Sarpur fyrir 9. júlí, 2022

Dublin Lá a trí

Mögulega besti veðurdagurinn í uppsiglingu. Eftir ágætis morgunmat og smá rólegheit uppi á hóteli löbbuðum við upp í verslanamiðstöð ca einn og hálfan kílómetra frá hótelinu, í átt frá bænum. Jón var að leita að bol, bolabúskapurinn orðinn frekar sorglegur. Þar var þó ekki um sérlega auðugan garð að gresja. Keyptum bara eina rauðvínsflösku og tvo bjóra. Hádegismatur á Nando’s stað í mollinu. Höfðum hugsað okkur að taka strætó beint í bæinn en svo nenntum við ómögulega að vera að þvælast með þessar drykkjarvörur allan daginn svo við röltum okkur aftur niður á hótelið. Svona leggja síðan greinilega ekki bara Íslendingar:

(pet peeve hjá mér þegar fólk talar um að það sé allt verst í heimi hér á landi, aular eru alls staðar til)

Stefnan var að fara í svona hop-on-hop-off strætó. Þegar við komum niður í miðbæ var fjárfest í miðum í eina týpuna. Einn bjór í hliðargötu og svo fundum við strætóinn. Bráðskemmtilegur bílstjóri-skástrik-leiðsögugaur reytti af sér brandarana í bland við upplýsingar. Urðum margs vísari og smá sólbrennd í túrnum. 

Hoppuðum bara einu sinni af, í stærsta garði Evrópu innan borgar, Phoenix Park sem heitir víst ekkert eftir fuglinum Fönix heldur er nafnið hljóðlíking af írsku orðunum fionn uisce sem þýðir hreint vatn. Ekki get ég sagt að við höfum tekið garðinn út í heild sinni, inni í honum kæmust fyrir 6 stykki Hyde Park og þrjú heil Monaco. Dásamlegt var þetta nú samt.

Röltum niður að næsta stoppi, þar var krá sem dró inn farþega úr þessum Big Bus túrum með loforði um frían Guinness. Stóð alveg við það, reyndar var sá fríi pínulítill en pint á hálfvirði. Ég lét þann litla duga en Jón fékk sér pintu:

Það var ekki svona lítið að gera á pöbbnum, það sátu bara öll úti nema við sem þurftum smá hvíld frá sólinni.


Gripum restina af túrnum, keyrði meðfram Liffey ánni. Ekki jafn skemmtilegur leiðsegjandi en sem betur fer var þetta bara smá bútur af túrnum.

Fætur farnir að segja til sín, keyptum pakka af plástrum því ég var nokkuð viss um að vera komin með allavega eina blöðru. 

Skemmtilegri mynd af Spírunni (sem skemmtilegi fararstjórinn sagði okkur að fólk hefði verið fúlt yfir kostnaði við og kallaði ýmsum nöfnum, til dæmis The Stiffy by the Liffey)

Írskur matur í kvöldmat

(nei þetta er ekki kóríander þarna ofan á, fuss!)

Spjölluðum þar við unga konu frá Texas sem var jafn sátt við veðrið, 22° og sól frá sínum vanalegu 35° og mollu eins og við vorum frá okkar 14° og rigningu. Bráðskemmtileg þjónustuynja sagði okkur að njóta nú annars tveggja sumardaga í Dublin. Enn verra en hjá okkur greinilega, við eigum þó allavega sumarkvöldin fjögur!

Hótel. Kokkteilar á mjög vel stokkuðum hótelbar. 

Upp og krota ferðasögu. Sofa.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

júlí 2022
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa