Berlín 2.0. Dagur þrjú

Þá var komið að rigningardeginum. Þrátt fyrir instagramlinkinn sem kom í síðustu færslu þá rigndi ekkert, hvorki mánudag né þriðjudag. Miðvikudagurinn borgaði síðan rigningarskuldina nokkurn veginn fyrir alla dagana.

Út í morgunmat. Vorum búin að finna fullt af konditoríum sem buðu morgunmat. Þessi glæsileiki var á helmings verði miðað við hótelkostinn:

morgunmatur

og bara alveg ágætur þó hann sé ekki alveg í fókus þarna.

Ekki ætluðum við nú að hanga inni á hóteli allan heila daginn þó væri blautt. Jafnvel ekki þó það væri líka talsverð gola. Svona gamaldags Íslandsveður, rigning og rok nema það var víst 18 gráður en ekki 6 eða álíka.

Út um ellefuleytið eða svo. Byrjuðum á því að kíkja inn í alveg ógurlega fallega Le Creuset búð. Alveg án þess að kaupa neitt en ég smellti þremur myndum og fékk pínu bágt fyrir hjá afgreiðslufrauku. Það er til siðs að spyrja hvort megi taka myndir! Sem var auðvitað alveg rétt hjá henni og ég baðst innvirðulega afsökunar. En myndunum fékk ég að halda:

 

Langaði nú í hitt og þetta þarna, óneitanlega, en farangursrýmdin leyfði ekki neitt og svo er allt þetta steypujárnsdót ansi þungt. Fallegt samt.

Næst inn í Galeries Lafayette útibúið í Berlín, rétt hjá hótelinu. Splæst í heiðgula regnhlíf (erum það bara við, eða gleyma allir að taka með sér regnhlífar til útlanda? Þrátt fyrir rigningarspá?)

Gólfið flott á ganginum á neðstu hæðinni:

gólf.JPG

Matarmarkaður í Lafayette. Aðal attraksjónin er ég hrædd um. Tók ekki margar myndir í þetta skipti en hér eru litlar rósavínsflöskur og stórar bjórflöskur. Já og fjólublátt kampavín:

Við kaupum stundum Miraval hér heima, uppáhald. Ég hefði verulega viljað geta kippt með mér einni svona hálfflösku!

Áfram var haldið í áttina að Unter den Linden. Þetta fannst mér almennilegt skilti. Það efra sko:

óperuskilti.JPG

góð forgangsröð að beina fólki í rétta óperu!

Á linditrjáagötunni var fengið sér currywurst, þeas Jón Lárus sem hefur aldrei fengið slíkan skyndibita. Ég lét mér frönskurnar nægja. Þetta er svona einsskiptismatur fyrir mig. Jón var sammála. Nauðsynlegt að hafa prófað samt!

Gengum aðeins niður eftir götunni en snérum síðan við og ákváðum að fara á DDR safnið, fyrir ofan Safnaeyju. Alltaf blautari og blautari, ég hafði tekið meðvitaða ákvörðun um að fara bara með sandalana mína þrátt fyrir smá vætuspá og það verður ekki sagt annað en að ég hafi verið orðin vel blaut í fæturna.

Stoppuðum fyrir eitt rósavínsglas í yfirbyggðri götu. Völdum okkur ekki besta sætið því það var við innganginn af AquaDom sjávardýrasýningunni/safninu. Þar var röð út úr dyrum, aðallega fólk með ungana sína og ansi hreint mörg nýttu tækifærið að fá sér sígó áður en þau kæmu inn á safnið. Þessi fugl heimsótti okkur á borðið.

fugl á borði.JPG

en varð fyrir vonbrigðum með okkur því við höfðum ekkert fengið okkur að borða og hann hafði lítinn áhuga fyrir rósavíninu.

Út aftur á Linditrjáagötu, gengið upp framhjá Safnaeyju og að innganginum í DDR safnið. Þar var auðvitað 200 metra röð! Allir fengið sömu „góðu“ hugmyndina. Ekki nenntum við röðinni, ég er hálfgerð safnafæla hvort sem er. Ákváðum að ganga upp að Alexanderplatz sem var ekki orðið langt frá okkur og kíkja á austurþýska arkitektúrinn sem ég lýsi í þessari færslu frá Nóvember. Svona var útsýnið upp að Sjónvarpsturni:

sjónvarpsturn

Gegn um lestarstöðina, aðeins út á torgið, en svo litum við bara hvort á annað: Jæja, er ekki bara spurning um að fara inn á hótel og þorna? Æji jú! Arkítektúrinn fer ekki neitt. Þannig að það var bara U-bahn og hótel og bók og skipta um alklæðnað! Já og fótabað fyrir mig! Ég hálfsé eftir að hafa ekki tekið mynd af löppunum á mér, alveg grútskítugum nema með hreinu fari eftir sandala! Veit samt ekki hvort ég hefði birt myndina hér…

Vorum búin að spá hvort við ættum að kíkja á kommunikationsafnið sem var bara rétt hjá okkur en enduðum á að bara nenna því ómögulega. Þannig að við fórum ekkert út fyrr en kominn var tími á kvöldmat.

Aftur stímt á víetnamska staðinn. Í þetta skiptið hinn andarétturinn sem þau buðu upp á:

önd.JPG

andarbringa með avocadosalati og sætri sojasósu. Mjög gott þó hvorugu okkar þætti hún slá út þessa frá deginum áður, með karríkókosengifersósunni. Staðurinn heitir annars Cao Cao, stendur við Marburger Strasse örstutt frá Tierpark lestarstöðinni. Virkilega vel þess virði að heimsækja!

Beint aftur upp á hótel. Við áttum jú rauðvínsflösku sem við hreinlega neyddumst til að slátra. Úr plasttannburstaglösunum sem var eina sem var í boði á hótelherberginu! Ég hef stöku sinnum fengið „lánuð“ rauðvínsglös, labbað með þau upp af happy hour eða álíka í hótelanddyri og svo bara skilið eftir á herberginu en við fórum aldrei á happy hour í þessari ferð, né borðuðum á hótelveitingahúsinu utan morgunmatarins, þar sem við fengum jú ekkert rauðvín!

Vínið var mjög gott þrátt fyrir vöntun í búnaði. Verður pantað. Hlakka til að smakka úr alvöru glasi!

15798 skref þennan daginn. Ójá.

0 Responses to “Berlín 2.0. Dagur þrjú”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 375.119 heimsóknir

dagatal

ágúst 2017
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: