Archive for the 'leikhúsið' Category

eins og maður

hafi nú ekki fengið nóg af hruni þá á nú að steypa sér á kaf í kvöld og sjá Enron í Borgó.

Veit ekki alveg hvort ég hlakka til eða kvíði fyrir, kannski pínu blanda beggja.

(jú annars, auðvitað hlakka ég til…)

tvöfalt plögg og söknuður

Vá hvað ég mun sakna Söngvaseiðs, síðasta sýningin í dag. Þó ég hafi auðvitað ekki tekið þátt í öllum 85 sýningunum (eða svo) þá er þetta búið að vera hrikalega skemmtilegt og ég búin að kynnast fullt af yndislegu fólki, börnum og fullorðnum, kvöddum fyrri barnahópinn með tárum í gær og svo alla í dag auðvitað.

Ég held reyndar að það sé nánast uppselt en prófið samt – það gæti verið einn og einn miði eftir.

Svo þarf ég hins vegar að hlaupa beint eftir sýningu, tek væntanlega ekki einu sinni uppklappið, tónleikar hjá okkur í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna klukkan fimm (Söngvaseiðssýningin er búin kortér fyrir fimm) í Seltjarnarneskirkju. Þar eru mjög áhugaverð verk, Hymni eftir Snorra Sigfús, yndislegt hægferðugt verk með sterk höfundareinkenni Snorra, konsert fyrir – haldið ykkur: 8 pákur og eitt óbó eftir Jiri Druzchetsky, í klassískum stíl og svo Pákusinfónían eftir Haydn, bráðskemmtilegt stykki með stefjum frá austurevrópu. Lofa Frank í stuði á pákunum.

Hvernig væri nú að kíkja á annanhvorn staðinn í dag? Mjög ólíkt en bráðgóð skemmtun á báðum stöðum.

undirritaðri

mun bregða fyrir í mýflugumynd í opinni dagskrá Stöðvar 2 í kvöld – verð í nunnubúningnum og rétti Völu bakpoka, hatt og gítar meðan hún syngur lagið Tröllatrú. Þátturinn er Dagur rauða nefsins, verður í allt kvöld, atriðið okkar rétt fyrir níu.

lakknirinn

á morgun, vonandi bót minna meina! Skýst úr kennslunni, mamma allsherjarreddari ætlar að kenna einn tíma fyrir mig, takk mamma. Þykist heppin að fá tíma hjá fína lungnalækninum sem ég slysaðist til að panta mér tíma hjá hér fyrir fjórum-fimm árum í fyrri lungnabólgunni.

Þetta má vel fara að verða búið, takk.

Sýning á Söngvaseið í dag, alltaf jafn gaman. Tvær planaðar eftir og hver veit hvort þær verði ekki fleiri?

Ástardrykkurinn

jæja, þá er maður búinn að fara í óperuna, Donizetti stóð fyrir kvöldinu hjá okkur bóndanum.

Ekki var sýningin af verri endanum, Dísella, Garðar, Ágúst, Bjarni Thor og svo auðvitað Hallveig mín stóðu sig brilljant og það þrátt fyrir að við værum í arfavondum sætum, alveg innst undir svölunum. Kórinn var líka fínn, ekki get ég sagt að ég hafi tekið eftir því að þau dönsuðu og léku eitthvað illa, söngurinn var samt bestur hjá þeim. Enda eru þau jú söngvarar öll með tölu.

Músíkin – já gagnrýnendur hafa verið að agnúast út í að hún sé nú ekki merkileg, en samt hafi þeim þótt gaman á sýningunni og hvetja fólk til að fara. Nei, það er svo sem ekki mikið sem kemur á óvart, hljómagangurinn er frekar fyrirsjáanlegur, laglínurnar sætar og fínar, þetta sannar bara það sem tónsmíðakennarinn minn hann Þorkell sagði einu sinni við okkur í tíma: Maður getur alveg sagt: Þessi músík var gríðarlega merkileg og vel samin og úthugsuð, djúp eins og hafið – en mér hundleiddist og mig langar aldrei til að heyra hana aftur. Á móti, stundum hugsar maður: Þetta var nú svosem ekki par merkilegt en mikið var þetta yndislegt og ég komst í svo gott skap, þetta gæti ég vel hugsað mér að heyra aftur sem allra fyrst.

Kærar þakkir fyrir okkur, já ég get sannarlega vel hugsað mér að koma aftur og sjá ykkur. Verst að ná ekki að sjá Gissur minn og Þóru í aðalhlutverkunum.

(myndinni stolið af vef Óperunnar án þess ég skammist mín – hlýtur að vera í lagi fyrir auglýsingu á sýningunni :þ)

sérkennilegt

vandamál blasir við mér í dag.

Fyrst hljómsveitaræfing, frá 9:45 – 13:00. Ekkert sérkennilegt við það. Smá pása, þá Söngvaseiðssýning, mæting 14:00, sýning 15:00-17:45 (sirka). Þá er byrjað fyrirpartí fyrir árshátíð Samskipa, sem er haldin í kvöld. Sleppi nokkuð augljóslega megninu af því partíi, sæki Jón Lárus þangað og keyri í Gullhamra.

Vandamálið: Um miðja sýningu fæ ég ballgreiðslu, hárskraut og fínheit. Eftir svona 10 mínútur af sýningarballi er hárskrautið rifið úr og ég treð nunnuhabit yfir hárið.

Hvurn árann geri ég? reyni að fluffa hárið upp aftur eftir sýningu og fá skrautið lánað? (Hallveig, skila því fyrir þína sýningu á morgun :Þ). Þvo á mér hausinn eftir sýningu, henda framan í mig einhverju sparsli aftur og fara með hárið bara einhvern veginn á árshátíð?

Hversdagsvandamálin, maður minn…

vaaaá

hrikalega var gaman í kvöld. Gekk ekki smá vel, ruglaðist einu sinni pínulítið (átti að fara út sviðs hægri en fannst allar hinar vera að fara til vinstri – en það voru þá bara þær sem ég sá til – þetta var bara andartaks hik). Hinar nunnurnar (og ballgestirnir) toguðu mig til ef eitthvað var en það var algerlega minimal. Var gersamlega ekkert stressuð, mesta furða.

Gerði algjör mistök með því að klippa mig svona stutt í haust, þvílíkt vesen að setja galagreiðslu í hárið á mér og ég held ég hafi verið sirka hálftíma að ná af mér míkrófóninum vegna þess að það voru svo margar spennur í hárinu á mér til að halda því í skefjum.

Hraðskipti frá ballgesti í nunnu gengu betur en á æfingunni um daginn, ég var ekki móð þegar ég kom inn á svið – gat semsagt sungið.

Já og ég mundi alltaf eftir höndunum innan í búningi, mjög nunnuleg…

Núna rauðvínsglas til að halda upp á frumraun á sviði (utan æfinga). Congratulations are in order :þ

sýning

í kvöld

vona ég muni eftir að hylja hendur mínar og já, muni þetta allt saman.

hlakka til.

núna hugsa

ég um mat og texta til skiptis nema þegar ég rugla því tvennu saman og syng: Reynið að hafa á túnfiskgeisla hönd!


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa