Archive for the 'drengjakórinn' Category

hahaaa, kemur örugglega

öllum gersamlega á óvart, sérstaklega fbvinum að nú skal plöggað kertasölu.

Strákarnir í Drengjakór Reykjavíkur keyra sig á kertasölunni fyrir jólin, allir guttar eiga að selja 50 kertaeiningar. Vill til að flestir, trúaðir sem trúlausir (jánei, ætla ekki í umræðuna hér) brenna fullt af kertum á aðventu og yfir jól og strákalingarnir eru að selja þessi fínu gegnheilu Heimaeyjarkerti. Við tókum fjóra liti, aðventufjólubláan, jólarauðan, jólasnjóhvítan og égveitekkihvernigtengistjólum fílabeinshvítan. Flottir allir, svo er hægt að redda dökkgrænum, dökkbláum og dimmrauðum líka. Átta kerti saman í pakka á þúsundkall. Frí heimkeyrsla innan Stórreykjavíkursvæðis.

Hér sjást litirnir. Ef þið sjáið ekki mikinn mun á fílabeinshvíta litnum og þeim jólasnjóhvíta þá er það vegna þess að það er nánast enginn munur á þeim í ár. Þau í Heimaey hafa ekki sett alveg eins mikinn gulan saman við blönduna og í fyrra, hugsa ég.

Hér sjást svo strákarnir, ætla ekki að pósta jólalaginu nærri strax. Finnur er í nærmynd á 1’14“ ef einhver vill sjá.

smá pása

frá ferðasögunni til að monta mig af stráksa mínum og hinum guttunum í Drengjakórnum.

Hér er myndband úr Kastljósinu í gær sem sýnir þá:

Finnur er í nærmynd á 1:16

klaufaskapur getur borgað sig

í gærmorgun var ég að vandræðast með litla guttann minn, hann er í Drengjakór Reykjavíkur eins og margir lesendur munu væntanlega vita (montna mamman lætur ekki að sér hæða). Kórinn æfir nú í húsnæði Karlakórs Reykjavíkur á Grensásvegi þar sem verið er að mála Hallgrímskirkju að innan, það tekur alveg svolítinn tíma með allan þennan geim. Nema hvað, stráksi er bara níu ára og ekki séns að hann fari sjálfur í strætó á Grensásveginn – ég er að kenna báða æfingadagana og verð að vera á bílnum. Hef treyst á eina ógnar almennilega og indæla mömmu vinar Finns í kórnum til að koma honum á staðinn. Nú hafa málin flækst örlítið og ég þarf að koma honum heim til vinarins á mánudögum til að þetta gangi upp.

Nema í gær. Þá var ég með tónfræðikrakkana í prófi og komst ekkert frá til að skutla honum eftir sinn tíma.

Sendi mömmunni póst um málið með því að svara pósti sem hún hafði sent á allan drengjakórinn. Tek ekki eftir því fyrr en á andartakinu sem ég smellti á Senda, að allir kórforeldrar voru í cc við bréfið. Sendi strax afsökunarbeiðni á spaminu (er það kannski tvöfalt spam?). Allt í fína, enginn fúll – en auðvitað fékk ég svo svör frá foreldrum fjögurra kórdrengja (mamma vinarins þar með) um að sjálfsagt sé að redda drengnum fari á æfingu.

Frábært fólk atarna.

guttarnir

í Kringlunni í dag:

Sætir og fínir.

kringlusöngur

ef þið eigið leið í Kringluna núna upp úr hádeginu, labbið endilega við á blómatorginu klukkan eitt til að heyra Drengjakórinn syngja nokkur lög.

Sjáumst þar.

meira púsl

Finnur (eða réttara sagt við foreldrarnir) verðum pínu óvinsæl í dag, hann fær nú í fyrsta skipti að spila með í White Christmashópnum í Suzuki (já, þarna vídjóið sem ég set inn á hverju ári – ég tími ekki einu sinni að taka nýtt því ég er komin með svo mörg innlit á þetta…) og það verða bara tvær æfingar á því. Í kvöld og á sunnudaginn. Í kvöld þarf hann semsagt að skjótast af kóræfingu. Það er ekki vinsælt, tónleikar strákanna á sunnudaginn kemur. Verður samt eiginlega að vera þannig. Pabbi hans sækir hann klukkan rétt fyrir sex, skýtur honum og Freyju á æfinguna, aftur til baka í kirkjuna á kóræfinguna, ætti að ná í skottið á henni, pabbinn nær í Freyju aftur, hún er að spila með í Kanon eftir Pachelbel, æft beint á eftir White Christmas, þá beint í Hafnarfjörð að ná í mig. Eða heim fyrst, fer eftir hvort æfing dregst eitthvað, í Suz eða ekki.

Sunnudagurinn verður svo svipaður, ég reyndar með sýningu klukkan tvö, allt í lagi með það, tónleikar hjá Finni klukkan fimm til svona hálfsjö, æfing í Grensáskirkju (Suz) tíu mínútur fyrir sjö (White Christmas), sjö til kortér yfir (Pachelbel) og svo eru stelpurnar báðar að fara að syngja á aðventukvöldi í Langholtskirkju klukkan átta, eiga eiginlega að mæta sjö en Freyja verður að fá að koma aðeins seint. Suztónleikarnir eru síðan á mánudagskvöld og ég kemst ekki 😥 ekki vinsælt að sleppa tveimur Hljómeykisæfingum og ég valdi Beethoven. Jón Lárus verður bara að vera með vídjóvélina á staðnum.

Voða sniðugt að vera með jólatónleikana snemma en ekki alveg eins þegar allir ætla að hugsa þannig.

Langar annars ekki einhvern að hlusta á litlu englana syngja í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan fimm? Eigum enn 3 miðum óráðstafað – og þurfum að borga þá ef við getum ekki selt. Fimmtán hundruð kall miðinn hjá okkur, tvöþúsund við innganginn. Plííís!?

brjáluð helgi

framundan.

Fyrramál, æfing í Guðríðarkirkju frá tíu til tvö, þá rjúka niður í Suzukiskóla og sjá stráksa spila á tónleikum sem byrja klukkan tvö, þá beint upp í Kringlu, drengjakórinn er með köku- og allsherjarbasar þar, við eigum vaktina frá þrjú til sex eða þangað til allt er búið. Leyfi mér að vona að allt verði búið fyrir klukkan þrjú. Skutla stráksa til ömmu sinnar og koma mér heim, erum að fara á óperusýninguna um kvöldið.

Nema dagurinn verði svona: Æfing frá tíu til tvö – fá að fara fyrr og taka Söngvaseiðssýningu, mæting eitt, þá tekur Jón Lárus tónleika Finns (verður þar reyndar hvort sem er) og basarinn og skutlið til ömmu. Eiginlega auðveldari þannig, dagurinn.

Sunnudagur. Mæting klukkan níu um morguninn í Seltjarnarneskirkju, spiluð eitt stykki Haydnmessa í morgunmessu, heim, mæting í Guðríðarkirkju klukkan eitt, æfum Rauðan hring og kíkjum væntanlega eitthvað á Bölvunina líka. Tónleikar þar klukkan fjögur (muuuuna að mææææta aaaaalliiiir), búnir rúmlega fimm, þá verður væntanlega eitthvað gert eftir tónleika.

Verður bara þægilegt að mæta í vinnuna á mánudaginn…

ekki orð

um rödd og lasleika. Ónei.

Jón Lárus fékkst með örlitlum erfiðismunum til að taka alla drengjakórshelgina, þetta er frá hálfsex á föstudegi til hádegis á sunnudag, hefði eiginlega tæpast tekið því að skipta helginni milli sín. Líka sparar bensín, þó það sé ekkert rosalega langt þarna í Hlíðardalsskóla þá er bensínið nú ekki beinlínis gefins núorðið.

Freyja spilar á tónleikum á laugardaginn, hlakka til að heyra, og Finnur eftir viku.

sölumennskan

byrjuð, fjáröflun kóranna, langar einhvern í ljómandi góð Heimaeyjarkerti? 8 kerti á 800 kall, til dimmrauð og hárauð, hvít og fílabeinshvít og eitthvað smá af bláum. Já eða kaffi frá Kaffitári, bæði malað kaffi og baunir.
Um er að ræða poka með 2x250gr af kaffi á kr 1700:
Kólumbía sem er ljúft kaffi með góðri fyllingu, og með ávæning af hnetu, ávöxtum og dálitlum sætleika og Sólarglóð er bragðmikil blanda af kaffi frá Indónesíu og Kólumbíu.

Látið endilega vita, gott að kaupa jólakertin og nóg af þeim, ekki mun veita af birtu í dimmu mánuðunum hér. Gott kaffi er svo alltaf gott er það ekki? (spyr sá sem ekki veit).

Allt fyrir þessa engla:

Klósett- og eldhúspappírssala Grallara fer svo örugglega fljótlega í gang líka…

guttinn

fékk að syngja með Karlakór Reykjavíkur á tónleikum í Ráðhúsinu í gær. Voða flott. Strákarnir sungu líka 2 lög einir, hér sjást þeir nýbúnir að stilla sér upp:

Aðeins úr fókus, en þeir eru nú flottir samt.

og svo var

Finnur bara alls ekkert sérlega þreyttur eftir langa daginn sinn í gær, við rákum hann reyndar í rúmið um níuleytið, hálftíma fyrr en venjulega, en það var ekki vegna þess að hann væri neitt að lognast út af.

Myndi samt ekki vilja að hann ætti marga daga svona nánast stanslaust frá 9-7.

Þurfti ekki einu sinni að skutla honum heim eftir víólu, þar sem stóri bróðir vinar hans (þeir bræður eru líka í kórnum og í tónfræði með Finni) var í fiðlutíma á sama tíma og hann fór heim með þeim og svo beint í kór.

Tókst náttúrlega að gleyma víólunni og nótunum uppi í Hallgrími, en það var nú auðlagað.

stráksi

byrjaði í Drengjakór Reykjavíkur í síðustu viku, var alveg til í það. Mætti á æfingu, kom aftur heim,

ég: Jæja, hvernig var á æfingu?
hann: Ekkert sérstakt.
ég: Nú hvernig þá?
hann: Það kunnu allir hinir strákarnir öll lögin!

Svo fór hann aftur í gærkvöldi og kom heim – búinn að læra erfiða lagið sem hann talaði um vikunni áður. Hljóp svo glaður og kátur af stað á æfingu áðan.

Mikið líst mér vel á þetta.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa