Archive for the 'hátíðir' Category

ánægð

já ég er gríðaránægð með upphaf Myrkra, fallegir gítartónleikar í hádeginu, skemmtileg blanda úr tónleikum hátíðarinnar í Víðsjá (58’08 og áfram) í dag og glæsilegir Sinfóníutónleikar. (linkur kemur þegar hann dettur inn hjá RÚV) Sérstaklega er ég hæstánægð með að nú virðist aftur vera farið að mega skrifa skemmtilega tónlist, nefni þar til sögunnar Huga Guðmunds og kennara hans frá Kaupmannahöfn, Hans Abrahamsen.

Á morgun kennir ýmissa grasa, Guðrún Jóhanna og Javi með hádegistónleika, Duo Landon klukkan þrjú (flytja meðal annars fiðludúetta undirritaðrar), Nordic Affect klukkan fimm, (verk Huga frá í útvarpinu flutt aftur), Caput með portrettónleika Önnu Þorvalds klukkan átta, Áshildur og mikið fleiri flautur klukkan tíu (heyrðu já, bráðskemmtilegt verk af þeim tónleikum var líka flutt í Víðsjánni, í lokin) og að síðustu Duo Harpwerk klukkan miðnætti með glæný verk eftir nemendur Listaháskólans og fleiri. (kannski hefði ég eiginlega átt að telja það með laugardagstónleikunum, fræðilega séð kominn laugardagur auðvitað).

Ég mun semsagt búa í Hörpu á morgun. Gott að fólk er hætt að taka sig endalaust alvarlega í faginu mínu og það má semsagt taka mark á manni þó maður sé ekki grafalvarlegur og depressífur!

Uppáhalds atriðið

á Jólasöngvum Langholtskóra er hér, nýsett inn, njótið:

jól

kæru vinir og aðrir lesendur, takk fyrir allt.

hátíð

já, formleg opnunarhátíð Hörpu, enn syngjum við systkinin og dóttirin nema reyndar hefur bróðurdóttir tekið við af Tobba bró – hann sendir dóttur sína í Raddir Íslands.

Ég var eiginlega búin að gefa Fífu miðann minn en svo bauðst henni að syngja líka með og treystir sér ekki í að sitja alla þessa löngu tónleika fyrir seinna hlé og fara svo upp á svið að syngja, þannig að ég ákvað að nota miðann minn bara sjálf, mun sem sagt sitja í sal og hlusta í fyrsta skipti í kvöld. Heilmikið bland í poka (bland í Hörpu?) prógramm og reykvélar hjá nýgildingunum, við fundum fyrir því á æfingunni í gær, allt í þoku þegar við komum inn. Vonandi verður hægt að loftræsa salinn í seinna hléi.

Svo er nú að detta ekki fram af svölum 3 með lága handriðinu.

Gæti skrifað röflfærslu um hitt og þetta, til dæmis PR mistök númer 1 upp í 200 (getið hver þau voru) og fæðina sem visir.is virðist leggja á húsið en ég er að hugsa um að gleðjast – og vona það verði ekki brjáluð mótmæli fyrir utan í kvöld. Pínu hrædd um það nefnilega.

Allavega kom frétt á þýskri sjónvarpsstöð, hægt er að sjá okkur Hallveigu systur og Fífu á 4:15 – meira að segja skýrt!

þegar maður

er svona upptekinn í einhverju eins og vígslu þessa langþráða húss með tónleikunum á morgun, hinn og hinn (já og 13. líka) ásamt listráðsfundum og fleiru er venjulega vinnan þvílíkt að þvælast fyrir manni. Finnst gersamlega fáránlegt að þurfa að kenna á morgun og hvað eru þessir tónsmíðanemar að vilja upp á dekk með að heimta tímana sína??? (humm, kannski gáfulegt reyndar að athuga hvort sá sem á að koma í fyrramálið sé til í fimmtudagsmorguninn í staðinn, reyndar).

En ætli maður láti sig nú ekki hafa það samt. Reyndar er morgundagurinn næstsíðasti kennsludagurinn í Hafnarfirði fyrir sumarfrí, fyrir utan reyndar síðustu vikuna þar sem verða upptökupróf fyrir þá sem þurfa og svo auðvitað frágangur. Sama gildir í Suzukiskólanum, kenni þar næsta mánudag. Svo bara sólbað á pallinum eþaggi? Eða allavega bjór og útiarinn.

páskar

gleðilega páska, nær og fjær.

Páskaegg falin og fundin (nema eitt, leit stendur yfir)

Hafði enga lyst á lakkrísegginu mínu í morgun, eftirstöðvar af pest kannski en eftir brauðsneið með ósköp venjulegu hænueggi stóð það nú til bóta. Ráðist á eggið, fyrsta skipti svei mér þá sem aðaleggið mitt er ekki frá Nóa. Sé ekkert eftir því, súkkulaðið í Góu egginu er alveg ljómandi og allt nammið inni í bara svo mikið betra.

Nammið já…

Borðaði hlaupbangsa úr poka, einn hvítur og svei mér þá ef það var ekki Póló bragð af honum. Ekki súkkulaðikexið, nei nei, heldur eldgamli gosdrykkurinn, Kjarnadrykkur með gervikjörnum. Held ég hafi ekki fundið þetta bragð í minnsta kosti 30 ár.

sumarkvöldin

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, þó veðrið sé nú ekki glanslegt ennþá stendur það örugglega til bóta. Og það fljótlega.

Það eru nefnilega mörg ár síðan við gátum sungið með réttu vísuna góðu sem endar: Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur.

Kveðjur úr pestarbælinu sem er þó pínu minna slíkt en í gær – ekki að vita nema mér takist að rísa upp og halda afmælisveislurnar sem til standa á morgun.

fyrst styttist

í Ameríkuferð já ansi hratt, skrepp til BNA með suzukikennurunum eftir rúma viku (nei, staðan er ekki svo góð en við vorum búin að fjárfesta í ferðinni löngu fyrir boðaðan niðurskurð til tónlistarskóla og lítið vinnst með að fara ekki).

Svo styttist í tónleikana okkar í Hljómeyki með kórkonsertinum eftir Schnittke. Vá hvað það verður hrikalega gaman, þetta verk hefur aldrei verið flutt hér (úúú frumflutningur á Íslandi!) væntanlega vegna erfiðleikagráðu 3. kaflans. Mesta furða hvað hann kemur til. En verkið er ógurlega flott og harðbannað að missa af því! Taka frá 26. eða 27. mars takk.

Ekki nóg með það, það styttist líka í opnun Hörpu. Náði með þrjóskunni að veiða þrjá miða þann 4. maí fyrir bóndann, yngri ungling og litla gutta, við eldri úllíngur verðum víst á sviðinu.

Heilmargt að hlakka til næstu 2 mánuði. Svo er líka páskar þarna einhvers staðar að þvælast.

En fyrst er ég að hugsa um að hlakka til að halda upp á bjórdaginn með einum fyrrum bönnuðum núna á eftir…

nýja serían

Breyttum til í gær og ákváðum þegar við skreyttum tréð að appelsínugula serían sem við höfum notað síðastliðin ár skyldi fá pásu og settum eina af okkar fjölmörgu marglitu gluggaseríum á tréð. Ekki í frásögur færandi svosem. Nema hvað að ég hafði í fyrra keypt 120 ljósa seríu til að nota í annan gluggann framan á húsinu sem ljósagardínu.

Skellti henni í gluggann, tveimur eldri með 50 ljósum hvorri hinum megin. Sams konar umbúðir, sams konar perur. Ekki sams konar útkoma:

Já, semsagt 120 perurnar, nýja serían, er hægra megin, 100 perur í tvennu lagi til vinstri.

Væntanlega er þetta eitthvað straummál, að hver pera lýsir ekki jafnskært þegar straumurinn þarf að ná meira en tvöfalt lengra á einni línu.

Allavega er ég búin að setja áminningu í dagatalið mitt fyrir næstu Þorláksmessu: Muna að setja löngu seríuna á tréð! og endurtakist árlega.

Gleðileg jól

nær og fjær, elskulegu lesendur

jólajóla

búin að öllu. Feis!

tja eða svona nánast öllu sem ég ætla að gera.

Mun ekki þvo veggi né loft. Þó væntanlega myndi vera þörf á því, sérstaklega inni í skrifstofu, rykugir veggir bak við tölvuna.

Mun heldur ekki „taka skápana“ Gleymið því. Þreif samt gaseldavélina áðan, gallinn við gasið eru þessar djúpu hellur eða hvað maður kallar þær undir járngrindunum.

Hér eru enn bunkar á skrifborðinu mínu, ég er reyndar búin að átta mig á því að ég mun væntanlega aldrei losna við einn af þeim, alltaf dót í vinnslu í hlaða. Verður að hafa það.

En pakkar eru tilbúnir og jólakort send sveimérþá, búin að syngja á nokkrum jólatónleikum og hlusta á margfalt fleiri, þó ég hefði viljað fara meira. Ein eða tvær jólamessur munu væntanlega detta inn líka svona úr því maður er nú kominn í kór sem tengist kirkju.

Búin að hengja upp ljósagardínurnar og familían meira að segja búin að setja upp og skreyta jólatréð. Bóndinn langt kominn með að þvo gólfin.

Jamm sé fram á rólegasta aðfangadag í manna minnum. Sem er ekki slæmt.


hluti pakkaflóðsins.

jólakortin, tónleikar og smá röfl

frá – eða nánast. Tvö ár í röð sendum við engin og það þynnti svolítið út í haugnum sem er bara reyndar ágætt. Gott að skerpa á áherslunum og senda svo bara frekar kort á netinu á breiðari hóp. Keypti samt aaaðeins of fá kort í ár en væntanlega fullmörg frímerki reyndar.

Styttist líka í jólatónleikaflóðinu, fór á tónleika í fyrrakvöld, söng eina í gærkvöldi, fór á eina til í kvöld og stefni á að fara á styrktartónleika í Neskirkju á miðvikudagskvöldið – kyrrðartónleikarnir hjá Hallveigu og Steina eru orðnir alveg ómissandi hluti aðventunnar.

Stráksi söng áðan í upptöku á jólamessu biskups til sýningar á aðfangadagskvöld. Hann var ekkert sérlega glaður með það reyndar, drengjakórinn söng í messu í gær líka og það verður að viðurkennast að það er ekki það alskemmtilegasta sem hann gerir. Ég er pínu hrædd um að hann sé mögulega að gefast upp á kórnum og það er eingöngu út af öllum þessum messum sem þeir þurfa að syngja. Drengjakórinn sér um eina í mánuði og það fer umtalsverður tími á æfingum í að undirbúa þær (allavega samkvæmt honum).

Ef kirkjan ætlar að laða til sín fólk er ekki besta leiðin að láta litla krakka syngja við messur með prédikun af fullri lengd og altarisgöngu. Reyndar græt ég ekki aðferðirnar per se en mér finnst synd að drengir fælist frá kórstarfinu út af þessu.

til hamingju með daginn

allir mínir samkynhneigðir, gagnkynhneigðir og/eða tvíkynhneigðir vinir, kunningjar og aðrir lesendur!

gleðilegt sumar

Víst ekki laust við að sumar og vetur hafi frosið saman – látum það vita á gott.

Pönnukökurnar komnar á bláröndótta diskinn (sagði víst bláköflóttan á smettinu áðan en það er bara ein blá rönd á þessum). Góður samt. Þeytararnir í uppþvottavélinni, það gæti hafa verið mistök, ungviðið vill pönnukökur NÚNA en mamman segir neibb, ekki fyrr en allt er til og það verður jú að vera þeyttur rjómi, á pönnukökunum á sumardaginn fyrsta er það ekki?

smá sýnishorn

af flugeldunum á Hallgrímstorgi núna um áramótin:

ein á fótum

yndislegt aðfangadagskvöld með fjölskyldunni í Garðabæ í gærkvöldi, takk fyrir okkur aftur. Heim um miðnætti, hér eru sælir krakkar og þreyttir:

Settumst síðan í góða stund með krossgátur og myndagátur, við bóndinn fórum ekki í háttinn fyrr en um tvöleytið. Nú er ég ein vöknuð, sit í rólegheitum með jólaölogappelsín í glasi og jóladiskinn hennar Önnu Soffíu von Otter – ekki of hátt til að vekja nú ekki liðið.

Gleðilega hátíð áfram, allir.

annar eins

rólegheita aðfangadagur hefur ekki verið hér lengi – á samt eftir að sjóða rauðkálið og taka pínu til í svefnherberginu. Já og skipta á rúmunum og fara í jólabaðið. Annað er nánast komið, bara.

Segi bara gleðileg jól, kæru lesendur, hafið það nú gott um hátíðirnar.

tómir tepokar

færslurnar hjá mér núna, ég bara nenni engan veginn að velta mér upp úr „ástandinu“, bara halda jól í friði.

Við krakkarnir þrifum nánast öll gólfin í íbúðinni í dag, bóndanum til mikillar gleði, þau eru venjulega hans deild og hann var ekki beinlínis farinn að hlakka til að eyða megninu af aðfangadegi í að sópa og skúra gólf. Svo bara skreytt, tréð komið upp, aldrei átt svona langt og mjótt jólatré en það er mjööög flott og hentar afskaplega vel í okkar þröngu stofur enda sérvalið og höggvið af Egilsstaðabróður sem veit vel hvað við eigum litlar stofur. Stelpurnar skreyttu tréð, appelsínugul sería, gyllt og fjólublátt skraut. Ljósagardínurnar mislitu eru líka komnar upp og ljósajólatré í gaflgluggann. Fjólublá sería í horni á stofunni og skærblá úti, ég er litaóð og myndi aldrei vilja hafa bara hvítar seríur.

Skruppum í Þorláksmessuboðið til Nönnu að venju og hittum þar fullt af skemmtilegu fólki. Takk fyrir okkur enn og aftur, Nanna. Laugaveginn heim, hellingur af fólki og gríðarstemning.

Nú er að sjá hvort mér tekst að sofa út í fyrramálið eins og ég náði í morgun, annars steinhætt að geta þetta. Verulega góð tilfinning að það sé bara í góðu lagi að sofa fram til hádegis á aðfangadag…

þvottahúsið – tepoki

er nánast tilbúið, vorum að hamast að ganga frá og þrífa þar í allt kvöld – snilld að vera búin að fá snúrurnar mínar aftur, já og bara hafa ekki verkefnið hangandi yfir okkur (aðallega þá Jóni Lárusi reyndar) yfir hátíðarnar.

Myndir fljótlega.

Allar gjafir pakkaðar hér líka og birgðastaðan góð, búið að þurrka af og fleira, Freyja tók baðherbergin fyrir, spegla og hillur, já þetta er að smella, nei við förum ekki yfirum. Klifraði ekki upp á eldhússkápa til að þurrka af og mun ekki gera. Þarf samt að renna yfir gólfin hér, ætti að nást á morgun.

Svo geta jólin bara mætt, takk.

austur indía fjelagið

klikkar aldrei. Frábær matur í kvöld.

Og núna þetta. Orðið 12 ára, búið að geymast vel og lengi en ef maður notar ekki svona tækifæri, hvenær þá?


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa