París Dóm ferð, troisième jour

Þriðja daginn skiptist hópurinn niður. Við Jón Lárus vorum búin að lofa að fara með þau sem vildu, að ganga Promenade plantée, plöntugönguleið sem ég lýsi hér. Liggur frá því utan við Périférique og alla leið að Bastillutorginu. Slatti ætlaði með okkur, annar heldur stærri hópur ætlaði með leiðsögukonu gærdagsins í Mýrina og eitthvað af fólki ætlaði bara að eiga rólegan morgun heima. Nú eða fara á markað eða hvað veit ég?

Lögðum í hann upp úr tíu. Tókum metro niður á Nation torgið. Vissum nokkurn veginn hvert við ætluðum að ganga til að grípa leiðina. Síminn hans Jóns var í rugli svo kortið virkaði ekki nógu vel. Við gengum og gengum og vorum alveg steinhætt að skilja í þessu. Vorum komin nánast niður að Signu þegar við fundum eitthvað sem leit út eins og aflagða upphækkaða lestarsporið sem leiðin liggur á. En þá komumst við alls ekki upp. Skildum gersamlega ekki neitt í neinu, við vorum komin mikið lengra en vissum fyrir víst að við hefðum ekki gengið undir neina upphækkun. Skoðuðum kort og klóruðum okkur í hausnum. Fundum átt til að fara í, götu sem átti að liggja alveg meðfram leiðinni. Upp tröppur, þar var ekkert nema aðrar götur.

Vindur þá að sér okkur maður sem sér á okkur vandræðaganginn og spyr hvort við séum að leita að einhverju sérstöku. Jújú, Promenade plantée. Ekki málið, segir gaurinn og bendir okkur að fara áfram eftir þarnæstu götu og beygja fyrir horn og þar væri stígurinn. Við vorum orðin ansi þvæld og nokkur okkar ákváðu bara að fara upp í lest og veiða útimarkað sem þau ætluðu líka að ná þennan dag. Þrjú eftir hjá okkur. Enginn kannaðist við að vera fúll enda var þetta alls ekki búinn að vera leiðinlegur göngutúr. Held ég.

Ákváðum að úr því við værum búin að finna þetta, gætum við tekið okkur pásu og fengið okkur að borða. Rötuðum inn á líbanskt veitingahús, Beyit Jedo, sem ég gæti bara vel ímyndað mér að hafi verið besta veitingahúsið í ferðinni, allavega pottþétt það óvænt-besta.

 

Þrjóski hópurinn! Kristín Björg og systkinin Helga Dögg og Sissi. Sem minnir mig á að ég steingleymdi í færslu gærdagsins að nefna að við Sissi, sem er samtónfræðinörd, eyddum allri leigubílaferðinni upp á hótel um kvöldið í að tala um hvað Duruflé skrifaði stundum undarlegan hryn og hvernig væri hægt að skrifa hann á mikið gegnsærri hátt!

Ég er almennt frekar lítið fyrir hummus en úff hvað það var gott þarna! Lamb, kjúklingur og falafel pottþétt. Og espressoinn! Eina virkilega góða kaffið sem ég smakkaði í París í þessari ferð, sveimérþá!

 

Mæli með þessu!

Nújæja, loksins fórum við að finna stíginn. Þá áttuðum við okkur loksins á hvað hafði farið svona illa með okkur. Stígurinn er alls ekki allur upphækkaður. Við höfðum gengið yfir hann á breiðri brú, hálftíma inn í tveggja tíma göngutúrinn meðan við vorum að leita að honum. Þegar við gengum hann árið 2012 komum við nokkrum gatnamótum austar að honum og þá var hann kominn upp á hæðir. Ég held ég viti hvers vegna við Jón Lárus erum ekki leiðsögufólk…

Nújæja en hvað hann var fallegur þegar hann loksins fannst. Öll gagntekin. Við vitum þetta þá næst!

 

 

Þessar styttur voru magnaðar:

IMG_0361

og ég veit ekki hver kom þarna með stóru hjólsögina!

IMG_0360

Komin að Bastillutorginu ákváðum við að rölta Rue du Fouberge Saint-Antoine eins og fyrra skiptið eftir þessa sömu göngu (sjá færsluna sem ég vísaði í efst). Mig nefnilega var farið að sárvanta nýja tösku, mín var eiginlega komin í hengla. Ekki fann ég sömu búðina og sú græna var keypt í en tókst samt að finna sæmilegustu skjóðu.

Skildu leiðir með okkur og systkinunum eftir tösku- og skóbúðina. Við Jón höfðum ætlað okkur að tékka á allra allra mesta uppáhalds veitingahúsinu okkar, ekki bara í París heldur bara hvar sem er held ég, Po.za.da (lýsi heimsókninni okkar á hann hér). Klukkan var samt orðin ríflega tvö svo okkur fannst ólíklegt að það væri opið. Þegar við vorum í París 2012 var hann bara opinn í hádeginu og á kvöldin. Svo við settumst bara á hornpöbb og fengum okkur sitt hvorn bjórinn. Þarna voru sams konar Pelforthglös og á staðnum fyrsta daginn. Nú spurði ég að því hvort ég mætti kaupa glas en fékk það ekki, þau áttu ekki mörg. Bögg. Ég sagði þjóninum að fjarlægja tómu glösin svo ég freistaðist ekki til að stinga öðru þeirra ofan í tösku.

Allt í einu heyri ég öskur hinu megin við götuna. Lít upp og sé litla stelpu, svona tveggja ára, hlaupa út á götu og í veg fyrir sendiferðabíl. Hjartað sleppti úr nokkrum slögum! Sem betur fer var sendibílstjórinn, ungur maður sem leit út fyrir að vera frá Alsír eða álíka, með viðbrögðin í lagi og náði að snarstoppa og það amaði ekkert að barninu! Stúlkurnar sem voru með litlu stelpuna voru auðvitað í algjöru áfalli en náðu að jafna sig og setja barnið í kerruna. Á meðan þær voru að bjástra við það komu tvær aðrar stelpur að, þær höfðu alls ekki getað séð atvikið almennilega, að minnsta kosti ekki nærri jafn vel og ég. Þær tóku til við að húðskamma vesalings sendibílstjórann. Sem var algerlega út í hött því hann gat nákvæmlega ekkert að því gert að barnið hljóp í veg fyrir hann og eins og ég sagði áður þá brást hann hárrétt og eldsnöggt við. Hann varð auðvitað alveg öskureiður yfir þessum óverðskulduðu skömmum. Æpti eftir stelpunum tveimur og fór svo áfram yfir gatnamótin. Ég náði að grípa augnaráð hans og gaf honum tvo þumla upp og æpti: Trés bien, trés bien! Hann slakaði sjáanlega á, brosti til mín og keyrði burtu, mikið rólegri.

En úff. Þetta hefði getað farið svo miklu miklu verr!

Þá var það bara lestin upp á hótel. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að gera sömu mistök og daginn áður, að vera búin að ganga mig upp að öxlum fyrir æfinguna. Náði að leggja mig og sofna í klukkutíma sem bjargaði málum algerlega.

Önnur kvöldæfing í kirkjunni beið. Við fórum niður og ætluðum ekkert endilega að veiða eitthvað samferðafólk en þá voru Ástráður, Eyrún og Helga Rut nýfarin út og við hlupum eftir þeim og náðum þeim. Lestin niður á Nation og þaðan að Hótel de Ville með línu 1, þá gengið yfir brýrnar, það var ógurlegur troðningur fyrir framan Notre Dame svo við kræktum fyrir torgið. Já það minnir mig á að við sáum ekki Point Zéro í þessari ferð. Fyrsta skipti í okkar Parísarferðum held ég.

Eitthvað þyrftum við að láta ofan í okkur matarkyns. Úr nógu er nú að velja í Latínuhverfinu. Settumst á Le Saint Severin. Pöntuðum okkur crépes, við Jón með geitaosti (chévre). Það fengum við bara alls ekki heldur eitthvað sem hét forestiere, með kjúklingi og sveppum. Nenntum ómögulega að röfla yfir því, hefðum reyndar alls ekki náð því að fá pöntunina leiðrétta. Frekar slöpp þjónusta, fyrir utan að koma með crépes með rammvitlausum fyllingum þá gekk hún bæði seint og illa. Við Jón urðum eftir til að borga, hin fóru af stað á undan okkur, til að við yrðum nú ekki öll sein á æfinguna.

Það hefði svo auðvitað ekki skipt neinu máli því byrjunin á henni tafðist slatta vegna messu sem var í kirkjunni. Svo ég kom ekkert seint.

3A5DBC67-6820-47FE-A31A-9F2FD13FD193

Horft inn í kórinn. Sko kirkjukórinn. Nei sko kórinn í kirkjunni! nei döh 😮

Æfingin gekk fínt fyrir sig. Þreytan talsvert minni, jafnvel þó ég hefði reyndar gengið miklu meira þennan dag en daginn áður munaði að hafa hvílt um miðjan dag. Ég get enn ekki lýst því hvað er gaman að syngja þarna. Tala nú ekki um að enda á sterkum tóni og hlusta á hann hljóma í óratíma! Við bara verðum að koma þarna aftur. Búin að leggja það fyrir í Hljómeyki líka.

Í færslu morgundagsins koma upptökur, þær eru allar komnar inn á minn jútjúbreikning og ég er að byrja að dæla þeim inn á nýstofnaðan reikning Dómkórsins. Rétt búin að setja upp Hljómeykisreikning og þá ætla ég ekki að byrja á því að hafa allt Dómkórsdótið fast inni á mínum eigin. Því ofvirka ég er auðvitað búin að taka að mér óumbeðin að vídeóast fyrir hann líka eins og ég er búin að gera í Hljómeyki í örugglega 15 ár. (nei SÁ ég er ekki að fara þangað!)

Æfing búin. Við Jón vorum ekki sérlega svöng eftir crépurnar svo við ákváðum að fara ekki að borða með genginu heldur bara upp á hótel. Áttum jú rétt örlítið átekna rauðvínsflösku.

Á leiðinni niður á lestarstöð (hinu megin við Signu, það var allt of flókið og margar skiptingar að taka lestina rétt hjá kirkjunni) fór að rigna. Svo fór að hellirigna. En ég hafði stungið regnhlífinni niður í bakpoka til vonar og vara svo það gerði ekki nokkurn hlut til. Það var ekki kalt og eiginlega bara þó nokkuð rómantískt að labba tvö saman um götur Parísar klukkan hálftólf að kvöldi undir einni skærgulri regnhlíf.

Nú er ég búin að vera að monta mig af heiðarleikanum að ræna ekki bjórglösum. Ég viðurkenni það samt hér og nú að ég rændi tveimur litlum ræfilslegum vínglösum sem geta ekki einu sinni eiginlega kallast rauðvínsglös með neinu réttlæti, daginn áður. Það var bara ekki fræðilegur að drekka rauðvínið okkar úr plasttannburstaglösunum sem hótelið útvegaði. Og enginn hótelbar til að labba „óvart“ út með glös og skilja svo bara eftir við brottför (það telst nú ekki glasastuldur, bara lán). Við höfðum dottið inn í hinar og þessar búðir til að sjá hvort við fyndum glös en hvergi fundið nema í Lavinia og þar kostuðu glösin minnst 8 evrur stykkið og við hreinlega tímdum því ekki fyrir þrjú kvöld.

Hótel. Rauðvín og rólegheit. Sofa.

Skrefatalning dagsins var glæsilegt persónulegt met, allavega síðan ég fékk úrið. Reyndar bara örugglega frá upphafi. 27010 skref! 18 og hálfur kílómetri. Hreyfing í 289 mínútur. Vó!

 

0 Responses to “París Dóm ferð, troisième jour”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

júní 2018
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: