Archive for the 'hátíðir' Categorymeiri blóm

annar vöndur, þessi frá Hallveigu, Jóni og Ragnheiði Dóru, kærar þakkir fyrir okkur – skemmtilegt að fá svona blómasendingar.

(Já, englamyndirnar á veggnum eiga að vera svona skakkar…)

afmæli

jámm listaháskólinn en hér á bæ finnst okkur nú 20 ára brúðkaupsafmælið merkilegra :þ

Fengum þennan líka fína blómvönd frá tengdó, takk fyrir okkur.

mikið á hann Gósi gott

að gifta sig í þessu…

Tæpast hægt að hugsa sér yndislegra veður að gifta sig, og það í Garðakirkju. Verulega fallegt brúðkaup, til hamingju bæði tvö, Gósi og Katrín.

17 ára

unglingurinn minn, hún Fífa er 17 ára í dag.

Ekkert byrjuð að læra á bíl, leynir sér ekkert að hún er fædd í Danmörku þar sem ekkert þykir sjálfsagt að fólk fái bílpróf á 17 ára afmælisdaginn.

Er að vinna hjá okkur í Tónverkamiðstöð í sumar og framkvæmdastjórinn er alsæl með hana.

Hún er ekki sérlega mikið fyrir að láta taka myndir af sér, sem betur fer tókum við helling þegar hún var lítil:

glæný

áður en hún klippti sig:

með litlusystur:

með mömmu og pabba:

við flatkökubakstur:

Til hamingju með daginn, elsku Fífa okkar.

fermingardagur

hún elsku frænka mín, Þorgerður María fermist í dag.

Mikið súrt að geta ekki verið með henni, en yngri börnin eru á Egilsstöðum sem fulltrúar Njálsgötugengisins.

Innilega til hamingju með daginn, Þorgerður mín!

ahhbú

tómur páskaeggsdiskurinn minn.

slepp alveg

við að fela páskaegg í ár, Fífa og pabbi hennar búa til sín eigin egg (sjá hér) og þora ekki að láta fela, Finnur heimtaði að fela mitt, Fífa felur Freyju egg og Freyja Finns. Bara fínt. Fífa er búin að eyða hálfum deginum í dag í að finna sniðugar vísbendingar fyrir Freyju – sem var búin að panta erfiðar vísbendingar. Þær fær hún.

sameiginleg

afmælisveisla hér fyrir okkur nýbakaða táninginn á eftir, er að byrja á óhugnanlegu magni af uxahalasúpu (þegar táningurinn bretti upp á nefið við henni sagði ég að það væri minn afmælismatur, ekki hennar – við gerum líka ræskrispískökur og svo tiramisu (mín megin) og ís (hennar).

Ofninn minn virkar ekki, engar kökur eða heitt brauð. Sorrí, fjölskylda…

er að skríða

inn í síðasta tímann í Hafnarfirði fyrir páskafrí. Á reyndar tvo daga eftir af HFF kúrsinum (nei, nei, bara HljóðFæraFræði) niðri í Listaháskóla. Vonast til að ná að láta syngja útsetningarnar þeirra í gegn, er með mjög flottan hóp, allir eru að útsetja eitt þjóðlag fyrir amk. fjórar raddir og svo semja örstutt verk fyrir rödd og eitt hljóðfæri (einn hótaði bassa og þríhorni)

Svo eru náttúrlega tónleikar annað kvöld sem ég mæli sterklega með. Sjá hér.

En mikið verður nú samt frábært að fá páskafrí (humm óttalegt fundastand í dymbilvikunni, reyndar…)

frjáls mæting

hjá nemendum mínum í Hafnarfirði í dag og auðvitað sit ég hér og enginn mætir. Nema ein er búin að melda sig í síðasta tímann.

Mér finnst sjálfsagt að gefa krökkunum frjálsa mætingu á öskudaginn, þetta er eini dagurinn sem þau sjálf eiga, allir aðrir frídagar eru ekki síður stílaðir á fullorðna. Að skylda börnin til að mæta síðan í tónfræðitíma er hreinlega hundraðogellefta meðferð á ungviði. Yfirleitt arfaslæm mæting og þau sem mæta eru samviskusömu duglegu krakkarnir sem hefðu síst þurft á því að halda (akkúrat svoleiðis hjá samkennara mínum hér í dag, tveir mættir af tólf). Mun hreinlegra að láta þau vita að þau megi koma ef þau vilji en það sé ekki skylda.

En ég er að minnsta kosti búin að sitja hér megnið af deginum og vafra á netinu. Spilaði einn tölvuleik áðan og er núna að hlusta á Sjostakovitsj á jútjúb. Þægilegasti dagur.

mótmælt

já, ásamt örugglega 4000 manns á Austurvelli í dag. Flott, bara.

Jólaskrauti mokað í kassa í kvöld og trénu hent út.

Snilldar kóræfing.

þetta voru aðalverkefni dagsins.

Árið

var gleðilegt að mörgu leyti. Sem betur fer. Vonandi kemur svo bara eitthvað gott út úr efnahagsruglinu.

Rændi þessari mynd af vefnum, takk fyrir mig.

Og gleðilegt ár, allir.

dæmigerður jóladagur

enginn kominn á fætur, klukkan kortér yfir fimm, laufabrauð borðað sem snakk, horft á eina teiknimynd sem kom undan jólatrénu (Kung-Fu Panda), og svo bara lesið og spilað Trivial.

Svona á þetta að vera.

kvöldið

samanstóð af tveimur messum, tengdó í mat og kreppuspilinu.

Ekki sem verst.

Kreppuspilið er ógurlega skemmtilegt, við spiluðum eitt spil hér fjögur eftir að við unglingurinn komum heim úr messu (klukkan að verða eitt). Mæli með því.

Gleðileg jól

nær og fjær

rauðkálið

komið yfir, jólailminum reddað.

Sússi

góð útgáfa af jólalaginu…

allt að smella

vantar gjöf fyrir Fífu, á eftir að pakka smá fyrir krakkana, örlítið að búðast, krakkarnir dugleg að hjálpa hér heima, á eftir að þurrka smá af. Rauðkál í fyrramálið – já nú er bara að gleyma kreppu og leiðindum í bili. Ekki veitir af.

Spurning um að skjótast samt í Bónus og ‘versla’?

jólaveðrið

kom einni og hálfri viku of snemma. Og mig sem langaði í kafaldsbyl á aðfangadag, eins og í fyrra.

Alvöru rauð jól, þurrt og kalt er líka allt í lagi, en rigning og rok og hellings slabb, nei takk. Sé fyrir mér að þurfa að mæta í vaðstígvélum í messuna sem ég er að syngja í, uppi í Seljakirkju, ekki séns að snjórinn þar verði horfinn á tveimur dögum.

Svo fer ég væntanlega líka í messu í Dómkirkjunni klukkan hálftólf, unglingurinn að syngja með Hamrahlíðarkórum. Hefði eiginlega átt að fara líka í Seltjarnarneskirkju, þar verður flutt litla messan mín, Missa brevis. En það er ekki allt hægt.

veislur tvær

gat nú verið, jólaveislur í tveimur af tónlistarskólunum mínum í kvöld, fyrri í Suzuki, Bryndís samkennari hafði bakað 22 smákökusortir ásamt ostastöngum og tveimur týpum af konfekti, bauð kennurunum heim í heitt súkkulaði, jólaöl og allt þetta ógnar bakkelsi. Ekki smá glæsilegt. Verst að vera ekki með myndavél til að geta sýnt herlegheitin.

Svo þurftum við að stinga af snemma þar, til að fara í smáréttahlaðborð í Hafnarfirði eftir framhaldsdeildartónleikana þar. Klikkað flott þar líka og skemmtilegur félagsskapur. Ég fékk mér þó bara hálft rauðvínsglas til að sleppa við strætóferð í Hafnarfjörð á morgun.

Hjörleifur fiðlari og Þröstur gítarsnillingur skemmtu, þar vantaði mig líka myndavélina mína – með vídjói – aðra eins útgáfu af White Christmas hef ég aldrei heyrt.

Takk fyrir mig í kvöld.


bland í poka

teljari

  • 373.344 heimsóknir

dagatal

júní 2021
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa