Archive for the 'húsið' Category

dagsetning

jánei ekki á tónleikum í þetta skiptið eða annað plögg. Heldur afmæli hússins okkar.

Fór nefnilega niður í Borgartún á borgarskrifstofurnar og forvitnaðist um gamlar teikningar, fékk staðfest að húsið var tilbúið 1912, sem við höfðum reyndar vitað en ekki alveg með vissu, Við konan í þjónustuverinu áttuðum okkur reyndar ekki á dagsetningu, sem ég var annars að leita að til að eiga almennilegan afmælisdag til að halda upp á þetta.

Nema hvað, keypti teikningarnar og þegar við Jón fórum að rýna í þær áðan tókum við eftir að torkennilegu tölurnar sem voru skrifaðar stórum stöfum á skjalið – 188/12 voru tvívegis og smærra skiptið var komma á undan tólfunni, semsagt ’12

Ahaaa.

Ártal!

Þannig að átjánda ágúst verður húsið okkar aldargamalt. Þá verður fjör. (hmm er ekki líka afmæli Reykjavíkur einmitt 18. ágúst)?

dýragarðurinn

Bóndinn er ógurlega duglegur að lappa upp á húsið hér heima, við erum búin að búa hér í 16 ár og alltaf finnst eitthvað í viðbót fyrir laghenta. (ég fæ oft samviskubit reyndar).

Núna er hann að taka falska loftið milli síðustu tveggja bitanna niðri í ganginum milli svefnherbergjanna.

En í næsta fríi er hann að hugsa um að byrja á að pússa upp, spasla í og mála hurðirnar uppi. Gamaldags fulningahurðir sem er verulega farið að sjást að hafa aldrei verið teknar og gerðar alminlega upp frá því húsið var byggt – fyrir nærri öld.

Byrjar á þeirri verst förnu, baðherbergishurðinni uppi.

Nema hvað ég: Neeeei, þú getur ekki bara hreinsað málninguna af!?! Dýramyndirnar hverfa!

dýramyndir?…

já fiskurinn:

og ísbjörninn:

mér finnst

ég alltaf vera eitthvað svo ótrúlega ráðsett þegar ég þvæ gardínur. Fáið þið sömu tilfinninguna?

Kannski finnst mér þetta samt bara vegna þess að það gerist svo sjaldan. Allavega var gardínustöngin í skrifstofunni orðin ansi vel rykug þegar bóndinn klifraði þangað upp í dag til að kippa niður draslinu. Væntanlega eitthvað með tölvuna og allar græjurnar kring um hana og stöðurafmagn.

Heyrði einu sinni sögu um kokkálaða eiginkonu (hmm gengur það orðalag kannski bara á hinn veginn?) sem þurfti að flytja af heimili sínu og þangað flutti síðan viðhaldið. Setti rækjur inn í fínu gardínustangirnar. Getið ímyndað ykkur ólyktina sem fór að berast um húsið. Besti hluti sögunnar var að fyrrverandi ásamt viðhaldi fluttu úr húsinu og létu konunni það eftir – en tóku með sér stangirnar.

Gæti náttúrlega verið tóm lygi eða eitthvað úr smiðju Roald Dahl samt.

nóvember?

svei mér þá, ekki er ég að ruglast? kominn heill hellingur af knúppum á nóvemberkaktusinn góða:

svona var hann semsagt í nóvember sem leið. Hvort hann verður eins flottur marskaktus og nóvemberdittó remains to be seen.

nýja serían

Breyttum til í gær og ákváðum þegar við skreyttum tréð að appelsínugula serían sem við höfum notað síðastliðin ár skyldi fá pásu og settum eina af okkar fjölmörgu marglitu gluggaseríum á tréð. Ekki í frásögur færandi svosem. Nema hvað að ég hafði í fyrra keypt 120 ljósa seríu til að nota í annan gluggann framan á húsinu sem ljósagardínu.

Skellti henni í gluggann, tveimur eldri með 50 ljósum hvorri hinum megin. Sams konar umbúðir, sams konar perur. Ekki sams konar útkoma:

Já, semsagt 120 perurnar, nýja serían, er hægra megin, 100 perur í tvennu lagi til vinstri.

Væntanlega er þetta eitthvað straummál, að hver pera lýsir ekki jafnskært þegar straumurinn þarf að ná meira en tvöfalt lengra á einni línu.

Allavega er ég búin að setja áminningu í dagatalið mitt fyrir næstu Þorláksmessu: Muna að setja löngu seríuna á tréð! og endurtakist árlega.

nóvember

bráðum búinn, sveimérþá en kaktusinn blómstrar eins og honum sé borgað fyrir það! Hefur ekki verið svona flottur í mörg ár – reyndar síðan kötturinn hrinti honum niður hér í denn.
Jón Lárus segir frá á síðu sinni en hér er líka mynd:

mætti halda

að við værum ekkert að pæla í fermingunni núna eftir nokkra daga – í dag hentum við okkur á kaf í þrif hér heima. Nei við höldum ekki veisluna heima. Fimmta uppþvottavélin af rykugum bjórglösum rúllar í augnablikinu.

(já við eigum slatta af bjórglösum, sjá:)

Jú, bökuðum hlaða af flatkökum til að smyrja og ég skaust í bakarí til að panta snittubrauð. Ætli maður geti fengið þau skorin í bakaríinu?

tómir tepokar

færslurnar hjá mér núna, ég bara nenni engan veginn að velta mér upp úr „ástandinu“, bara halda jól í friði.

Við krakkarnir þrifum nánast öll gólfin í íbúðinni í dag, bóndanum til mikillar gleði, þau eru venjulega hans deild og hann var ekki beinlínis farinn að hlakka til að eyða megninu af aðfangadegi í að sópa og skúra gólf. Svo bara skreytt, tréð komið upp, aldrei átt svona langt og mjótt jólatré en það er mjööög flott og hentar afskaplega vel í okkar þröngu stofur enda sérvalið og höggvið af Egilsstaðabróður sem veit vel hvað við eigum litlar stofur. Stelpurnar skreyttu tréð, appelsínugul sería, gyllt og fjólublátt skraut. Ljósagardínurnar mislitu eru líka komnar upp og ljósajólatré í gaflgluggann. Fjólublá sería í horni á stofunni og skærblá úti, ég er litaóð og myndi aldrei vilja hafa bara hvítar seríur.

Skruppum í Þorláksmessuboðið til Nönnu að venju og hittum þar fullt af skemmtilegu fólki. Takk fyrir okkur enn og aftur, Nanna. Laugaveginn heim, hellingur af fólki og gríðarstemning.

Nú er að sjá hvort mér tekst að sofa út í fyrramálið eins og ég náði í morgun, annars steinhætt að geta þetta. Verulega góð tilfinning að það sé bara í góðu lagi að sofa fram til hádegis á aðfangadag…

þvottahúsið – tepoki

er nánast tilbúið, vorum að hamast að ganga frá og þrífa þar í allt kvöld – snilld að vera búin að fá snúrurnar mínar aftur, já og bara hafa ekki verkefnið hangandi yfir okkur (aðallega þá Jóni Lárusi reyndar) yfir hátíðarnar.

Myndir fljótlega.

Allar gjafir pakkaðar hér líka og birgðastaðan góð, búið að þurrka af og fleira, Freyja tók baðherbergin fyrir, spegla og hillur, já þetta er að smella, nei við förum ekki yfirum. Klifraði ekki upp á eldhússkápa til að þurrka af og mun ekki gera. Þarf samt að renna yfir gólfin hér, ætti að nást á morgun.

Svo geta jólin bara mætt, takk.

upprunalegur litur

Ég er alltaf að bíða eftir því að húsið okkar komi í svona grein um vel uppgerð gömul hús í borginni. 97 ára er það í ár, eitthvað verðum við að gera til að halda upp á afmælið eftir 3 ár.

Hins vegar hugsa ég að arkitektinn sem var talað við í Fréttó í dag yrði ekki sáttur við litinn – hann er nefnilega ekki sá sem húsið var upprunalega í.

Hvað er eiginlega með það að hús eigi endilega að vera akkúrat í litnum sem þau voru máluð þegar þau voru reist (eða þeas. þegar þau voru máluð í fyrsta skipti, þegar járnið var orðið veðrað, í tilfelli járnklæddra timburhúsa)? Má ekki hafa tilbreytingu á hlutunum?

Við höfum reyndar ekki hugmynd um hvernig húsið var á litinn upprunalega – ég efast samt um að það hafi verið eins og í dag.

aaahhhh

nú er íbúðin okkar ekki lengur sölumaður timburs í Byko…

tiltekt

ætluðum að fara að taka aðeins til í íbúðinni í dag (hún er viðbjóður, hreinn og tær – drasl úti um allt og skíturinn, maður minn!) en einhvern veginn breyttist það í ‘taka til í bókahillunum’ tiltekt. Reyndar alveg þörf á því, glás af bókum sem lágu ofan á þeim lóðréttu og svo keyptum við jú bæði allar þessar bækur sem ég talaði um hér nokkrum færslum neðar, plús síðan þrjár í viðbót.

Tja fjórar, en bara þrjár eftir af þeim ennþá. Farið nánar í það síðar í ferðasögunni.

Allavega, tókst reyndar að raða úr öllum töskum og svolítið minna drasl en það sér ekki sérlega mikið á óhreinindunum. Kemur allt saman.

myndir

af gömlu og nýju ljósakrónunum hér. Það á aðeins eftir að mixa kring um rósettuna ennþá en þetta verður æði þegar það er alveg komið.

það sem átti að vera

saklaust rölt niður í bæ til að kjósa í forvali VG og skrepp í Brynju varð að innkaupaferð, duttum inn í antikbúðina hér á horni Grettisgötu og Klapparstígs og keyptum eitt stykki ljósakrónu fyrir borðstofuna, takk fyrir. Flotta fjögurra arma krónu, passar talsvert betur hér inn en gamla ljóta plastkrónan – sem okkur þótti reyndar flott þegar við keyptum hana úti í Danmörku. Passaði bara engan veginn hér inn.

Jón Lárus er í augnablikinu að hengja nýju gömlu krónuna upp. Myndir síðar.

Já og svo kaus ég 7 konur og 3 karla í forvalinu. Tvo af körlunum í fimmta sæti. Það er ótrúlega mikið af flottum konum á listanum.

nýir nágrannar

Skemmtilegu listrænu Lettarnir sem bjuggu hér bak við virðast fluttir og í staðinn komnir nýir nágrannar sem við erum ekki búin að heilsa upp á ennþá. Hins vegar eru þau ekki komin með gardínur fyrir stofugluggann en eru með stórt sjónvarp. Ég get vel greint hvað er í sjónvarpinu, núna eru þau að horfa aftur á sömu mynd og í gærkvöldi, eitthvað með ógurlegum eldingum…

dót til þerris

hér er verið að taka til í þvottahúsinu, reyna á að koma hjólunum krakkanna inn svo þau standi ekki úti og ryðgi. Meðal annars fórum ég og krakkarnir í gegn um tvo svarta ruslapoka af leikföngum sem var búið að afleggja hér.

Hellingi var hreinlega hent en hálfur poki eða svo safnaðist af dóti sem við gefum í Góða hirðinn, nemahvað sumt af því var – tja ekki kannski alveg tandurhreint. Rykugir bangsar og þannig, en alveg stráheilt og vel með farið. Í þvottavélina með það.

Hér er hluti af góssinu:

dót til þerris

upp í stiga

Jón Lárus stóð upp í stiga í svo sem hálftíma áðan að setja upp útiseríuna. Hér er útkoman, við erum bara nokk ánægð með nýju seríuna (keypta á útsölu eftir síðustu jól, vorum ekki að spreða og spandera núna, skoh…)

friður og ró

matargestur okkar í kvöld (sem býr NB á friðsælum stað í Vogum á Vatnsleysuströnd) hafði á orði hvað stofan væri friðsæl, þrátt fyrir að búa í miðbænum er svo rólegt hér úti, meira að segja á föstudagskvöldi, að maður tók eftir fótataki fólks sem gekk framhjá.

Ef einhver heldur að læti séu galli á að búa hér má sá hinn sami hugsa sig tvisvar um.

Þetta bréf

barst inn um lúguna í dag:

„Íbúar athugið

Gjaldskylda hefur verið samþykkt í götunni og vinna hafin við uppsetningu mæla. Reglur um útgáfu íbúakorta er hægt að nálgast á bilastaedasjodur.is, eða í síma 4111111. Umsóknum um íbúakort þarf að skila í þjónustuver Borgartúni 10-12“

JEI!

Fórum strax og sóttum um, var sagt að það gæti tekið svona viku, neinei, svona 3 tímum síðar barst tilkynning um að kortið væri tilbúið. Náðum reyndar ekki í þjónustuverið fyrir klukkan fjögur, en sækjum þetta á morgun, bara (væntanlega á hjólunum, sem er nú pínu írónískt).

En nú sér væntanlega fyrir endann á endalausum bílastæðavandræðum hér hjá okkur. Auðvitað er þetta pirrandi fyrir fólk sem kíkir hér í heimsókn á daginn, en væntanlega verður þetta gjaldsvæði 3 og þar af leiðandi ekki sérlega dýrt. Sleppum allavega við liðið sem vinnur á Laugavegi og leggur hér allan daginn og annað því líkt.

bílastæði

Við erum í áfalli hérna.

Verslunarmannahelgin hefur verið eini tími ársins sem við höfum getað verið nokkuð viss um að fá stæði fyrir utan, heima hjá okkur.

Núna hins vegar er allt fullt.

Reikna nú samt með að hluti ástæðunnar sé ástandið á Skólavörðustígnum. Get ekki beðið þar til hann verður tilbúinn. Einnig er nú búið að leggja fyrir skipulagsnefnd (loksins!) tillögu um gjaldskyld stæði hér fyrir utan, ásamt efsta hluta Skólavörðustígs, Bjarnarstígs og Kárastígs, væntanlega líka Grettisgötu milli Klapparstígs og Frakkastígs. Vonandi verður það samþykkt.

Mun líka þýða að þegar stöðumælaverðir fara að ganga göturnar reglulega mun bílum upp á gangstétt snarfækka. Ekki er það verra.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa