Sarpur fyrir 13. mars, 2023

Ástralíutúr H&H dagur 11

Þetta var sko hvíldardagur frá himnaríki. Ekkert prógramm. Hafði steinsofið alla nóttina, takk svefntafla og þegar ég vaknaði um áttaleytið nennti ég alls ekki að vera vakandi svo ég setti á þægilegt hlaðvarp, steinsofnaði aftur og svaf til hálfellefu. Ég fór ekkert úr náttfötunum allan daginn. Langsísta veðrið hingað til í ferðinni, dæmigert íslenskt sumarveður 14° og rigning meiripart dags. Sem betur fer er spáin fyrir batnandi aftur, þokkalegt á morgun og svo aftur sumar á miðvikudaginn þegar við keyrum niður til Canberra.

Hallveig var reyndar suddalega dugleg og kláraði að skrifa stóra og þunga Evrópuumsókn um stórt verkefni sem skólinn hennar er að taka þátt í. Kom alveg hoppandi inn til mín þar sem ég lá í leti og las uppi í rúmi. Vúhú! Textinn kominn!

Svo nennti hún samt ómögulega að hanga í húsinu allan daginn svo hún skaust niður til Katoomba seinnipartinn til að kaupa sitt af hverju, til dæmis millistykki, við vorum búnar að deila því eina sem ég kom með allan tímann, mjög hugvitsamlega og úthugsað í þaula þar sem báðar eru með tölvu og síma og þráðlaus heyrnartól (Hallveig með tvenn) og ég með ipadinn líka. Ástralir eru sko ekki með innstungur sem passa við okkar norður- og miðevrópsku klær.

Kom svo við til að kippa með einhverju að borða fyrir okkur, reyndist smá hindrunarhlaup því í litla bænum næst Bullaburra þar sem við erum að gista, Lawson, eru nokkrir staðir en þeir voru allir lokaðir á mánudögum nema Subway (neitakk) Cheesesteak Factory sem við vorum búnar að prófa og var vægast sagt óspennandi en eitt bístró var opið og var með alveg ágætis mat. Liðið hér uppi í smábæjunum væntanlega lítið að fara út að borða á mánudögum.

Svo horfðum við á 7. þáttinn af Stormi. Tókst að tengja vélina hennar Hallveigar við stóra sjónvarpsskjáinn á svæðinu, millistykkið sem ég hafði dregið með mér til að tengja tölvuna mína við skjávarpana í fyrirlestrunum mínum nokkrum dögum fyrr en hafði steingleymt uppi í húsi kom semsagt í góðar þarfir. Snillar sem við getum verið.

Báðar komnar upp fyrir 20 þúsund króna roaming charges – þetta á eftir að kosta eitthvað! Ég vona að limitið mitt upp í 35k dugi… Kannski hefði verið vit að kaupa bara fyrirframgreiddan síma til að nota hér en það er allavega fullseint núna þegar ferðin er vel ríflega hálfnuð. Aðallega notað fyrir gps í keyrslunni.

Afmælið mitt á morgun! Það er eitthvað.

Já og þið þarna fyrir norðan með ykkar Langadal, eigið ekkert í Bláfjöllin hér úti:


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa