Seinni tónleikadagur. Alveg að klárast!
Svaf ekki vel (tímdum ekki svefntöflu, pillurnar alveg að klárast og við þyrftum að geta sofið vel bæði fyrir keyrsluna til Sydney frá Canberra og svo alveg bráðnauðsynlegt að geta sofnað í fluginu langa milli Singapore og London. Hallveig tók eina, lá meira á henni en mér þennan dag, af einhverjum undarlegum orsökum!
Kaffi og brauð, hún fór svo út að liggja aðeins í lauginni en ég kreisti aftur augun í veikri von um að geta sofið en ekki gekk það nú. Ójæja.
Mæting á tónleikastað klukkan fjögur. Við ákváðum að fara bara á bílnum okkar frekar en biðja Stephen eða Jo sækja okkur. Reyndist gott/slæmt. Komum á staðinn í góðum tíma, alveg ljómandi hljómburður í kirkjunni sem tónleikarnir voru í. Wesley Music Center, bæði kirkja og tónleikastaður, talsvert betri hljómburður en í Blue Mountains Theatre þar sem fyrri tónleikarnir voru.





Rebecca, ópuerugrúppan og Sam víóluleikari.
Renndum yfir nýju verkin tvö. Mín einbeiting ekki alveg í toppi, merkilegt nokk. Svo var kíkt á byrjanir og snúnustu kaflana í Traversing. Svo ætluðum við upp á hótel, skipta um föt og reyndar var planið að koma við í búð og kaupa eina góða freyðivín til að geta skálað um kvöldið og eitthvað smá að borða, við vorum hvorugar búnar að borða neitt frá morgunmatnum og útilokað að borða ekkert fram til níu um kvöldið þegar tónleikarnir yrðu búnir og við kæmumst aftur uppeftir.
Fyrrihluti plansins gekk, tja ekki alveg eins og í sögu, kirkjan/tónlistarsentrið er rétt hjá þinghúsinu og allri stjórnsýslunni og það voru ENGAR búðir. Slógum „supermarket“ inn í gúgul maps og fundum einn slíkan. Í Canberra má greinilega selja áfengi í almennum matarbúðum, öfugt við New South Wales, þar sem bæði Sydney og Blue Mountains eru (Canberra og umhverfi er sín eigin sýsla og tilheyrir ekki NSW).
Þessi fogl var fyrir utan:

Þegar við vorum búnar að redda þessum bráðnauðsynjum var klukkan orðin frekar margt og við ákváðum að skjótast bara á hótelið, skella freyðaranum í kæli og skipta um föt. Sem betur fer vorum við samt með konsertfötin með okkur því þegar við ætluðum að leggja af stað steinhætti navigation allt í einu að virka! Google Maps í mínum síma náði ekki sambandi við bílinn, Google Maps í Hallveigar síma var algerlega í ruglinu, Apple Maps fann staðinn sem við vorum en fór ekki af stað og ekki séns að við rötuðum sisvona á hótelið, verandi á stað sem við þekktum ekki neitt.
Hallveig var að keyra. Ég endaði á að koma GM í gang í símanum mínum en guidehæfileikar mínir höfðu fokið út um gluggann í svefnleysinu og mér tókst að láta okkur missa af tveimur útafakreinum og allt í einu vorum við komnar á einhvern highway á leið til Melbourne eða hvað veit ég?
Var farin að fabúlera um að því miður yrði að sleppa tónleikunum þar sem aðal gengið væri óvart týnt. Allavega steinhættum við við að reyna að fara á hótelið, það yrði bara að hafa sig þó freyðarinn yrði ekki kaldur (og það var sko meira en 30° hiti þennan dag).
Þorði varla að treysta að GM væri að leiða okkur á rétta vegu (amen) en þegar við sáum þinghússpíruna vissum við að þetta væri að smella inn. Komum í góðum tíma á tónleikastað, báðar frrrekar stressaðar. Mættum einni kórkonu úti og alveg: VIÐ VILLTUMST 😮 og hún: jájá það villast allir í Canberra! Sem var svo það sem öll sem við sögðum frá þessu sögðu líka. Allir villast í Canberra. Svo við hættum snarlega að skammast okkar fyrir þetta og vorum bara dauðfegnar að vera komnar á svæðið svo ekki þyrfti að sleppa tónleikunum!
Jo rétti mér stóra möppu með myndskreytingum við óperuna The Water Babies sem hún og Freddie Hill stóðu að nokkrum árum fyrr og við ætlum að leggja fyrir Óperudagateymið. Ég þóttist sjá að þetta væri hennar eigin eintak og neitaði að taka það með heim en tók myndir af öllum flottu myndskreytingunum.


Tónleikar. Fyrst Blue Mountains Suite eftir Rebeccu sem var líka á tónleikunum í BM. Þá kom að litlu nýju verkunum tveimur. Þau flugu í gegn, ég vona nú að þessi verk lifi áfram, er alveg svolítið sátt við þau). Tvær smá vitlausar innkomur en ég gat sungið þær báðar inn og það tók örugglega enginn eftir vitleysunum.
Svo söng SCUNA kórinn Gleðina, Sálm 150 og Vorlauf. Tókst bara alveg ágætlega. Þau sungu svo tvö stykki til, enn betur enda búin að kunna þau lengur og heldur engin íslenska.
Hlé. Ópera. Að ég held (og Hallveig líka) besti flutningur á henni hingað til. Hallveig í fantaformi, einbeitingin kikkaði inn 100%. Verst að þetta var ekki tekið upp.
Fólk alsælt, fengum mikið klapp og þakkir. Búnar á því, algerlega. Kvöddum Jo, myndum ekki sjá hana aftur áður en við færum allavega. Eltum hljóðfæraleikarana upp á hótel, að við héldum en þá var smá misskilningur á ferð og þau voru að koma við og kaupa sér eitthvað teikavei og við vorum ekki alveg þar, langaði bara upp á hótel. Elizabeth 2. fiðluleikari kom þá með okkur í bílinn til að leiðbeina uppeftir en akkúrat þá tókst okkur að koma fjandans Gúgul Maps í gang. Smá fyndið samt því hún var líka með það í gangi og líka talið og við skildum ekkert í því að það væri allt í einu komið Turn left in 300 metres.
Buðum henni svo inn í freyðivínsglas (með klökum því við nenntum ekki að hafa það nógu lengi í frysti) þar til þau hin kæmu til baka með matinn hennar.
Lengi að sofna, adrenalínkikkið ætlaði ekki að láta sig en gekk nú samt á endanum, allavega hjá mér, Hallveig heldur lengur að sofna. Ansi hreint langur dagur/langir dagar framundan, heimferð í einum rykk daginn eftir!
0 Responses to “Ástralíutúr H&H dagur 15”