Archive for the 'gleymska' Category

ekki var ég

nú svo drukkin á árshátíð Hljómeykis um síðustu helgi að ég geti kennt því um en einhvern veginn tókst mér að gleyma skónum mínum uppfrá! tja reyndar veit ég alveg hvernig ég fór að því, notaði tónleikaskóna líka sem inniskó í búðunum, tíndi til dótið mitt á sunnudagsmorgninum klædd í inniskó sem eru svo sem líka útivænir, bárum töskurnar og nótnapokann út í bíl, settumst inn og keyrðum í bæinn.

Svo í fyrramorgun þegar ég ætlaði út í leikfimi fann ég hvergi götuskóna mína. Hugsaði svo sem ekki meira út í það akkúrat þá, dreif mig bara út í einhverjum skódruslum, kom heim, settist við tölvuna og fór að athuga póstinn. Þá hafði auðvitað einn kórfélagi tekið eftir skóm í anddyri en þó ekki tekið þá með.

Vill til að Væla systir er á leiðinni upp í Hálskolt um næstu helgi, ekki að vita nema ég geti doblað hana til að kippa skónum mínum með heim. (blikk, blikk…)

hroðalega margt

sem ég þarf að muna á morgun (sunnudag sko, sem er fræðilega séð orðinn í dag)

Taka með mér Bölvun járnsins (og hinar nóturnar sem búálfarnir eru nú búnir að skila) til að passa nú vel í messu i fyrramálið (nei annars, þarf bara að kíkja betur á einn frasann fyrir tónleikana.

Taka með mér aukabjöllu á æfinguna klukkan eitt

Muna eftir posanum sem ég leigði í (gær)fyrradag

Tékka á statífum í fyrramálið – vona þau séu í Seltjarnarneskirkju ekki í Neskirkju þar sem næstu tónleikar SÁ verða

Tékka á hvað margir vilja koma og borða með okkur eftir tónleika, á æfingunni klukkan 1 á morgun.

Panta mat fyrir þá sem vilja.

Klára að plögga fyrir tónleikana klukkan 16:00 í Guðríðarkirkju, Grafarholti (merkingar útumallt þegar maður beygir inn í Grafarholt, nánast ekki séns að villast)

Er örugglega að gleyma einu eða tveimur atriðum, jámm.

Uppfært. Passar – eitt til tvö atriði

Muna kaffibaunir

Muna vídjóvél og statíf.

Uppfærsla #2

Kerti í Seltjarnarneskirkju (enn verið að selja)

Ætli þetta sé búið?

miðborgarkortið

jæja, smá jólagjöf í formi úttektar fékk maður í Suzuki, örfáa þúsundkalla sem við máttum velja um hvort væru í formi Miðborgarkorts eða Kringlukorts einhvers.

Klárt ég valdi miðborgina, enda fer ég ekki í Kringluna nema í ítrustu neyð.

Maður þarf að virkja kortið á vefsíðu, ég ætlaði þangað núna, nema hvað, ég fékk svona kort í fyrra þannig að ég átti aðgang fyrir.

Með aðgangsorði

Sem ég auðvitað man ekki fyrir fimmeyring. Búin að prófa þau sem mér dettur í hug, ekkert virkar.

En á blessaðri síðunni er hvergi hnappurinn: Gleymt lykilorð, eða neitt álíka. Dæmigert. Og skrifstofa kortsins lokaði klukkan sex. Reyndar opið á morgun.

Hvað er með að hafa ekki svona hnapp? Hvernig á maður að muna lykilorð sem maður notar einu sinni á ári?

Beats me.

braust á æfingu

í morgun, reyndar var það nú lítið mál, Mazdan blessuð siglir allt á loftbóludekkjunum sínum.

Æfingin, já, ég var sérstaklega búin að setja heila batteríið af myndavélinni í hleðslu til að geta tekið upp 1-2 kafla til að plögga frumflutninginn á 10 mínútum fyrir tvær fiðlur á laugardaginn klukkan 18:00 í Listasafni Íslands. 10 stuttir kaflar (um mínúta hver, duh!), einn reyndar heldur lengri. Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer spila, ég var mjög sátt við túlkun þeirra í morgun, örfá atriði sem ég hnykkti á, breytti eiginlega engu.

En myndavélin varð því miður eftir, og þegar ég uppgötvaði það var ég búin að keyra alla leið út í Listasafn Sigurjóns, úti á Laugarnestanga og ekki séns að ég færi að brjótast til baka í góðu færðinni.

Kannski tek ég eitthvað smá á tónleikunum…

gamall leikur og spurning til lesenda

Var að rifja upp um daginn þululeik sem við frænkur mínar lékum okkur oft í sem krakkar (úff, hljómar eins og ég sé allavega áttræð). Hann var spilaður með spilum, mig minnir að hann hafi verið kallaður Hjónabandsleikur eða eitthvað þvíumlíkt og átti að lýsa brúðkaupi okkar, þegar til kæmi.

Aðeins var notaður hluti spilastokksins. Farið var með þulu, spilin tínd eitt og eitt í bunka og þegar ákveðið spil (hjartadrottningin?) kom upp stoppaði þulan og orðið sem maður sagði, gilti (úff, þetta er ekki vel orðað, vonandi skilst þetta).

Ég man tvær eða þrjár þulanna en þær voru miklu fleiri. „Maddama, kerling, fröken, frú“ er líklega sú þekktasta, einnig var hvernig við færum til brúðkaups: „Gangandi, akandi, ríðandi, skríðandi, hjólbörum, bíl“, ein þulan var um starf tilvonandi eiginmanns (eitthvað um prest og kóng og bónda). „Hús, kofi, kamar, höll“ lýsti híbýlum sem hjónin myndu búa í, og svo framvegis. Áreiðanlega 6-7 þulur.

Man einhver eftir þessum leik, og þá fleiri þulur? Gúgull skilar engu…

arrg!

steingleymdi að kaupa sumargjafir fyrir börnin. Hmmm. Eru það ekki annars ömmur og afar sem sjá um svoleiðis?

Nei, kannski maður kíki í Mál og menningu á morgun og reddi málunum. Gengur ekki að halda ekki þessum eina séríslenska gjafasið við.

alveg getur maður orðið pirraður

starta blogger með þessa fínu hugmynd að bloggi og þegar glugginn opnast hefur maður ekki græna glóru um hvað það var. Grrr.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa