Sarpur fyrir 8. mars, 2023

Ástralíutúr H&H dagur 6

Steinsvaf til ríflega níu, hafði ekki einu sinni dottið í hug að setja klukkuna því ég vakna alltaf klukkan sjö, meira að segja hér. Ótrúlegur lúxus nema nú þurfti ég auðvitað að rjúka á fætur, því Jo ætlaði að koma hingað um hálftíu og við vorum búnar að lofa online viðtali klukkan tíu. Allt gekk þetta nú, kaffi og viðtal og þá loksins gat ég fengið mér eitthvað að borða.

Ákváðum að taka því með ró fram eftir degi, seinnipartinn væri kynning í bókabúð og svo æfing um kvöldið. Fínt að slaka á í húsinu bara, nógur tími til að fara að þeytast um og skoða eitthvað. Veðrið, sól og 27° hiti og garðurinn svona:

Náðum báðar smá sól á pallinum og alltaf jafn sérkennilegt að sólin er að fara í öfuga átt við það sem man reiknar með. Sólarvörn og hattur tékk, þessi sól er þokkalega sterk og ekki var í boði að brenna eða fá sólsting.

Jo sótti okkur svo klukkan kortér fyrir fjögur til að fara í kynningu í local bókabúð. Þangað kom ekki margt fólk en afskaplega góðmennt og mikið spjallað um allskonar, bæði auðvitað kynningin og svo almennt hvernig hlutum væri háttað í tónlistarlífi landanna tveggja. Mjög gaman, afskaplega áhugasamur hópur.

Þessar auglýsingar og kynning voru í lókal blaði dagsins:

Eftir spjallið fór Jo heim að sækja nóturnar sínar og við Hallveig fórum í einhverja rándýra matarbúð á meðan, ógurlega falleg ávaxta- og grænmetisborð, fullt af lúxusostum og ég veit ekki hvað og hvað. Tókst að kaupa mat fyrir marga marga þúsundkalla og við sem ætluðum eiginlega bara að kaupa til að geta eldað pasta puttanesca, neyðarmáltíð ítalska heimilisins því það er alltaf allt til í það, á hverju heimili.

Vorum að skoða hvort við gætum farið að kaupa smá bjór og svo sem eina vínflösku handa okkur (Ástralir nefnilega selja ekki áfengi í matvörubúðum frekar en Íslendingar) en vildum ekki stinga báðar af áður en Jo kæmi aftur, nema hvað ganga upp að okkur tvær konur, ein ung og ein ca á mínum aldri og sú eldri: Hei! Ég þekki ykkur! Ég bara, ha? Þá reyndist þetta vera Julie Cooney sem verður stjórnandi á tónleikunum og dóttir hennar, sem spilar á óbó í uppsetningunni. Eruð þið að djóka með tilviljun? Hún þekkti okkur bara af myndum sem Jo hafði sent. Indælasta lið.

Hallveig náði í vínbúðina (fjúkk segi ég nú á skrifandi stundu), ég hinkraði eftir Jo, svo var komið að æfingunni.

Þessi líka fíni og áhugasami strengjakvartett plús fyrrnefndur óbóleikari og ungur klarinettleikari. Þau voru búin að undirbúa sig vel og það er ótrúlega gott í þessu stykki að vera með stjórnanda, það var ekki slíkum til að dreifa þegar Hallveig og Camerarctica frumfluttu verkið fyrir tveimur árum. Nefnilega ekki alveg sjálfgefnar innkomur og slíkt.

Tveimur og hálfum tíma síðar (pásulaust), einbeiting fokin út um gluggann en gegn um verkið komumst við nú samt. Önnur á morgun. Hallveig var búin að spotta tælenskt veitingahús skammt frá airbnb húsinu okkar, við þangað og vorum þar um kortér fyrir. Þá var búið að loka, eða var allavega verið að loka. Hallveig náði að sjarmera út úr þeim að búa til skammta af pad thai handa okkur til að taka með okkur heim í íbúð. Splæsti slíkum á Jo líka.

Heim í hús. Matur. Bjór. Mjög langur dagur í vændum.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa