Archive for the 'læti' Category

átti erindi

niður á Höfuðborgarstofu áðan, rölti auðvitað bara niðureftir, tekur því ekki að taka bílinn svona smávegalengd. Yndislegt veður en frekar fátt á gangstéttunum á leiðinni. Fékk skýringuna hjá um það bil þriðja hverjum glugga, sérstaklega þó þegar gengið var framhjá krám og veitingastöðum á leiðinni. Öskur og stunur eins og bylgjur.

Sérkennilegt þetta hópefli.

gleðilegt ár

kæru lesendur, takk fyrir frábær samskipti öll þessi bloggár (já og sumir auðvitað mikið lengur).

Ætla ekki í annál, bara hreinlega nenni því ekki. Strengi heldur engin nýársheit frekar en fyrri daginn.

Gamlárskvöld var púra snilld, stórfjölskyldan mætti í matarboð á Njálsgötuna eins og reyndar síðustu 11 ár – fyrir þeim 11 árum þegar Freyja var þriggja ætluðum við sem oft áður í Garðabæinn til momsies & popsies í mat og skaup og flugeldagláp en þá fékk Freyja gubbupest. Var að skríða saman en eiginlega ekki nógu góð til að fara í boð. Frekar en að sleppa öllu saman hringdum við mamma okkur saman og ákváðum að áramótaboðið yrði þetta árið hjá okkur.

Svo var auðvitað svo svakalega mikið fjör og flott uppi við Hallgrímskirkju að það kom ekkert til greina annað en boðið yrði héðan í frá hjá okkur.

Tengdafjölskyldan slóst svo í hópinn árið eftir og síðan þá hafa allir mætt hingað. Egilsstaðafjölskyldan auðvitað ekki eins oft og hinir en þó stundum líka.

Verður nú samt að viðurkennast að lætin á Hallgrímstorgi í ár voru sirka þriðjungur af því sem þau voru fyrir tveimur til þremur árum. Gerir ekki nokkurn hlut til. Flott samt.

Hrátt tvíreykt hangikjöt með melónu og piparrótarsósu í forrétt. Pínu fallegt:

Jamm, Wellingtonsteikin í aðalrétt og Charlotte au chocolat í desert voru alltílæ líka – en ég á ekki myndir af þeim…

hjólað

annars á suzukifundinn í morgun, freistaði smá að taka bílinn sem stóð þögull og kyrr hér fyrir utan en nei. Leist svo lítið á úrhellið á meðan á fundi stóð en á meðan ég fór í gegn um allar töflurnar og ljósritaði nemendur sem eiga að koma í tónfræði kom uppstytta, þá úrhelli aftur, en slapp heim í uppstyttu. Fífa var ekki eins heppin á sínu hjóli frá MH, kom heim eins og hundur af sundi. Hvorugar í regnfötum…

Hjólaði annars heim eins og sá svarti væri eftir mér, hélt áfram að svitna eins og éveitekkihvað í hálftíma eftir að ég kom heim.

Fór svo og sótti fótbrjótlinginn fyrir jarðarför, tróðum hjólastól aftur í bílinn, ekki séns að hann kæmist í skottið, vesen að fótbrjóta sig sko. Gekk nú samt allt saman.

Eftir för og skil á þeirri fótbrotnu og hjólastólnum heim var unglingurinn sóttur í sjónsjúkraþjálfun í Mjódd, gengur ógurlega vel, færst upp á skalanum frá 8 til 26, ekki spyrja mig hvað það þýðir, nema væntanlega þarf hún ekki nema 3-4 tíma í stað 6.

Rokið heim og inn í Suzuki til að raða í töflur, náði að sjá ekkert af hinni uppblásnu heimkomu handboltaliðsins (sko, þeir stóðu sig hetjulega og áttu alveg fögnuðinn skildan en flestir hafa lýst þessari samkomu á Arnarhóli sem verulega vandræðalegri, kannski síst hann mágur minn). Familían fór reyndar út á Skólavörðustíg, enda varla annað hægt, búandi hér.

Dauðkveið fyrir að komast heim, en klukkan verandi að verða sjö var engin umferð og stæðin farin að losna heima, röðin af bílum uppi á grasbala á Sæbraut var hins vegar verulega impressive.

Jón Lárus kveikti síðan upp í útiörnunum og við settumst út í yndislegu veðri í klukkutíma eða svo. Ekki var þörf á regnhlífum í þetta skiptið en þetta var samt verulega indælt.

skólavörðustígurinn

jæja, þá er búið að opna hann, formlega, við yngri krakkarnir fórum, Finnur þoldi ekki lengi við, vegna hávaða, ég held að þeir hafi stillt hátalarana jafn hátt og þegar vagninn er niðri á Arnarhóli og á að drífa alla leið upp að Þjóðmenningarhúsi, hins vegar stóðu allir nálægt þarna, ekki nema svona 100 manns eða svo.

hún Júlía söng ógurlega vel, þá kom Óli Fyrrverandi (tilvonandi) og opnaði götuna, var bara ágætur greyið, svo komu mjög skemmtilegir dansarar, eftir þeim hins vegar Skoppa og Skrítla, þá flúðum við, Finnur heim og við Freyja upp í Krambúð í smástund. Héngum þar í smástund, fórum og deildum vöfflu með sultu og rjóma við Þorstein Bergmann, Freyja hvarf heim, ég hitti hins vegar fólk sem ég þekki (systur og mág þessa bloggara, þennan bloggara líka, veifaði þessum yfir götuna. Hinir sem ég hitti get ég ekki tengt við blogg). Þegar barnatíminn var búinn (og börnin flúin) kom Tepoki, þar á meðal fyrrverandi nemendur mínir tveir ásamt samspilara úr SÁ, þeir voru æðislegir að vanda, en þegar þeir voru búnir tók við Villi naglbítur og þá gafst ég upp, þó ég hefði ætlað að reyna að bíða eftir Retro Stefson var orðið fullkalt.

Enda kannski fullbjartsýnt að vera á peysunni og berfætt í sandölum, miðað við veðrið.

höggborar

það er mikið búið að vera að nota höggbora hér úti á Skólavörðustíg. Passlega langt frá mér til að ég heyri (og finn) smá fyrir þeim, mér finnst alltaf þvottavélin mín vera að vinda. Hugsa alltaf fyrst: Hmm, ég er ekki með neitt í þvottavél!

Reyndar virðist þetta flugganga hjá þeim, ég hélt þeir yrðu í allt sumar með þennan bút, en ef svo fer fram sem horfir verður þetta ekki nema svona mánuður í viðbót. Reyndar gæti verið seinlegt að leggja gangstéttarnar, mögulega á að rífa þær upp og leggja ljósleiðara og annað í leiðinni, ég held að það sé áreiðanlega ekki búið. Þannig að væntanlega verður bílastæðaástandið leiðinlegt hér megnið af sumrinu.

(dugar ekki að vera allt of bjartsýnn…)

naumast lætin

og fréttamiðlarnir á hliðinni, landið liggur á netinu að fylgjast með. Vísir virkar betur hér en á venjulega hlekknum ef vill…

(jánei, ekki svo alvarlegt – og þó, mér finnst fullalvarlegt að lögregla sé að nota sér þessi vörubílstjóramótmæli til að æfa sig í hasar, hefðu þeir ekki mætt þarna með riot gear og mace brúsa hefði þetta aldrei orðið svona alvarlegt. Væntanlega verður þetta olía á eld þeirra sem vilja stofna hér óeirðalögreglu og/eða her).

þeytispjald

ég í morgun, fyrst skrifa nokkra pósta, þá koma Finni út, þá lesa og skrifa pósta og senda sms, (loookaúúútkaaalll fyrir kórfólk að borga, þurfum að borga flugmiðana í dag og það er ekki inni fyrir því á reikningnum), rjúka niður í Suzukiskóla með sellóið (mamma reddar mér í dag og fer með Freyju í tíma), í bankann, millifæra af safnreikningi á tékkareikning svo gjaldkerinn geti borgað miðana – ef fólkið borgar í dag – jú og skipta blessaðri ávísuninni sem ég talaði um hér fyrir nokkrum dögum.

Niður í skóla, 7 mín. of sein í kennslu – enginn nemandi hér.

Flestir ætla ekki að koma fyrr en hálfellefu en ég vissi ekki nema einn myndi mæta hálftíu, þorði ekki annað en að koma eins fljótt og ég gat. En mér sýnist á öllu að ég hefði ekki þurft að hlaupa svona. Mögulega getað farið með skattadótið upp í Breiðholt til hans Trausta endurskoðanda…

láángur dagur

2 fundir í morgun, fyrst stjórnarfundur í Tónverkamiðstöð, þá undirbúningsfundur vegna mastersnáms sem verður sett á stofn í haust í Listaháskólanum. Rétt náði heim til að undirbúa tíma dagsins. Vinna til hálfátta, smápása, sækja Fífu á lokaæfingu Ungfóníu (já, snilldartónleikar með þeim á morgun, plöggplögg, Langholtskirkja 20:00, mæli með þeim), þaðan upp í Breiðholt að sækja dósir og flöskur, erum í áskrift hjá ircvini.

Engar blogghugmyndir…

allt brjálað

hjá unglingnum, stærðfræðikeppni í MR á morgun, tvær æfingar á laugardaginn (langar, sko), tónleikar á sunnudaginn og þriðjudaginn, aðrir í lok næstu viku. Fyrir utan allt sem hún gerir venjulega sem er hreint ekki lítið.

Skil alveg andvarpið í henni áðan, þegar hún hét því að hún skyldi sko ekki taka svona mikið að sér þegar hún kæmi upp í menntaskóla…

úff

mér sýnast þessir dagar vera orðnir þannig að ég næ ekki að halda utan um allt sem er að gerast. Freyja missti af söng í dag klukkan 4, mætti 5, svo eru tónleikar í kvöld hjá bæði henni og Fífu og æfing hjá okkur Fífu líka, eina almennilega æfingin fyrir tónleika sem við erum að spila á á fimmtudaginn. Garg.

Verður gott þegar þessi vika er búin, ég er ekki búin að hafa eina mínútu til jólastússs(sss). Hvað þá að fara með börnin og kaupa handa þeim jólaskó og föt, eins víst að jólakötturinn fari að hringsóla hér í kring fljótlega.

lángur dagur

tja, það er að segja, síðan ég vaknaði, svona rétt fyrir hádegið.

Sveik sjálfa mig og keypti jólavörur í dag (tja, verður maður ekki að kaupa aðventukransinn fyrir fyrsta í aðventu, annars)?

Keyptum líka fatahengi í nýja innganginn okkar, komið upp, ansi fínt bara.

Svo var auðvitað fiðludagurinn mikli. Paganiniútsetningarnar tókust gríðarvel og að sögn sönglagið líka. Við Fífa hlustuðum á í góða stund, ég held að allt konseptið hafi bara verið ógurlega flott, mismunandi þemu innan dagsins, flottir suzukinemendur byrjuðu, þá barokktónlist, kaffihúsatónlist, glæsitónlist (Paganini og Kreisler og þannig), þjóðleg tónlist og svo íslensk fiðlutónlist. Hefði alveg verið til í að sitja þarna bara allan daginn og hlusta.

En það var ekki boðið upp á það, ónei. Freyja átti að mæta á æfingu klukkan hálfsex og ég var líka búin að lofa Fífu að æfa með henni hljómsveitarnótur. Æfing Freyju var síðan alveg til rúmlega 7, þá átti ég eftir að keyra hana heim og ná í dót sem til stóð að skila á kóræfingunni (Elín, ég missti af þér!). sitja kóræfingu (kom aðeins of seint og liðið stóð skjálfandi fyrir utan), skjótast svo í leifarnar af partíi eftir fiðludaginn. Heim komin ríflega miðnætti. Væri þreytt, ef ekki væri fyrir upphaf færslunnar.

verst að vera ekki á ferðinni áðan

í nágrenninu. Læti í klúbbhúsi Fáfnis hér ekki langt frá.

En stafsetningarvillurnar í færslunni. Þær eru ekki fáar. Eða þær voru ekki fáar, það er búið að prófarkalesa þetta núna. Þarna stóð heiðskýru, húsið var gert af (þarf ekki að gerða það af með gerðingu, þá?), lögreglan var með skyldi, hvellhettan skrapp í bakgarðinum. Og fleira.

Greinilega legið mikið á að koma fréttinni á netið…

týndur (aftur)

Herra Finnur, sjö ára týndist í dag. (já, hann er fundinn, annars væri ég nú líklega ekki að blogga hér, döh!)

Hafði stungið af um miðjan dag, við vorum viss um að hann væri heima hjá Gunnari besta vini sínum sem býr hér bak við. Nema hvað, um sjöleytið hringi ég í mömmu Gunnars til að láta senda hann heim.

Neibb. Þeir þá hvorugur þar.

Við svo sem ósköp róleg áfram, þeir eru vanir að þvælast um og leika sér lengi vel, maður er bara feginn meðan þeir eru úti, ekki inni í tölvunni eins og þeir vilja stundum vera.

Við Fífa á æfingu (jámm, hún er í símakórnum, fyrsta alvöru sönggiggið hennar), ég náttúrlega þagga niður í símanum. Seint og um síðir á æfingunni (hálftíu) kíki ég á símann. 2 hringingum ósvarað. Mamma hans Gunnars.

Úff.

Ég hringi, gaurarnir týndir, ég inn á æfingu aftur: Fífa, við verðum að fara heim, Finnur er týndur. Reyni að hringja í Jón Lárus, síminn drepst (x#%/&%$ batterí), heim, enginn Finnur. Jón Lárus, mamma Gunnars og systur búin að fara á alla staði sem þeim datt í hug, skólalóð, Tjörnina, alls staðar í kring náttúrlega, hvergi finnast strákarnir. Hringt í lögregluna og ég leggst í símann til að hringja í alla strákana í bekkjunum þeirra. Hvergi finnast þeir. Tvær mömmur úr bekkjunum beint út að leita með okkur hinum. Lögreglan mætir, lýsing tekin af strákunum og send út boð á þeirra rásir.

Mömmu Gunna dettur allt í einu í hug að þeir hafa stundum verið að sækja í félagsskap nokkurra ára eldri stráka. Við vissum af einum, en hann er í útlöndum, þannig að þeir voru ekki þar. Næst ekki í annan, né mömmu hins en tókst að grafa upp heimilisfang hjá pabba þess. Amma Gunna var síðan á leiðinni þangað þegar hún sér strákana hundblauta og skíthrædda á Grettisgötunni á leið heim.

Jú jú, þeir höfðu verið hjá öðrum þessara 11 ára. Hljómaði alls ekki nægilega vel. Þeir höfðu svo sem verið fyrst í legó og svo í tölvuleikjum, en síðan verið úti að finna felustaði „þar sem löggan finnur mann ekki“ Say WHAT?

Undir lokin var þeim svo hent út, Finnur sagðist hafa kallað á mig, ef ég skyldi vera nálægt og heyra í sér; þegar hann fannst var hann ekki í jakkanum heldur hélt á honum og húfunni (var samt í vettlingunum).

Finnur er búinn að heita því að fara ALDREI aftur að leika við þessa gaura. Mér sýnist hann ekkert langa til þess heldur. Sem betur fer.

allt brjálað í bænum

úff, ég er ekki viss um að ég ætli niður í bæ í kvöld neitt. Örugglega allt geðveikt út af síðasta leyfilega reykdegi á pöbbum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Jón Lárus lenti í þvílíkum vandræðum að leggja þegar hann kom heim. Og tæpast tæmist þetta nú mikið, efast um að liðið sé eingöngu að reykja…

Ljótt

er búið að vera að  horfa á eldsvoðann.  Ég verð að segja að ég vona að minnsta kosti að hornhúsið verði endurbyggt eins og það var, ekki að það komi fleiri margra hæða speglahús þarna.

land sleikur

er með landsleik í stereó nema hátalararnir eru ekki til hægri og vinstri heldur fyrir ofan og neðan. Gunni hér uppi á lofti með hóp að horfa, heyrist mér og svo voru feðgarnir hér niðri áðan, Jón Lárus reyndar farinn í fótbolta en Finnur er enn niðri. Og ég sem hef ekki minnsta áhuga á þessu.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa