Sarpur fyrir 12. júní, 2018

París Dóm ferð, deuxième jour

Fyrstu færsluna skrifaði ég að morgni annars dags á hótelinu. Hina dagana var ekki fræðilegur að splæsa tíma í slíkan óþarfa þannig að best að rusla í færslur núna í kulda og trekki heima á Íslandi (brrr!)

Allavega. Vaknaði fáránlega eldsnemma eins og ég er farin að gera allt of mikið af á þessu miðaldraskeiði. Hálfsjö, semsagt hálffimm á minni líkamsklukku. Skrifaði færslu fyrir daginn áður. Tókst að vekja ekki Jón Lárus fyrr en um áttaleytið en þá var stímt niður í morgunmat.  Hann reyndist bæði góður og tja, minna góður. Kaffið var gersamlega ódrekkandi að mínu mati. Te skyldi það vera restina af ferðinni. Eggjasuðugræja var þarna ágæt og vél til að kreista sinn eigin appelsínusafa var massíf snilld. Einn vondur ostur og einn góður ostur og bakki af einhverju sem ég get svarið að var Bónusskinka! Já eða álíka lúxus. Þennan morgun var skál með niðurskornum ferskum ávöxtum í einhverjum vökva, giska á bara safann af vatnsmelónunum og rauða greipinu helst. Það var ljómandi.

Skutumst út til að taka út eitt Franprix og eitt pínulítið Carrefour rétt hjá hótelinu. Ekki um auðugan garð að gresja. Keyptum þó eina rauðvín fyrir kvöldið og snakkpoka. Mér sýndist ég sjá pakka af espressosúkkulaði en það var þá hylkjapakki fyrir nespressoskömmina.

Þetta listaverk var fyrir neðan hótelhúsalengjuna. Víðar en í Breiðholti sem lífgað er upp á annars niðurnídd hverfi með list!

IMG_0325

Aftur inn á hótel. Þennan morgun var planað að fara í fjögurra tíma túristarútuferð um helstu áfangastaði borgarinnar. Þó við hefðum nú eiginlega verið búin að taka út TúristaParís fyrir nokkuð mörgum árum ákváðum við að fara með, málið var jú að vera með hópnum. Félagsskíta skyldi enginn geta kallað okkur! Jón Lárus er annars ansi góður að blandast í hópa og þarf ekkert endilega að hanga utan í mér þegar við erum að partíast eitthvað með mínum hópum. Kostur atarna.

Nújæja, rútuferðin reyndist bara hin ágætasta. Mér fannst gædinn okkar, Laufey nokkur listfræðingur búsett í París, svolítið lengi í gang en það rættist síðan mjög vel úr og svei mér þá ef við komum ekki á tvo til þrjá staði sem við höfðum ekki vitað af og heyrðum hitt og þetta nýtt. Við erum búin að fara í marga snilldartúra með Kristínu Parísardömu en fólk hefur jú alltaf mismunandi áherslur. Sem er gott.

Gamla Óperuhúsið er svolítið mikið fallegra en það nýja! Ég ætla ekki að birta mynd af því nýja. Var búin að skrifa: Gúglið bara Opera Bastille ef þið viljið sjá ljótt hús! en svo gerði ég það sjálf og myndirnar eru allar frá svo flottum sjónarhornum að þið mynduð ekkert skilja hvað ég er að eipa!

IMG_0326

Lokaklukkutíminn eða svo í ferðinni var samt eiginlega orðinn of mikið. Fjögurra tíma inndæling á efni er ekki alveg málið. Hefði verið fínt að vera þrjá tíma úr því það var ekki hægt að skipta ferðinni í tvennt.

Við vorum löngu búin að ákveða að fara í Lavinia, uppáhalds vínbúðina okkar í París (já og víðar reyndar). Ótrúlega flott vínbúð með stórkostlegu úrvali. Eyrún og Ástráður, kunningjar okkar slógust í för með okkur og við löbbuðum uppeftir, skimandi eftir stað til að fá okkur að borða. Fundum fínan stað með allskonar, Café le Plume, ég fékk alveg ansi hreint gott lamb.

Það er svo eiginlega best af öllu að uppfæra kunningja í vini. ❤

IMG_0335 2

Lavinia var á sínum stað eins og við svo sem vissum. Allt til sem var á innkaupaseðlinum. Keyptum ekki svona:

IMG_0336 2

Okkur dauðlangaði svo að fara á rooftop bar. Við Jón vissum af slíkum á annarri hvorri eða báðum byggingum Galeries Lafayette á Avenue Haussmann. Við þangað. Upp alla rúllustigana á níundu hæð eða svo. Þá var lokað öðru megin á þakinu og hinu megin var band fyrir eins og það væri annað hvort fullt eða alveg að loka. Reyndist hvorttveggja en við náðum nú samt að fá að setjast og fá okkur einn drykk með því fororði að það ætti að loka eftir hálftíma. Gerði ekkert til.

Jón Lárus stímdi svo heim á hótel með Laviniagóssið og harðneitaði að koma aftur til að vera á kóræfingunni. Ekkert skil ég í honum!

Við hin höfðum góðan tíma, fórum niður af þakinu upp úr sex og æfingin átti ekki að byrja fyrr en hálfátta. Ákváðum að labba bara alla leið niður í Latínuhverfi frekar en að taka metró. Mistök! Göngutúrinn var reyndar ljómandi fínn, veðrið geggjað en við vorum þegar búin að ganga alveg slatta, París er stór og þetta er góður spotti.

Hoppaði inn í apótek til að leita mér að nýjum gleraugum, mín höfðu farið í sundur. Var sem betur fer með önnur uppi á hóteli. Fann bara gersamlega forljót gleraugu í mínum styrk svo annað hvort þurfti ég að syngja allt utan að um kvöldið eða þá láta gleraugun mín tolla á öðrum arminum á æfingunni. (ok ég kann prógrammið næææstum því utan að en samt ekki alveg).

Lentum í kirkjunni, inn um hliðardyr, hvílík dásemdarbygging!

IMG_0348

Þarna kom auðvitað gallinn við göngutúrinn í ljós. Við áttum jú eftir að standa upp á endann á tveggja og hálfs tíma æfingu! Verður að viðurkennast að það var örlítið erfitt! Æfingin gekk annars að óskum. Unaður að syngja í kirkjunni, hvílíkur hljómur! Mikill en mjúkur og ótrúlega fókuseraður. Organistinn sem var að spila með okkur var gersamlega frábær, vissum það reyndar fyrir. Vincent Warnier, mjög þekktur franskur organisti sem spilar við þessa kirkju. Smellið endilega á nafnið, þá kemur upp vídeó af honum að impróvisera á orgelið í kirkjunni!

Húsvörðurinn var hins vegar fúll og skellti stólum á fætur á fólki og annað í þeim stíl. Eins og við værum alveg rosalega fyrir honum, að þurfa að vera að æfa þarna! (þetta var NB tíminn sem okkur var úthlutaður í kirkjunni, hefðum sjálf gjarnan viljað vera fyrr um daginn).

Við vorum að flytja Requiem eftir Maurice Duruflé. Unaðslegt stykki. Duruflé var organisti í akkúrat þessari kirkju, St-Etienne-du-Mont í fleiri fleiri áratugi og konan hans, Marie-Madeleine Duruflé, née Chevalier  á eftir honum (og reyndar með honum líka, stundum var hann að stjórna en hún að spila). Hún var ekki síðri spilari en hann, jafnvel betri, til er upptaka af verkinu þar sem hann stjórnar en hún spilar og þetta er gersamlega þrælsnúið stykki fyrir orgelið. Alveg svolítið flókið fyrir kórinn en mjög virtúósískt skrifað fyrir orgelið. Yrði ekki hissa þó hann hefði skrifað partinn fyrir hana.

Æfðum Requiemið með organistanum og a cappella prógrammið á eftir, ég veit ekki um þau hin en mínar lappir voru gersamlega að fara með mig! En söngurinn gekk fínt.

Eftir æfinguna voru öll orðin svöng og við stímdum á torg sem nokkur hinna höfðu setið á fyrir æfingu, þar var slatti af stöðum og við hlytum að geta fundið eitthvað. Nema hvað, þau fyrstu fóru inn á einn staðanna og voru spurð: Borð fyrir fjögur? Þau svara í bríaríi, nei frekar svona fjörutíu! Nema hvað, þjónninn bara: Já ekkert mál, komið bara hingað innar!

Þetta reyndist pottþéttasta þjónusta ferðarinnar. Eldsnöggir þjónar á ferð og flugi og klúðruðu hvorki matar- né drykkjarpöntunum, allt kom hratt og vel. Ég pantaði mér borgara. Hann reyndist reyndar vera með KÓRÍANDER!!! urr! en það var reyndar lítið mál að hreinsa hann af, lá allur á sama stað í lokinu og ég sleppti bara að borða lokið. Borgarinn var annars rosalega góður þegar ég var búin að hreinsa grænu skelfinguna í burtu. Það ætti að skylda veitingastaði til að vara fólk við því að þetta sé í matnum!

Sátum þarna lengi vel, ég var farin að hafa áhyggjur af því að Jón Lárus yrði steinsofnaður þegar ég kæmi loksins heim á hótel því við vorum bara með eitt herbergiskort. Hann var síðan til í að hinkra, þegar ég sendi honum sms um að það færi að styttast í mig.

Nenntum ómögulega að taka lestina austurúr svo leigubíll skyldi það vera, skreiddumst á hótelið klukkan ríflega eitt, alveg að leka niður.

Það fauk ekki mikið af rauðvínsflöskunni sem við höfðum ætlað að drekka um kvöldið. Jón hafði reyndar opnað hana en fékk sér bara eitt glas. Tappi í og sofa!

17211 skref. FittBittinn ánægður með mig!

 

 

 


bland í poka

teljari

  • 373.341 heimsóknir

dagatal

júní 2018
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa