Athugult fólk tekur eftir smá breytingu í titli. Nú skyldi nefnilega haldið til Ítalíu.
Við höfðum keypt okkur miða á sýningu á Aidu í Verona, á Arena sviðinu. Sú sýning var daginn eftir en við höfðum plottað að fara degi fyrr af stað svo við yrðum ekki í neinni tímaþröng. Höfðum ekki pantað hótelgistingu milli þessara tveggja daga en það yrði nú tæpast mikið vandamál, myndum detta inn í einhvern dalinn í Tíról og finna okkur hótel.
Fórum af stað undir hádegið, keyrðum sem leið lá gegn um smábæi, ekki alveg sammála um hvort við ættum að stoppa í Innsbruck en enduðum á stoppi í smábæ á undan, enda ekki endilega sniðugt að fara inn í stærri bæ og þurfa bara að snuðra uppi bílastæði og leita að fallega miðbænum, þar sem Innsbruck var ekki áfangastaður út af fyrir sig. Heimsækjum hana bara síðar í góðu tómi, því falleg er hún nú!
Brennerskarðið, borga í og úr hraðbrautum, keyrðum fram hjá Pusteria dalnum þar sem Hljómeyki fór á kóramót fyrir nokkrum árum en hins vegar inn í Val Gardena, dalinn sem Demmi heitinn, Sigurður Demetz kom frá. Stoppuðum samt ekki í bænum hans, þar sem reyndar Demetz fjölskyldan er mjög ráðandi og nafnið á öðru hverju skilti heldur héldum talsvert lengra og hærra inn í dalinn.
Það var ansi hreint heitt þennan dag og traustvekjandi að sjá hitamælinn í bílnum lækka sig niður í passlegan hita eftir því sem við komum ofar.
Þegar við komum inn í smábæinn Sëlva fóru Ástráður og Eyrún að skima eftir hótelum sem þau höfðu gist á í einhverri skíðaferðinni. Fundust, tvö hótel hlið við hlið og við renndum upp að þessu:
Fansí?
Já.
Gaurarnir fóru inn og hófu samningaviðræður við lobbíið.
Þau áttu bara dýrari týpuna af herbergjum til þessa nótt. En okkur bauðst að kaupa gistingu á verði ódýrari týpu og hægt yrði að bæta við half board, semsagt ekki bara morgunmat heldur líka kvöldmat. Off season, þetta væri talsvert dýrara á skíðatíma.
Þeim leist ekkert illa á þetta:
okkur Eyrúnu ekki heldur!
Ekki sakaði svo að þarna var lítil sundlaug og bakki og sólstólar og akkúrat það sem okkur vantaði í húsið! Þó hitinn væri þarna ekki nema rétt kring um þrjátíu gráðurnar var semíköld laug nákvæmlega það sem læknirinn fyrirskipaði.
Svona var herbergið útbúið:
já þetta eru baðsloppar og inniskór!
sem fóru í notkun:
Þetta var eina skiptið í ferðinni sem hægt væri að kalla alminlega afslöppun! Ekki að ég sé að kvarta samt! bara alls ekki.
Þau hin fóru nú samt í gönguferð niður í bæ sem við slepptum…
Einn svaladrykkur með liðinu (hlýtur ekki drykkur á svölum að vera svaladrykkur annars?)
þarna vantaði sko ekki glös á herbergið! Enda drógum við ekki Ikea glösin með okkur í þessa Ítalíuferð (þau höfðu verið í fullri notkun í Salzburg, minna í húsinu þó glasabúskapurinn þar væri pínu gloppóttur en engin ástæða á hótelunum á Ítalíu).
Það voru tvö bjórglös, Jón var bara að nota annað þeirra!
Fimmréttaður kvöldverður, amuse-bouche, hlaðborð með forrétti, val um fisk eða kálf í aðalrétt, intermezzo, og val um tvo mismunandi eftirrétti. Og kaffi.
Engar matarklámmyndir í þetta sinn.
En næs var þetta!
0 Responses to “Zell am See/Sëlva giorno nove”