Sarpur fyrir 26. ágúst, 2012

Dagur sautján. Versalir

Sjö, nú urðu allir að vakna klukkan sjö. Ágætis æfing fyrir föstudaginn fimm dögum síðar þegar allir þyrftu að vakna klukkan fjögur. Samt ekki að hugsa um að vekja alla klukkan sjö-sex-fimm dagana sem eftir voru. Finnur hafði svindlað daginn áður og fór alls ekkert snemma að sofa heldur las til miðnættis. Ég var skíthrædd um að hann yrði alveg hræðilegur um morguninn, sonur minn þarf svefninn sinn og ekkert með það. Hann var hins vegar bara ágætur, mesta furða. Ég var reyndar hundþreytt líka, ekkert skárri en Finnur kvöldið áður, bókin mín var svo spennandi að ég las til hálftvö og var síðan alltaf að vakna alla nóttina. Giskaði á að ég hefði sofið um fjóra tíma í allt, og það í bútum.

Komumst út úr húsi á áætluðum tíma klukkan kortér fyrir átta, tókum tvær lestir til Invalides þar sem við áttum stefnumót við Kristínu og krakkana hennar. Þau voru komin á staðinn og við stefndum á þriðju lestina, RER til Versailles Rive Gauche. Jón Lárus fór síðastur niður rúllustigann og á eftir honum kom vasaþjófur, þegar sá tók eftir að Jón hélt um vasann með veskinu hoppaði hann til baka upp þrepin tvö eða þrjú sem hann var kominn niður. Spes.

Ég skil, skil, skil ekki hvers vegna ekki eru til íslensk bakarí sem baka eftir frönsku hefðinni!

Biðum smástund eftir lestinni en fengum svo fín sæti. Á leiðinni fengum við fyrirlestur um kóngana, drottningana, ástkonur þeirra og ástmenn. Tókst ekki að klára sögurnar þar sem lestin var ekki lengi á leiðinni. Ég hafði frábeðið mér að fara inn í höllina, verð alltaf alveg búin á því að sjá svona ógurlega mikið skraut. Þannig að ég var send í bakarí og keypti bagettur fyrir okkur, Kristín kom með nestið en ætlaði að kaupa brauðið á staðnum. Þau hin fóru í höllina, ég var nærri búin að biðja Finn um að koma með mér og hefði reyndar betur gert það, en gat nú varla neitað honum um að fara að skoða höllina úr því hann vildi það. Þekki hann nefnilega eiginlega betur en hann sjálfur gerir. Kristín var búin að kaupa alla miða sem við þurftum, krakkarnir þurftu ekki að borga í höllina, Kristín var með VIP miða fyrir sig og einn fullorðinn þannig að þau gátu sleppt öllum röðum og farið fram fyrir sem var snilld. Röðin strax þarna um morguninn var örugglega að minnsta kosti klukkutími þannig að þetta var frábært. Ég rölti bara inn í garðana með brauðið, kíkti smá í kring um mig, fann síðan bekk og bókina sem ég var að lesa og beið eftir þeim hinum. Auðvitað var Finnur síðan orðinn þreyttur á göngunni um höllina eins og ég vissi – og garðarnir eftir. Mesta furða samt hvað hann kvartaði lítið.

Ballsalurinn

Gríðarlega glæsileg gosbrunnasýning, sérstaklega var ég hrifin af ballsalnum. Í görðunum er spiluð frönsk endurreisnarmúsík, margt mjög flott. Diskur með músíkinni fæst og klárt ég féll fyrir einum slíkum.

Niður eftir hluta garðanna, fullt af gosbrunnum á leiðinni. Stoppuðum hjá vatni og vorum með franskan pique nique samsettan af fararstjóranum okkar frábæra með sérstakri rauðvínssendingu frá manninum hennar sem veit sem er að við erum fyrir góð rauðvín. Fattaði auðvitað ekki að taka myndir af úrvalinu en hér er það sem við gátum ekki torgað:

Afgangarnir

Sátum þarna í góða stund í æðislegu veðri þar til Kristín togaði okkur á fætur, gangan um garðana var ekki búin, ekki einu sinni nándar nærri hálfnuð. Upp og skoða tvær „litlar“ hallir, sumarbústaði frá sjálfum Versölum, reistar fyrir mömmur og drottningar og ástkonur og hvað veit ég, upplýsingarnar renna allar saman, maður þyrfti að koma aftur í raun og veru til að taka þetta allt saman inn. Þessar tvær smáhallir voru alveg feikinógur hallaskammtur fyrir undirritaða. Þetta voru hins vegar einu staðirnir þar sem Finnur kvartaði, sagði að hann myndi frekar vilja fara þrjár ferðir í H&M heldur en að skoða fleiri hallir. Og þá er mikið sagt.

Tilbúið sveitaþorp var líka þarna á staðnum, mjög gaman að sjá. Sérstaklega fannst krökkunum skemmtilegt að gefa fiskum af brú, alætur, éta brauð og gúrkur og tabbouleh og atgangurinn er gríðarlegur:

Fleiri gosbrunnar á leið til baka, alltaf var harðstjórinn okkar að plata okkur með „bara eitt í viðbót“, ætli þau hafi ekki verið fimm eða svo. Skil reyndar ekki hvers vegna eru ekki fleiri bekkir kring um alla þessa gosbrunna, fólk er orðið örþreytt eftir garðana en það er hvergi hægt að setjast niður. Reyndi að tylla mér á steinhleðslu (reyndar með smá klipptu hekki framan á) en fékk hróp frá verði, nei það mátti sko ekki. Slapp samt við lögregluflautuna sem verðirnir höfðu annars nýtt sér óspart ef þeir sáu einhvern fara eða gera eitthvað sem ekki mátti.

Örþreytt orðin, skrefin voru frekar erfið út á lestarstöð. Frábærri Versalaheimsókn lokið, allavega í þetta skiptið. Mæli sannarlega með heimsókn með Parísardömunni, hún tekur 100 evrur á manninn og þá er allt innifalið, veitingar, miðar und alles. Og snilldarfararstjórn. Plöhögg!

Urðum samferða alveg að Républik stöðinni þar sem Kristín og krakkarnir héldu áfram heim en við tókum aðra lest heim til okkar. Vorum ekki búin að plotta neina eldamennsku um kvöldið og krakkarnir voru að röfla yfir að þau langaði hvorki í brauð né afganginn af rísottóinu síðan kvöldið áður þegar ég rak augun í að crépustaðurinn var opinn og stakk upp á að við fengjum okkur slíkar. Mætt með fagnaðarJÁHÁum. Við Jón kolféllum fyrir crépu með geitaosti og hunangi, reyndist líka algjört sælgæti. Krakkarnir fengu svo leyfi fyrir eftirmatarcrépu með súkkulaði/nutella og banönum. Ég hefði ekki átt fræðilegan möguleika í aðra eftir þá með ostinum.

Heim, ég var svo gersamlega búin á því að ég steinsofnaði fyrir klukkan níu og svaf nánast í einu setti til tæplega átta. Borgaði fyrir fjögurra tíma svefninn nóttina áður.


bland í poka

teljari

  • 373.923 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa