Túristadagurinn mikli. Algjör frídagur frá vinnu svipað og daginn áður. Við vorum búnar að mæla okkur mót við Rebeccu og Jo til að fara í útsýnistúra og kengúruskoðun. Veðrið var ekki upp á mjög marga fiska, smá skúrir og þoka. Sóttum Rebeccu á okkar fína tojóta hæbrid, hún var að fara með bílinn sinn í viðgerð svo þetta var alveg ídeal að við værum á okkar bíl. Jo hafði boðist til að keyra bílaleigubílinn en sú hugulsama tillaga gekk auðvitað ekki upp því við tvær vorum einu skráðu bílstjórar á hann. Ég keyrði til Katoomba þar sem viðgerðarverkstæðið var en Hallveig tók síðan við því hún hefur smá tendens til bílveiki þegar hún situr afturí, burtséð frá því að hún var orðin ansi hreint lunkin að keyra vinstra megin, enda búin að keyra talsvert meira en ég. Jo fór svo á sínum bíl því hún gæti þurft að rjúka burtu til að sinna framkvæmdastjóraerindum fyrir verkefnið.
Fyrst kaffibolli á algjöru hippakaffihúsi! Það var svo mikil kryddlykt í horninu sem okkur var vísað á að við ætluðum út að finna annað kaffihús en nefndum þetta við staffið og þær vísuðu okkur á annan stað í húsinu sem var talsvert betri. Ágætis kaffi. Einhver nefndi að ég ætti afmæli og kaffihúsið leysti mig út með lítilli köku þegar við fórum.
Byrjuðum heima hjá Rebeccu sem býr uppi í sveit og hefur almennt kengúrur í garðinum bara að tjilla. Þær létu samt ekkert sjá sig en hún átti tromp uppi í erminni. Húsið hennar er stórkostlegt, allt í fimmta/sjötta áratugar stíl, ég var bara komin í Sörlaskjólið til ömmu þegar ég kom inn í eldhús.



Geggjað flott hádegisverðarhlaðborð í sætari kantinum. Jo kom með afmælisköku, Rebecca helling af heimabökuðu og kex og osta og ólífur og svo kakan sem ég fékk á kaffihúsinu.

Þá kom trompið í erminni hennar Rebeccu. Nágranni hennar nefnilega er með kengúrur í garðinum sínum, hún er kengúruungabjargari og hugsar um unga (joeys) sem missa mæður sínar og álíka. Þvílíku krúttin! Svo finnst þeim franskbrauð gott.

Ekki var sólin að sýna sig mikið svo við fórum af stað og keyrðum bakleiðir að svakalega flottum útsýnispalli yfir ekki Megalangadal heldur þann næsta við hliðina, Grose Valley. Leist bara semí vel á skiltin, einn göngutúr einn og hálfur tími, annar fjórir tímar, og sá þriðji átta tímar (óneitakksamogþegið!) Nema svo var einn. 100 metrar að útsýnispalli. Við þangað!


Alveg búnar á því. Jo þurfti að fara að sækja prógrömmin fyrir Canberra tónleikana og við keyrðum Rebeccu að ná í bílinn sinn í viðgerð, kíktum svo í búð til að kaupa í afmælismatinn minn sem Hallveig ætlaði að elda handa mér, komum við og keyptum freyðivín til að skála í með matnum og svo heim í hús. Ó svo gott. Hvílíkur afmælisdagur!
0 Responses to “Ástralíutúr H&H dagur 12”