Sarpur fyrir 16. mars, 2023

Ástralíutúr H&H dagur 14

Næstsíðasti heili dagurinn. Til hafði staðið að fara með okkur í langan útsýnistúr og skoða heritage house sem hafði tilheyrt fjölskyldu Jo og Stephens en við eiginlega báðumst undan því, þar sem seinni tónleikarnir eru jú á morgun og ekkert vit í að þreyta okkur í dag. Svo við sváfum út, vöknuðum báðar reyndar klukkan sjö en harðneituðum að hlusta á það og kreistum aftur augun þar til við sofnuðum aftur. Morgunmaturinn fylgir ekki hér í Alivio Tourist Park og Hallveig hafði borðað í mötuneytinu (sic – ekki veitingastað) þar í gær og það var ekkert þannig spennandi. Svo við keyrðum bara niður í bæ til að fá okkur hádegismat. Vorum góða stund að finna stæði, ekkert allt of mikið af þeim þarna niðri í steinsteypumiðborg en tókst nú samt á endanum eftir smá sikksakk.

Borgað í stæðið, eina skiptið sem við höfum þurft að gera slíkt hér og stímdum á staðinn sem Hallveig var búin að spotta. Haldið þið ekki að hann hafi svo reynst sænskur? Rye Café, föttuðum þegar við vorum sestar að matseðillinn var að hluta til á sænsku!

Nenntum nú samt engan veginn að færa okkur. Ég var dedicated bílstjóri svo Hallveig gat fengið sér einn aperol eða jafnvel tvo.

Minn matur var fínn, einhverjar grísakinnakrókettur með laukfrönskum en poached eggið og reykti laxinn hennar Hallveigar var með hollandaise gerðu úr brúnuðu smjöri og ég hef eiginlega varla fengið betri sósu nokkurn tímann. Pant svoleiðis í síðbúna afmælismorgunmatinn minn þegar ég verð komin heim, Jón Lárus og krakks!

Kíktum í kringlu svæðisins rétt hjá þar sem við höfðum lagt bílnum, skimaði eftir sundbol svo ég gæti farið í laugina á cabinhótelinu en fann engan nema einhverja kolsvarta og 10 númerum of stóra, ekki alveg málið. Keyptum smá mat til að eiga morgunmat og hádegismat á tónleikadegi og heimferðardegi sem yrði á laugardaginn.

Heim á hótel. Við eigum báðar eftir að þurfa að venja okkur við að keyra réttu megin á veginum.

Stephen Horn, frændi hennar Jo sótti okkur svo klukkan fjögur og fór með í nærri tveggja tíma túristaferð. Höfðum ætlað í Lanyon sem er svona heritage house sem fjölskylda þeirra átti en er nú í þjóðareigu en þegar við vissum að það var einn og hálfur tími hvora leið þá lögðum við ekki í það, miðað við þungan dag á föstudeginum (á morgun) og Stephen fór með okkur og sýndi allt það markverðasta í Canberra (sem er NB borið fram KANbra ekki Kan Berrra eins og í War of the Worlds verkinu)

Þetta var æði. Fórum upp á fjall til að sjá Canberra að ofan, merkilegt að sjá þessa rönd sem minnti mig á París, nema það er engin brú þarna í miðjunni svo það er ekki hægt að fara þarna alla leið:

Hér eru Stephen og Hallveig að virða fyrir sér útsýnið:

Við fengum líka að sjá votlendi en hvorki slöngur né flatnefi enda sýna þau sig ekki nema þau neyðist til (Stephen sagði samt að þeim sé kennt þegar þau sjá slöngur að vera fyrri til því annars lifirðu ekkert af, þegar ég sagði að þau væru örugglega hræddari við okkur en við við þau. Það er smá reality check!)

Þinghúsið:

gosbrunnurinn ógeðslega flotti fyrir framan Hæstarétt:

og allir fánarnir – fann reyndar ekki þann íslenska. Samt bókað þarna einhvers staðar, línan var talsvert lengri.

Kórinn var svo búinn að skipuleggja drinks evening á voðalega krúttlegum glænýjum bar við vatnið sem sést á myndinni frá fjallstoppnum fyrir ofan. Hér er formaður kórsins, afskaplega skemmtilegur strákur sem langar að koma til Íslands, stelpa sem í skiptinámi frá Belgíu og annar flottur strákur sem er í námi í háskólanum.

og hér smá Canberrskt sólarlag:

Stephen keyrði okkur svo heim á hótel, redduðum okkur pizzu á hótelveitingahúsinu því það var ekkert í boði að borða þarna á drykkjarkvöldinu og við vorum ekkert búnar að borða síðan sænska hádegismatinn! Morgundagurinn verður væntanlega eitthvað!


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa