Fyrri tónleikadagur. Sofið út eins og hægt var, fórum reyndar ansi snemma að sofa svo það var sosum ekki um að ræða að sofa til tíu neitt.
Áttum ekki að mæta fyrr en hálffjögur á tónleikastað sem var um 20 km í burtu. Snemmbúinn hádegismatur, crumpets og kók/peffsímaggs (já). Crumpets eru góð! ég skil ekki hvers vegna svoleiðis fæst hvergi heima. Ef ég hef rangt fyrir mér má einhver segja mér það.
Skutumst að kaupa smá inn fyrir sun-má og freyðivín til að skála í í kvöld eftir tónleika, það yrði ekki skálað saman heldur er festival dinner annað kvöld fyrir þau sem taka þátt og aðeins fleira fólk.
Fengum okkur geggjað kaffi á fínasta kaffihúsi sem spilaði OMAM músík hjá sér, urðum ekkert súrar að heyra það. Alls konar íslensk músík í Blue Mountains í dag.
Heim í hús með freyðarann í kæli og ísinn í frysti.
Þá var það bara að taka sig til fyrir mætingu. Google maps er alveg að gera sig hér eins og þið getið ímyndað ykkur. Litla Julia tók á móti okkur á bílastæðinu við Blue Mountains Theatre Hub.

Salurinn reyndist stór og frekar þurr, eitthvað voru gerðar tilraunir með uppmögnun og enduðum á að hafa smá lyftingu í fyrri hluta tónleikanna en ekki í óperunni sjálfri, það hefði engan veginn gert sig með þessar svakalegu styrkleikabreytingar í henni.
Hér eru Marais Project og Kanimbla Quartet á æfingu fyrir performansinn, báðir hópar með góðan bút af prógramminu fyrir hlé. Marais plús Hallveig og Jo fluttu svo líka glænýju verkin mín tvö og ég stjórnaði. Á því eðlilega enga mynd af því.


Jo hafði búið til geggjaða myndasýningu fyrir óperuna, ég vona að við fáum hlekk á vídeóið sem var tekið.
Þá performans. Byrjaði á varaborgarstjóra sem hélt stutta tölu, byrjaði á þökkum til frumbyggja eins og er víst alltaf gert hér, það er (loksins) mikið tillit tekið til þeirra, enda ansi löng og ljót saga um illa meðferð, en fólk hér hefur tekið sig verulega á og nú fá frumbyggjar þann heiður sem þau eiga skilið. Hún var alveg ógurlega ánægð með þessa heimsókn frá hinumegin á hnettinum og þakkaði okkur fyrir að koma og Jo fyrir að eiga þetta frábæra frumkvæði. Hún er búin að leggja alveg fáránlega mikla vinnu í þetta og hefur verið mjög ein við það, ég hef reynt að styðja hana af megni en erfitt frá mörgþúsund kílómetrum og hálfum sólarhring í burtu!
Marais, reyndar með varagömbuleikara því Jenny forsprakki Marais var svo óheppin að handarbrjóta sig fyrir hálfum mánuði, sem betur fer var hægt að redda nýjum. Þau eru eiginlega sænsk grúppa, Jenny Eriksson, Tommie Anderson og svo Susie Bishop sem ég held ekki að sé sænsk en það er ekki að heyra á hvorki fiðluspileríinu né söngnum. Þau semsagt spila mest sænska þjóðlagatónlist (á sænsku sko) en svo var líka eitt stykki eftir Susie (það er sko hún sem á litlu Juliu). Hvílíkt hæfileikabúnt þessi unga kona!
Kanimbla kvartettinn flutti svo Blue Mountains svítu eftir Rebeccu Daniel, líka mjög flott stykki, þetta með bárujárninu sem ég nefndi í færslu gærdagsins. Sá kafli fékk þennan bakgrunn:

Eftir hlé var svo aðalatriðið. Traversing the Void, eftir mig og Jo. Ég sat úti í sal en gat náttúrlega ekkert verið að taka myndir, laumaðist í þessa þegar strengjakvartett plús óbó og klarinett og stjórnandi voru komin inn og verið var að stilla. Þarna er svo kunnugleg mynd í bakgrunni, af hvítum cockatoo, hún er tekin af Merryl Watkins og meðhöndluð af Fífu minni til að það séu bara vængirnir eftir. Stórkostleg mynd.

Og það var nú það. Þetta var gaman! Hvílíkt sem þetta er búið að vera lengi í undirbúningi!
Alveg búnar á því, keyrðum beint heim og náttföt og freyðivín í skrifandi stundu og Suðurkrossinn ljómandi á himninum hér uppi í sveit og engri ljósmengun. Skál!
Nýlegar athugasemdir