Sarpur fyrir 7. júlí, 2022

Dublin Lá a haon

Ferðablogg. Langt síðan síðast, enda hef ég ekki ruslað mér út fyrir landsteinana síðan 2019. Hvernig ætli standi nú á því?

En hér erum við í Dublin. Okkur hafði langað að fara eitthvert sem við hefðum aldrei farið áður. Flugum með Play, flugið fór klukkan 6 um morguninn, vakn kl 3, mæting kl 4, nánast galtóm flugstöð og við þurftum að bíða í kortér allavega eftir að komast í morgunmat á Nord. Allt lokað reyndar nema bankinn, opnaði upp úr hálffimm.

Flug gekk að óskum, af stað á réttum tíma, meðvindur svo við lentum hálftíma fyrr en planað, öll í vélinni voða glöð. Þar til að það var svo ekkert opnað. Sárvantaði starfsfólk á plan á Dublinflugvelli og það kom ekki starfsmaður að færa stigann að fyrr en hálftíma eftir lendingu. Nújæja þá væri hægt að fara að opna. En ónei, þá vantaði annan starfsmann til að lóðsa fólkið inn. Þar var annar hálftími. Svo í staðinn fyrir að koma hálftíma fyrr til landsins enduðum við hálftíma síðar. 

Ekki að við værum að flýta okkur svo sem. Klukkan var að ganga hálfellefu og við máttum logga okkur inn á hótelið klukkan þrjú.

Almennilegasta kona að tékka passana okkar, við vorum smá hissa því við héldum að Írland væri í Schengen en þá er það barasta ekkert þar þrátt fyrir að vera í ESB.

En konan var allavega ræðin og spurði um norðurljós og allskonar. Þetta átti eftir að vera smá þema í ferðinni. 

Leigubíll á hótelið, sem var ca mitt á milli flugvallarins og miðbæjarins. Leigubílstjórinn var líka hinn ræðnasti þó hann spyrði ekkert um norðurljósin, spurði hvað við værum að gera og benti okkur á ýmsa möguleika á t.d. skemmtilegum görðum og útisvæðum. Vorum þarna farin að fá á tilfinninguna að Írar væru hið almennilegasta og gestrisnasta fólk. 

Lent á hótelið um ellefuleytið, gátum ekki tékkað okkur inn fyrr en klukkan þrjú. Hin ljúfasta stúlka í afgreiðslunni sagði alveg sjálfsagt að geyma fyrir okkur töskurnar og benti okkur á hvert við gætum farið til að fá okkur eitthvað að borða þar sem veitingastaðurinn á hótelinu opnaði ekki fyrr en hálftíma síðar. Ekki nenntum við að sitja og bíða eftir því.  Á svæðið þar sem veitingahúsin voru var um kortérs gangur (já þetta er ekki beinlínis miðsvæðis). Komum við í apóteki, þar var enn ein ræðna og brosandi afgreiðslumanneskjan.Ekki var allt orðið opið þegar við komum á svæðið, enduðum á pöbb með brunch. Þokkalegasta Eggs Benedict en ekkert meira en það. Hefði eiginlega átt að taka mynd því þetta leit betur út en það bragðaðist. Brauðið var gott en poached eggin ofsoðin og of lítið af annars góðri hollandaisesósu (vá þetta er boring – hætt!)

Búin að borða áttum við enn þrjá tíma í inntékk. Vorum búin að reka augun í að ekki langt frá hótelinu (og í þá átt sem við vorum komin) var grasagarður borgarinnar. Svo við ákváðum að kíkja þangað. Góður hálftíma göngutúr í garðinn sem reyndist dásamlegur. Mest hrifumst við af stóru kaktusabeði: 

Og svo yndislegur rósagarður með ótrúlegustu fjölbreytni rósa, lit og tegundum. Hér er smá sýnishorn.

Svo var þarna lítill kór með útitónleika, fínn aukabónus.

Þegar klukkan var orðin passleg í að fara til baka röltum við af stað aftur, þessa þriggja kortéra leið. Vorum alltaf að sjá einhverjar flottar plöntur sem við vissum ekki hvað væri, PictureThis appið var í mikilli notkun.

Eitt bjórstopp á leiðinni, tær aðeins farnar að kvarta í Scarpa skónum. 

Þá hótelið. Strákur í lobbíinu furðaði sig á nafninu mínu og spurði hvaðan við værum. Já, Ísland? Hvað er margt fólk? Og sjáið þið NORÐURLJÓS???

Herbergið reyndist risastórt en enginn ísskápur sem er pirrandi!

Steinsofnuðum í tvo tíma. Hótelveitingahús í kvöldmat. Borgari handa mér og lambaleggur handa Jóni, reitaði ekki mynd frekar en fyrr um daginn. Fínt samt.

Rauðvínsflaska kæld í vaskinum, keypt í pínulítilli hverfisbúð, samband við írska vinkonu sem reyndist hafa lent í slysi í síðustu viku svo við stefndum ekki á að hittast en spjallaði smástund og hún gat bent okkur á tónleika í vikunni. Þurfti að kaupa fyrir okkur miðana því það var meira en að segja það að kaupa þá online nema vera með aðgang og til að fá aðgang þyrfti ég írska adressu. En hún reddaði málinu og ég borgaði henni inn á PayPal reikninginn hennar, hvílíkur munur frá að þurfa að fara gegn um bankakerfið!

Svo bara sofa. Ekki veitti af.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

júlí 2022
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa