Archive for the 'garðurinn' Category

sumarkvöldin

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, þó veðrið sé nú ekki glanslegt ennþá stendur það örugglega til bóta. Og það fljótlega.

Það eru nefnilega mörg ár síðan við gátum sungið með réttu vísuna góðu sem endar: Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur.

Kveðjur úr pestarbælinu sem er þó pínu minna slíkt en í gær – ekki að vita nema mér takist að rísa upp og halda afmælisveislurnar sem til standa á morgun.

nærri kominn

apríl, magnað! Er annars ekki vorið örugglega komið? Svona burtséð frá páskahretinu. Tíu vikna önnin í LHÍ búin, hljóðfærafræði mannsraddarinnar kúrsinn minn byrjar á morgun, hvorttveggja öruggir vorboðar hér á bæ. Séð allavega 4 kvarta yfir hundaskít undan snjónum og bóndinn sá götusópa að verki. Einnig pottþéttir vorboðar. Fuglar hvað?

Og sveimérþá ef það er ekki séns á að páskaliljurnar mínar verði útsprungnar um páskana, aldrei þessu vant. Krókusar og vetrargosar byrjaðir að blómstra. Ekki samt alveg komnir svona langt:

velti fyrir mér

hvernig í ósköpunum ég muni koma rifsberjahlaupskrukkunum mínum (með sultunni sem ég á eftir að gera) fyrir í ísskápnum. Inn í hann eru nú komnar 10 stórar rabarbarasultukrukkur. Svona tvöfalt magn á við það sem ég hef gert áður.

Velti einnig fyrir mér hvernig við eigum að koma allri þessari sultu í lóg. Baka pönnukökur, hafa lambalæri og kótilettur og kjötbollur og svo framvegis.

En rifsberjahlaup skal nú samt gert líka.

Og svo þarf að fara að kíkja í sveppamó og berjamó.

Mig vantar greinilega aukaísskáp. Mamma og pabbi, er pláss í ykkar? (borgað í sultu…)

hljóðmengun

hvernig stendur á því að fólki finnst sjálfsagt að koma með græjur út í garð og stilla uppáhaldsmúsíkina sína á fullt blast, þegar það fer út í sólbað? Fórum í Skipasund áðan að sækja okkur sumarblóm, þar sat gaur í næsta garði með eitthvað leiðinda rokk á fullu, samkvæmt húsráðendum hafði þetta verið allan daginn í gær og aftur í dag. Svo heim, sátum úti á palli svolitla stund, einhver í nágrenninu blastaði kántrísöngkonu, reyndar ekki alveg eins hátt og í Skipasundinu en nógu hátt samt.

Frekar pirrandi og tillitslaust, ekki nokkur ástæða til að hafa músíkina hærri en svo að maður sjálfur njóti hennar en trufli ekki aðra. Já eða taka æpoddana eða önnur slík tæki í notkun – mér dettur til dæmis ekki í hug að allir hafi jafn gaman af Mahler og Prokoffieff og ég.

das

jámm, það er ástandið núna. 35 ára afmælisveisla í bústað við Þingvallavatn í gærkvöldi, sofið í gestahúsi, vaknað við hellirigningu allt of snemma, heim um hádegi, klappa kisu, versla fyrir afmæliskaffi á morgun, heim, pallur og hvítvín, grillaðir borgarar, meiri pallur (samt ekki meira hvítvín), lesa, núna sofa. Úff.

auglýsing

í dag gerðist garðurinn okkar frægur – eða allavega stendur til. Jón Lárus lýsir þessu í færslu í dag. Garðurinn er enda ansi hreint gróinn og flottur, ég er ekkert hissa á að hann skuli vera eftirsóttur…

goooott veeeeður

já, reikna með að flestir hér á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið eftir því. Snilld að fá svona um helgi, maður nánast fyrirgefur rokið í síðastliðinni viku.

Búið að bera á pallinn, önnur umferð á morgun og hann verður tilbúinn í notkun. Verstur fjárinn með útiarnana litlu tvo sem brotnuðu í roki í haust, og Míra hætt (er það ekki annars?)

Fullt fullt af blómum á rifsberjarunnunum, eitthvað heldur minna á sólberjadittó, graslaukurinn tilbúinn til notkunar, örstutt í rabarbarann, steinselja, hvítlaukur og mynta að byrja að gægjast upp.

Sumarið langþráða…

hvað er með rokið?

blómin mín liggja flöt út í garði. Aumingja fallegu hvítasunnuliljurnar eiga örugglega ekki eftir að reisa sig við í ár. Spurning um að tína þær bara og njóta hér inni í vasa í staðinn?

Eru ekki venjulega apríl og maí frekar svona lygnir mánuðir? eða er mig að misminna?

páskalabb

Fórum í smá göngutúr um hverfið, sáum fyrstu fíflana í ár, smá af útsprungnum páskaliljum (okkar eru ekki alveg komnar enn, en styttist óðum), allt fullt af köttum, líka tveir hundar. Barn sofandi í vagni, annað svolítið stærra úti á litla róló hér bak við með mömmu sinni. Yndislegt veður, þó það sé ekki mikill lofthiti.

Stelpurnar drógu svo fram hjólin og fóru í langan hjólatúr.

landsins gæði

í gær, sveppamór og rifsber (vorum reyndar ekki með körfu, duttum bara inn á sveppastaðinn okkar og komum heim með tvær handfyllir af lerkisveppum – þurfum að fara aftur), þarf líka að tína svolítið meira af rifsberjum til að frysta, yngri dóttirin sérstaklega vill nota þau í búst, en það er svo sannarlega nóg til.

Búin að gera rifsberjasultu og rabarbara, svo er það berjamór í dag. Var slatti af bláberjum á sveppastaðnum, nokkuð sem ég hef eiginlega aldrei séð áður, meira að segja líka þroskuð hrútaber. Hlakka til að sjá hvernig bláberin eru þá þar sem við erum vön að tína, í Grafningnum.

hurðarlaust…

tja eða hliðlaust hjá okkur núna, tókum hliðið af í gærkvöldi, drösluðum aftur í bílinn, níðþungt, ég fer síðan með það til járnsmiðs í viðgerð á eftir. Hlakka ekki smá til að fá hlið sem er hægt að loka almennilega, ég er ekkert alveg viss um að hjólunum krakkanna hefði verið stolið ef það hefði ekki verið hægt að ganga svona beint inn í garðinn.

leiðangur

Um daginn skutumst við bóndinn í leiðangur, einhver ósköp áttu að gerast í sömu ferðinni, (fórum á bílnum, sko). Garðabær tekinn með trukki (smá tölvuaðstoð), sumarblóm í Mörk (steinhætt að fara í Blómaval og/eða Garðheima), Borgartúnsríkið og svo ljósaleiðangur, erum að leita að ljósum til að fella inn í gangstíginn sem á að leggja í garðinum helst í sumar.

Fundum ansi hreint flott og ekkert sérlega dýr LED ljós í Lumex, pínulítil, svona ljós. Meiningin er að setja slatta af þeim meðfram stígnum, felld inn í hellurnar.

Gæti orðið bara flott.

mér sýnist líta vel út

með uppskeru í ár af stóra rifsberjarunnanum…

fyrsta

skipti úti á palli í sumar, kveikt upp í útiörnunum tveimur, birgðum okkur upp af flísteppum og sjölum og settumst út. Yndislegt. Best að nótera dagsetninguna svo við munum hvenær við byrjuðum í ár. Báðar stelpurnar voru með okkur, í fyrrahaust var það yfirleitt bara Fífa, en nú hefur Freyja slegist í hópinn. Finnur svaf, enda búinn að vera gríðarduglegur í dag:

Skottast í innkaupum í Kringlunni heilllengi (jámm, keyptir skór á alla krakkana, mamma splæsir í sumargjafir, takk), keyptum líka hjólaskó á Finn, jakka á dittó, (allir hinir annaðhvort druslur eða ermarnar komnar hálfa leið upp á olnboga), peysa á Freyju, sama vandamál, allar ermar of stuttar á því sem hún á.

Hjólað 8-9 km með mömmu og pabba.

Tölvutími, úgg, 3 klst!

Æft sig í 3 kortér.

drengurinn var gersamlega búinn…

En mikið gott að setjast út á pall. Aflögðu kojurnar barnanna prufukeyrðar sem eldsneyti, svínvirkuðu. Slatti af þeim eftir!

ekki í jólaskapi

annars, enda er ég að útsetja þvílíkt sumarlag, Í grænum mó, eftir Sigfús Halldórsson fyrir fiðluhóp, Fiðludagurinn nálgast og ég fékk það verkefni að útsetja þekkt íslenskt sönglag. Valdi þetta og nú er ég í sumarskapi.

Enda spretta fíflablöð hér undir húsvegg. Ekki sérlega jólalegt, ekki vetrarlegt einu sinni.

rifs

Stóri runninn úti er enn hlaðinn rifsberjum, verst að fuglarnir þora lítt að tína, út af kisu.

rifs

Berin eru ennþá mjög góð, ótrúlega sæt, orðin þrátt fyrir að vera svolítið krumpuð. Liggur við að maður tíni þau og búi til líkjör eða eitthvað.

dugnaður getur þetta verið

myndarbúskapur, búin að sulta bæði rabarbara og rifs, tína rifs til að frysta, tína bláber og frysta, sólberin mega vera aðeins lengur en í kvöld tíndir, steiktir og frystir sveppir fyrir veturinn. Líka slatti af hrútaberjum, þó ekki nóg til að sulta. Verður étið.

monti lokið í bili.

heitt

heittheittheitt á pallinum. Minnir helst á sólarlönd. Farin út aftur.

ummerki falin

nú sést ekki að það hafi verið sandkassi í garðinum. Nema af því að bletturinn bak við þar sem hann var er heldur grænni en restin af veggnum í kring um garðinn.

dagurinn

fór í útréttingar, innréttingar og afmæli.

Innréttingar, þurfum að redda smá í eldhúsinnréttinguna, settum loksins upp viftu yfir eldavélina (víst nauðsynlegt með gas) og vantar spýtu (ekki samt sög) til að hylja elementið.

Útréttingar, fundum hvar við fengjum nýja hurð fyrir neðri innganginn, lengi vantað. Restin af sumarblómunum í hús og í mold. Fundum hvar við gætum fengið nýja festingu á garðhliðið, höfum ekki getað lokað hliðinu almennilega í mörg ár.

Afmæli, heimsins besta litla frænka, hún Ragnheiður Dóra varð 7 ára í dag. Til hamingju með afmælið, skottan mín. Flott garðveisla á ættaróðalinu að Sunnuflöt 7. Bar ekki á mig sólarvörn, byrjað að klæja. Heimska ég…


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa