Lokadagur og heim. Sólarupprásin af fallegra taginu:
Flugið okkar var ekki fyrr en seinnipartinn og það átti að pikka okkur upp á hótelinu hálffjögur og keyra út á völl. Tékkað út fyrir klukkan tólf eins og venjan er. Við nenntum nú ómögulega að vera eitthvað að hanga á hótelinu til að tékka okkur út á lokasekúndunni svo eftir morgunmat og sturtu rusluðum við saman herberginu og skiluðum lykilkorti um hálftíu.
Stefnan tekin á skólann hennar Fífu, rétt til að sjá nú hvernig þetta hefði litið út hjá henni. Skólinn hennar heitir IAAC eða Institute for Advanced Architecture of Catalonia og deildin heitir Master in design for emergent futures og hefur með að gera hinar og þessar leiðir til að finna út og dreifa vitneskju um hvernig þetta mannkyn getur haldið áfram að búa á þessum hnetti.
Fífa hafði ekki mikinn tíma til að sýna okkur en smá gátum við nú séð frá því sem bekkurinn hennar var að gera. Mjög fjölbreytt. Hún er að vinna lokaverkefni tengt microbiome og hvernig bakteríuflóran er okkur nauðsynleg. Asnaðist ekki til að taka neinar myndir á svæðinu.
Kvöddum hana síðan í þetta skiptið, sakn þar til í haust!
Þá bara lokatúristapakkinn. Fórum og fengum okkur að borða á einu fjölmargra smátorga. Mest óspennandi matur ferðarinnar. Meritar ekki lýsingu. Ég var búin að finna út að allir sumarkjólarnir mínir væru orðnir meira og minna blettóttir, trosnaðir og jafnvel götóttir svo ég var á höttunum eftir einum eða tveimur. Og svo þurftum við að fara í vínbúðina frá laugardeginum til að sækja pöntunina sem við höfðum lagt inn.
Gekk allt saman upp. Enduðum niðri á höfn.
Hafnarsvæðið er rosalega skemmtilegt orðið. Því var umbylt algerlega fyrir ólympíuleikana, eins og reyndar ansi miklu af borginni, hún var tekin mjög vel í gegn. Þessi göngubrú er að ég held frá þeim tíma.
Þarna rétt fyrir innan bendir Krissi Kól út á haf.
Lokabjór og tapas á hótelveitingahúsinu, voðalega stressaður þjónn sem náði ekki pöntuninni minni svo við Jón deildum bara kolkrabbanum sem hann hafði pantað, inn á hótelið, endurraða í ferðatöskuna (vínflöskur niður, síðar leggings og jakkar upp).
Mundum eftir tax free nótunni úr vínbúðinni og gátum nokkurn veginn fengið okkur að borða á flugvellinum fyrir endurgreiðsluna.
Flug heim ágætt, á tíma og lentum meira að segja 10 mín fyrir áætlun. Höfðum flogið út með Norwegian en heim með Vueling. Bæði fín.
Fékk fyrirspurn þegar ég var komin heim, hvernig var Barcelona? ég: Svipuð og Róm. hann: ha? (mjööög ólíkar borgir auðvitað). Ég: Já, sko, sama tilfinningin og þegar ég kom fyrst til Rómar, hvers vegna hef ég aldrei komið hingað áður? og hvenær get ég komið aftur?…
0 Responses to “Barcelona dia cinc”