðum upp á hótel að hitta mannskapinn. Gerði reyndar ekkert til, Jónsi kórstjóri notaði tækifærið og messaði yfir mannskapnum.
Nú, í bæinn að syngja, ákváðum nokkra túristastaði, Karlsbrú, við klukkuturninn, torgið, stoppuðum á 3-4 stöðum og sungum. Alls staðar þar sem stelpurnar sungu dreif að fullt af fólki og miðarnir voru rifnir út.
Svo var hópnum sleppt lausum og við Jónarnir fórum og fengum okkur gígantíska hamborgara og dökkan Bud (ekki Jónsi reyndar, prinsípp að fá sér ekkert í glas fyrir tónleika, en hann fékk að smakka hjá okkur).
Upp á hótel, við rígfullorðna fólkið (lýsing ræðismannsins) fékk sérherbergi, alveg ljómandi gott, verð að viðurkenna að ég var pínu fegin. Eiginlega slatta, enda lagði ég mig og steinsofnaði í smástund, ég hefði held ég ekki séð mig geta sofnað í kojunni inni hjá stelpunum, auðvitað stanslaus umgangur og ekki hefði ég kunnað við að segja þeim að steinþegja og halda sig úti frá sínu eigin herbergi svo ég gæti sofið. Nibb. Á meðan ég lagði mig fór Jón Lárus út að skoða umhverfið (les leita að uppáhaldsbjórnum okkar, Master). Fann eina krá með slíkan á krana.
(þetta er reyndar sá millidökki, hann er ekki alveg eins góður – en samt! Þessi bjór er ekki framleiddur á flöskum, bara krana. Frekar töff)
Jónsi hringdi í mig frá kirkjunni, stelpurnar höfðu átt að koma með kórdiska með sér til að selja eftir tónleikana en allar sem ein gleymdu því. Ég fór inn í gamla herbergið okkar, fannst ég vera eins og innbrotsþjófur að róta í töskunum (sorrí stelpur), hafði eina 15 diska upp úr krafsinu og kom með þá á tónleikana. Seldist einn diskur – reyndar sá eini sem seldist í ferðinni. En við gáfum nú reyndar nokkra líka.
Tónleikarnir voru flottir, betri en heima, ekki alveg fullsetið en ekkert skammarlega fátt heldur.
Eftir tónleika var búið að redda mat fyrir hópinn á staðnum sem hét einu sinni Reykjavík. Mátti velja um hamborgara eða þá tékkneskan matseðil. 16 borgarar fuku, nánast akkúrat helmingur lagði í tékkneska matinn. Sveik ekki, við JLS fengum okkur bæði steikta svínaskanka með súrum gúrkum, piparrótarmauki, sinnepi og gríðargóðu brauði. Algjör snilld. Nokkrar af stelpunum fengu sér bjór, þarna er löglegur áfengisaldur 18 ára þannig að það var lítið hægt að segja við því, svo lengi sem ekkert óhóf var í gangi. Reyndi ekkert á það, ósköp rólegar.
Sátum áfram í góða stund og spjölluðum eftir að stelpurnar fóru í bæinn. Tókum auðvitað loforð af þeim að ferðast um í hópum og ekki fara út fyrir alfaraleið. Allt í fína.
Upp á hótel, nánast engar stelpur mættar þangað, ekki nokkrar áhyggjur af þeim. Tékknesk þjóðlagatónlist inn um gluggann hjá okkur og auðvitað heilmikill hljóðheimur. Heyrðum í hreinsunarbíl fara framhjá, kom ekki á óvart enda göturnar meira og minna tandurhreinar. Sumar borgir mættu taka Prag sér til fyrirmyndar…
í kvöld var starfsmannateiti í LHÍ, tónlistar, leiklistar og dansdeildum (Sölvhólsgötugengið). Prinsessa frá Gana kom og eldaði fyrir okkur (sagði okkur sögu sína í lokin, frekar magnað), boðið upp á suðurafrísk vín og svo fjórréttaða máltíð.
Fyrsti réttur var steiktir gígantískir bananar, man ómögulega hvað þeir hétu, ásamt jarðhnetum, bara venjulegum söltuðum. Ljómandi gott, frekar þurrt kannski, væntanlega til þess ætlað að setja smá líningu inn á magann. Fyrir næsta rétt sko.
Sá var fjórþættur. Hrísgrjón og svartbaunir, baunirnar væntanlega stappaðar eða maukaðar, kom út eins og dökkt þykkt hrísgrjónajukk. Fínt. Kjúklingaleggir, mjög góðir, frekar venjulegir. Tvenns konar sósa með, önnur fiskisósa, með rækjum og þurrkuðum fiski, tómatbaseruð, get helst lýst henni eins og blöndu af ansjósum, saltfiski og harðfiski í tómat. Frábær sósa. Já, slatti af chili með. Seinni sósan var algerlega níðsterk (myndi giska á svona sjö á styrkleikaskalanum – kannski ýkjur) allir vessar fóru í fullan gang, okkur veitti ekki af servéttunum til að þurrka og snýta. Þeim sem kláruðu, þeas. Ég þurfti að fá mér aukaskammt af grjónabaunamaukinu til að geta klárað sósuskammtinn minn. Snilld.
Svo þriðji réttur, Fufu og súpa, ég skil ekki alveg hvernig á að borða þetta með puttunum, allavega ekki súpuna, sjálfsagt hægt að slafra í sig fúfúinu, svínakjötið ekkert mál en súpu? Ágætis matur en ég get nú samt ekki sagt að fúfú verði fljótlega á boðstólum hér.
Skemmtiatriði, tvær úr leiklistinni höfðu búið til vídjó um vinnustaðinn, talsvert hlegið, ágætt samt að ekki voru makar með, ég hef þurft að sitja í gegn um nógu mörg svona inside joke vídjó frá vinnustöðum til að vita að þetta er nákvæmlega það, inside joke. En ekkert að því, þarna var bara starfsfólk og þetta var bara mjög fyndið.
(mynd þrælstolið frá Alberti)
Eftirrétturinn samanstóð svo af fúfú og kjúklingasúpu…
En bráðskemmtilegt kvöld, takk Hildur, fyrir lán á afríkugallanum mínum, takk samstarfsfólk og takk kæri Ganíski kokkur – sem ég mundi rétt fyrir andartaki hvað hét en datt úr mér núna – og prinsessa sem settist að á kalda landinu í norðri, þó hér búum við nú reyndar ekki í snjóhúsum eins og var búið að hræða þig með.
Parísardömu, Baun, Hjálmar og skylmingamey í Alþjóðahúsinu áðan, fámennur en góðmennur blogghittingur. Sáum reyndar fleiri bloggara, enda leynast þeir víða.
Umræður fóru um víðan völl, frá borðskreytingum til brúðkaupa, frá ælupestum í útsýni til Esjunnar og hrynjandi flísa af blokkum, Hjálmar sagði að væntanlega fengju spennufíklar framtíðar útrás við að koma með klappstóla, stilla upp við blokkir á Skúlagötunni og setjast og bíða. Væntanlega mun það athæfi kallast Reykvísk rúlletta.
Ógurlega gaman, semsagt.
Í öðrum fréttum kláruðum við Þóra að raða Suzukinemendum í töflu í dag, til þess að gera sársaukalítið – þar til brjáluðu foreldrarnir byrja að hringja vegna þess að ungarnir þeirra voru ekki settir á eina tímann sem upp var gefinn sem mögulegur á stundatöflunni…
á Menningarnótt, rigning og rok, nokkuð sem er orðið sjaldséð í Reykjavík. Fórum og hlustuðum og horfðum á Freyju, pínulítið svið, krakkarnir komust varla fyrir, en þetta var ógurlega flott hjá þeim samt, tandurhreint sungið og fjölþjóðlegar kynningar á undan. Kannski maður hendi upptökunni inn á jútjúbið, þrátt fyrir að vindurinn spili talsverða rullu í hljóðupptökunni.
Niður í bæ, gegn um Austurvöll, ætluðum á Ingólfstorg en þá var þar svo mikill hávaði að okkur leist ekkert á, röltum upp Bankastræti, sáum lúðrasveit stika upp Bankastræti og Laugaveg, ætli þetta sé fyrsta skiptið sem marserað er þessa leið? Treysta S.L.Á.T.R.I. til að fara ekki troðnar slóðir. Tískusýning að byrja á Klapparstíg, en þá vorum við orðin köld og blaut og drifum okkur heim til að baka vöfflur.
Stelpurnar voru löngu horfnar með vinum sínum í bæinn.
Bróðir Jóns kíkti í heimsókn með þremur öðrum og þegar þau fóru var klukkan orðin rúmlega átta, þannig að við fengum okkur bara að borða og ætlum ekki út aftur fyrr en á flugeldasýninguna. Hefði viljað sjá söngdagskrána fótbrotnu dívunnar og fleiri í Dómkirkjunni, eða þá Hund í óskilum, en það verður að hafa það. Maður er orðinn svo ári latur.
Unglingarnir tveir koma hins vegar væntanlega ekki heim fyrr en eftir flugelda, sú eldri búin að biðja um leyfi til að fara aftur til vinkonu sinnar, ákvörðun mun liggja fyrir síðar í kvöld.
að lesa færslurnar hjá þeim útlendingum sem ég fylgist með á rss í dag – ekki orð um júróvisjón.
Horfðum reyndar á keppnina hjá Hallveigu og Jóni Heiðari (takk fyrir eðalborgara, Jón) en við Jón Lárus skildum krakkana eftir og stungum af í osta- og rauðvínspartí hingað ásamt nokkrum öðrum ircurum og horfðum ekki á stigagjöfina (sem er annars yfirleitt skemmtilegi hlutinn af fyrirbærinu)
Partíið var snilld, við ætluðum rétt aðeins að kíkja í 1-2 tíma en enduðum á því að fara ekki heim fyrr en um hálffjögurleytið um nóttina. Við bóndinn vorum reyndar aðalmengunarvaldar partísins, komum með baneitraðan ost sem ég hafði keypt í Frakklandi og var búinn að vera að menga íbúðina hjá okkur síðan á þriðjudaginn. Unglingarnir hér heima eru sárfegnir að vera lausir við hann úr ísskápnum.
Nýlegar athugasemdir