Archive for the 'dægradvöl' Category

er ekki upplagt

að hlusta á þetta í dag og næstu daga?

(og hver veit nema textinn sé tóm vitleysa…?)

ahhhh

tíu vikna önninni í LHÍ lokið, á bara eftir að reikna út einkunnir og skila, ég set metnað minn alltaf í að vera fyrsti kennarinn sem skilar einkunnunum, oftast tekst það nú.

Fyrsti áfangi í jólafríi, var reyndar stórfurðulegt að heyra fyrstu gleðilegjólakveðjuna eftir tíma í gær.

Komin í pásu í leikfimi líka, alveg kominn tími á það, þurfti að þvinga mig út alla síðustu viku. Byrjuð að láta renna í bað og allt en nei, það ER SÍÐASTA VIKAN, DRATTASTU ÚT!

En svei mér þá ef ég er ekki bara að komast í jólastemningu, og það er ekki einu sinni kominn fyrsti í aðventu, hvað þá fyrsti des. Hefur kannski eitthvað með það að gera að við héldum hlaðborð fyrir Pólverjana, krakkana okkar og foreldra eftir námskeið á sunnudaginn var og þar var á boðstólum hangikjöt og laufabrauð, rúgbrauð og síld, lax og paté – held við getum alveg sparað okkur að fara á eitthvað jólahlaðborð í ár.

letisunnudagar

eru hreint ekki sem verstir. Bannaði bóndanum að fara í hjólatúr þegar ruslatunnan fauk um koll í garðinum, það eru nú takmörk fyrir því hvað er hægt að láta veðrið ekki hafa áhrif á sig. Í svona veðri er bara best að þurfa sem minnst að fara út.

Fífa reyndar á æfingu í allan dag og svo ætla ég að kenna henni að elda alvöru bolognese í kvöld. Já og þarf víst að skjótast á bókasafnið. Og sækja Finn til ömmu sinnar og afa. Og hjálpa honum að æfa sig (hlakka til þegar hann fer að geta gert það sjálfur eins og stelpurnar).

Samt rólegt, víst rólegt!

besta helgin

til að vera hér í bænum var ekki þessi helgi núna – ekki að þið hefðuð ekki getað logið því að mér.

Næsta helgi og verslunarmannahelgin (sem er venjulega sú besta á árinu til að vera í bænum) þurfa reyndar að sýna ansi vel að þær séu betri. Ójá. Skora á þær…

bústaðsraunir

Familían er farin að þrá að komast í sumarbústað, við erum, eins og sumir lesendur hér vita kannski, með aðgang að sumarbústöðum í eigu Starfsmannafélags Samskipa uppi við Bifröst. Frábærir bústaðir á snilldarstað.

Nema hvað, við höfðum ætlað að fara núna um helgina, áttuðum okkur á því á sunnudaginn var að stelpurnar eru að syngja á tónleikum með Sinfóníunni bæði á fimmtudags- og föstudagskvöldið, við hefðum ekki náð af stað fyrr en eftir klukkan tíu á föstudagskvöldinu og það fannst okkur nú fullseint.

Nema hvað, við tölum um hvort bóndinn geti nú ekki athugað með að skipt um helgi, smá misskilningur veldur því að hann fær að skipta yfir á helgina eftir tvær vikur. Nema þá er Finnur að útskrifast úr þriðju bók á víóluna á heilmiklum skólatónleikum á laugardagsmorguninn. Garg. Hann hjólar aftur í formann bústaðanefndar og bókar helgi í mars, héldum að það myndi ganga – en neeeeiiii, ég fatta á miðri æfingu í gærkvöldi að það eru tónleikar hjá mér á sunnudeginum og æfing á laugardagsmorgninum. Ákváðum nú að fara bara samt – ég verð bara að skjótast í bæinn, vill til að þetta er ekki neitt gríðarlega langt…

fáránlega

skemmtilegt kvöld

en nánast óundirbúin vinna á morgun – fyrsta sýningin mín á föstudaginn kemur og ég ætlaði að sjá sýningu fyrir það áður en ég sýni. Sú er á morgun

Sofa!

hvernig

getur maður orðið svona óhemju þreyttur án þess að gera nokkurn skapaðan hlut?

Vöknuðum frekar seint, afslöppun fram yfir hádegi, skutumst í Ríkið og að kaupa bensín, síðan stímdum við í Mosfellsdalinn að kíkja á markaðinn – aldrei man maður eftir að koma með reiðufé, ég reyndar skil ekki alveg hvers vegna enginn þarna leigir posa, það kostar ekki nema 5000 kall per skipti (ef ég man rétt). Vorum að leita að næpum, þær voru svo reyndar ekki til, þannig að peningaleysið kom ekki að sök.

Svo var fjölskyldudagur Samskipa, hljómar reyndar ekki eins og að gera ekkert, en ég gerði samt nánast ekki neitt, Jón Lárus, Finnur og Freyja fóru í Lazer Tag (veit ekki hvers vegna það heitir ekki laser heldur lazer) en við Fífa gerðum ekkert nema vakta grillið og fá okkur borgara þegar þeir voru til.

Fífa keyrði bæði uppeftir og heim. Nú bara afslöppun og já, snemma í bólið held ég bara. Gersamlega að leka niður.

hlöðuball

okkur hjónum var boðið á hlöðuball i örgustu sveit í gærkvöldi. Datt auðvitað ekki annað í hug en að drífa okkur, þrátt fyrir að eiga ekki tjald (fengum lánað, takk Hallveig og Jón Heiðar) og svo festust bremsurnar á bílnum okkar, ekki þorðum við að taka áhættuna að keyra þannig og eyðileggja draslið þannig að við fengum lánaðan bíl líka (jámm, takk Bjössi mágur).


(mynd fundin hér).

Skemmst frá því að segja að það var alveg hrikalega gaman, og það þrátt fyrir að þekkja varla kjaft á svæðinu. Tvöföld afmælisveisla, vinnufélagi Jóns og frænka hans, góður matur og drykkur, hellingur af skemmtiatriðum, fullt af söng og síðast en ekki síst dansað fram á nótt við ansi hreint þétta ballhljómsveit – höfðum verið stressuð yfir að þarna yrði tóm kántrímúsík með slide gítörum (jakk) en þau spiluðu fyrst og fremst rokk og fóru vel með það. Alveg óhætt að bóka bandið Silfur ef einhver er að halda svona veislu.

Og svo svaf tjaldfælan undirrituð bara mjög vel, man ekki eftir betri útilegu nokkurn tímann. Var náttúrlega hlýtt úti, ég efast um að lofthitinn hafi farið undir tíu gráður. Munar líka að vera búinn að dansa sér til hita hálft kvöldið.

Takk fyrir okkur, Valdi og Bryndís Sunna.

alltaf fyndið

þegar fólk heldur að það hafi verið fyrst (eða með þeim fyrstu) til að gera eitthvað, bara vegna þess að það sjálft vissi ekki af viðkomandi hlut fyrr. Þegar ég vann í Ístóni heitnum (forvera Tónastöðvarinnar) seldum við ukulele, reyndar héldu margir að það væri leikfangagítar og skildu ekki svo glatt hvers vegna það væri svona dýrt.

Ég vann í búðinni árin 1984-1986 ef ég man rétt. Gæti skeikað svona einu ári. Það er pínu fyrr en árið 2000. Og ég efast ekkert um að einhver Íslendingur hafi átt ukulele fyrir þennan tíma – þetta er bara það fyrsta sem ég þekki til hljóðfærisins hér á landi.

Kristín, hvenær veist þú til ukuleleeigandi Íslendings/a?

söngvaseiður

var að koma af Sándofmjúsík sýningu, mikið er þetta skemmtileg uppsetning! Hefði getað setið gegn um hana aftur. Takk fyrir mig, Hallveig, Vala og þið hin öll. (hmm, ætti ég frekar að segja takk fyrir mig Væla og Vala?)

júrójúró

talandi um bakkafulla læki…

Gláptum á þetta hjá Vælu systur í gær, mágurinn grillaði bestu borgara í heimi, æstum okkur yfir öðru sætinu (flott hjá stelpunni!) og glöddumst með Norðmönnum, það hefur verið skemmtilegur þjóðhátíðardagur þar á bæ.

Mér finnst gaman að þessi flotti strákur hafi unnið, alvöru tónlistarmenntaður, búinn að læra á fiðlu í fjöldamörg ár, semur lagið sjálfur, bara skemmtilegt. Einhvers staðar kom fram að hún Hulda, fiðlustelpa sem var að útskrifast með diplómagráðu frá Listaháskólanum núna í vor hefði verið herbergisfélagi hans þegar þau voru að spila í Norrænu unglingahljómsveitinni fyrir nokkru. Ég hugsa að lagið sé hreinlega skrifað um hana – þýðir ekki Hulda álfkona, annars…? (sagan væntanlega uppspuni en hugmyndin gæti mjög vel verið komin þannig til).

páskalabb

Fórum í smá göngutúr um hverfið, sáum fyrstu fíflana í ár, smá af útsprungnum páskaliljum (okkar eru ekki alveg komnar enn, en styttist óðum), allt fullt af köttum, líka tveir hundar. Barn sofandi í vagni, annað svolítið stærra úti á litla róló hér bak við með mömmu sinni. Yndislegt veður, þó það sé ekki mikill lofthiti.

Stelpurnar drógu svo fram hjólin og fóru í langan hjólatúr.

snilldardagur

Freyja og Finnur vöknuðu snemma til að steikja kanadískar pönnukökur fyrir okkur, afskaplega þægileg byrjun á degi. Sosum ágætur fundur niðri í skóla í morgun, keypti köku handa liðinu á fyrri fundinum. Þorbjörn bróðir ásamt mömmu og pabba komu hér í kaffi, Freyja bakaði vöfflur og Fífa franska súkkulaðiköku meðan ég skaust í Nóatún eftir ís og meira Nutella á vöfflurnar (kláraðist nánast á pönnukökurnar um morguninn).

Spjölluðum góða stund við gestina, fékk æðislega húfu og kraga frá mömmu og pabba.

Meiri matur, steiktum tébeinsteikur handa okkur Jóni en innralærisbita fyrir krakkana. Ekki séns að við gætum klárað bitana, nema Freyja sem fékk þann minnsta. Við þurfum að læra pínu betur á svona nautasteikur, t-beinsteikurnar voru fínar en hinar pínu seigar. Heimagerða bearnaisesósan og kartöflurnar voru óaðfinnanleg, samt. Ljómandi rauðvín með og nú liggur maður bara á meltunni. Ekki að vita nema við drögum upp spil á eftir að gömlum góðum íslenskum sið.

Takk fyrir kveðjurnar, nokkrar hér og við síðustu talningu um 150 á flettismetti.

minnið

ekki ætluðum við með nokkru móti að muna hvers vegna við höfðum ekki sett neinn mat á matseðilinn á morgun. Brutum heilann fram og til baka allan gærdag og fyrradag og það var ekki fyrr en í dag að það datt inn hjá bóndanum hver hafði eiginlega boðið okkur í mat…

kvöld frá Gana

í kvöld var starfsmannateiti í LHÍ, tónlistar, leiklistar og dansdeildum (Sölvhólsgötugengið). Prinsessa frá Gana kom og eldaði fyrir okkur (sagði okkur sögu sína í lokin, frekar magnað), boðið upp á suðurafrísk vín og svo fjórréttaða máltíð.

Fyrsti réttur var steiktir gígantískir bananar, man ómögulega hvað þeir hétu, ásamt jarðhnetum, bara venjulegum söltuðum. Ljómandi gott, frekar þurrt kannski, væntanlega til þess ætlað að setja smá líningu inn á magann. Fyrir næsta rétt sko.

Sá var fjórþættur. Hrísgrjón og svartbaunir, baunirnar væntanlega stappaðar eða maukaðar, kom út eins og dökkt þykkt hrísgrjónajukk. Fínt. Kjúklingaleggir, mjög góðir, frekar venjulegir. Tvenns konar sósa með, önnur fiskisósa, með rækjum og þurrkuðum fiski, tómatbaseruð, get helst lýst henni eins og blöndu af ansjósum, saltfiski og harðfiski í tómat. Frábær sósa. Já, slatti af chili með. Seinni sósan var algerlega níðsterk (myndi giska á svona sjö á styrkleikaskalanum – kannski ýkjur) allir vessar fóru í fullan gang, okkur veitti ekki af servéttunum til að þurrka og snýta. Þeim sem kláruðu, þeas. Ég þurfti að fá mér aukaskammt af grjónabaunamaukinu til að geta klárað sósuskammtinn minn. Snilld.

Svo þriðji réttur, Fufu og súpa, ég skil ekki alveg hvernig á að borða þetta með puttunum, allavega ekki súpuna, sjálfsagt hægt að slafra í sig fúfúinu, svínakjötið ekkert mál en súpu? Ágætis matur en ég get nú samt ekki sagt að fúfú verði fljótlega á boðstólum hér.

Skemmtiatriði, tvær úr leiklistinni höfðu búið til vídjó um vinnustaðinn, talsvert hlegið, ágætt samt að ekki voru makar með, ég hef þurft að sitja í gegn um nógu mörg svona inside joke vídjó frá vinnustöðum til að vita að þetta er nákvæmlega það, inside joke. En ekkert að því, þarna var bara starfsfólk og þetta var bara mjög fyndið.


(mynd þrælstolið frá Alberti)

Eftirrétturinn samanstóð svo af fúfú og kjúklingasúpu…

En bráðskemmtilegt kvöld, takk Hildur, fyrir lán á afríkugallanum mínum, takk samstarfsfólk og takk kæri Ganíski kokkur – sem ég mundi rétt fyrir andartaki hvað hét en datt úr mér núna – og prinsessa sem settist að á kalda landinu í norðri, þó hér búum við nú reyndar ekki í snjóhúsum eins og var búið að hræða þig með.

magnaður göngutúr

frábært veður í dag og við hjónin ákváðum með engum fyrirvara að fara í smá göngutúr.

Flestir hér munu væntanlega hlæja að því að hvorugt okkar hefur gengið stíginn kringum golfvöllinn úti á Seltjarnarnesi, Jón Lárus vissi ekki einu sinni að það væri stígur alla leið, ég vissi það nú reyndar.

Þrátt fyrir blankalogn var talsvert brim þarna úti á odda, ég gæti hugsað mér að fara þangað í einhverju veðri. Dýrka brim. Svo spegilsléttur sjór þegar við komum inn í víkina, skáli björgunarsveitarinnar speglaðist skýrt og greinilega í sjónum.

Yndisleg stund. Mæli með þessari gönguleið.

Svo er svo skemmtilegt að maður heilsar öllum og fær bros, í svona gönguferðum, ólíkt fjarræna augnaráðinu sem horfir í gegn um mann, á götum og gangstéttum bæjarins.

snilld

þeir sem ekki keyptu þetta spil eða fengu í jólagjöf – mæli með að þið reddið ykkur því hið snarasta.

flugeldar

við Fífa fórum í skála Flugbjörgunarsveitarinnar að kaupa – stjörnuljós. Ætluðum að kaupa svona konfettiknöll líka, en brettið með þeim varð víst eftir á hafnarbakka í Kína. Ficusinn sleppur sem sagt við það í ár að vera pappírsstrimlaskreyttur og kisa étur ekki strimla í ár (hmm, ekki skyldi það vera þeirra vegna sem greyið fékk nýrnasteina?)

Verð að viðurkenna að mig langaði í Bankatertuna en ég tímdi ómögulega 24 þúsund kalli…

kreppuspilið

maður verður eiginlega að eignast þetta spil. Eftir treilerunum (hmm hvað heitir það á íslensku? sýnishorn, bara?) er þetta bara snilld:

hassperur

já eða harðsperrurnar mættar á svæðið. Reyndar eiginlega bara í mjóbakinu. Eitthvað virðist ég hafa stífnað við að labba niður fjallshlíðina.

Og hver bað annars um þessa rigningu?


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa