Ástralíutúr H&H dagur 7

Þessi dagur yrði þungur. Setti vekjarann á sjö og ætlaði reyndar aldrei að sofna, þrátt fyrir svefntöflu, sem ég var annars samviskusamlega og samviskulaust búin að skella í mig. Snúsaði tvisvar (er þetta annars orð?) og reif mig svo upp, fékk mér bara appelsínusafa og fór hljóðlega að, til að vekja ekki Hallveigu sem mátti sko sofa út þennan dag.

Til að byrja með, fyrirlestur fyrir unglingadeild í tónlistarskólanum sem við æfum í fyrir tónleikana á laugardaginn, Julie stjórnandi er kennari þessara krakka. Hélt grunnfyrirlesturinn minn um að skrifa fyrir raddir þó þau séu kannski ekki alveg komin á þann stað, ekki fór ég að kynna fyrir þeim tónfræðaatriði, þau fá það í tímum, hver veit hvort það hafi kviknað áhugi á að semja músík.

Við Jo komum við og fengum okkur kaffi og sóttum svo Hallveigu, ég var að fara að halda annan fyrirlestur, nú í háskóla, Western Sydney University, í seríu sem heitir The Art of Sound. Fórum þangað á tveimur bílum og skólinn splæsti í hádegismat en svo hélt Hallveig áfram niður til Sydney því við þurftum að skipta um bílaleigubíl, meðal annars vegna þess að sá sem við vorum á var eiginlega bara bæjarsnattbíll og okkur leist lítið á að keyra á honum fjögurra tíma ferðina til Canberra, vikuna eftir. Svo var eitthvað með að það allt í einu vantaði á hana vinstri hliðarspegil, blessuðu litlu gulu hænuna sem var alveg óvart breiðari á vinstri hlið en bílstjórinn hafði mögulega getað áttað sig á…

Þessi fyrirlestur var hins vegar um mína eigin músík og svo verkið og tónleikana á lau, þetta voru postgrad stúdentar. Mjög skemmtilegt að tala við þau og þau áhugasöm. Sögðum líka frá nýju verkunum tveimur sem verða frumflutt á laugardaginn.

Hallveig og Camerarctica á risaskjá í fyrirlestrasalnum:

Annað nýja verkið heitir Hraun og auðvitað þurfti ég að sýna þeim mynd frá Fagradalsfjalli. Tók þessa mynd reyndar þegar flest voru farin.

Uppeftir, komum við hjá liðinu sem var að prenta prógrammið og Jo þarf enn að gera breytingar, svo hún skutlaði mér heim í hús og rauk svo uppeftir til að gera lokabreytingarnar.

Hallveig var ekki mætt þegar ég kom en ég heyrði í henni svo ég var hin rólegasta. Dauðlangaði að heyra í mínu fólki en klukkan var víst fimm um morgun heima. Ekki vit í að ná í neinn og ekki færi ég nú að ræsa gengið.

Nýi bíllinn var ógurlega fínn, glæný tojóta hæbrid og eitthvað annað að keyra! Ég rúntaði á æfinguna með viðkomu í vínbúð sem við vissum um, keyptum freyðivín til að skála eftir tónleikana á laugardaginn. Cloudy Bay freyðara, erum frekar spenntar að smakka, höldum báðar upp á Cloudy Bay hvítvín, hún reyndar Sauv blanc en ég Chardonnay. En þetta ætti að verða eitthvað!

Æfingin tókst fínt, þrátt fyrir að það örlaði fyrir þreytu hjá okkur báðum, Hallveig eftir að hafa keyrt fram og til baka til Sydney og villst í langa langa stokkinum þar sem gúgl maps virkaði ekki og ég eftir að hafa haldið tvo mismunandi fyrirlestra í tveimur skólum. Tekur á!

Ég stjórnaði svo nýju verkunum tveimur. Ætla að athuga hvort ég geti fengið einhvern til að rúlla þeim inn á vídeó þó ekki væri nema síma á tónleikunum, helst báðum því þau eru með mismunandi besetningu, barokkhljóðfærahópurinn kemur ekki með okkur til Canberra.

Heim. Bjór og franskar og restin af pad tæinu síðan í gær, ætli það séu svona stórir skammtar alls staðar á tælenskum veitingahúsum? Dugar okkur Jóni Lárusi að kaupa einn skammt frá Krúa og hvað þá Thai Koon uppi í Mjódd.

0 Responses to “Ástralíutúr H&H dagur 7”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: