Archive for the 'bækur' Category

lesefni

Herra Finnur er búinn að vera að vandræðast með hvað hann eigi nú að lesa, frekar kresinn á lesefnið. Við pabbi hans höfum verið að reyna að troða upp á hann okkar eigin uppáhaldsbókum frá því við vorum krakkar en það hefur gengið frekar brösuglega. Skiljanlega. Maður treður víst ekki eigin smekk upp á afkvæmin. (Gleymi ekki því hvað mér ÁTTU að þykja bækur Stefáns Jónssonar skemmtilegar þegar ég var krakki, en eina sem ég man úr þeim var eymd og volæði og Hjalti litli að kveðja mömmu sína einn ganginn enn).

Stráksi hefur ekki einu sinni komist inn í Hobbit, algjört sjokk.

Tókst samt að veiða hann inn í Tiffany Aching seríu Terry Pratchett, nú er hann svo upprifinn að hann les frameftir öllu. Sem er reyndar ekki alveg málið þar sem ef minn maður er ekki sofnaður klukkan hálftíu á virkum kvöldum er hann handónýtur morguninn eftir.

lestur

Er eiginlega orðin pínu leið á að hanga í tölvunni – kom að því – þannig að bókasafnið og bókabúðir eru farnar að skipa hærri sess aftur hvað varðar frítíma minn.

Var loksins að klára The Summer Book eftir Tove Jansson, yndisleg fullorðinsbók þó maður sjái Múmínálfaandann í gegn (ekki að Múmínbækurnar séu ekki fullorðins, ég lærði fyrst almennilega að meta þær sem stálpaður unglingur),

Svo er ég dottin í Pratchett aftur, þarf að ná upp alveg slatta af bókum. Sem er gott. Fann nýjustu Tiffany Aching bókina á bókasafninu, sat svo í stofunni um daginn og hló svo mikið að neðanmálsgreinunum að mér fannst ég þurfa að afsaka mig við unglinginn og kærasta hennar sem sátu í borðstofunni.

Þeir sem þekkja Tiffany og kó kannast væntanlega við:

Vantar reyndar eina bók í safnið, Amazon, hér kem ég!

(jánei, ég er hvorki hætt á facebook né blogginu þó ég nenni ekki að hanga þar eins mikið og stundum áður. Alls ekki á ircinu heldur…)

Leifs

búin með tvo hluta bókarinnar um Jón Leifs, afskaplega skemmmtileg og vel skrifuð bók um skapmikinn snilling. Tónlistarlífið væri allt annað og talsvert litlausara hér, hefði hans og auðvitað fleiri ekki notið við. Eldhugurinn þvílíkur og þó hann hafi skemmt talsvert fyrir sér með skapinu og já, hrokanum er ekki víst að árangurinn hefði náðst nema fyrir allt þetta skap og það að hann ætlaðist til að standardinn væri hár.

Ég mun alveg örugglega ekki lesa alla bókina í einu, treina mér hana eitthvað áfram. Magnaður lestur hingað til, takk fyrir mig.

á kafi

í mjög spennandi bók annars – maður gefur sér ekki tíma til að lesa almennilega nema í veikindum – The Gargoyle eftir Andrew Davidson. Mjög spes bók, ótrúlegt hugmyndaflug, sirka hálfnuð með hana. Ekki alveg til að þjóta í gegn um en það er náttúrlega bara gott þegar nægur tími er til stefnu.

Reyndar náði ég að vinna svolítið í dag, tók dúettaseríuna mína við texta Davíðs Þórs Jónssonar (úr Vísum fyrir vonda krakka) og bjó til einsöngsseríu úr henni í staðinn. Vona fólk nýti sér, það eru ekki sérlega oft dúettatónleikar eða gigg en þeim mun oftar sólódót. Þetta er líka talsvert einfaldara svona, tenórröddin var nefnilega eiginlega mjög snúin bara.

keyrði

fjóra gaura, níu til tíu ára í tvöbíó í Kringlunni í dag, sótti þá síðan aftur eftir Harry Potter. Þeir uppnumdir og það var bara ein óhugnanleg sena. Ekki sem verst. Svo fór eldri unglingur að sjá myndina líka – var að leggja af stað núna rétt áðan. Potterinn nær yfir vítt bil. Við bóndinn erum reyndar ekki búin að sjá hana og ætli við náum því í bíó úr þessu, en alveg örugglega þegar hún kemur á DVD. Finnur gat ansi stoltur sagt vinunum frá því að við ættum allar fyrri myndirnar á DVD. Hann var líka stoltur yfir að hafa lesið allar bækurnar alveg sjálfur, hinir guttarnir höfðu nú ekki alveg haft þolinmæði í það. Ég sagði þeim að gera það bara síðar – myndirnar næðu engan veginn bókunum.

kux

Fyrir vestan vorum við einn daginn að tala um bókaseríu eftir Sigrúnu Eldjárn. Finnur áttaði sig ekki á seríunni þannig að ég sagði að hún væri eftir sama höfund og Kuggsbækurnar sem hann heldur mikið upp á.

Hann skildi þetta engan veginn. Hvaða Kuxbækur?

það verður ekki sagt

að við styðjum ekki við bakið á bókaútgefendum núna í sumar.

Vorum að taka saman að við erum búin að kaupa að minnsta kosti 11 kiljur síðan í lok maí. Allar nýjar – enga á 400 króna markaðnum. Varla heimsbókmenntir en vel hægt að eyða tímanum við úti á palli eða þá í stofusófanum ef þannig viðrar.

ósköp

kann maður vel við að það sé svona hlýtt úti. Sumarið búið að vera óhemju kalt sem af er, örfáir góðir dagar í maí en hér á suðvesturlandi annars kalt, kalt og kalt. Glatað. Loksins núna sem er hægt að vera berfættur í skónum…

(og já, ég er í alvöru svona hugmyndasnauð, dettur ekkert í hug að skrifa um)

Annars hluti úr lagi í dag. Vantar líka skemmtilegan texta við hressilegt lag sem er næsta pöntun. Lýsi hér með eftir tillögum.

Og farin aftur að lesa, er með Eldvegg eftir Henning Mankell, þar er reyndar staðreyndavilla sem pirrar mig alveg herfilega – hef aldrei rekist á svona slæma slíka hjá Mankell!

tiltekt

ætluðum að fara að taka aðeins til í íbúðinni í dag (hún er viðbjóður, hreinn og tær – drasl úti um allt og skíturinn, maður minn!) en einhvern veginn breyttist það í ‘taka til í bókahillunum’ tiltekt. Reyndar alveg þörf á því, glás af bókum sem lágu ofan á þeim lóðréttu og svo keyptum við jú bæði allar þessar bækur sem ég talaði um hér nokkrum færslum neðar, plús síðan þrjár í viðbót.

Tja fjórar, en bara þrjár eftir af þeim ennþá. Farið nánar í það síðar í ferðasögunni.

Allavega, tókst reyndar að raða úr öllum töskum og svolítið minna drasl en það sér ekki sérlega mikið á óhreinindunum. Kemur allt saman.

bækur

við erum búin að hakka í okkur bækur síðustu daga. Fjórar sænskar (upphaflega) fokið, tvær á íslensku, sú þriðja á dönsku og fjórða á ensku. Ein norsk á íslensku, ein kanadísk á íslensku og svo reyndar ein bandarísk á ensku. Ekki sem verst.

óskrifaðar reglur

ef þið hafið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvaða reglur gilda um hvort maður á að taka með sér vínflösku í matarboð, þá eru slíkar reglur í bók eftir Alexander McCall Smith, er að lesa hana á netinu. Bara nokkuð fyndin bók. Kaflinn er hér.

snobb

mikið skelfilega fer það í mínar fínustu þegar bókmenntasnobbarar (nei, ekki bókmenntaunnendur – hreint ekki sami pakki) talar niður Harry Potter bækurnar. Jújú, ég er ekki að segja að þetta séu bestu barnabókmenntir allra tíma, en að líkja þeim við rusl og segja að þær séu bara dægurflugur er að mínu mati mjög mikill misskilningur.

Nú er ég svo heppin að hafa verið Potterfan frá því löngu áður en bækurnar urðu heimsfrægar þannig að ég lærði að meta þær án þess að eiga ‘möguleikann’ á því að detta í gryfjuna: Þetta er vinsælt, þess vegna hlýtur það að vera lélegt, sem allt of margir virðast falla í.

Í gærkvöldi var víst danskt viðtal í sjónvarpi við einn á kafi í snobbgryfjunni. Ekki þori ég að sverja að hann hafi ekki lesið bækurnar, eða kannski bara lesið fyrstu tvær og svo jafnvel séð myndirnar (sem mér finnast reyndar óttalegt rusl, vantar allan húmorinn), en hann bar bækurnar saman við bækur C.S.Lewis og hvað þær ættu að vera mikið betri og dýpri. Jújú, persónusköpunin þar er fín en það sem Potterveldið hefur langt fram yfir þær bækur er að Rowling talar ekki niður til barnanna og prédikar heldur ekki yfir þeim, sem ég hef sjálf aldrei þolað við Lewis, hvorki sem barn né fullorðin. Þóttu bækurnar leiðinlegar þegar ég las þær sem krakki, vissi ekki alveg hvers vegna en áttaði mig svo á því þegar ég ákvað að gefa þeim séns aftur áður en ég benti mínum börnum á að lesa þær, eða kannski réttara sagt áður en ég segði við þau að þær væru hundleiðinlegar. Prédikanir hafa aldrei farið vel í mig.

Hins vegar er alrangt að allar persónur séu svarthvítar hjá Rowling. Í fyrstu bókunum lítur það þannig út en eftir því sem bókunum fjölgar – og þær hætta nánast að vera barnabækur – breytist það talsvert, fólk þroskast báðum megin borðsins, maður finnur efa og skelfingu Dracos til dæmis vel, einnig er táningsangist Harrys mjög sannfærandi í bók 5.

Svo er vefurinn náttúrlega algjör snilld, Rowling er á við flinka kónguló í þráðum sem leysast, vísbendingum í bók eitt sem skýrast ekki fyrr en í bók sex og sjö, bækurnar eru líka bráðfyndnar. Ég er margbúin að lesa þær allar og finn alltaf eitthvað fyndið sem ég hafði ekki tekið eftir eða fattað við fyrri lestra.

Leiðinlegir sleggjudómar. Uss.

besta notkun á The Secret

hugtakinu og bókinni, ever

(smellið á myndina til að stækka)

fann nýja

bók eftir Minette Walters í bókabúðinni áðan, þegar við vorum að kaupa afmælisgjöfina hennar mömmu (nýja safnbókin hans Þórarins Eldjárns).

Klárt að Mínetta var keypt, nú er bara að reyna að treina hana til næstu utanlandsferðar. Ef þið hafið ekki lesið neitt eftir hana, þá mæli ég sterklega með henni, reyndar sérstaklega eldri bókunum. Snilldarreyfarar.

mikið langar mig í

þetta hér! Hvenær ætli það komi út? Á viðráðanlegu verði, það er að segja…

heilmikið gerst

hér heima í dag, matarboð í kvöld enda var íbúðin gersamlega í rúst. Veitir ekki af að sparka aðeins í afturendann á sér til að laga ástandið.

Reyndar ekki bara tiltekt, nú er búið að færa bækurnar hans Finns í hilluna hans, fórum í gegn um hilluna hennar Freyju sem var gersamlega stútfull af bókum, plantað í 4 hrúgur, Freyju hrúgu, Finns hrúgu, geyma hrúgu (bækur sem eru of barnalegar fyrir þau en tímum ekki að láta) og svo gefa/henda hrúgu. Veit einhver hvort það er einhver staður sem tekur við bókum eins og notuðum fötum?

hvað á maður að gera með

allar þessar bækur?

Var að vandræðast með stafla af bókum sem ég kom hvergi fyrir í dag, Jón Lárus stakk upp á bókabrennu í garðinum…

spoiler

ef þið eruð ekki búin að lesa sjöundu Potter bókina skuluð þið ekki fara hingað.

Ef ykkur er alveg sama um bækurnar, hafið ekki/ætlið ekki að lesa þær hafið þið ekkert á hlekkinn að gera hvort sem er.

Þyrsti ykkur hins vegar í meiri vitneskju um persónurnar eftir lok bókarinnar er þetta skemmtileg lesning.

búin

með Potterinn, varð ekki fyrir vonbrigðum. Svolítil tómleikatilfinning, samt.

potterinn

jei.

Reyndar fyndið, bók 6 keyptum við litlasystir og lásum úti á Ítalíu. Tvö eintök, ekki séns að önnur gæti beðið eftir hinni, hvað þá að skiptast á.

Þennan laugardag sem bókin kemur út er svo öll fjölskyldan – já, á leið til Ítalíu aftur. Ætli þeir hafi frétt af þessu hjá forlaginu?


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa