Sarpur fyrir 11. júlí, 2022

Dublin Lá a cúig

Fimmti dagur. Steinsváfum til næstum því níu! Magnað. Morgunmatur í seinna lagi. Aldrei þessu vant fór ég í full Irish en Jón í brauð og álegg, venjulega snýr þetta hinsegin hjá okkur.

Rólegheit fram eftir morgni, planið um daginn var Book of Kells og svo  matur á The Winding Stair um kvöldið, einhverjum mjög góðum stað úr ferðabókinni sem við höfðum tekið á bókasafninu áður en við fórum. Pöntuðum okkur miða á bókarsýninguna og bókasafnið klukkan hálffjögur. 

Út undir hádegi, löbbuðum niður á móts við Lidlélegheitin og fengum okkur að borða, pasta og hot wings, vel útilátið, snerti varla á frönskunum sem fylgdu vængjunum mínum. Strætó í bæinn. Við höfðum ekki enn náð upp í verðlagninguna á strætó. Stundum kostaði 2 evrur á mann, stundum 1.30, upphaflega keyptum við kort á 20 evrur og þegar við notuðum það fyrst var eins og upphæðin væri 13 evrur. Furðulegt. Héldum að við værum búin að fatta þetta en neibb.

Allavega komin niður í bæ byrjuðum við að labba heillangt  meðfram kajanum í átt að sjónum, skoðuðum Tollhúsið hið írska, ansi glæsilegt. Með Now hjólum en ekki Wow hjólum í statífum.

Á leiðinni voru minnismerki um hungursneyðina sem tengdist kartöfluuppskerubrestinum og um mannflutningana til Vesturheims. Átakanlegar styttur:

og sagan af einu skipi sem flutti alla farþegana án þess að neinn dæi um borð, nokkuð sem var aldeilis ekki normið! Það skip er enn þarna í höfninni. Hér er mynd af því ásamt geggjaðri brú kenndri við Samuel Beckett, teiknaða af Santiago Calatrava (eiginleg ástæða fyrir göngutúrnum var að skoða þessa brú):

Þessi gaur gæti hafa verið að vinna við höfnina þegar skipið var í höfn:

Skemmtileg hefð er að skreyta rafmagnskassa með grafflistaverkum.

Og til baka. Þurftum að eyða ríflega klukkutíma þar til við ættum tíma hjá Book of Kells. Og hvað gerðum við á meðan? Nú döh, pöbb! Jón fann uppáhalds bjórinn sinn, Rochefort, belgískan quadrupel og ég fékk glas af mjög góðu rósavíni. Sátum í góðu yfirlæti þar til tími var kominn til að kíkja á bókasafnið.

Sýning og kynning á bókinni sjálfri, ekki vinsælt að taka myndir, mjög gaman þó við reyndar næðum alls ekki upp í röðina á kynningunni, átta eða níu númeraðar stöðvar með upplýsingum sem hægt var að hlusta á í símunum okkar, fundum held ég aldrei eina stöðina en það sem þetta bókasafn er stórkostlegt! Ég var impóneraðri af því heldur en bókarupplýsingunum. Stytturnar þarna eru bara af körlum en það er búið að velja þrjár konur til að bæta við:

Féllum fyrir innkaupapoka og bol með Kells prentum í túristabúðinni á leið út. Man má nú smá!

Þá þyrftum við aftur að eyða tíma. Besti kaffibolli ferðarinnar á rooftop barnum hjá Marks and sparks. Kaffið hans Jóns Lárusar í stíl við annan nýja bolinn úr Dunnes frá deginum áður:

smá keypt handa krökkunum í matarbúðinni í Marks and Spencer, ansi hreint flott og svo aftur í Dunnes og sumarjakki handa Finni, sem annars gengur í úlpu og gönguklossum allt árið! 

Leituðum að tággranna húsinu sem var talað um í ferðabókinni en fundum ekki, örugglega of mjótt til að það sæist!

en svo var mögulega besta matarupplifun ferðarinnar (amk. þar til síðasta daginn) á The Winding Stair, rétt við Millennium göngubrúna. Tveir túristar á undan okkur voru að skoða matseðilinn fyrir utan og fóru inn en voru gerð afturreka því þarna þarf að panta borð. Sem við vorum búin að gera. Vorum 20 mín fyrir tíma en komumst samt strax inn. Þarna fengum við mat sem ég hef ekki fengið áður. Grillaðan nautamerg! Og snigla með. Ok hvorttveggja var hluti af rump steak máltíð, líka franskar og sveppir og sósa en vá hvað þetta var magnað! Verðum að reyna að herma eftir þessu heima. Þjónninn klappaði sér aftan á mjöðmina þegar við pöntuðum og spurði hvort það væri í lagi, hvort við áttuðum okkur á hvað rump steak þýddi. Okkur fannst það ansi hreint fyndið.

Strætó uppeftir, það sem er hægt að verða þreytt af engu, eða svo til! Á leiðinni var heilmikil umferðarteppa, ekki bara í Reykjavík þar sem myndast Ártúnsbrekkuraðir á leið heim eftir vinnu…

Smá bjór, Guinness Extra Stout, algert sælgæti, og svo bara sofa.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

júlí 2022
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa