Archive for the 'hjólreiðar' Category

hjólað

annars á suzukifundinn í morgun, freistaði smá að taka bílinn sem stóð þögull og kyrr hér fyrir utan en nei. Leist svo lítið á úrhellið á meðan á fundi stóð en á meðan ég fór í gegn um allar töflurnar og ljósritaði nemendur sem eiga að koma í tónfræði kom uppstytta, þá úrhelli aftur, en slapp heim í uppstyttu. Fífa var ekki eins heppin á sínu hjóli frá MH, kom heim eins og hundur af sundi. Hvorugar í regnfötum…

Hjólaði annars heim eins og sá svarti væri eftir mér, hélt áfram að svitna eins og éveitekkihvað í hálftíma eftir að ég kom heim.

Fór svo og sótti fótbrjótlinginn fyrir jarðarför, tróðum hjólastól aftur í bílinn, ekki séns að hann kæmist í skottið, vesen að fótbrjóta sig sko. Gekk nú samt allt saman.

Eftir för og skil á þeirri fótbrotnu og hjólastólnum heim var unglingurinn sóttur í sjónsjúkraþjálfun í Mjódd, gengur ógurlega vel, færst upp á skalanum frá 8 til 26, ekki spyrja mig hvað það þýðir, nema væntanlega þarf hún ekki nema 3-4 tíma í stað 6.

Rokið heim og inn í Suzuki til að raða í töflur, náði að sjá ekkert af hinni uppblásnu heimkomu handboltaliðsins (sko, þeir stóðu sig hetjulega og áttu alveg fögnuðinn skildan en flestir hafa lýst þessari samkomu á Arnarhóli sem verulega vandræðalegri, kannski síst hann mágur minn). Familían fór reyndar út á Skólavörðustíg, enda varla annað hægt, búandi hér.

Dauðkveið fyrir að komast heim, en klukkan verandi að verða sjö var engin umferð og stæðin farin að losna heima, röðin af bílum uppi á grasbala á Sæbraut var hins vegar verulega impressive.

Jón Lárus kveikti síðan upp í útiörnunum og við settumst út í yndislegu veðri í klukkutíma eða svo. Ekki var þörf á regnhlífum í þetta skiptið en þetta var samt verulega indælt.

ekki smá

hvað maður er þægilega þreyttur eftir að hafa hjólað út á Seltjarnarnes í sund með nærri alla fjölskylduna, legið þar í makindum/synt smá/synt slatta/rennt sér í rennibrautinni/hoppað í laugina í góða stund og hjólað svo aftur heim. Mæli með þessu.

lýsi eftir

tillögum hvert við eigum að hjóla í dag. (já, eða næstu daga). Erum búin að taka miðbæinn og vesturbæinn nokkuð vel út, ásamt hluta af 105 (Túnin, Laugardal, Norðurmýri, Háteigsveg, það allt).

Eigum hjólagrind á bílinn, þannig að uppástungur mega vel vera eitthvað svolítið í burtu frá miðborginni.

Endilega bendið okkur á ef þið vitið af skemmtilegum stígum og svæðum.

lengsti

hjólatúr hingað til í sumar, völdum þokkalega daginn til þess. Öskjuhlíðin, Fossvogsdalur, framhjá Víkingssvæðinu, undir Breiðholtsbraut, fundum þvílíkan snilldarstað, ég held ég færi þangað frekar en í Nauthólsvík – þar hefur væntanlega verið troðið í dag:

Áfram, upp í Fornalund, skoðuðum þar hellur og ákváðum nokkurn veginn hvernig lögnin hér bak við verður.

Heim, ekki sérlega leiðinlegt að hjóla niður Ártúnsbrekkuna, Sæbrautarmegin til baka. Túrinn samt slatti langur, finn fyrir fótunum ennþá.

Síðan þá, tja, garðurinn, ótrúlega heitt eins og Reykvíkingar og reyndar flestir aðrir landsmenn hafa væntanlega tekið eftir. Það besta við garðinn hérna er að það er svo auðvelt að komast í forsælu þegar verður of heitt á pallinum, eins og í dag.

Út í garð aftur núna, ennþá 18 stiga hiti á mælinum. Þvílík snilld.

haldið þið ekki

að Finni hafi áskotnast nýtt hjól, næsta stærð fyrir ofan, með gírum og allt? Mjög vel farið, þarf að herða bremsurnar að framan og kaupa bjöllu og nýjan lás, annars í fínasta standi.

Takk Elías.

Nú verður því gamla hent. Ójá.

heyrðu, já

og hjólið hans Finns fannst! Eða ég held það allavega. Alveg eins hjól var í geymslu lögreglunnar, reyndar örlítið verr farið en það gæti nú hafa verið þjösnast á því. Þarf að smyrja keðjuna og tannhjólið, og það er sprungið á því bæði að aftan og framan.

Sé þetta vitlaust hjól – tja, ég efast um annað en það sé afskrifað.

fórum í

langan hjólatúr áðan með Finn, fyrst út að Þjóðarbókhlöðu, þá Suðurgötuna út á enda, alla leið kring um flugvöllinn (hefur annars fólk almennt tekið eftir því hvernig kort af gamla Skerjafirði lítur út)?

Þá Nauthólsvík, Öskjuhlíðina, fram hjá Valsheimilinu á leið heim, greinilega eitthvað um að vera þar, allt fullt af bílum, 2/3 af þeim jeppar eða jepplingar, ég næ ekki hvernig fjölskyldan getur eiginlega haldið með þessu plebbaliði…

Eiríksgatan er skásta leiðin heim og eina sem endar á smá brekku niður á við, frá Hallgrímskirkju, komum við úr einhverri annarri átt endum við alltaf á brattri brekku upp eða í hæsta lagi smáspotta á sléttu. Finnur var ógurlega duglegur, þó hann reyndar leiddi hjólið þar sem var einhver meira en pínulítill halli upp á við, gætum þurft að athuga með gírahjól handa honum fljótlega.

megahjólatúr

við hjóluðum í dag alla leið frá Njálsgötunni inn í Garðabæ. Lengst inn í Garðabæ.

Vitið þið hvað er mikið af brekkum á þeirri leið? Og hvað þær eru brattar, sumar hverjar?

Þetta var skemmtilegt, þrátt fyrir að vera pínu erfitt. Svo sem ekkert mál að hjóla suðureftir en – tja – ég var orðin pínu þreytt, hjólandi upp brekkuna fram hjá kirkjugarðinum, á leiðinni heim.

Og núna, sé rúmið mitt í hillingum.

út að hjóla

einu sinni sem oftar, í svolitlu sjokki þó (heyrið sjálfsagt meira um það síðar, ekki núna)

Maður er alltaf að reyna að finna nýjar leiðir að hjóla og löngum tekst það ágætlega. Í dag hjóluðum við út á Granda, fórum bak við fýluuppsprettuna (ætli séu mörg orð í íslensku sem hafa þrisvar sinnum sama staf tvisvar í röð, annars) Granda hf, ekki verið að bræða í dag þó. Þar er náttúrlega höfnin í öllu sínu veldi. Fullt af pólverjum að veiða sér í soðið, sérstaklega úti við Reykjavíkurvita. Gengum þangað út, ég hélt að ég væri alveg laus við lofthræðsluna sem helltist yfir mig þegar frumburðurinn fæddist en mér var eiginlega ekkert alveg sama að ganga þarna eftir þessum – tja – tæplega metra breiða vegg án nokkurra handriða.

En það var skemmtilegt að sjá Reykjavík frá þessu sjónarhorni, mæli með því ef einhverjir eiga það eftir.

fyrsti kennsludagur

að kvöldi kominn, fínn bara. Líst mjög vel á hópana, frábærir krakkar á ferð. Pínu misjafnlega stödd, en varla kemur það nú á óvart.

Skólasetning í Suzuki á föstudaginn klukkan 17.00, ekki smá súrt að næsta Keðjuverkun er á nákvæmlega sama tíma. Ég hélt hún ætti að vera klukkan sex og að ég næði henni vel. En nei. Fimm. Grrr.

hálflasin

og ég sem á að syngja á Kirkjulistahátíð í kvöld. Úff.

Fór út að hjóla í dag, hálfskrítin í maganum en ekkert mjög slæm. Svo bara vontnaði það og vontnaði og vontnaði, heim komst ég og lagði mig. Skárri núna. Vonandi verður þetta í lagi í kvöld.

Verst að missa af Gay Pride.

fjárfest

í hjóli handa yngri skottunni. Trek græja, appelsínugul og silfruð, bara nokkuð flott. Nú fæ ég það hjól lánað í stað hjól þeirrar eldri…

hjól

ætluðum í dag að fara og kaupa notað hjól handa mér hjá vini okkar. Tókst ekki. Hann segir sjálfur frá því á síðunni. Muu.

Finnur hjólar

loksins búinn að læra. Nú þarf hann að komast upp á lag með sitt eigið hjól, það er talsvert stærra.

þá er maður búinn

að keðjuverka, þetta var ekki smá skemmtilegt. Gátum ekki beðið um betra veður. Hjóluðum frá Glæsibæ, niður Suðurlandsbraut og Laugaveg, Bankastræti, Lækjargötu, yfir Tjarnarbrúna, Tjarnargötu og að ráðhúsinu, síðan hringuðum við Alþingishúsið og enduðum á að fá okkur að borða á Austurvelli.

Stendur til að halda þetta mánaðarlega síðasta föstudag í mánuði. Stay tuned.

Meira hér og hér. Myndir örugglega fljótlega.

stálumst

í stuttan hjólatúr, bara svona til að við slepptum því ekki algerlega um helgina.

Aldrei verið eins auðvelt að hjóla upp Eiríksgötuna, maður bókstaflega fauk.

herra ormur

er að læra að hjóla. Það gengur svona og svona. Skil það reyndar ekki, þar sem hann er með ágætis balans almennt.

langur

dagur í dag, fyrst kom hann Bjarni litli hennar Hafdísar í prufupössun, þar sem Fífa ætlaði að sjá um gutta á meðan á tónleikum stæði, þá hjólatúr inn í Laugardal, brutum reglur grasagarðsins með því að hjóla í gegn (sáum ekki neitt skilti með bannmerki við aðalinnganginn, þrátt fyrir að skima, svo var skilti vestast þar sem við fórum út). En við vorum reyndar ekki fyrir neinum. Rok í rétta átt, auðvelt að hjóla heim. Mættum þessum bloggara ásamt dóttur á Snorrabrautinni á leiðinni heim.

Þá tónleikar, 15.15 í Norræna húsinu, meðal annars frumflutt útskriftarverkefni fyrrnefndrar Hafdísar frá LHÍ, megaflott verk sem Caput átti fullt í fangi með að flytja (að Guðna stjórnanda sögn, ekki að það heyrðist nokkurn hlut á flutningnum). Annað á tónleikunum sönglög eftir stórtenór og sópran, verk fyrir flautu, píanó og slagverk eftir ungt rúmenskt tónskáld og sveitadansar eftir kennara úr sveit. Allt flott. Sveitadansarnir ekki dæmigert Caputfóður, en sveimérþá ef þau gátu ekki svingað.

Komst ekki í partíið eftir tónleikana (muuu) þar sem ég þurfti að rjúka beint á kóræfingu, kom meira að segja hálftíma of seint, 15.15 eru yfirleitt ekki nema klukkutími og ég hafði reiknað með að ná þessu nákvæmlega, en þá voru þessir einn og hálfur í staðinn. Og endað á verkinu hennar Hafdísar, þannig að ég hafði ekki séns á að laumast út milli verka, þegar aðalstykkið var síðast. Oh well.

Æfingin gekk mjög vel, bara, Óttusöngvarnir alveg að smella saman. Organistinn mætti í dag og spilaði með okkur, en við erum enn ekki farin að heyra einsöngvarana, sellóið og slagverkið. Get ekki beðið fram á föstudag, þegar þetta kemur allt saman.

Endaði síðan á stjórnarfundi Hollvinafélags Sumartónleika í Skálholtskirkju. Drög komin að dagskrá sumarsins, margt mjög spennandi. Fáið örugglega að heyra af því þegar nær dregur og búið er að negla þetta fastar.

ussuss, ein löng færsla. Og ég sem hefði örugglega getað bútað þetta niður í fleiri…

gæti verið

að hjólatúrinn í morgun (um 8 1/2 km) hafi verið mistök. Nú er ég alveg að leka niður, eins og venjulega. Og bæði eftir að fara að hlusta á Fífu spila yfir miðprófsverkefnin sín (prófið á þriðjudaginn) og svo aðalfundur Tónskáldafélagsins plús matur og drykkur í kvöld. Vona að ég sofni á hvorugum staðnum.

Fífa frumflytur lagið sem ég skrifaði fyrir hana þarna á eftir, ég er mjög spennt að heyra hvernig það hljómar með píanóinu. Ekki að ég hafi enga hugmynd um það, en samt…

enn hjólað

snilldar hjólaveður í dag, núna út í Örfirisey, sikksökkuðum þar svolítið og svo heim gegn um vesturbæinn. En mér er illt í olnbogunum. Eitthvað trikk við að verða ekki svona stífur?


bland í poka

teljari

  • 375.416 heimsóknir

dagatal

desember 2022
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa