Sváfum AFTUR út, alveg til tæplega níu. Það var eitthvað.
Eftir morgunmat, rólegheit í ca tvo tíma, þá niður í bæ, skoðuðum þennan minningargarð um þau sem fórust í Páskauppreisninni


Röltum Henry Street til að finna The Church, kirkju sem var búið að breyta í veitingahús og við búin að panta mat kvöldið eftir. Gott að vera búin að staðsetja sig. Ætluðum að kíkja á Leprechaun safnið sem er þar nálægt en steingleymdum því, og hefðum reyndar ekki endilega tímt að fara á safn inn úr góða veðrinu. Stefndum á hádegismat í stræti úttroðnu af veitingastöðum, þó við myndum eiginlega ekki nákvæmlega hvar það var. Á leiðinni fundum við mjósta húsið í Dublin, eiginlega bara rönd í háhýsahverfi. Höfðum held ég gengið fram hjá því daginn áður þegar við vorum að leita að því en sést yfir það því þetta lítur ekkert út eins og heilt hús heldur bara eins og smá ósmekkleg tenging milli hinna tveggja.

En áður en við römbuðum aftur á veitingahúsagötuna æpti Jón Lárus upp fyrir sig. Þarna! Við ætlum að borða þarna! Ítalskur staður, keðja, að nafni Zizzi þar sem hann og bræður mínir og mágur höfðu borðað í Manchester þegar þeir fóru með Óla bró í fimmtugsafmælisferðina í janúar 2020. Þarna fékkst alveg frábær matur og svo var líka til svakalega flottur bjór, Peroni gran riserva. (doppio malto)
Var reyndar ekki búið að opna þegar við komum en vorum harðákveðin svo við fórum í kortérs labb þar til opnaði. Ákváðum að ef við færum ekki í lengri túr daginn eftir, lokadaginn, myndum við borða þar aftur í hádeginu. Græddi mjög flotta eyrnalokka á þessum auka göngutúr.


Þarna fékk ég næstbesta carbonara sem ég hef á ævi minni fengið. Eða besta. Ekki alveg viss. Hitt var í Brussel fyrir nokkrum árum:

Sátum úti, eins og reyndar eiginlega alltaf í ferðinni. Við hlið okkar settust einhverjir krakkar, þjónynjan kom út og sagði að þau þyrftu að kaupa sér eitthvað, strákurinn sagði ókei kaupi mér eina kók. Svo voru þau á óttalegum þvælingi eitthvað og aldrei kom kókið, stráksi sat í góða stund við borðið. Okkur þótti þetta frekar dularfullt og pössuðum vel upp á veski og bakpoka, leist ekkert á svipinn á stráknum. Svo kom önnur stelpan aftur og fór að gantast við hann og brosti svo til mín. Við alveg ókei, höfum haft stráksa fyrir rangri sök. Svo fóru þau bara.
Kíktum síðan í bókabúð kenndri við Ódysseif, gamlar og flottar, nýjar en aðallega notaðar bækur eftir helstu höfunda landsins. Gaman að kíkja en keyptum samt ekki neitt.
Liffey var falleg þennan dag:

Á leið frá bókabúðinni í veg fyrir strætó gengum við síðan fram á krakkana af staðnum, nú að betla…
Stefnt á tónleika um kvöldið klukkan átta, þótti vit að fara bara aftur upp á hótel til að hvíla okkur og slaka, hefði ekki verið þannig mikið við að vera allan daginn, að koma þreytt og slæpt og sofna á barokktónleikum var eiginlega bara ekki í boði! Þetta fagra blómatorg varð á vegi okkar á leið í strætó:

Komin á hótelið. Tókum mynd út um gluggann:

En nei sko ekki út um gluggann á herberginu okkar heldur frá ganginum hjá lyftunum. Þetta var útsýnið út um gluggann á herberginu:

Rifum okkur upp um fimmleytið, niður í bæ, fengum okkur að borða á Wagamama. Stórfínar gjósur (gyosas) en aðeins minna spennandi pad thai teppanyaki. Dauðsá eftir að hafa látið afganginn af dipping sósunum með gjósutegundunum tveimur þegar diskarnir voru teknir, þær hefðu sannarlega hresst upp á teppanjakið. Fyrir utan að það reyndar kom líka seint og um síðir, hafði verið eitthvað ves í eldhúsinu. Enduðum á að þurfa ekki að borga fyrir það, sem var ágætt.

Römbuðum á tónleikahúsið, gengum gegn um St. Stephen’s Green garðinn milli horna. Flottur tónleikasalur þarna National Concert Hall. Átti að vera Bachkonsertahátíð með Írsku barokksveitinni undir stjórn Rachel Podger og hún átti líka að vera einleikari í öllum verkunum. Nema hvað svo var hún bara veik! Svo við fengum í staðinn óttalegt medley af barokkmúsík, reyndar hélt tvöfaldi fiðlukonsertinn í D-dúr sér, það er standard sem fiðluleikarar flestir eiga að geta gripið til svo önnur úr hljómsveitinni hoppaði inn í 1. fiðlupartinn. Það var fínt, talsverð snerpa og stuð. Svo kom flautuleikari sem átti að spila móti Rachel í konsert fyrir flautu, fiðlu og sembal. Spilaði stutt einleiksverk fyrir flautu, mjög vel gert. Svo spilaði sama konan og hafði hoppað inn áður annan og þriðja kaflann úr þrefalda konsertinum. Annar kaflinn þægilegur og small alveg, þriðji kaflinn flóknari en hún réð nú alveg við hann, datt einu sinni aðeins út en þessi kafli var annars flugeldasýning semballeikarans svo þau hafa orðið að reyna að spila hann. Svo kom ein útgáfan af La Folia eftir Corelli, þarna útsett fyrir tvær fiðlur og strengi, alveg fínt, tónleikarnir enduðu síðan á Bach Aríu sem er ranglega sögð á G-streng. Alveg gaman en ég hefði nú kannski samt ekki keypt mér miða á þennan samtíning. En ekki þeim að kenna, fólk getur jú veikst á síðustu stundu. Takk Liz fyrir að redda okkur miðum!

Tókum tali tvær elskulegar konur sem sátu hjá okkur, höfðu mikinn áhuga á Íslandi og önnur átti ekki nógu sterk orð til að lýsa bókinni sem var skrifuð um síðustu aftökuna á Íslandi. Þessa sem unga ástralska konan skrifaði. Gætum endað á að þurfa að redda okkur henni og lesa.
Þær sögðu okkur frá garði sem væri nánast beint bak við tónleikahúsið og fáir Dublinarbúar vissu eiginlega af. Við ákváðum að kíkja á hann og löbbuðum þangað eftir tónleikana. Fundum hann en hann var lokaður, eins og reyndar allir þessir garðar eru síðkvölds og á nóttunni. Yrði mögulega skoðaður daginn eftir.
Löbbuðum 2 km í veg fyrir strætó heim á hótel. Var farið að skyggja talsvert og búið að opna kasínóin. Nei við létum ekki freistast. Hótel, rauðvínsglas og sofa. Síðasti dagurinn í uppsiglingu.
0 Responses to “Dublin Lá a sé”