Roma giorno due – I turisti

Dagur tvö var frídagur, engin æfing þannig að það var bara tekinn túristapakkinn. Hittum hressa flautuleikara og maka í morgunmatnum (ljómandi fínn hótelmorgunmatur) en héldum svo sem ekki hópinn, einhver þeirra ætluðu að vera massadugleg á flautuhátíð, mæta á masterklassa og tónleika, aðrir höfðu aldrei komið til Rómar og stefndu á Colosseo og Pantheon og Circo massimo, sem við höfðum tekið út í Rómarferðinni 2007. Þannig að við ákváðum að væflast um svæðið bara tvö.

Byrjuðum á því að oríentera okkur í nágrenni hótelsins. Í næstu götu við var stærsta lestarstöð Rómar, Termini. Forljót bygging en þægilegt að hafa svona nálægt. Í hina áttina var síðan ein hinna ofhlöðnu basilika (dómkirkna) borgarinnar. Þær eru þarna á öðru hverju horni og það eru ekki einu sinni neitt sérlega miklar ýkjur. Þessi heitir Basilica di Santa Maria Maggiore og hét Dúrkirkjan hjá okkur eftir þetta.

IMG_1729

Fílaði samt gólfið vel.

IMG_1730

Komum við í kjörbúð á horninu við basilikutorgið og keyptum eitthvað smotterí til að eiga á minibarnum. Herberginu okkar fylgdi fullur minibar sem við máttum drekka úr það sem við vildum án þess að borga fyrir það sérstaklega – en reyndar bara gos og vatn :p

Eitt af því sem við ætluðum að redda okkur í þessari ferð var parmaostakvörn þannig að þegar við rákumst á búsáhaldabúð rétt þarna hjá urðum við alsæl og stímdum þangað inn. Þar náttúrlega kolféllum við fyrir hinu og þessu og komum út með heldur meira en kvörnina. Ekkert af þessu jólaskrauti samt:

IMG_1736

Þarna var flinkur bakari á ferð:

IMG_1738

Gleymdi í fyrsta blogginu að segja frá lyftunum á hótelinu. Það voru þær þrengstu og minnstu lyftur sem ég hef vitað. Greinilega settar inn í stigagatið eftir á og vægast sagt ekki mikið pláss. Hér sést Jón í þeirri þrengri:

IMG_1746

Hádegismatar var neytt á veitingahúsi rétt við hótelið. Vel hægt að sitja úti, ágætis matur en betlararnir voru svolítið þreytandi, sérstaklega ein ung kona í skósíðum kjól sem bara hætti ekki að biðja okkur, þó við værum löngu búin að segja nei og að við værum ekki með neina lausa peninga, bara kort. Ég var ekki sátt við starfsfólk veitingahússins að láta þetta viðgangast, satt að segja. En fyrir utan það var þetta bara ansi næs.

IMG_1764

Þá var það aðal túristadæmið. Við höfðum ákveðið að heimsækja Vatikanið í ferðinni því við slepptum því algerlega 2007 í hitanum. Ég var þarna þegar farin að sjá svolítið illilega eftir að hafa ekki tekið með mér göngusandalana því skórnir voru að byrja að meiða mig þannig að það var ekki inni í myndinni að labba þangað. Allt morandi í skóbúðum í kring um okkur en engir sandalar í hrúgum, greinilega rammvitlaus árstími fyrir slíkt.

Ákváðum að það væri eiginlega bara svolítið sniðugt að hoppa upp í túristarútu, svona hop-on-hop-off. Slíkar voru í massavís hjá Termini þannig að það var ekki vandamál. Keyrðum réttsælis um borgina, framhjá ýmsum af þeim stöðum sem við höfðum heimsótt 2007 og hoppuðum út við Vatikanið.

Þar var auðvitað tveggja tíma röð bara til að skoða Péturskirkjuna og væntanlega að minnsta kosti önnur eins röð hinum megin, við Sixtínsku kapelluna. Fengum auðvitað engan frið fyrir fólki sem vildi selja okkur beinan aðgang inn, fram hjá röðinni og ef mér hefði ekki verið farið að vera illt í fótunum hefðum við tekið slíku boði og farið í tveggja tíma skoðunarferð. Hún verður hins vegar að bíða næsta skiptis, létum okkur duga að rölta um torgið. Þarna var verið að skreyta stærsta og flottasta jólatré sem ég hef á ævi minni séð:

IMG_1771

Gengum til baka, framhjá rútustæðunum og að Castel Sant’Angelo, þar sem Tosca gerist að miklu leyti. Aumu lappirnar á mér komu alveg eins þarna í veg fyrir almennilega skoðunarferð. Kannski næst, en kastalinn er allavega flottur að utan:

IMG_1773

Tókum túristarútuna niður að Campo dei fiori, þar var markaður í gangi, mikið dót og drasl. Settumst á útiveitingahús og fengum okkur bjór og Aperol spritz, tæpast nógu hlýtt fyrir Spritzinn samt, bara um 12 gráður.

Ekki var nú hægt annað en taka blómamynd á blómatorginu:

IMG_1778

Enn einu sinni rútan og nú aftur á Termini. Rákumst á skóbúð sem seldi Sketchersskó og náði að kaupa mér gott par. Aaaaaahhhhhhh!

Upp á hótel. Slökun. Svarti haninn í kvöldmat. Jón pantaði sér Rómarsett af mat en ég einhvern kjötseðil sem reyndist fyrst fínt lasagna en svo nautakjöt í Barolosósu, kjötið þurrt. Sá eftir að hafa ekki pantað sama og bóndinn, mikið betra og meira spennandi:

IMG_1780

Ekkert rauðvínsrugl á mér þetta kvöldið, tónleikar daginn eftir. Fórum ekkert niður á hótelbarinn bara beint upp í herbergi að sofa. Gooottt!

Auglýsingar

0 Responses to “Roma giorno due – I turisti”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 366,956 heimsóknir

dagatal

desember 2015
S M F V F F S
« Nóv   Apr »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa

Auglýsingar

%d bloggurum líkar þetta: