Sarpur fyrir 28. ágúst, 2012

Dagur nítján. Upsagrýlur. Loksins!

Krakkar og chimerur í turni

Óttaleg leti í gangi, vaknaði sjö eins og venjulega en skreið aftur upp í rúm og steinsofnaði, svaf til níu. Ógurlega gott. Skutumst að versla, áttum eitthvað svo mikið pasta eftir og planið var að búa til gráðostapasta um kvöldið. Það klikkar aldrei. Heim aftur og glápt á ólympíuleikana, lesið, cassoulet úr krukku í hádegismat, með betri krukkumat sem ég hef á ævi minni fengið.

Dröttuðumst ekki út fyrr en vel eftir hádegið, ætluðum á upsagrýluveiðar og í Orangerie listasafnið í Tuileries garðinum. Kristín hafði samband og sagði okkur að hún ætlaði að hitta skemmtilega Íslendinga í uppáhaldsgarðinum mínum Buttes-Chaumont klukkan fimm og hvort við vildum kannski koma líka. Var ekki alveg viss um að tíminn myndi leyfa það en skyldum reyna.

Bjartsýnu túristar.

Röðin upp í turn á Notre Dame reyndist nærri tveggja tíma löng og sjálfur göngutúrinn um 50 mínútur. Slaufuðum Orangerie strax og við sáum hve hægt röðin gekk en ættum nú að ná Buttes-Chaumont.

Voðalega margar tröppur upp í turn, ágætt að vera í góðu gönguformi eftir ýmsar ferðir. Grýlurnar (upsa og hinsegin, gargoyles eru til að taka vatnsafrennsli en chimeras eru þessar grýlur sem flestir hugsa um) tóku vel á móti okkur þarna uppi.

Ég hefði ekki viljað vera lofthrædd þarna, held að ég sé orðin alveg laus við lofthræðsluna, sveimérþá.

Chimera

Niður komum við ekki fyrr en rétt fyrir fimm. Öll sársvöng og leist ekkert á það að ná garðinum og vinunum af neinu viti. Hringdi bara og bað að heilsa í hittinginn.

Fundum spennandi veitingahús og settumst, reyndist líka fínt nema reyndar var ég alltaf að finna lyktina af sígarettustubbum á jörðinni fyrir neðan. Hafði líka pirrað mig í biðröðinni upp í turninn. Ég held svei mér þá að hér í París höfum við orðið fyrir meiri óbeinum reykingum á þessum þremur vikum en síðastliðin 3-4 ár heima á Íslandi.

Komum svo heim um hálfsjö, kvöldið fór bara í ólympíuleika, lestur og dagbókarskrif. Reyndi að ná sambandi við Fífu en tókst ekki. Hefðum síðan alveg getað farið í garðinn, þau sátu þar á spjalli þar til hann lokaði, klukkan tíu. En hei, það er ekki hægt að gera allt.


bland í poka

teljari

  • 374.140 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa