Archive for the 'æfingar' Category

Og enn heldur

ævintýrið áfram – maður var kominn með fráhvarfseinkenni frá Níundu en smá skammtur eftir. Formleg opnun Hörpu á föstudaginn, hellingur og glás af spennandi efni, alls konar músík, mikið breiðara svið (já Bubbi, nýgilda tónlistin fær sinn skammt, þú getur andað léttar). Endað á lokakafla Beethoven og síðan þjóðsöngnum sem við syngjum ásamt Röddum Íslands og væntanlega tekur salurinn undir.

Í stað Óperukórsins kemur Kór íslensku óperunnar, nei ekki sami kórinn sko, talsvert minni (20 í stað um 70) þannig að við verðum eitthvað færri á sviðinu. Verður mjög forvitnilegt að finna mun á kaflanum hjá Askenasí og Sakari. Fyrsta æfing núna eftir hálftíma.

Ef þið eigið ekki miða er um að gera að horfa á þetta í sjónvarpinu, jámm bein útsending…

Harpa á Hörpu

Auðvitað, auðvitað vígjum við hina langþráðu Hörpu í viðeigandi mánuði!

Fyrsta æfing hjá kórnum, með Askenasí í kvöld, mögnuð upplifun, hálfur risastóri kórinn með myndavélar á lofti, ég tók nú bara nokkrar símamyndir. Synd að segja að þær séu sérlega góðar, ekki útilokað að ég fái lánaða myndavélina yngri unglings á æfinguna á morgun. Þá fáum við líka hljómsveitina með okkur. Í dag spilaði hann Daði minn hljómsveitarpartinn á píanóið, ekki get ég sagt að ég hafi öfundað hann að þurfa að hamra þennan þrælsnúna píanópart fyrir framan einn frægasta konsertpíanista í heimi – en Askenasí hrósaði honum í hástert og var reyndar afskaplega vingjarnlegur við okkur öll saman. Vissi að sjálfsögðu nákvæmlega hvað hann vildi, ég er pínu stressuð að kórinn muni einn stað sem hann setti inn grundvallartempóbreytingu – í 160 manna kór er ekki alveg víst að allir muni slíka staði. Vonandi eru samt allir nógu pró.

Svakalega þurrt loft, ég sáröfundaði söngkonuna við hlið mér sem hafði haft vit á að vera með vatnsbrúsa með sér. Klikka ekki á því á morgun og hinn. Þarf að hlaupa ansi hratt á morgun til að ná æfingu, færi síðasta kennslutímann minn til en ekki þann næstsíðasta sem á að vera búinn tíu mínútum fyrir mætingu niðurfrá – reyni að flýta mér með prófið sem þau eiga að taka (ætli sé í lagi að spila dæmin fjórum sinnum í stað fimm og tónbilin bara einu sinni? iiiiii djók!)

Enduðum svo þessa fyrstamaí æfingu á að syngja hátíðaútgáfu Maístjörnunnar. Magnað!

Nánari fréttir síðar.

útskriftir

eru á fullu í Listaháskólanum þessa dagana, kemst á allt allt of fáa tónleika en reyni að redda því með að gerast fiðluleikari á gamals aldri og stökkva á spilamennsku þar sem mér býðst. Útskriftarnemarnir hafa ekki verið neitt voðalega fúlir yfir því reyndar, enda oft erfitt að veiða hljóðfæraleikara, það er ofgnótt af tónsmíðanemum í deildinni en ekki alveg eins mikið af hljóðfæraleikurum enda eru þau flest eins og útspýtt hundskinn á þessum tíma árs að reyna að halda sína eigin lokatónleika annarinnar plús spila á öðrum hvorum tónsmíðatónleikum. Þannig að fleiri puttar sem geta stutt á strengi eru vel þegnir.

Hvort maður hefur tíma í þetta, það er hins vegar allt annar handleggur á allt öðrum manni. En skemmtilegt er það.

Samæfing kóra í fyrramálið, hlakka til að hitta Óperukórinn sem mun syngja með okkur í Hörpu í þessari viku.

í morgun

verð ég að viðurkenna að ég var frekar glöð með að hafa afsökun fyrir að mæta á bílnum í Listaháskólann. Ekki að ég fái svo sem stæði mikið nær en heima hjá mér reyndar…

En unglingur #1 er í Ungsveit Sinfóníunnar og ég lofaði að koma og sækja hana á æfingu klukkan 5 í Háskólabíó og keyra inn í Langholtskirkju á æfingu þar, byrjar líka klukkan 5.

Reyndar verður Fífa í þrígang með Sinfóníunni í vetur, fyrst núna ungsveitin, þá syngur Gradualekórinn á jólatónleikunum í ár og síðast en ekki síst Hamrahlíðarkórarnir með ef ég man rétt Pelleas og Melisande eftir jól. Frábært fyrir þessa krakka!

bögg

gleymdi að biðja Hallveigu um að taka mynd af mér í nunnubúningnum. Og ég veit ekkert hvenær fyrsta sýningin mín verður…

aaaaaaaaaaalveg

að verða búin að læra kórana í Söngvaseið.

Reynið að segja setninguna: „hægara’ að fitja skýhnoðra’ upp á prjón“ hratt. Tungubrjótur.

svakaleg rigning

Fífa lenti í lífsreynslu áðan, við vorum að keyra austur fyrir fjall í sveppamó (já, það var rigning í bænum, nei það var ekki rigning fyrir austan), pabbi hafði fundið einhvern spennandi sveppastað í skógrækt á leiðinni til Þorlákshafnar.

Létum unglinginn náttúrlega keyra, um að gera að keyra sem mest í þessum æfingarakstri. Í Þrengslunum lentum við í þeirri mestu skúr sem ég hef á ævi minni séð. Ofan á það er vegurinn þar skelfilegur, nýtt bundið slitlag sem hefur klikkað illilega, vegurinn er allur vaðandi í stórum og ljótum holum.

Þokkalegur æfingarakstur.

Fundum svo enga sveppi en slatta af fínum krækiberjum, bláber voru líka en voða smá.

ffffffffff

sssssss þþþþþþ hvo hvu hví hve, xo xu xí

smell

blístr

fyrsta æfing

fyrir Skálholt í kvöld, hlakka ekkert smá til! Verst að nóturnar eru ansi hreint smáar (áminning – taka sterku gleraugun með…)

æfing í kvöld

slepp við júróforkeppni. Ekki slæmt þó æfingin sé reyndar fulllöng (alveg 4 tímar, smápásu fáum við nú samt væntanlega).

Við nokkur úr SÁ spilum með kirkjukór Seltjarnarneskirkju, Litlu orgelmessu Haydns á uppstigningardag. Fyrsta æfing í kvöld, ekki farin að sjá nóturnar enn, reyndar sjálfri mér að kenna. Hef spilað þetta áður en það er reyndar ansi hreint langt síðan. Verður gaman að rifja upp stykkið. Svo hefðbundin æfing hjá hljómsveitinni á eftir.

æfing

amm, í kvöld hittum við stjórnandann Paul McCreesh sem stýrir Sköpuninni á fimmtudaginn. Frekar spennandi, þetta er víst snilldarhljómsveitarstjóri. Hlakka heilmikið til.

Já og festið ykkur nú endilega miða á fimmtudagskvöldið. Á eftir að heyra í einsöngvurunum, vonandi góðir.

urrg

haldið þið ekki að ég hafi steingleymt að æfa mig fyrir hljómsveitaræfingu á eftir? Allt of mikið að gera í mótmælum og sushistandi…

Verst hvað er fáránlega erfitt að feika í Mozart, Haydn og Beethoven.

strengjaæfing

á eftir, þorði ekki annað en hamast aðeins í síðasta kaflanum. En þetta er bara svo gaaaman, reyndar meira þegar blásararnir eru með, en jafnvel þó það séu bara strengirnir. Mahler rokkar feitt.

fyrsta hljómsveitaræfingin

í kvöld, Eldur eftir Jórunni Viðar verður ekki risastórt vandamál, tja fyrir utan hunderfitt fiðlusóló sem ég þarf sem betur fer ekki að spila, þýska stykkið kom til og var ekki eins mikið rugl og ég hélt, en annan eins frágang á pörtum hef ég ekki séð síðan í upphafi tölvusetninga, tja nema þá hjá tónsmíðanemum.

Verð annars með tvo slíka í vetur, þar af einn útskriftarnema. Það er ógurlega spennandi.

ég fékk ekkert að spila

á æfingunni í kvöld. Bara ekki einn einasta tón.

Kom svo sem ekki til af góðu, þar sem stjórnandinn var lasinn í kvöld og ég fékk að stjórna. Það er reyndar ekki leiðinlegt, bara hreint ekki. Hugsa nú að ég hefði kannski ekki treyst mér til þess svona óundirbúið, nema vegna þess að ég þekki verkið út og inn – (reyndar í örlítið annarri útgáfu), líklega betur en nokkur hinna í hljómsveitinni. Verkið er Sjö orð Krists á krossinum eftir Haydn, alveg hreint magnað stykki, líkist eiginlega frekar Beethoven en þeim hugmyndum sem fólk hefur almennt um Haydn. Leyndi á sér, blessaður. Þetta verk er til í heilum þremur útgáfum, ein er fyrir strengjakvartett, önnur fyrir litla hljómsveit (sú sem við erum að flytja) og síðan fyrir kór, einsöngvara og stærri hljómsveit, Hljómeyki flutti það með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1991 og ég hef haldið mjög upp á það síðan.

Gat tekið síðasta kaflann (bráðhraður Presto) hægt og rólega, svona til að spilarar vissu nú hvernig hann ætti að hljóma, á frumlestri í síðustu viku gat maður eiginlega ekki einu sinni fylgt nótunum eftir með augum og heila, hvað þá spilað. Hreinsaði líka upp 2-3 staði sem ég vissi að myndu reynast snúnir. Bara hið besta mál.

Vona nú samt að Óliver verði orðinn góður af pestinni næst. Pestir eru leiðinlegar.

úff hvað

þetta var langur dagur. Fór að sofa um hálffimmleytið í fyrrinótt, vaknaði fyrir klukkan 10 (árans klukkur á holti, þaddna). Hjólatúr upp úr hádegi, sungið við messu fyrir litlusystur klukkan 14.00, laumaðist snemma út til að geta mætt á nokkurn veginn réttum tíma á foræfingu fyrir tónleika sem voru hjá SÁ klukkan 17.00, (sem ég NB. steingleymdi að plögga), matur eftir þá tónleika, þá beint á fyrstu æfingu fyrir Carmen, Hljómeyki er að syngja kórana með Sinfóníunni eftir tæpan mánuð.

Flestallt af þessu var mjög skemmtilegt en mikið er ég nú samt viðgeðslega þreytt núna.

næsta sunnudag

eru aftur tónleikar hjá mér klukkan 17.00, þá með hljómsveitinni og í Seltjarnarneskirkju. Einhvern veginn efast ég um að ég muni plögga þá eins mikið og þessa síðustu. Enda venjulegri tónleikar þar á ferð.

Gæti samt vel orðið gaman, Brahms sinfóníurnar eru alltaf flottar. Verst að það er óttalegt hallæri í fiðludeildinni, okkur sárvantar fleiri fiðlusargara. Ef þið þekkið fólk sem hefur spilað slatta, lært sem krakkar, kannski tekið svona fimmta stig eða svo, bendið því endilega á að fríska upp á kunnáttuna og koma og spila með okkur. Metnaðarfullar dagskrár, skemmtilegur stjórnandi (og kröfuharður) og fíneríis félagsskapur. Ég tími engan veginn að hætta, þó ég hafi svo sem yfrið nóg við tímann að gera.

aðalæfing

á óttusöngvunum áðan (já og snertum á sumu af hinum lögunum en aðallega Nordal). Kikkið sem maður fær út úr því – já, ég er ekkert að koma með samlíkinguna hér á þessari virðulegu respectable síðu…

úff

sýnist ég verði að fara að taka upp fiðluna og æfa mig ívið meira, leiði hljómsveitina á næstu tónleikum. Í annarri sinfóníu Brahms. Það er alveg skemmtilegt.


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa