Archive for the 'þreyta' Category

ofneysla

jámm, þessa dagana er ofneysla í gangi hér á bæ. Sænskum nútímaverkum í tugatali mokað inn þar til þau buna aftur út um eyrun.

Undirrituð er semsagt að fara til Svíþjóðar og velja verk á hátíð.

Um hálfsjöleytið í dag var ég komin með svo mikið nóg að mig langaði mest til að stroka þau öll út. Það væri hins vegar verulega óréttlátt því ég er búin að hlusta á mörg fín. Slatti eftir enn sem verða víst að klárast í vikunni, fer út á sunnudaginn kemur.

Hlustaði á Rammstein til að hreinsa hugann (nú líður væntanlega yfir nokkra lesendur).

Svo datt inn ræma af uppáhalds teiknimyndaseríunni minni:

aðalfundir í hrúgum

jámm, er svona smátt og smátt að reyna að losa mig úr einhverjum ábyrgðarstöðum hér og þar. Á morgun ein formennska frá – kannski losna ég meira að segja frá því að sitja í stjórn, ef einhver er til í að bjóða sig fram (krossa putta).

Tími nú samt ekki að losa tökin á Hljómeyki, það er eiginlega inngróið. Væri kannski vit samt að láta einhverjum öðrum eftir formennsku þar – ef einhver er til í slíkt. Svosem búin að sitja feikinógu lengi.

Svo er nú spurning, eiginlega á ég að vera verkefnisstjóri fyrir Norræna tónlistardaga á næsta ári. Er eitthvað vit í því? Borgar sig ekki að keyra sig í kaf…

(hvers vegna í ósköpunum ætli ég sé annars ekki með neinn póst í kategóríunni „félagsstörf“?)

Dagur #3 Syfja

Ég hreinlega átta mig engan veginn á hvenær þriðji maí hætti og sá fjórði byrjaði, þeas hvaða tíma ég ætti að miða við. En einhvern tímann nætur svissaði nú yfir.

Þessi leggur var nokkurn veginn svona:
Abu Dhabi-Muscat-Goa-síðan sveigt fram hjá indónesískri lofthelgi af einhverjum ástæðum-norðaustur Ástralía-Sydney. Flugum nánast beint yfir Uluru (Ayer’s Rock) en það var kolniðamyrkur þannig að við hefðum ekki séð hann þó við hefðum verið vakandi.

Horfði á Sound of Music, hef ekki horft á þá gömlu mynd í örugglega 30 ár – held eiginlega að mér þyki okkar Borgarleikhúsútgáfa bara betri ef eitthað. Góð aðferð samt til að eyða þremur tímum af þessum 14. Ein bók kláruð og byrjað á annarri.

Eitthvað hafði klikkað í talningunni á morgunmatnum, það vantaði eina 2 bakka og auðvitað var það ég sem lenti í því – fékk bakka ætlaðan starfsmanni og engan heitan – eða þó, fékk reyndar heita ávaxtaköku, mjög góða en undarlega sem morgunmat. Jón Lárus gaf mér svo helminginn af sínum heita bakka.

Lent í Sydney, nokkuð áfallalaust gegn um vegabréfaskoðun og toll, leigubíll niður á hótel, frekar sjabbí en unaðslegt að komast í sturtu og hrein föt! Kvöddum Kjartan sem var á leið á fund, lögðum okkur í örstutta stund, ætluðum að reyna að halda út eins lengi og hægt væri yfir daginn, Einhver nettenging var í herberginu en mér tókst ekki að tengjast við innskráningarsíðuna, og svo virkaði fína adapter græjan ekki fyrir tengilinn á tölvu bóndans (MUU) pinnarnir á klónni voru of sverir. Netið á herberginu var síðan rándýrt, lúshægt (11 MB á sek) 20 ástralskir dollarar per sólarhring. Ætli Ástralir viti ekki hvað hotspot er, annars? Þessi netþjónusta virðist vera víða á hótelum og ef hótelið er dýrara þá er netþjónustan líka dýrari.

En röfl búið. Eftir þessa smáhvíld skoðuðum við kortið og röltum okkur síðan út og að við héldum í áttina að höfninni. Sólin í norðri snarruglaði okkur hins vegar, fórum í rammvitlausa átt og áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir nokkur hundruð metra. Niður að óperuhúsi voru um tveir og hálfur kílómetri þannig að mér leist ekkert á að labba kannski 6 km svona dauðþreytt, við fórum aftur á hótelið, náðum í allar hátíðarupplýsingarnar og eyddum dágóðum tíma í að skoða hvar atburðirnir væru. Langflestir voru í þokkalegu göngufæri, þar á meðal allir tónleikar dagsins. Þeir fyrstu áttu að vera klukkan eitt, þegar þarna var komið var klukkan um ellefu. Ákváðum að rölta á tónleikastaðinn, sem var tæpan kílómetra í burtu.

Á leiðinni svipuðumst við um eftir kjörbúð, í herberginu var ágætis ísskápur og gott væri að geta sparað að þurfa að fara út að borða tvisvar á dag. Á svæðinu var hins vegar afskaplega lítið um búðir, aðallega litlar austurlenskar búðir (fundum síðar út að við vorum í miðju kínahverfi Sydney), og nokkrar 7-11 búðir. Allt rándýrt.

Tónleikastaðurinn var fremur auðfundinn, þetta reyndist vera í Útvarpshúsi þeirra Ástrala. Vorum klukkutíma of snemma, settumst á kaffihúsið í útvarpshúsinu og fengum okkur sitt hvorn bjórinn.

Aðeins út aftur, þotuþreytan var við það að ná tökum á okkur.
Ég held að þessir tónleikar hafi verið mjög skemmtilegir, 21 örstutt píanóverk eftir jafnmörg tónskáld og flutt af jafnmörgum píanónemendum í Tónlistarháskóla Sydneyborgar. Við steinsofnuðum bæði, hinsvegar, þannig að við getum lítið sagt. Vona við höfum ekki hrotið – tónleikarnir voru í beinni útsendingu á klassísku rás útvarpsins.

Ákváðum að þetta þýddi ekki neitt, keyptum okkur eitthvað að drekka og tvö risastór kjúklingalæri á kínverskum skyndibitastað, fórum upp á hótel, borðuðum og ætluðum síðan að leggja okkur í 3 kortér. Kortérin breyttust í klukkutíma, vöknuðum aftur þremur tímum seinna, svo var spurning um að halda sér vakandi eins lengi og hægt væri fram á kvöld. Vorum hvorugt á því að gera neitt um kvöldið – ekki séns. Lágum bara uppi í rúmi og lásum þar til við ultum út af um hálfellefu um kvöldið.

löngunin

til að fara í sumarbústað helltist allt í einu yfir mig af fullum þunga. Væntanlega vegna þess hve fráleitt það er að það verði tími til þess í desember að fara í svoleiðis útstáelsi. Langar samt til að fara í heitan pott í myrkri og labba niður að Glanna og bara hafa fjölskylduna saman að gera ekkert nema spila Trivial og Skrabbl og leggja kapal. Og grilla.

Spurning um að tékka á janúar? Verður maður ekki að hafa eitthvað til að hlakka til eftir jólin líka. Reyndar plottuð árshátíð kórsins og sushipartí nú þegar í jan en aldrei of margt skemmtilegt í janúar er það nokkuð? Febrúar í allra síðasta lagi.

das

jámm, það er ástandið núna. 35 ára afmælisveisla í bústað við Þingvallavatn í gærkvöldi, sofið í gestahúsi, vaknað við hellirigningu allt of snemma, heim um hádegi, klappa kisu, versla fyrir afmæliskaffi á morgun, heim, pallur og hvítvín, grillaðir borgarar, meiri pallur (samt ekki meira hvítvín), lesa, núna sofa. Úff.

haydngírinn

enn erum við þar, nú var kvartett úr áhugamannabandinu að vinna hljómsveitinni inn einn frían konsert (þann á sunnudaginn – já þarf að plögga…) með því að spila Litlu orgelmessuna eftir Haydn á tónleikum í dag. Bara voða gaman, léttir og löðurmannlegir partar (nei, Haydn er það sko ekkert alltaf), mjög fallegar laglínur, kór Seltjarnarneskirkju fámennur en ljómandi góður, einsöngvarar úr hópnum skiptu milli sín köflum. Matur á eftir en komin heim, ekki smá hrikalega þreytt eftir þessa viku. Spurning um að fara snemma að sofa í kvöld…

(nei, þetta erum ekki við, en svipuð uppsetning, lítill kór, orgel og strengjakvartett)

leiðindadraumur

er ekki alltaf þannig að þegar maður er stressaður og mikið um að vera þá dreymir mann eitthvað rugl?

Mig dreymdi allavega í nótt að ég hefði tekið að mér grunnskólakennslu, væri með fyrsta bekk, árið að verða búið, ég algerlega búin að missa öll tök á bekknum, brjálaðir krakkar, enginn hafði unnið heimavinnuna allan veturinn, ég hafði aldrei verið í sambandi við foreldrana, allt í kássu.

Frekar fegin að vakna…

syfjuð

í morgun, enda horfðum við á lokaþátt fyrstu seríu af Battlestar í gærkvöldi. Hann endaði að sjálfsögðu á cliffhanger, þannig að við neyddumst til að byrja á þeirri næstu. Fórum að sofa um hálftvö, svo þurfti að sjálfsögðu að vakna í morgun til að redda bollurjóma og fleiru.

Þannig að um tíuleytið var ég náttúrlega alveg að hrynja út. Ákvað að leggja mig aftur (lúxus, jámm). Nema hvað ekki svaf ég nú vel, mig dreymdi auðvitað að ég myndi gleyma að mæta í vinnuna, horrorímynd af 30 tónfræði- og tónheyrnarnemendum sem mættu í tímann og enginn kennari. Reyndi að ná í síðasta tímann, þar sem Freyja átti víst að vera en það var eins og að hlaupa í sírópi.

Þoli ekki svona drauma.

En Battlestar er ekkert að verða minna spennandi, neitt.

jæja

hálfskrítið bara að kenna eftir þessa snilldarhelgi.

Önnin er annars hálfnuð í Listaháskólanum. Og mér sem finnst við bara rétt nýbyrjuð. Sérverkefnavika í næstu viku, og Myrkir músíkdagar líka. Ætli maður reyni ekki að vera duglegur að mæta í ár, allavega þrennir tónleikar sem ég er alveg ákveðin að sækja, í fyrra var ég lasin nánast alla hátíðina (krossum putta).

óbjóðslega

þreytt eftir daginn, ekki veit ég hvað veldur. Jújú, langur dagur og allt (reyndar óvenju miklir snúningar í morgun) en ég ætti nú að vera vön þessu. Geispaði eins og ég væri að gleypa hvali í síðasta tímanum, grey nemandinn hélt vonandi ekki að hann væri svona leiðinlegur.

Og ég sem hef bara sofið ágætlega síðustu nætur og allt. Skiliddiggi.

Verst að ég er alls ekki búin, verð eiginlega að klára að undirbúa morgundaginn núna, fyrramálið áður en ég byrja að kenna í LHÍ fer í foreldrafund hjá bekknum hennar Freyju.

Byrjuðum annars á nýja verkinu mínu á kóræfingunni, gekk bara fínt. Líka stuttri kantötu eftir Ríkharð Örn Pálsson, jazzaðri og stórskemmtilegri. Gaman.

þreyttur

hrikalega þreytt hér, keyrslan um helgina tók á og svo var dagurinn í dag ekki alveg bara hvíld, Björn Stefán frændi Jóns og barnanna borinn til hinstu hvílu, við nokkur sungum við útförina, ég hafði hjálpað til við að velja sálma og safna saman söngfólki, þannig að ég var pínu stressuð með það allt saman. Gekk samt mjög vel og athöfnin var falleg og hátíðleg.

Krakkarnir voru ekki við kistulagninguna en við sóttum þau til að vera við útförina sjálfa. Stelpurnar komu síðan með inn í garð, en Finnur varð eftir hjá mömmu og Hallveigu. Þau fengu sér síðan kaffi meðan nánustu aðstandendur keyrðu upp í Gufunes. Þar var líka stutt en falleg athöfn, síðan keyrðum við aftur í bæinn og að Hótel Loftleiðum þar sem erfisdrykkjan var haldin.

Finnur byrjaði þá strax að spyrja hvenær við gætum farið, var náttúrlega búinn að fá sér á tvo diska. Endaði á að senda hann heim með mömmu, þar sem við myndum sjálfsagt sitja í góða stund og ómögulegt að hafa hann sífrandi allan tímann.

Hittum og heilsuðum upp á misþekkta ættingja, fengum margar þakkir fyrir sönginn, sérstaklega Hallveig, enda syngur hún náttúrlega ekkert smá vel…

Nújæja, eftir kaffi náðum við í Finn, sátum smástund hjá mömmu og pabba, síðan heim, komum við í málningarbúð til að finna lit á herbergi Freyju, heim, settist við tölvuna og ætlaði að fara að editera myndirnar úr ferðinni.

Svo þegar ég var farin að dotta við tölvuna, ákvað ég að leggja mig og svaf í um tvo og hálfan tíma. Bjargaði mér alveg. Fer samt ekki seint að sofa í kvöld…

alveg að

farast úr syfju hérna, enda vaknaði ég klukkan fimm og gat ekki sofnað aftur. Ellin ber að dyrum. (Tja, reyndar sofnaði ég klukkan sjö eða svo og fékk að sofa svolítið áfram. Samt syfjuð).

Hjólaði í jarðarför í dag, ég er ekki viss um að ég hafi áður hjólað í pilsi. Fannst hálf asnalegt að vera í pilsi á fjallahjóli, eiginlega hefði ég þurft að vera á dönsku konuhjóli með körfu að framan. Þetta gekk nú samt allt saman.

Veit ekki hvort það var Ésú endurborinn, en kettlingsræfill var alltaf að koma inn í kirkjuna, kirkjuvörðurinn og útfararstjórinn skiptust á að bera hann út. Gáfust á endanum upp en lokuðu dyrum inn í kirkjuskipið þannig að hann truflaði ekki sjálfa útförina. Þegar ég kom síðan út lá kisi á miðju bílaplani og sólaði sig. Spes.

í dag

hef ég ekki gert neitt, nema fara með Finn í sund, hjóluðum ekki einu sinni, of mikið rok, og gengið frá kórdiskahlaðanum sem er búinn að vera við hliðina á tölvunni minni í meira en mánuð. Jú og ég skaust reyndar á kaffihús að hitta Fríðu (framkvæmdastjóra ITM) og gefa henni smáskýrslu um ferðina. Meiri og betri skýrslugjafir bíða ágústs.

Hún hafði hins vegar á orði að ég væri þreytuleg. Hmmmm.

óbjóðslega þreytt

en líka búin að fara yfir tónheyrnarstöðuprófin og senda frá mér flokkun, æfa soninn og láta hann læra, ásamt að henda honum í bað og hella yfir hausinn á honum lúsafælumeðali (já, það er komin upp lús í bekknum eina ferðina enn, nei, hann er frír, pabbi hans kembdi hann áðan) og undirbúa kennslu morgundagsins alveg, þar sem ég hef ekki tíma til þess í fyrramálið. Nefndi ég annars að ég var að kenna til hálfátta í kvöld?

spurning um að fara að sofa, bara. Kannski frekar EKKI spurning um að fara að sofa, frekar…

hafði vit á

þrátt fyrir alla syfjuna að undirbúa mig fyrir morgundaginn að hluta. Síðasta þriðjudag var ég fram til 10 mínútur yfir 10 að klára tímaplan og yfirferð (byrja að kenna hálfellefu). Ekki skemmtilegt að vera í svoleiðis stressi.

En sofa núna, ég nenni eiginlega engan veginn að svíða í augun af syfju allan daginn á morgun líka. Og hljómsveitaræfing annað kvöld, meira að segja.

óttalegur

mánudagur í mér, skil þetta ekki alveg. Ég sem svaf svo vel um helgina. Alveg að fara yfirum úr syfju hér og á eftir að kenna 4 tíma og fara svo á tónleika hjá Fífu í kvöld, hún er að spila kafla úr Mozartkonsert á skólatónleikum í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Kannski ég ætti að loka augunum í þessar 8 mínútur fram að næsta tíma? Humm?


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa