Archive for the 'ferðalög' Category

Svíþjóð dagur 3

Laugardagur og aðal tónleikadagurinn. Sænskir verktakar virtust ekki byrja klukkan sjö um helgar, sæi það gerast hér (við hlið hótelsins var verið að gera upp næsta hús og þeir höfðu byrjað snemma morguninn áður).

Aftur morgunmatur klukkan níu með sama genginu og daginn áður. Notaði mér að senda sms til Péturs gegnum vodafone síðuna í stað þess að splæsa frá mér. Nógu dýr yrði símreikningurinn örugglega samt. Hvenær ætli komi annars að því að það verði ekki svona dýrt að tala milli landa?

Chillað á hótelinu fram að hádegi og þá stímt af stað á tónleikana hans Halla sem fram fóru í alveg ógurlega flottu raftónlistarrými sem heitir Audiorama og er úti á einni fjölmargra eyja í miðborg Stokkhólms. Leigubílstjórinn rataði ekki á tónleikastaðinn en það vildi til að ég gerði það. Tónleikarnir voru mjög fínir, flottustu sem ég hafði séð þar til þá, á hátíðinni. Bara tvö verk og bæði þrælflott.

Hafði mælt mér mót við sænska vinkonu, Mariu, í Moderna Museet eftir þessa tónleika, fengum okkur mat á kaffiteríu safnsins, coq au vin, mæli með því. Hún ætlaði síðan með mér á næstu tónleika, klukkutími í þá þannig að við röltum okkur yfir göngubrú út á næstu eyju við.

Veðrið var frábært eins og hér sést:

haust í Stokkhólmi

Síðan komu kórtónleikar. Nordic Voices. Ótrúlegur hópur, bókstaflega ótrúlegur. Verk skrifað fyrir þau af Lasse Thoresen bráðfyndið og skemmtilegt en ég hélt ég yrði ekki eldri þegar þau sungu aukalag, ókynnt en þau léku sér þvílíkt að yfirtónum að ég hef aldrei heyrt annað eins. Ef þið sjáið auglýstan konsert með Nordic Voices einhvers staðar nærri ykkur er skyldumæting. Takk.

Kvaddi Mariu, niður á Moderna Dans Teatret þar sem var danssýning hjá íslenskum danshöfundi, ég var ekkert þannig hrifin, öfugt við Pétur sem var algerlega gagntekinn af þessum dansi. Fokvont rauðvín í boði og allt of heitt, vont rauðvín þolir ekki íslenskan herbergishita.

Tebolli á kaffihúsinu og svo síðustu tónleikarnir, kammerkór konunglega tónlistarháskólans. Verk eftir meðal annars Matthew Whittall, Kanadamann sem hefur verið búsettur í Finnlandi um árabil. Frábært stykki.

Veit ekki hvort það er bara kórnördinn í mér eða hvort þessir kórtónleikar báðir voru toppurinn á hátíðinni fyrir hinum líka. Eric Ericssonshallen er líka frábært tónleikahús, aflögð kirkja á eyjunni, nánast hringlaga og mjög skemmtilegur hljómburður.

 

Rukum út þegar byrjað var að klappa, höfðum pantað mat á Le Bar Rouge, veitingahúsi/bar í Gamla Stan. Gengum þangað, tæplega hálftíma gangur frá Skeppsholmen þar sem við vorum. Já gleymdi því í síðustu færslu, tók mig einn og hálfan óratíma að finna stað og panta mat daginn áður en tókst að lokum.

Þurftum að bíða góða stund eftir borðinu og það var alveg voðalegur hávaði þarna inni (enda bar) en maturinn var fínn.

Pétur var ekki að kýla Halla þarna:

Smástund kíktum við í lokapartí hátíðarinnar og röltum síðan upp á hótel, himnaríki að komast úr skónum og í bólið.

Svíþjóð dagur 2

Ég skildi eiginlega ekki prógrammið á hátíðinni, fyrstu tónleikar föstudagsins voru ekki fyrr en klukkan 7 um kvöldið þannig að ég, sem ekki hafði neinar fundaskyldur var verkefnalaus nánast allan daginn. Fór niður í morgunmat ásamt formanni og framkvæmdastjóra en skreið síðan aftur upp á herbergi, hengdi Do not disturb miðann utan á hurðina mína, steinsofnaði og svaf til rúmlega tólf (ókei, tíu að minni líkamsklukku). Stundum þarf maður bara á svoleiðis að halda.

Eftir hádegi ranglaði ég um göngugötuna sem hótelið stóð við, inn í åhléns stórmarkað og keypti tvennar sokkabuxur og já, naglaklippur fyrir táneglur (sjá upphaf síðasta pósts).

Aðrar sokkabuxurnar reyndust síðan með gati (urrrr), nennti samt ekki að fara og röfla heldur náði í neyðarsaumasettið inni á baði á herberginu og rimpaði því saman.

Síðbúinn hádegismatur á standi, kebabtallrik (þýðir tallrik annars diskur á sænsku?), borðað úti á torgi með vettlinga. Ekki séns að ég gæti klárað. Þokkalegasti matur en ekkert í líkingu við æðislega kebabið hjá Tyrkjanum okkar úti í París samt.

kebabtallrik

Til baka á hótelið enn og aftur. Hékk á netinu og las til sirka hálfsex þegar ég drattaðist aftur af stað niður í bæ. Hafði séð snilldargjöf fyrir litla gutta, banananestisbox, keypti slíkt á heilar 15 krónur sænskar og fyllti síðan með nammi (já, veit…) (gutti er síðan búinn að nota nestisboxið stanslaust síðan ég kom heim. Nammilaust, svona oftast allavega).

Klukkutími í tónleika, hinir gaurarnir uppi á hóteli, endaði aftur á fjárans McD eftir að hafa ráfað um stræti og torg leitandi að veitingastöðum sem ég þyrði að vera viss um að tækju ekki nema hálftíma í að leyfa mér að panta, koma með mat og ég að borða. Ekki um auðugan garð að gresja, eins og mig annars hefði langað í hitt og þetta sem ég sá á útstilltum matseðlum.

Tónleikar Hafdísar voru síðan þrælflottir, sérstaklega hennar verk. Fínn flutningur líka. Fór á eina aðra, lettnesk þjóðlagagrúppa, skrautlegir búningar en frekar þreytandi músík.

Aftur á hótel, las til hálftvö áður en ég hrundi út af.

Svíþjóð dagur 1

úff dagur! Illt í tánöglunum. Ekki gott að keyra sig í nýlegum skóm þó þeir séu frá Echo. Hélt að ég hefði verið búin að ganga þá alveg til en það var víst svolítið frá því.

 

Ég var semsagt að fara á Norræna tónlistardaga í Stokkhólmi. Hafði verið í prógrammnefndinni og þá fær maður að fara og fylgjast með hátíðinni. Þrjú íslensk tónskáld áttu verk á hátíðinni, Hafdís Bjarnadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson og Áki Ásgeirsson. Áka verk var reyndar flutt á miðvikudeginum en ríflega helmingur hópsins kom ekki fyrr en á fimmtudegi þannig að við misstum af hans verki og hinum á fyrsta kvöldinu.

 

Jæja, dagurinn byrjaði samt vel lengi fram an af. Vakna klukkan fimmsnemma eða ríflega svo, Kjartan sótti okkur Pétur (framkvæmdastjóra Myrkra músíkdaga og Norrænna tónlistardaga á Íslandi) og Halla. Hafdís og Palli, maðurinn hennar höfðu farið tveimur dögum fyrr og Áki 4-5 dögum.

 

Innritun og smá verslað, ekki mikið samt. Keypti samt tvær bækur. Hafði ekki þorað annað en að vera í lopapeysunni minni þar sem ekki er á vísan að róa með hitastig á þessum tíma. Hún kom sér vel í flugvélinni en var síðan ekki notuð meira alla ferðina nema þá sem rauðvínsflöskuböffer.

 

Kjartan og Pétur voru síðan að flýta sér einhver ósköp á fundi og ruku beint úr vélinni inn í bæ. Höfðu ekki tékkað inn töskur þannig að þeir voru snöggir út í lest. Við Halli vorum hins vegar ekki eins tímabundin, sóttum töskur og tókum síðan lest niður á aðalbrautarstöð. Þar skildi leiðir, ég tók leigubíl á hótelið, tók einn og hálfan óratíma, örugglega álíka lengi og það hefði tekið fyrir mig að labba, hellings umferð og bíllinn mjakaðist varla áfram.

Ekkert var um að vera á hátíðinni fyrr en um kvöldið þannig að ég náði í miðana sem höfðu verið teknir frá fyrir mig. Orðin svöng og ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og fara á MacD og síðan að fara bara í þær útréttingar sem ég ætlaði mér í ferðinni.

 

Inni í þeim var ekki ein einasta H&M ferð. Hin í den islandske delegation sluppu ekki eins vel.

 

Ég fór hins vegar í ríkið með óskalista frá bóndanum. Fékk allt sem á listanum var, þetta fínasta Systembolag á Regeringsgatan. Rambaði síðan á hönnunarbúð og fékk þar jólagjafir handa dætrunum. Frágengið (nú verða þær væntanlega viðþolslausar af forvitni)

 

Aftur á hótelið í góða stund, svo fórum við Pétur til að finna staðinn þar sem kvöldtónleikarnir áttu að vera, Pétur hafði ekki náð í miðana sína þar sem afgreiðslan lokaði snemma, smá klúður en kom reyndar ekki að sök.

Tónleikar/uppákomur kvöldsins voru allar rétt hjá að mestu leyti aflögðu samgöngumannvirki sem heitir Slussen. Ég hafði farið þar og skoðað þegar við vorum að ákveða verkin á hátíðina en tókst samt ekki að ramba á venjúið þrátt fyrir að við leituðum og leituðum. Fyrstu tónleikarnir voru síðan úti, lúðrasveitaverk með 3-4 sveitum hér og þar um svæðið, samanstóð aðallega af nokkrum nótum sem kölluðust á, upp og niður, ég saknaði þess að nýta ekki miðlana betur. Hittum á hin ásamt sænska formanninum sem rataði auðvitað á venjúið. Þar voru þrjú frekar flott vídjóverk ásamt lifandi flytjendum. Slepptum síðustu tónleikunum enda byrjuðu þeir ekki fyrr en hálftólf um kvöldið og dagurinn var orðinn ári langur. Leigubíll upp á hótel og steinsofnaði.

 

Smá brot úr einu verkanna í Slussen klúbbnum:

Dagur tuttuguogtvö. Heim.

Eins og fríið var búið að vera snilldarlegt var alveg kominn tími á heimferð, ég held við höfum öll verið komin í þann gír.

 

Mætti halda að við værum að fljúga frá Keflavík með þægilega morgunfluginu, vélin okkar fór klukkan átta um morguninn og við ætluðum að vera mætt um sexleytið þó við þyrftum þess strangt til tekið ekki, þar sem við höfðum bókað okkur inn á netinu daginn áður og prentað út brottfararspjöld. Leigubíllinn okkar (líka pantaður á netinu – ekki smá þægilegt) kom fjórum mínútum of seint, gerði ekkert til því við vorum rétt nýkomin út með dótið okkar. Veitti ekkert af rúmum klukkutíma til að koma sér á lappir, morgunmat og síðustu yfirferð yfir íbúðina. Ferðin á völlinn talsvert fljótlegri en þegar við komum, nánast engin umferð inni í París og þó talsverð umferð væri á Periferique (hringveginum um París) gekk hún hratt og vel fyrir sig.

 

Það reyndist hin mesta snilld að hafa innritast á netinu, óralöng röð við innritunarborðin en enginn í röðinni sem stóð Netinnritun. Rukum beint í gegn. Mjög sérkennilegt reyndar, það virtist ekki vera neitt um Íslendinga í þessari vél, heyrðum enga íslensku í röðinni, né heldur í biðsalnum uppi. Eyddum lausu evrunum í dökkt M&M á vellinum. SAS lounge var ekki opið þannig að ekki fórum við í slíkt, bara keyptum okkur dísætan franskan morgunmat.

 

Ef maður fengi nú svona bolla…

Heilsað á útlensku í vélinni og fluggengið var bara hissa þegar við tókum undir á íslensku. Ég held svei mér þá að við höfum verið einu Íslendingarnir í vélinni. Grilljón ferðamenn að koma að heimsækja okkur en engir Íslendingar í París. Reyndar höfðum við ekki heyrt neina íslensku allan tímann nema auðvitað þegar við hittum Parísardömuna og krakkana hennar. Meira að segja klikkaði H&M – ég hélt að það væri pottþéttur staður til að hitta á Íslendinga. Þetta náttúrlega gengur engan veginn – farið nú að drífa ykkur til Parísar og þá helst í gönguferð með Parísardömunni. Ég er búin að fara í fjórar, Mýrina, Latínuhverfið, Montmartre og nú síðast Versali í þessari ferð. Hundrað evrur á manninn fyrir Versalaferðina var virkilega ekki of mikið, frábær ferð. Gönguferðirnar eru síðan ódýrari og líka ógurlega skemmtilegar.

 

Flugið gekk ágætlega fyrir sig þrátt fyrir að vélarræfillinn hafi ekki haft skemmtiefni, enginn skjár í sætisbaki og ekkert hægt að fylgjast með hvert við værum komin. Krakkarnir fengu samt PSP tölvur lánaðar. Ég pikkaði ferðasögulok á vélina mína, verður síðan snilld í haust þegar hægt verður að fara á netið í vélinni. Ekki að ég láti mig dreyma um að það verði ókeypis, allavega ekki til að byrja með.

 

Lent heilu og höldnu í Keflavík, Fífa náði í okkur, gott að koma heim.

Dagur tuttuguogeitt. Lokahnykkurinn.

Ekki nenntum við nú að vakna snemma, maður er svo sem ekkert vanur að venja sig á að vakna fyrir allar aldir þegar flogið er með þægilega morgunfluginu frá Keflavík. Lætur sig bara hafa það að stilla klukkuna og vera syfjaður.

Eftir morgunmat var stefnt á mega ostainnkaup. Reiknuðum nú reyndar ekki með að vera með heil fjögur kíló, ferskostar geymast ekki alveg SVO vel og lítið varið í að koma með einhver ósköp af osti til að hann skemmdist bara í ísskápnum. Foie gras var líka keypt (nei ég kaupi ekki þetta með illu meðferðina á gæsunum, sjá hér. Reyndar ekki besta greinin um þetta, ég finn hana ekki).

Til baka heim, henda ostunum í ísskápinn, sækja Freyju sem ekki hafði nennt á markaðinn og út að borða í hádeginu. Rétt hjá okkur var lítið veitingahús sem lét ekki  mikið yfir sér. Frakkarnir höfðu nú samt mælt með því og við höfðum allan timann verið að hugsa um að drífa okkur nú þangað, gengum fram hjá því nánast daglega. Einhvern veginn hafði það nú samt æxlast þannig að þegar við ætluðum út að borða var það annaðhvort eitthvað smotterí eða oftar í samhengi við eitthvað sem við vorum að sýsla annars staðar í bænum. Þannig að þetta var síðasti möguleikinn á því að borða á hverfisveitingahúsinu okkar.

Á leiðinni niðureftir hafði Jón á orði hvað við ættum að gera ef okkur litist ekki á neitt á matseðlinum. Finnur tautaði eitthvað um sushi en meira var ekki rætt. Settumst á útiborð á staðnum og fengum að sjá matseðilinn sem var handskrifaður á krítartöflu.

Andalæri í hunangs/karrísoði á la /po.za.da/

Skemmst frá því að segja að þetta var sá almest spennandi matseðill sem við höfðum séð alla ferðina. Hefði getað hugsað mér að panta allavega fimm af átta aðalréttum á listanum, svipað með forréttina og eftirréttina. Stutta tilboðið (forréttur+aðalréttur eða aðalréttur+eftirréttur) kostaði 13 evrur, þriggja rétta kostaði 16 evrur. Fengum okkur öll aðalrétt og desert, kjúklingurinn í salatinu hans Finns var fullkomlega steiktur og ávextirnir og grænmetið ferskt og brakandi, kálfurinn hennar Freyju frábær og hárrétt eldaður og andalærin okkar Jóns í hunangs/karrísósu voru púra unaður. (matarklám dagsins í boði Hildigunnar).

Ég fór næstum því að gráta að vita af þessum stað og hafa bara borðað þarna einu sinni allar þrjár vikurnar. Ég stakk meira að segja upp á því að við myndum borða þarna aftur um kvöldið. Hálfpartinn í alvöru. Gerðum það nú samt ekki þar sem við áttum rauðvínsflösku sem við þurftum eiginlega að klára með kvöldmatnum (mjög góða en þó ekki svo fína að það tæki því að fara að pakka henni niður í tösku til að fara með heim og borga af í tollinum).

Nújæja, eftir þennan unaðslega mat var ekki til setunnar boðið, heim og pakka og þrífa til að skila íbúðinni vel af okkur. Þurfti nú ekki mikið til, við vorum ekki búin að drasla mikið til, smá afþurrkun, pakka okkar eigin dóti, henda handklæðum í þvottavél og ryksuga og sópa.

Hef ég minnst á hvað ég hata pokaryksugur heitt og innilega? Nei? Þá geri ég það núna. Ég hata pokaryksugur! Heitt og innilega!

Slátrarinn og boeuf tournedos – heitir það ekki turnbauti á íslensku? Ekki viss um að hafa prófað svoleiðis áður. Fyrst bjó Jón Lárus samt til fyrir mig uppáhalds kokkteilinn okkar, Love in the Afternoon. Reyndist betri en heima, jarðarberin voru sætari og betri og cream of coconut sem við keyptum var þykkt og æðislegt. Lúxusátdagur.

Tróðum ofan í töskurnar öllu sem hægt var, horfðum á úrslit í 200 metrum karla og sigurvegarnn með stælana og fórum síðan að sofa. Miðað við hvað ég var hroðalega syfjuð yfir Ólympíuleikunum tók samt ótrúlegan tíma að sofna, var ekki dottin út fyrr en undir miðnætti.

Dagur tuttugu. Montmartre.

Styttist í fríinu, tveir dagar eftir. Freyja hafði beðið þess í ofvæni að fara til Montmartre og skoða, ekki Sacré Coeur og heldur ekki Rauðu mylluna heldur kaffihúsið sem Amélie er tekin upp í að miklu leyti. Amélie er ein af uppáhalds myndum dótturinnar nefnilega.

árbítur

Vaknaði rúmlega sex, vakti hin um sjöleytið (krakkarnir fengu samt að sofa pínu lengur þó ég ýtti aðeins við þeim). Var svo hundsyfjuð sjálf og lagði mig smá aftur. Gat samt ekki sofnað. Allir komnir á fætur fyrir tíu og lögðum í hann upp úr því.

Tvisturinn að Rauðu myllunni, enginn hafði séð hana nema ég, fór reyndar þar á sýningu með Suzukigenginu. Myndataka og svo stefnt á Amélieslóðir. Fundum kaffihúsið hennar og auðvitað urðum við að setjast þar og fá okkur petit dejeuner. Samt ekki morgunmat Amélie, hann var fullstór fyrir okkur sem vorum jú búin að fá okkur morgunmat. Þrjú egg og bagetta og pain au chocolat og hvað veit ég? Allavega var nýkreisti appelsínusafinn, litla bagettan með smjöri og sultu og tebollinn bara ansi gott. Við Jón pöntuðum okkur svoleiðis, Finnur var ekki orðinn svangur, Freyja eiginlega ekki heldur en þáði súkkulaðibrauðið mitt. Finnur hefur aldrei séð Amélie, ekki að vita nema hann verði settur fyrir framan varpið þegar við horfum aftur heima til að rifja þetta allt saman upp.

Áfram á Amélieslóðum, fundum grænmetis- og ávaxtamarkaðinn með leiðinlega gaurnum (væntanlega samt ekki sá sami að afgreiða) og húsið hennar, að við höldum.

Skoðuðum Salvador Dali safnið, ekki fór það nú svo að við færum ekki í eitt listasafn í allri þessari löngu Parísarferð. Höfðum ákveðið að sleppa Louvre alveg, svona risasöfn heilla mig nákvæmlega ekki neitt eins og ég hef áður talað um, Picasso safnið var lokað, verið að taka það í gegn í ár og Orangerie náðum við ekki fyrir löngu biðröðinni upp í turn Notre Dame daginn áður. Dali safnið var æðislegt, mjög fjölbreytt eins og hans langi ferill. Meira að segja Finni þótti gaman að skoða listaverkin.

Þægilegur þessi

Gengið svo gegn um stóra listamannamarkaðinn á hæðinni rétt við Sacre Coeur. Féllum bara fyrir ís. Að kirkjunni, ísinn ekki alveg búinn þannig að við ákváðum að ganga upp með hliðinni á henni. Þar var teiknari næstum búinn að veiða Finn, byrjaður að setja strik á blað þegar við orguðum á hann að koma. Teiknarinn var voða móðgaður og sagðist bara ætla að teikna hann fyrir sitt eigið safn, it’s ART you know! Ég: Uhumm en við borgum sko ekki! Hann: Ég teikna og svo ef ykkur líkar teikningin þá kaupið þið hana. Við: Jáneitakk! Kunni tæpast við að ganga aftur sömu leið til baka, en þá var gaurinn reyndar farinn eitthvert annað.

Sacre Coeur sló í gegn, Freyju fannst hún fallegasta kirkja sem hún hefði nokkurn tímann séð. Hún er auðvitað mjög falleg, það er alveg satt.

Niður tröppurnar sem við sluppum við að ganga upp með því að fara þessar krókaleiðir. Það er nú ansi skemmtilegt þarna, þrátt fyrir óteljandi skransala með draslið sitt. Tók mynd niður einn rampinn, efsti skransalinn var lítt hrifinn og tók fyrir andlitið. No photos, no photos!!!

skransalinn

Komin alveg niður settumst við á bekk til að ákveða hvað næst. Langaði pínulítið að skoða stóra kirkjugarðinn aðeins vestar, plönuðum að kíkja þangað og ganga svo norður fyrir Montmartre hæðina og taka metró á stöðinni hennar Amélie.

Að kirkjugarðinum komumst við klakklaust, sáum reyndar ítalska ísbúð á leiðinni með melónuís, dauðsá eftir hindberjaísnum sem ég hafði fengið mér á markaðnum þó sá hefði verið fínn. Ítalskur melónuís er algerlega toppurinn. Nú, eitthvað fór lítið fyrir hliðum á blessuðum kirkjugarðinum, gengum meðfram heilli hlið, enginn inngangur, fyrir horn, ekkert sjáanlegt. Væntanlega hefðum við þurft að fara í hina áttina en þegar þarna var komið nenntum við ómögulega að fara til baka eða allan hringinn þannig að í staðinn var ákveðið að fá okkur eitthvað að drekka á næsta álitlega stað.

Slíkur fannst um 10 mínútum síðar (já við vorum komin út af mesta túristasvæðinu). Ágætis staður, örstutt frá metróstöðinni. Finnur var eitthvað önugur og við uppgötvuðum að hann hafði eiginlega ekki borðað neitt síðan einn Chocapic (nokkurs konar kókópöffs) disk um morguninn. Bara sítrónusafaglas á Amalíukaffi og svo einn ítalskan ís. Ekki beinlínis besta næringin. Hann hresstist allur við af bagettubita og appelsíni.

Fundum stöðina hennar Amélie, óvenju falleg af metróstöð að vera. Heim í íbúð með smá stoppi í bakaríi og crépuvagni og búð. Crépan í vagninum reyndist mikið betri en á staðnum, eiginlega algjört æði.

Dagur nítján. Upsagrýlur. Loksins!

Krakkar og chimerur í turni

Óttaleg leti í gangi, vaknaði sjö eins og venjulega en skreið aftur upp í rúm og steinsofnaði, svaf til níu. Ógurlega gott. Skutumst að versla, áttum eitthvað svo mikið pasta eftir og planið var að búa til gráðostapasta um kvöldið. Það klikkar aldrei. Heim aftur og glápt á ólympíuleikana, lesið, cassoulet úr krukku í hádegismat, með betri krukkumat sem ég hef á ævi minni fengið.

Dröttuðumst ekki út fyrr en vel eftir hádegið, ætluðum á upsagrýluveiðar og í Orangerie listasafnið í Tuileries garðinum. Kristín hafði samband og sagði okkur að hún ætlaði að hitta skemmtilega Íslendinga í uppáhaldsgarðinum mínum Buttes-Chaumont klukkan fimm og hvort við vildum kannski koma líka. Var ekki alveg viss um að tíminn myndi leyfa það en skyldum reyna.

Bjartsýnu túristar.

Röðin upp í turn á Notre Dame reyndist nærri tveggja tíma löng og sjálfur göngutúrinn um 50 mínútur. Slaufuðum Orangerie strax og við sáum hve hægt röðin gekk en ættum nú að ná Buttes-Chaumont.

Voðalega margar tröppur upp í turn, ágætt að vera í góðu gönguformi eftir ýmsar ferðir. Grýlurnar (upsa og hinsegin, gargoyles eru til að taka vatnsafrennsli en chimeras eru þessar grýlur sem flestir hugsa um) tóku vel á móti okkur þarna uppi.

Ég hefði ekki viljað vera lofthrædd þarna, held að ég sé orðin alveg laus við lofthræðsluna, sveimérþá.

Chimera

Niður komum við ekki fyrr en rétt fyrir fimm. Öll sársvöng og leist ekkert á það að ná garðinum og vinunum af neinu viti. Hringdi bara og bað að heilsa í hittinginn.

Fundum spennandi veitingahús og settumst, reyndist líka fínt nema reyndar var ég alltaf að finna lyktina af sígarettustubbum á jörðinni fyrir neðan. Hafði líka pirrað mig í biðröðinni upp í turninn. Ég held svei mér þá að hér í París höfum við orðið fyrir meiri óbeinum reykingum á þessum þremur vikum en síðastliðin 3-4 ár heima á Íslandi.

Komum svo heim um hálfsjö, kvöldið fór bara í ólympíuleika, lestur og dagbókarskrif. Reyndi að ná sambandi við Fífu en tókst ekki. Hefðum síðan alveg getað farið í garðinn, þau sátu þar á spjalli þar til hann lokaði, klukkan tíu. En hei, það er ekki hægt að gera allt.


bland í poka

teljari

  • 371.493 heimsóknir

dagatal

maí 2020
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa