Kolding dag 2. Lautartúr

Dagur tvö byrjaði vel, þessi líka fíni hótelmorgunmatur, danskur og enskur að vild. Engar matarklámsmyndir af honum samt. Vorum smástund að finna safann, það var safavél sem leit út eins og vatnskrani með ipad með mynd af söfum við hliðina. Safarnir ekkert spes samt, bara einhverjir rynkeby platdjúsar. Kaffivél var þokkaleg.

Nújæja. Fífa var í skólanum fram að hádegi að skila af sér stóru verkefni. Atli að vinna til þrjú. Finnur fékk að sofa út heima hjá þeim en við hin byrjuðum á verkefninu Skoða miðbæinn. Bara voðalega sætur og yfirkomanlegur miðbær í Kolding. Keyptum nesti fyrir lautartúr í Netto. Netto er mikið leiðinlegri búð í Danmörku en á Íslandi. Já það er hægt.

trjágöng

Þessi trjágöng með, tja, pínulitlum laxastiga? leiddu upp að Koldinghus, kastalanum á svæðinu. Við þangað. Fórum ekki inn því það átti að bíða næsta dags en femminn í mér gladdist við þessa sjón í kastalagarðinum:

 

Eftir góðan göngutúr sótti svengd og þorsti á liðið. Fundum veitingahús sem leit vel út og drógum saman tvö borð, í fyrsta en ekki síðasta skiptið í þessari ferð. Fimm til sjö manns þurfa pláss! (ókei vorum bara fjögur þarna reyndar en borðin voru lítil). Pantað rósavín og Grimbergen, voðalega kynjaskipt eitthvað:

getið nú hvað við Freyja fengum okkur (og ekki var tekin mynd af)?

Mat fengum við líka, flest einhverja borgara og dót. Heldur engar matarklámsmyndir af því. Bráðfalleg grákráka (sem Finnur vill annars kalla grákur) hoppaði upp á borðum í leit að afgangs mat, okkur til skemmtunar en síður til ánægju veitingafólksins. Skiljanlega reyndar.

Nújæja, enn var labbað og nú heim til Fífu sem var búin að skila verkefninu og komin heim. Gátum plantað lautartúrsdótinu í litla ísskápinn þeirra Atla. Fórum í Føtex til að bæta aðeins við nestið. Það er hins vegar ekki leiðinleg búð.

Til baka á hótelið, bíllinn út úr kjallaranum, Atli sóttur og skotist í búðakjarna fyrir utan miðbæinn. Lagði í stæði hjá verslanamiðstöðinni, heimafólkið gerði enga athugasemd en svo var alveg heillöng ganga að búðunum sem þau ætluðu síðan í – voru ekki einu sinni í miðstöðinni sjálfri heldur fyrir utan. Svona svipað og Korputorg, risabúðir sem ekki er innangengt á milli og varla ætlast til að fólk labbaði milli búðanna, fólk tæki örugglega bílana á milli. Ég hljóp meira að segja til baka og sótti bílinn en svo var svo flókið að komast út af bílastæðinu að ég endaði á að leggja inni á stæðinu við miðstöðina, bara eins nálægt hinum búðunum og ég komst.

lúxuxkerran

Freyja, Fífa, Emil og Lúxuskerran!

Þarna þurfti að kaupa lak fyrir Finn sem hafði annars sofið á vindsænginni laklaus, neinei ég gleymdi ekkert að fara út með lak handa honum, aldeilis ekki! og kíkt í Elko, eða Elgiganten sem ég gæti trúað að sé sama keðja.

ef ég einhvern tímann stofna bjórbúð í Danmörku mun ég láta hana heita Ølgiganten.

Prentarablek og lak í húsi ásamt heyrnartólum fyrir Finn, hans voru orðin léleg. Til baka til að sækja mat, þá á hótelið, bíllinn í bílageymsluna, við endann á hótelinu var kastalagarðurinn og vatnið, sirka hálfur kílómetri að lengd.

Kolding sø

Pikknikkkrakkar! Hvað eru mörg k í því?

pikknikkkrakkar

Við Jón Lárus og Finnur þreyttumst á undan hinum fjórum og löbbuðum á undan þeim á hótelið. Þetta er annars hótelið (ásamt reyndar bókasafni og íbúðum, allt í sama risahúsinu):

hótelið

Tylltum okkur á bekk um miðja leið, mistök að sitja hlémegin við einhverja Dani sem byrjuðu auðvitað að reykja. Færðum okkur um tvo bekki til að sitja áveðurs. Krakkarnir sem höfðu fylgst með okkur frá pikknikkstaðnum skildu ekki neitt í neinu hvað við værum að færa okkur um bekk. Verst að geta ekki sett inn hlekk á bráðfyndið snapchat Freyju. Annars var víst auðvelt að fylgjast með okkur, gaurarnir í misappelsínugulum buxum og ég í skærbleikum bol, Danirnir meira og minna allir í svörtu.

Nenntum ómögulega heim í sjóðheitu íbúð krakkanna en þau skutust og sóttu desertinn sem enginn hafði haft lyst á daginn áður. Ostakakan hans Atla. Og þá er loksins komið að matarklámmyndinni:

ostakaka Atla

Unnum í kökunni á okkar hótelherbergi fram eftir kvöldi, svo fóru allir á sinn svefnstað og unnu í duolingo eða náminu sínu eða tölvuleik með nýjum heyrnartólum eða hvað veit ég? Góður dagur.

Auglýsingar

0 Responses to “Kolding dag 2. Lautartúr”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 367,022 heimsóknir

dagatal

júní 2016
S M F V F F S
« Maí   Júl »
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: